Ingibjörg Sigurðardóttir fæddist á Hvoli í Saurbæ í Dalasýslu, 4. mars 1925. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Silfurtúni 6. desember sl. Foreldrar hennar voru Sigurður Lýðsson, bóndi á Hvoli, f. 5. júní 1889, d. 23. febrúar 1927, og Anna Halldórsdóttir, húsmóðir, síðar sauma- og verkakona á Akureyri, f. 5. júní 1902, d. 21. maí 1975. Sigurður var sonur Lýðs Jónssonar frá Skriðnesenni í Strandasýslu og Önnu Magnúsdóttur frá Sælingsdalstungu í Dalasýslu en Anna var dóttir Halldórs Stefánssonar frá Haganesi í Mývatnssveit og Ingibjargar Lýðsdóttur frá Skriðnesenni í Strandasýslu. Sigurður og Anna áttu tvö börn, Ingibjörgu og Sigurð, f. 2. október 1926, d. 26. janúar 1929. Eftir að Sigurður Lýðsson lést fluttist Anna til foreldra sinna á Akureyri árið 1928. Seinni maður Önnu var Hermann Ingimundarson trésmiður, f. 29. maí 1893, d. 31. mars 1961. Þeirra börn eru Sigríður Halldóra húsmóðir, (f. 1930) og Ingólfur Borgar trésmiður, (f. 1940). Uppeldisbræður Ingibjargar, synir Hermanns og fyrri konu hans Jónínu Magnúsdóttur eru Kári húsgagnasmiður, (f. 1919) og Benedikt húsgagnasmiður, (f. 1924). Ingibjörg gekk í barnaskóla á Akureyri og var einn vetur í kvöldskóla við Iðnskólann á Akureyri. Veturinn 1944-1945 var hún í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði, að því loknu lá leiðin til Reykjavíkur að læra fatasaum, veturinn 1948-1949. Veturinn 1953 fór hún sem ráðskona að Ásgarði í Hvammssveit. Ingibjörg giftist 22. apríl 1954, Ásgeiri Bjarnasyni, alþingismanni og bónda í Ásgarði, f. 6. september 1914, d. 29. desember 2003. Þau áttu ekki börn saman en Ingibjörg gekk sonum Ásgeirs og fyrri konu hans Emmu Benediktsdóttur, f. 29. ágúst 1916, d. 31. júlí 1952, í móðurstað. Þeir eru: a) Bjarni bóndi í Ásgarði, f. 4. júlí 1949, kvæntur Arndísi Erlu Ólafsdóttur, f. 22. janúar 1950. Börn þeirra: 1) Emma Rún kerfisfræðingur, f. 10. október 1973, 2) Ásgeir húsasmíðameistari, f. 16. nóvember 1974, kvæntur Guðrúnu Björk Einarsdóttur tölvunarfræðingi, f. 26. maí 1979, þeirra börn eru Erla Kristín og Einar Bjarni. 3) Ingibjörg nemi í iðjuþjálfun við HA, f. 31. maí 1979, og 4) Eyjólfur Ingvi, í framhaldsnámi í Noregi, við háskólann í Ási (UMB), f. 29. mars 1984. b) Benedikt sendiherra í Moskvu, f. 7. febrúar 1951. Ingibjörg var húsfreyja í Ásgarði frá 1954 til dauðadags. Hún stýrði heimilinu í Ásgarði af festu og myndarskap. Lengst af var hún heilsuhraust og eftir lát Ásgeirs bjó hún ein í húsinu sem þau byggðu sér, þar til í september í haust þegar heilsan fór að bila verulega. Útför Ingibjargar fer fram frá Hvammskirkju í dag, laugardaginn 19. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 14.
Það ríkti jafnan mikil eftirvænting á hverju vori þegar leið okkar systkinanna lá vestur í Dali. Það var fallega sveitin okkar. Á leiðinni var mikið sungið bæði til að bægja frá bílveikinni og til að stytta okkur stundirnar. Ósköp þótti okkur síðasti spölurinn frá Búðardal inn í Ásgarð langur, en þegar svo bærinn blasti við, fallegur og reislulegur tókum við gleði okkar á ný. Þar tók á móti okkur yndislegt fólk sem opnaði faðm sinn mót okkur og fóstraði sumarlangt, hvert sumar langt fram á unglingsár. Þarna lærðum við að vinna, lærðum að umgangast dýr, lásum bókmenntir af ýmsu tagi og kynntumst fjölmörgu minnisstæðu fólki. Þarna urðum við að manni.
Í Ásgarði réðu ríkjum heiðurshjónin Ásgeir Bjarnason alþingismaður og móðursystir okkar Ingibjörg Sigurðardóttir eða Dídí eins og við kölluðum hana. Ásgeir kvaddi okkur fyrir nokkrum árum en í dag kveðjum við hana elsku Dídí okkar, einu systur mömmu sem okkur öllum var svo kær. Hún var í hugum okkar systkinanna sveipuð nokkrum ævintýraljóma. Aldrei þreyttumst við á að heyra söguna um það þegar ungi ekkjumaðurinn úr Dölunum kom norður í land til að falast eftir ráðskonu til að gæta bús og tveggja ungra drengja. Og hvernig hún amma streittist á móti, því hún vissi sem var að færi dóttirin unga, nýútskrifuð úr húsmæðraskólanum á Laugalandi, vestur, kæmi hún ekki aftur. En bóndasonurinn ungi hafði árangur sem erfiði og vestur fór Dídí og tók við heimilishaldi og gekk drengjunum í móðurstað. Þetta þótti okkur fallegasta ástarsagan af öllum. Lífið hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum á þessum tíma. Á stórbýlinu Ásgarði var jafnan margt um manninn árið um kring, margar kynslóðir saman, vinnumenn og vinnukonur, sumarkrakkar og venslafólk. Aðstæður til heimilishalds voru ekki eins og við þekkjum í dag, þá voru ekki tæki og tól til að létta vinnuna, heldur allt unnið í höndunum, vinnudagurinn jafnan langur og frístundir fáar. Einhverju sinni var kaupakona í Ásgarði að skrifa heim og sagðist óttast að hún breyttist í fisk því hún væri alltaf að vaska upp, væri alltaf að sulla í vatni. Já, það var einn og einn bollinn og diskurinn þveginn upp í Ásgarði í þá tíð. En þetta voru líka góðar stundir. Þá var spjallað og spaugað, sagðar sögur og fréttir af því markverðasta sem gerðist um veturinn er leið. Það var gjarnan hlustað á útvarp og í minningunni eru stundirnar, þegar búið var að ganga frá eftir hádegismatinn og rétt áður en byrjað var að undirbúa miðdegiskaffið, svo yndislega ljúfar. Þá var sest niður stutta stund, hlustað á útvarpssöguna með andakt, sopið úr kaffibolla og frásagnir mikilvirtra lesara og rithöfunda meðteknar. Þetta var heimurinn hennar. Hér réði Ingibjörg í Ásgarði ríkum. Samt ekki bara í eldhúsinu. Hún fór í fjós, sinnti heyönnum og gekk í öll þau störf er þurfti. Ekki má gleyma Símanum en símstöð var í Ásgarði um árabil og þeim störfum þurfti að sinna jafnframt öðrum störfum. Svo voru það störfin utan heimilis, en hún sinnti trúnaðarstörfum fyrir kvenfélagið í sveitinni, söng í kirkjukórnum og jafnvel spilaði á orgelið ef mikið lá við. Það var jafnan mikill gestagangur í Ásgarði. Þegar rútan stoppaði á hlaðinu þótti ekkert að því að allir kæmu inn í kaffi. Þeir eru þó nokkrir sem í gegnum tíðina hafa þegið viðurgjörning í Ásgarði.
Fyrir nokkrum árum hittust norður á Akureyri afkomendur Önnu Halldórsdóttur og Stefáns Halldórssonar. Við áttum saman góðar stundir en skemmtilegast af öllu var rútuferðin um Eyrina þar sem þær systur mamma og Dídí kepptust við að segja frá húsum, fólki og lifnaðarháttum á Akureyri þegar þær áttu heima á LitlaPól. Þær voru ekki alltaf sammála um staðreyndir og hlógu ógurlega hvor að annarri þannig að það tísti í þeim. Síðustu ár töluðust þær við oft í viku, ræddu um börn og barnabörn, landsins gagn og nauðsynjar og svo um pólitíkina. Þær sáu hlutina ekki alltaf sömu augum en það var allt í lagi, þær gátu oftast hlegið að öllu saman.
Hún var mikill dugnaðarforkur og ósérhlífin hún Dídí. Henni féll aldrei verk úr hendi, en samt hafði hún alltaf tíma fyrir okkur systurbörn sín. Hún var okkur svo óendanlega góð. Hún eignaðist ekki börn sjálf, en fóstursynir hennar, Bjarni og Benedikt voru sem hennar eigin. Barnabörnin hennar, Emma, Ásgeir, Eyjólfur og Ingibjörg voru hennar líf og yndi, þau voru hennar ríkidæmi. Þegar Ásgeir og Dídí hættu að búa og Bjarni og Erla kona hans tóku við, reistu þau sér lítið hús í landinu þar sem þau undu hag sínum vel. Það er fyrir endalausa hjálpsemi Bjarna og Erlu að Dídí gat verið heima hjá sér fram á nánast síðasta dag, en sjónin var mikið farin að daprast og skrokkurinn að gefa sig. Hún kvaddi eftir stutta sjúkdómslegu þá nýkomin á dvalarheimilið í Búðardal. Við erum svo afar þakklát fyrir allar góðu stundirnar í Ásgarði fyrr og síðar, fyrir allt sem þau hjón og þeirra afkomendur hafa fyrir okkur gert, fyrir vinskap þeirra og frændsemi. Dalirnir kveðja, æskustöðvarnar á Akureyri kveðja, ættingjar, frændfólk og vinir kveðja, elsku Dídí hafðu þökk fyrir allt og allt, við sjáumst síðar.
Anna Guðný, Hermann Ingi, Ingibjörg og Sigríður Matthildur.
Látin er sómakonan Ingibjörg Sigurðardóttir, húsfreyja í Ásgarði. Ég var
á fermingaraldri þegar ég var hjá henni fyrst við heimilisstörf og allar
götur síðan dáðist ég að atorkusemi hennar og dugnaði. Hún var vakin og
sofin yfir stóru heimili, innandyra sem utan. Hún var gestrisin og tók
ávallt vel á móti fólki sem átti leið um Ásgarð, sérstaklega þegar
áætlunarbílar stoppuðu í Ásgarði, komust kannski ekki leiðar sinnar og fólk
þurfti að gista. Minnist ég þess að allt að 30 manns hafi gist á bænum í
einu. Ingibjörg var glaðvær kona, las mikið, fylgdist vel með og var
ennfremur stálminnug. Hún tók þátt í félagsstörfum í sveitinni m.a. í
kirkjukórnum og kvenfélaginu. Mikið hvíldi því oft á hennar herðum,
sérstaklega þegar Ásgeir maður hennar var að heiman.
Síðustu æviárin bjó hún ein og sá um sig sjálfa að mestu leyti þrátt fyrir
að sjónin væri orðin mjög skert.
Ég heimsótti Ingibjörgu síðasta sumar og ræddum við þá um liðna tíma í
sveitinni og þær breytingar sem átt hafa sér stað í sveitum landsins frá
því fyrst hún kom í Ásgarð um miðja síðustu öld.
Nú kveð ég Ingibjörgu með þakklæti og virðingu í huga. Ég er þakklát fyrir
að hafa notið leiðsagnar hennar á mínum unglingsárum og fyrir að hafa
kynnst þessari dugnaðarkonu sem sýndi mér og fjölskyldufólki mínu mikinn
kærleik alla tíð. Ég votta fjölskyldu hennar mínar dýpstu samúðar og kveð
með viðeigandi ljóðlínum:
Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.
Engið, fjöllin, áin þín
yndislega sveitin mín!
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga.
Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.
/
Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína,
þakkarklökkva kveðjugjörð,
kveð ég líf þitt, móðir jörð.
Móðir bæði mild og hörð,
mig þú tak í arma þína.
Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína.
(Sigurður Jónsson.)
Hjördís Karvelsdóttir.