Kristmundur Harðarson fæddist í Stykkishólmi þann 21.október 1964. Hann varð bráðkvaddur að heimili sínu í Grundarfirði, laugardaginn 12.desember 2009. Foreldrar hans eru Hörður Pálsson f.4.nóvember 1928 frá Hömrum í Eyrarsveit og Guðlaug Guðmundsdóttir f.18.júlí 1931 frá Berserkjahrauni í Helgafellssveit. Kristmundur var næstyngstur fimm systkina. Þau eru, Páll Guðfinnur f.6.júlí 1954, Hilmar Þór f.1.desember 1956, drengur f.31.október 1961, d.31.október 1961, Hrönn f.20.júlí 1963 og Hlynur f.21.febrúar 1966. Kona Kristmundar er Kolbrún Haraldsdóttir f.5.ágúst 1960. Foreldrar hennar eru Haraldur Kristjánsson f.2.nóvember 1934 og Birna Björnsdóttir f.24.apríl 1937. Börn Kristmundar og Kolbrúnar eru Berglind Ósk f.4.nóvember 1986, Birna f.19.desember 1988, kærasti Rúnar Sveinsson f.26.desember 1987 og Brynjar f. 19.maí 1992. Kristmundur ólst upp á Hömrum. Hann var mjög virkur í íþróttum sem barn og unglingur og var góður námsmaður. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1984. Eftir sveinspróf vann hann hjá byggingarfyrirtækinu Álftárós fram til ársins 1995, þar undi hann hag sínum vel og eignaðist marga vini. Hann lauk meistaraprófi í rafvirkjun árið 1996 og fluttist sama ár með fjölskyldu sinni til Grundarfjarðar, þar sem hann stofnsetti eigið fyrirtæki sem hann starfrækti til dánardags. Kristmundur tók virkan þátt í íþrótta- og félagsstörfum í Grundarfirði. Aðaláhugamál voru fótbolti og síðari árin átti golf hug hans allan. Útför Kristmundar fer fram frá Grundarfjarðarkirkju laugardaginn 19.desember 2009 og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður í Setbergskirkjugarði.
Mig langar með fáum fátæklegum orðum að minnast vinar míns Kristmundar Harðarsonar, sem svo skyndilega var svipt burt úr þessu jarðlífi langt um aldur fram.Við Kristmundur vorum jafnaldrar og höfðum þekkst frá því við vorum unglingar. Sjálfsagt lágu leiðir okkar fyrst saman á fótboltavellinum, hann með Grundfirðingum og ég ýmist með Reyni Hellissandi eða Víkingi Ólafsvík. Varð okkur fljótt vel til vina, þó kappið væri oft mikið, enda áhugamálin svipuð. Það var svo á öndverðum níunda áratugnum sem Kristmundur hóf störf hjá föður mínum við rafvirkjun. Varð Kristmundur þá heimagangur á heimili foreldra minna og nánast eins og einn af fjölskyldunni þau 2 ár sem þeir störfuðu saman. Styrktist þá vinskapur okkar mikið og sá strengur sem þá myndaðist á milli hans og fjölskyldu minnar allrar hefur verið óslitinn síðan. Í þau 16 ár sem ég starfaði sem framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands sá Kristmundur um mest alla rafvirkjavinnu fyrir fyrirtækið og leysti þau störf framúrskarandi vel af hendi. Ávallt boðinn og búinn hvernig sem viðraði og hvenær sólarhrings sem var. Með glaðværð sinni og ljúfmennsku kom hann sér og vel við starfsmenn fyrirtækisins.Fyrir sléttum 2 árum hafði Kristmundur samband við undirritaðann og bað um ráðleggingar varðandi verkefni sem hann stóð frammi fyrir. Þótti mér afar vænt um að hann skyldi treysta mér í þeim viðkvæmu málum og reyndi að leiðbeina honum eins og ég best gat. Vitaskuld gekk Kristmundur í verkefnið af sama æðruleysi, dugnaði og kjarki og önnur verkefni sem mættu honum á lífsins leið og leysti hann það svo sómi var af.
Lyndiseinkunnum Kristmundar Harðarsonar verða ekki gerð tæmandi skil í grein sem þessari en mig langar að nefna þær nokkrar. Hann var framúrskarandi glaðlyndur, góðviljaður, bóngóður, félagslyndur, duglegur, kappsamur, traustur, áreiðanlegur og umhyggjusamur. Fjölskylda hans og hans fjölmörgu vinir nutu þessara mörgu kosta og er missirinn af þessum sómadreng mikill. Að sjálfsögðu er missir fjölskyldunnar mestur og það er sárara en tárum taki að þau þurfi nú að ganga til móts við jólahátíðina í skugga þessa mikla missis. Ég vil fyrir mína hönd, systkina minna og foreldra senda eiginkonu hans, börnum, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Tryggvi Leifur Óttarsson.