Ragnheiður Jónsdóttir fædd í Reykjavík 6.janúar 1936 lést á Landspítalanum við Hringbraut 11.desember 2009. Foreldrar hennar voru Jón Kristinn Jónsson Bifreiðarstjóri í Reykjavík 24.júní 1898 d. 10.júní 1983. Ingveldur Eiríksdóttir húsfreyja í Reykjavík 23.júní 1908 d. 18.febrúar 1993. Systkini: 1) Eyjólfur Jónsson 1929, 2) Verna Oktavía Jónsdóttir 1932, 3) Margrét Jónsdóttir f. 1937. Börn: 1) Jón Kristinn Friðgeirsson 12.febrúar 1955, sambýliskona Margrét K. Frímannsdóttir og eiga þau saman einn son, Jón á tvær dætur af fyrra sambandi. 2) Þórður Gíslason 17.apríl 1957. 3) Ragnheiður Guðlaugsdóttir 5 október 1962 gift Þorsteini Jónssyni og eiga þau þrjár dætur. 4) Una Guðlaugsdóttir 25. janúar 1966, sambýlismaður Lýður Skúlason og eiga þau eina dóttur, Una á einn son af fyrra sambandi. Barnabarnabörnin hennar voru orðin þrjú. Ragnheiður var fædd og uppalin í Reykjavík og bjó lengst af á Ránargötu 24 en síðustu ár í Laxakvísl 31. Ragnheiður vann lengst af í fjármálaráðuneytinu m.a. hjá Rkisféhirði, ríkisbókhaldi og síðast hjá launadeildinni. Frá 1996 – 2005 vann hún hjá dvalarheimilinu Eir þar til hún fór á eftirlaun. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)

Elsku Heiða mín. Það er alltaf sárt að kveðja þann sem manni þykir vænt um.  Þú barst þig svo vel í veikindum þínum og vildir síst af öllu ónáða aðra.  Vildir ekki að þínir nánustu hefðu áhyggjur af þér eða hefðu of mikið fyrir þér.  Það sýnir hvernig þú varst, hugsaðir ávallt fyrst um aðra. Heiða var ævinlega hrein og bein, traust og trygglynd, mikill gleðigjafi.  Henni var gefin létt lund sem hjálpaði henni gegnum lífsins erfiðleika.

Við systurnar áttum margar góðar stundir saman, sem eru mér ómetanlegar.  Við systkinin ólumst upp við mikið ástríki á æskuheimili okkar á Ránargötu 24.  Við vorum sérstaklega samrýmd fjölskylda.  Á hverju sumri var farið í útilegu til Þingvalla ásamt góðu vinafólki foreldra okkar og áttum við þar yndislega daga. Foreldrar okkar og Heiða og hennar fjölskylda bjuggu á Ránargötunni stóran hluta af  þeirra lífi. Heiða reyndist foreldrum okkar ómetanlega vel og ekki síst þeirra síðustu æviár. Heiða spilaði á píanó og hafði mikla ánægju af tónlist og dansi.  Nú síðustu árin hafði hún mikla ánægju af að mæta í söngstundir og syngja með eldri borgurum. Ég bið Guð að blessa börnin hennar og fjölskyldur þeirra, sem sjá nú á eftir elskandi móður, ömmu og langömmu.

Með kærri þökk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og fjölskyldu mína.

Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson.)

Þín elskandi systir,

Margrét.