Hans Albert Knudsen fæddist í Reykjavík 1.10. 1947. Hann lést 27.11. nóvember sl. Foreldrar hans voru Guðmunda Elíasdóttir söngkona, f. 23.1. 1920 og Henrik Knudsen gullsmiður, f. 10.8. 1919, d. 8.10. 1993. Þeim Guðmundu og Henrik varð þriggja barna auðið; auk Hans eru þau Bergþóra Lee Knudsen, f. 12.6. 1944, d. 1946 og Eileen Sif Knudsen, f. 2.7. 1950, gift Stefáni Ásgrímssyni, þau eiga börnin Guðmund Elías, f. 23.1. 1974 og Sigurlaugu, f. 6.10. 1978. Hans kvæntist 20.10. 1984 Laufeyju Ármannsdóttur, f. 15.3. 1947. Börn þeirra eru Henrik Knudsen, f. 25.7. 1984 og Helen Sif Knudsen, f. 15.11. 1987. Fjölskyldan hefur búið í Luxembourg frá 1985, lengst af að Rue de l'Eglise nr 3 í bænum Ersange. Hans fæddist í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu árin, en síðan í New York og Danmörku. Hann lærði flug hjá Flugstöðinni í Reykjavík og starfaði að loknu atvinnuflugprófi sem flugmaður og flugafgreiðslumaður hjá Flugstöðinni á árunum 1970-1976. Ennfremur sótti hann sjó um tíma á fiski- og kaupskipum. Hann hóf störf sem flugumsjónarmaður hjá Cargolux í Luxembourg árið 1976 og starfaði þar til ársins 1981. Þá fluttist hann aftur til Íslands og hóf að starfa hjá Arnarflugi bæði á Íslandi og í Tripólí í Líbýu. Á þessu tímabili ævi sinnar kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Laufeyju Ármannsdóttur. Árið 1985 fluttust þau Hans og Laufey til Luxembourgar þar sem hann hóf á ný að starfa sem flugumsjónarmaður hjá Cargolux. Þar starfaði hann svo samfleytt uns hann fór á eftirlaun fyrir rúmu ári. Útför Hans Alberts Knudsen fer fram frá Fossvogskirkju í dag, mánudaginn 21. desember 2009, kl. 13.

Við hittumst fyrst á Reykjavíkurflugvelli 6 ágúst 1969. Hans var kominn til að ljúka flugnámi sem hann hafði byrjað í Danmörku. Yfirkennarinn hjá flugskólanum Flugstöðin, Pétur Valbergsson, hélt að Hans væri danskur og tilkynnti mér að þar sem ég væri með stúdentspróf í dönsku skyldi ég taka að mér að kenna Hans. Ekki var ég neitt að segja honum strax eftir flugið að Hans væri nákvæmlega eins mikill Íslendingur og við og þetta leyndarmál áttum við Hans saman í nokkra daga.
Hans féll vel inn í hópinn, enda sérstaklega vel skapi farinn, skemmtilegur og allra manna
ljúfi. Við kölluðum okkur "ramprotturnar" því við eyddum öllum stundum á flugvellinum í
kringum flugvélarnar. Ef ekki var flugveður var gjarnan setið uppí Gamlaturni og lesin flugblöð með kaffibollanum. Alltaf var létt og skemmtilegt "On top" í Turninum enginn endir
á gamansögum og glensi. Flugmenn frá öllum flugfélögum á landinu og reyndar frá erlendum flugfélögum hittust ásamt nemum og var Hans jafnan hrókur alls fagnaðar á staðnum.
Hans var mjög hæfur flugnemi og gekk námið vel, hann var 21 árs gamall og gat því tekið atvinnuprófið fljótlega. Árinu seinna var hann farinn að fljúga sem atvinnuflugmaður og tók við af okkur Pétri þegar við fórum að fljúga hjá Loftleiðum. Ekki entist ferill hans lengi sem atvinnuflugmaður og flugkennari því hann fór að finna fyrir jafnvægistruflun og ákvað að leggja skírteinið inn. Þetta skref varð honum þungbært en Hans virtist geta tekið mótlæti með einstöku jafnaðargeði.
Hans hélt áfram að vinna við flugið sem flugumsjónarmaður, fyrst í Reykjavík þar sem hann sá um flutninga á fólki og vörum til námasvæðis á austur Grænlandi fyrir danskt
námafyrirtæki. Þegar því verkefni lauk og námunum var lokað fór Hans á sjóinn og sigldi um höfin blá meðal annars til Afríku og Asíu.
Ekki leið á löngu þar til að Hans hringdi til mín og spurði mig hvort ekki væri vinnu að fá hjá Cargolux í Luxemborg. Ég fór á stúfana og talaði við yfirmann minn sem samþykkti að taka
Hans í vinnu sem flugumsjónarmann mig minnir að þetta hafi verið um veturinn 1976.
Hans starfaði meiri hluta starfsæfi sinnar hjá Cargolux en var um tímabil hjá Arnaflugi í Triploli. Allir samstarfsmenn báru honum gott orð enda heiðarlegur og hreinn og beinn í öllum viðskiptum. Persónlega kynntist ég Hans mjög náið því hann bjó á heimili okkar á tímabili. Við unnum saman í nær 30 ár og var okkur einkar vel til vina. Fjölskyldur okkar tengdust  vinaböndum og héldu börnin okkar að Hans væri náskyldur þeim, enda áttu þau margar góðar stundir heima hjá honum.

Hans giftist Laufey meðan hann starfaði hjá Arnarflugi, þau fluttu til Luxemborgar með Henrik og síðan fæddist Helen Sif um veturinn 1987. Hans var alltaf mikill fjölskyldumaður og hafði gaman að hafa fjölskyldu og vini í heimsókn. Laufey var einstaklega samrýnd honum og eigum við margar góðar
minningar frá heimboðum þeirra.
Okkur öllum finnst mikill missir að Hans Albert og vottum Laufeyju, börnum, fjölskyldu og vinum samúðar.


Eyjólfur Hauksson og fjölskylda.