Björgvin Jón Pálsson var fæddur í Hólshúsi í Miðneshreppi 29. desember 1914. Hann lést 30. nóvember sl. Foreldrar hans voru Helga Pálsdóttir frá Vallarhúsum á Miðnesi og Páll Pálsson frá Bæjarskerjum á Miðnesi. Páll var sonur Páls Pálssonar og Þórunnar Sveinsdóttur stórbænda á Bæjarskerjum. Björgvin Jón var einn af fimm börnum Helgu og Páls. En þau eru Páll Ó., látinn, Björgvin Jón látinn, Þórunn Fjóla látin, Margrét Dórotea látin, yngstur er Sveinn 86 ára eini eftirlifandi kvæntur Eddu Ingibjörg Margeirsdóttur búsett í Reykjavík. Helga og Páll ólu einnig upp dótturson sinn Pál Grétar Lárusson. Fjölskyldan fluttist frá Hólshúsi að Lágafelli í Sandgerði í nýtt hús sem fjölskyldan hafði byggt. Björgvin vann alla sína starfsævi í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Var hann vel liðinn í vinnu enda duglegur og traustur starfskraftur. Árið 1957 flutti Björgvin fyrst að heiman og hóf sambúð með Önnu Malenu Salomínu Leo frá Færeyjum. Anna fluttist til Íslands ásamt börnum sínum frá fyrra hjónabandi sem enn bjuggu hjá henni, en þeim gekk Björgvin í föðurstað. Þau eru Eli, látinn, Eva, Kai, Lea og Anna Frí. Einnig var Björgvin alla tíð í góðu sambandi við eldri börn Önnu sem eru Erland, Ína, kOve og Ída. Anna og Björgvin kvæntust ekki fyrr en árið 1970. Þau bjuggu öll sín hjúskaparár á Suðurgötu 36 í Sandgerði. Anna lést árið 1975 eftir það bjó Björgvin einn, síðast í Miðhúsum í Sandgerði. Þar átti hann gott ævikvöld í sambýli við góða nábúa og ummönnun fyrirmyndar starfsfólks. Systir hans Margrét hafði einnig búið síðustu ár ævinnar í þessu elskulega sambýli. Margrét systurdóttir Björgvins, annaðist þau systkynin Begga og Möggu af kærleika og umhyggju síðust árin. Þau hjónin Margrét og Magnús veittu þeim öldruðum mikinn stuðning og styrk. Að öðrum ættingjum ónefndum því hann var elskaður af öllum sínum ættingjum. Björgvin tók virkan þátt í starfsemi verkalýðs og sjómannafélagi Miðneshrepps, var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Reynis, þó ekki léki hann knattspyrnu.Söngurinn var hans ástríða. Hann var einn af stofnendum Karlakórs Miðnesinga í Sandgerði og söng þar meðan kórinn starfaði. Þegar sá kór hætti starfsemi gekk Björgvin í Karlakór Keflavíkur. Í gegnum kórstörfin eignaðist Björgvin marga góða vini. Björgvin söng í Kirkjukór í Hvalsneskirkju í nærri 60 ár samfleytt . Einnig söng hann í Kirkjukór Útskálakirkju og Kór eldri borgara. Síðasta æviárið dvaldist Björgvin á Hjúkrunarheimilinu Garðvangi og naut þar góðrar umönnunar. Hann fékk friðsælt andlát umvafinn kærleika sinna nánustu eftir langa og góða jarðvist. Björgvin var jarðsunginn 12. desesmber sl.
Beggi andaðist 30. nóvember sl., aðeins mánuði fyrir afmælið sitt. Fjölskylda okkar Begga var byrjuð að skipuleggja stóra veislu honum til heiðurs, einnig eru 100 ár liðin frá brúðkaupi ömmu og afa foreldra Begga. Við ætluðum sem sagt öll að hittast og halda góða veislu.
Við hittumst öll vegna Begga en bara tveimur vikum fyrr , það var til að fylgja honum til grafar.
Beggi var virkilega sérstakur maður, nægjusamur, stóð fast við sínar skoðanir og sannfæringu lét sér ekki haggað, var hamingjusamur og sáttur við sitt líf. Ef Íslendingar hefðu lifað eins og hann lifði væri aldeilis ekki nein kreppa til í landinu.
Hann fór flestar sínar ferðir fótgangandi enda ekki með bílpróf.
Hann lifði fyrir sitt áhugamál, sönginn, og hefur eflaust lengst allra manna sungið í kirkjukórum. Hans kirkja var Hvalsneskirkja í Sandgerði. Einnig söng hann í Garðinum og Karlakór Keflavíkur.
Ég á góðar minningar úr æsku minni í Sangerði með Begga og afa í kindakofanum sem ég kallaði en þeir feðgar voru með kindur í þá daga og þótti mér mjög gaman að stússast með þeim í kringum skepnurnar. Beggi og Anna kona hans gáfu mér lamb í fæðingargjöf svo sjálf átti ég líka kindur sem ég var að hugsa um.
Hin seinni ár sá ég Begga því miður ekki svo oft m.a. vegna búsetu minnar í Þýskalandi en ég reyndi alltaf að kíkja til hans á Suðurgötuna í Sandgerði þar sem hann bjó síðustu ár sín í íbúðarhúsi ætlað öldruðum, aldeilis til fyrirmyndar sá búsetustaður. Þar hafði líka búið systir hans, Magga frænka.
Eitt sinn heimsóttum við Begga háaldraðan og tókum hann með okkur í bíltúr í Sandgerði. Ferðinni var heitið suður að Stafnnesi, leiðin sem hann fór svo oft í kirkjuna sína, sú sama leið var síðan hans síðasta.
En í þetta sinn fórum við að skoða skip sem lá strandað uppí fjörunni. Ferðin okkar með Begga á inniskólnum sínum, gömlum flókaskóm, í bílnum var síðan aldeilis fróðleiksmoli fyrir okkur, sérstaklega manninn minn, Martin, sem allt vill vita um Ísland og Íslendinga. Beggi gat nú heldur betur sagt frá öllu mögulegu. Beggi okkar, við þökkum þér fyrir þessa ferð og allt lífsferðalagið.
En í dag á afmæli þínu ert þú í hugum okkar eftirlifandi ættingja þinna og vina en í faðmi hinna sem á undan þér eru farin.
Þín frænka,
Hallveig.