Ólafur Jakobsson fæddist á Srí Lanka hinn 14. nóvember 1985. Hann lést í Reykjavík hinn 17. desember síðastliðinn. Hann var ættleiddur af Guðrúnu Gerði Guðrúnardóttur hönnuði, f. 15. mars 1955, og Jakobi Kristni Jónassyni bifvélavirkja, f. 17. október 1950. Ólafur átti uppeldissystur, Eyrúnu Gunnarsdóttur, f. 2. september 1972, d. 9. nóvember 1999. Ólafur ólst upp hjá foreldrum sínum á Stóru-Laugum, í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu, til fimm ára aldurs en þá skildu leiðir foreldra hans. Fluttu Ólafur og móðir hans til Reykjavíkur en síðustu árin bjó Ólafur hjá föður sínum í Reykjavík. Ólafur var langt kominn með nám í Borgarholtsskóla er hann lést. Einnig hafði Ólafur unnið í mörg ár hjá Vodafone við góðan orðstír. Ólafur tók einnig þátt í skátastarfi í mörg ár. Ólafur verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 30. desember, og hefst athöfnin kl. 13.
Frændi minn er látinn langt fyrir aldur fram. Það er skrítið til þess að hugsa að Ólafur frændi sé farinn. Hann var alltaf glaður og hress, reyndar oftast á hraðferð en hver er það ekki í dagsins önn. Honum gekk vel í skóla, var að blómstra í Borgarholtsskóla þar sem hann átti eina önn eftir í stúdentspróf. Honum gekk vel í starfi sínu hjá Vodafone þar sem hann hafði starfað í langan tíma. Hann var umkringdur vinum, góðum foreldrum og fjölskyldu. Hann hafði allt til að vinna. Við kveðjum Ólaf í dag með söknuði í hjarta. Fallinn er frá drengur góður, blessuð sé minning hans.
Sofðu vinur vært og rótt
verndi þig Drottinn góður.
Dreymi þig vel á dimmri nótt
dýrð þíns Jesú bróður.
(Þorkell G. Sigurbjörnsson.)
Hvíl í friði kæri frændi,
Guðrún.
Elsku systursonur minn Ólafur Jakobsson.
Anna systir er ein þeirra sem er harmi slegin elsku Ólafur minn og ég á ekki orð til að lýsa tilfinningum mínum.
Mig langar til að þakka þér samfylgdina Ólafur minn. Þú hafðir marga hæfileika og einn af þeim var ljósmyndun og sást það best á þeim myndum sem þú tókst fyrir mig á opnunum og af verkum á myndlistarsýningum. Það var svo gott að eiga þig að, þú þessi glaðlyndi, duglegi, reglusami og heiðarlegi ungi maður hefðir átt að fá lengri tíma meðal okkar.
Ein mynd er ljóslifandi í huga mínum en hún sýnir hvað þú varst ákveðinn og öruggur með þig. Þessi mynd er af þér í ferð okkar í Kringluna en þar var stúlka á svipuðu reki og þú sem benti á þig og sagði við mömmu sína: Mamma sjáðu hann er svertingi. Þú svaraðir: Ég er ekki svertingi, ég er Íslendingur, ég er bara svona brúnn. Ég gleymi ekki hvað ég var stolt af þér við þetta svar.
En það var ekki eina skiptið sem ég var stolt af þér, þú stóðst þig vel í því sem þú tókst þér fyrir hendur og þú varst duglegastur. Þú hefðir þó mátt vera opnari gagnvart tilfinningum þínum en þú varst meira í því að hlusta á aðra og varst ekki mikið fyrir að láta aðra hafa fyrir þér. Elsku Ólafur okkar við þökkum þér fallega brosið þitt og viðmót þitt og kveðjum þig með virðingu og vináttu.
Anna og Símon.
Þau ljós sem skærast lýsa,
þau ljós sem skína glaðast
þau bera mesta birtu
en brenna líka hraðast
og fyrr en okkur uggir
fer um þau harður bylur
er dauðans dómur fellur
og dóm þann enginn skilur.
/
En skinið loga skæra
sem skamma stund oss gladdi
það kveikti ást og yndi
með öllum sem það kvaddi.
Þótt burt úr heimi hörðum
nú hverfi ljósið bjarta
þá situr eftir ylur
í okkar mædda hjarta.
(Friðrik Guðni Þórleifsson.)
Kæri vinur.
Að hafa fengið að kynnast þér og eiga margar frábærar stundir með þér,
er eitthvað sem við munum alltaf geyma og minnast þín fyrir, gaurinn sem
var alltaf svo hress og kátur.
Okkur grunaði aldrei hvað væri framundan þegar við hittum þig í þrítugsafmæli Axels aðeins 6 dögum áður en þú fórst og verðum við ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig þar.
Við sendum foreldrum þínum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Kæri Óli,
Þú varst svo sannarlega vinur vina þinna og fyrir það verður þín ávallt minnst.
Hvíldu í friði kæri vinur.
Axel Rafn og Kristín Ásta.
Elskulegi Óli.
Það er svo sárt að vita að góðhjartaður strákur eins og þú sem vildir allt gott fyrir alla gera sé farinn og búinn að yfirgefa heiminn. Allir sem þekktu þig munu ávallt geyma og gleðjast yfir góðum minningum um þig. Það var alltaf hægt að setjast niður með þér og eiga gott spjall og voru þau oft þegar við störfuðum saman hjá mömmu.
Síðast þegar ég spjallaði við þig var ég að segja þér að ég væri að fara
að flytja til Kanada og þú öfundaðir mig svo mikið að geta þá farið til
Whistler og skellt brettinu á, og veistu hvað ég fór þangað í dag og þetta
er einn fallegasti staður sem ég hef nokkurn tímann séð. Elsku Óli ég veit
að þú munt finna friðinn þar sem þú ert i dag og megi Guð vera með þér,
kveð þig i bili.
Ég vil votta fjölskyldu og öllum þeim sem þekktu Óla mínar samúðarkveðjur,
Sonja Hafdís Pálsdóttir.
Hann Ólafur Jakobsson vinur Baldurs sonar míns er horfinn á braut. Hann kom eins og sólargeisli inn í líf okkar. Sem unglingar áttu þeir Baldur margt sameiginlegt og undu oft saman við eithvað dundur. Ég minnist helgarferðar sem við fórum saman norður í Skagafjörð. Þeir félagar voru eiginlega að gera það fyrir mig að koma með mér á sumarhátíð og létu sig hafa það að taka þátt í leikjum með börnum og fullorðnum sem þeir þekktu ekkert. Á heimleið voru þeir félagar fremur þreyttir en aldrei neitt styggðaryrði af hálfu Óla þó ég þyrfti að stoppa á einhverjum bæjum á leiðinni.
Sem ungur maður var Óli staðfastur vinur vina sinna, ætíð ljúfur í umgengni brosmildur og vinsæll af öllum sem hann umgekkst.
Kæru Gerður og Jakob, ég votta ykkur mína dýpstu samúð við
sonarmissinn.
Jóhann Arnfinnsson