Jóna Valdimarsdóttir fæddist 21. apríl 1919, á Hvítanesi á Akranesi. Hún lést á dvalarheimilinu Höfða 20. desember 2009. Foreldrar hennar voru Rannveig Þórðardóttir, f. 8.5. 1895, d. 20.3. 1925, frá Leirá í Borgarfirði, og Valdimar Eyjólfsson, f. 19.8. 1891, d. 6.6. 1976, frá Hábæ á Akranesi. Eftir lát Rannveigar ólust Jóna og alsystkini hennar upp á Hvítanesi hjá móðurömmu sinni Guðnýju Stefánsdóttur, f. 7.11. 1869, d. 26.11. 1951, og móðurbróður Þórði (Steina), f. 23.8. 1899, d. 22.11. 1989, maka hans Sigríði Guðmundsdóttur, f. 4.1. 1910 og börnum þeirra. Jóna átti 2 alsystkini, Þórð, f. 23.7. 1916, d. 20.12. 2008, og Ársæl Ottó, f. 2.10. 1921, d. 20.12. 2003; og 4 hálfsystkini, Geir, f. 5.6. 1927, Rannveigu Önnu, f. 22.10. 1928, Valdimar, f. 15.9. 1931, og Jón Valdimar, f. 10.4. 1935, sem öll eru látin. Jóna giftist 8. júlí 1939 Þórði Egilssyni, vélstjóra og síðar pípulagningameistara, f. 14.9. 1916, fæddum á Skarði í Snæfjallahreppi í Ísafjarðardjúpi, d. 4.12. 1998 á Akranesi. Foreldrar hans voru Egill Jónsson, f. 6.5. 1887, d. 14.5. 1958, og Guðrún Ingibjörg Þórðardóttir, f. 26.3. 1886, d. 9.4. 1964. Jóna og Þórður bjuggu allan sinn búskap á Akranesi ef frá er talið 17 ára tímabil er þau bjuggu í Kópavogi og á Seltjarnarnesi. Jóna bjó á Höfða frá janúar 2008. Börn Jónu og Þórðar eru: 1) Guðni, f. 6.9. 1939, framkvæmdastjóri Borgarplasts hf., maki Sjöfn Guðmundsdóttir, f. 17.5. 1935. Dætur þeirra eru: a) Hulda Rós, f. 13.6. 1973, dóttir Esja Rós, f. 12.11. 2008; b) Sunna Jóna, f. 15.7. 1975, dóttir Líf, f. 23.11. 2003; c) Brynja Þóra, f. 9.9. 1976, maki Andri Pálsson, f. 7.9. 1974, börn Dýrleif Sjöfn, f. 26.4. 2002, og Úlfur Páll, f. 16.4. 2004. 2) Rannveig, f. 13.4. 1941, d. 8.8. 1941. 3) Gylfi, f. 5.12. 1944, framkvæmdastjóri Spalar ehf, maki Marta Kristín Ásgeirsdóttir, f. 18.8. 1956. Börn þeirra eru: a) Ása Björg, f. 13.5. 1982, maki Garðar Axelsson, f. 15.7. 1979, börn Gylfi Kristinn, f. 9.8. 2005 og Arnar Már, f. 25.1. 2008, b) Þórður Már, f. 7.9. 1985; c) Birkir Örn, f. 14.1. 1987; d) Harpa Lind, f. 29.5. 1991. Jóna starfaði sem húsfreyja mestan hluta ævinnar en vann einnig ýmis störf utan heimilisins. Sem ung kona starfaði hún í síld á Siglufirði og í mötuneyti hjá Halldóru Hallsteinsdóttur á Akranesi, þar sem hún kynntist manni sínum. Eftir að hún gifti sig og eignaðist börn vann hún á haustin við síldarsöltun en einnig á Prjónastofunni Evu í nokkur ár. Síðar starfaði hún á Borgarspítalanum í Reykjavík einnig í nokkur ár. Frá því að barnabörnin byrjuðu að fæðast helgaði hún sig að mestu húsfreyjustörfunum. Útför Jónu fór fram í kyrrþey.
Jóna var föðuramma mín. Hún kaus frekar að vera hrein og bein heldur en allra og þó margir telji það galla hef ég reynt að taka hana mér til fyrirmyndar í því. Hún var 54 ára gömul þegar ég fæddist og bjó skammt frá okkur á Seltjarnarnesinu ásamt afa mínum Þórði. Pabbi var orðinn 33 ára þegar ég fæddist, fyrst barnabarnanna og var ég langþráð og móttökurnar eftir því. Amma hafði áhyggjur af því að hún myndi aldrei eignast barnabörn alveg eins og hún hafði áhyggjur að ég sjálf myndi aldrei eignast barn, en Esja dóttir mín fæddist í fyrra þegar ég var 35 ára gömul og alls ekkert á leiðinni í barneignir, enda kornung, og margt í gangi. Mikið var amma glöð. Elsta barnabarnið hafði loksins séð ljósið og átti möguleika á raunverulegri hamingju í lífinu. Síðan Esja fæddist, og tilvist hennar færði mér nýja sýn á mannlega tilveru og virði þess að vera til staðar og næra þá sem standa manni næst, hef ég hugleitt talsvert gildi hins þýðingarmikla sambands barns við foreldra og ömmu og afa. Önnur einstæð móðir benti mér á að hvert nýfætt barn þurfi allavega þrjá í fullu fjöri til umönnunar og hef ég af eigin raun sannfærst um þann sannleik. Ég er þakklát fyrir að fyrstu tvö árin áður en ég byrjaði í daggæslu var ég meira og minna hjá ömmu Jónu. Í þá daga var ekkert fæðingarorlof og móðir mín ein af dugnaðarkonum þessa lands með mörg járn í eldinum og pabbi að byggja upp nýjan rekstur. Amma mín annaðist mig af natni og áhuga. Hún linaði sársauka minn í erfiðum veikindum og gaf mér risastór blöð til að teikna minn ímyndaða heim. Þessi umhyggja er ekki sjálfgefin. Ég tengdist ömmu sterkum tilfinningaböndum sem slitnuðu aldrei.
Amma Jóna var hversdagleg og alþýðleg. Hún barðist ekki fyrir pólitískum hugsjónum á opinberum vettvangi né kleif metorðastigann í starfi sem gat veitt henni völd eða virðingu. Hún var ein af þeim sem aldrei er minnst á neins staðar. Ein af þeim sem eru til staðar fyrir þá sem næst þeim standa og gefa því sambandi tíma og orku sem til þess þarf. Ég man þegar ég var að gera heimildarmyndina um Kjötborg. Þá var kaupmönnunum á horninu oft lýst sem gamaldags. Að næra náungann án þess að vera að hugsa um eigin ábata er alls ekki gamaldags heldur göfugt gildi sem ber að virða.
Amma mín, ég er þakklát fyrir að hafa komið heim nógu snemma til að hafa getað veitt þér líkn síðasta daginn okkar saman. Ég hélt þér í faðmi mér eins og værir þú ungabarnið sem ég var einu sinni. Ég sefaði þig í óútskýranlegum sársaukanum sem minntu á kveisur dóttur minnar. Þú varst samt ekkert ungabarn. Af æðruleysi fórum við yfir það sem þú varst þakklát fyrir, börn þín sem komust á legg og heilsuna sem guð gaf þér. Ég óska þess að ég muni öðlast þá gæfu að geta gefið barnabarni það trausta og hlýja umhverfi, ást og alúð, sem þú gafst mér.
Nú ertu komin til mömmu þinnar sem þú misstir sem ung telpa, dóttur þinnar sem lifði alltof stutt og ástkærs eiginmanns sem stóð þér svo nærri. Hvíl í friði.
Hulda Rós Guðnadóttir.