Erla Havsteen Þorsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 22. desember 1928. Hún lést á landsspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi þann 8. desember.   Móðir hennar var Emma Guðjónsdóttir fædd 1903 á Borðeyri, d. 1987 og faðir Þorsteinn Kristjánsson fæddur 1901 á Korpúlfsstöðum, d. 1991. þau skildu. Seinni maður Emmu var Sigurður Thorarensen . Elsti bróðir Erlu samfeðra var Einar  f.1921 - d.1978   hans börn eru Arnfríður og  Páll Heimir,  Albróðir Erlu var Óli f. 1926 - d. 2003, fyrrverandi kona hans var Jónína Guðbjörg Björnsdóttir þeirra börn, Haukur d.1983 og  Sigrún. Systir Erlu er Rannveig f. 1925, eiginmaður hennar er Guðjón Eiríksson  og  þeirra  börn  Sævar, Úlfar og  Guðjón Þór.  Erla lærði klæðskerasaum í Danmörku ung að árum og fór eftir það  í Húsmæðraskólann í Hallormsstað. Erla kvæntist Elliða Norðdahl Guðjónssyni 1955 og átti hann son úr fyrra hjónabandi Hrein Ómar f. 1946 - d.1998 , hans fyrrverandi maki var Guðrún Jónína Magnúsdóttir, þeirra  börn eru Elliði Ómar, Sigurbjörg Ásta og Jóna Bjarney. Börn Erlu eru fimm, 1) Trausti f. 1955.  2) Garðar f.1957 og á hann dæturnar Regínu Ósk f. ´1996 og Sólrúnu Báru f. ´98. 3) Viðar f.´58, eiginkona hans Ásdís Sigurgeirsdóttir þeirra börn eru  Kjartan f. ´86 og Fjóla Dís f. ´97. 4) Sigríður Havsteen f. ´61,  hennar börn eru Margrét Snæfríður f. ´92 og Hróbjartur Trausti f. ´94. 5) Kristín Havsteen f.´68. Útför Erlu fór fram þann 22. Desember síðastliðinn í Laugarneskirkju og var hún greftruð í Gufuneskirkjugarði

Áhrifavaldar í lífi hvers og eins eru margir og flestir eru þeir áberandi og koma auðveldlega upp í hugann. Þegar ég lít til baka sé ég að Erla hefur vissulega verið áhrifavaldur í mínu lífi. Ekki á opinskáan hátt og frekar með verkum en orðum. Hún fór ekki troðnar brautir í lífinu, var listakona og bóhem og leið best ef hún var að skapa. Hún var gift tengdaföður mínum um árabil og ég kynntist henni fyrst þegar ég var sextán ára. Dökkhærð, gædd mjög sérstakri fegurð með beitta og oft kaldhæðna kímnigáfu. Erla var róleg og hreyfði sig sjaldan hratt en var með afkastameiri konum sem ég hef kynnst. Á heimilinu voru þrír baldnir og fjörmiklir strákar, uppáfindingasamir og með mikið ímyndunarafl. Eins og nærri má geta þurftu þeir mikla sinningu. Sigríður systir þeirra var þá yngst þó seinna bættist Kristín í hópinn. Þær systur voru alltaf eins og prinsessur til fara og saumaði Erla og prjónaði föt á hópinn sinn. Hún og Elliði tengdafaðir minn bjuggu á Lindarflöt í Garðabæ og þegar Lindarflötin var byggð lét hún sig ekki muna um að búa í tjaldi á lóðinni meðan húsið var gert íbúðarhæft, þá með strákana þrjá litla ef ég man rétt. Eftir að þau fluttu inn setti Erla sinn svip á heimilið, hún var smekkleg og frumleg og bjó þeim fallegt heimili.  Erla lét ekki við það sitja að útbúa fatnað á fjölskylduna, hún rak lengi saumastofu í hluta af bílskúrnum og hafði mikið að gera. Fyrir jól tók hún sig oft til og útbjó fallega hluti og seldi. Mér eru minnisstæðar myndir sem hún gerði úr akríl og setti hraunmola út í. Þær nutu mikillar hylli. Erla tók mér vel þegar ég bættist í fjölskylduna, hún dreif mig í heimsóknir til systra Elliða, Laugu og Rúnu og lét sér umhugað um að ég kynntist þeim. Erla var afbragðs kokkur og útbjó jafnan kynstrin öll af mat á haustin í fulla frystikistu. Hún bauð okkur oft í mat og mörg kvöld sátum við lengi frameftir og spiluðum eða bara spjölluðum og hlógum. Tengdapabbi framleiddi handfærarúllur og byrjaði með þann rekstur í bílskúrnum. Sjómennirnir sem versluðu við hann komu á öllum tímum og alltaf voru þeir drifnir inn í kaffi eða mat. Erla gat talað með fyrirlitningu um drullugallakarla en hún tók jafn vel á móti öllum og gerði eins við þá hvort sem það voru háir eða lágir. Erla var kvenréttindakona og var ósátt við að hennar framlag til heimilisins var ekki metið í beinhörðum peningum: barnagæsla, þrif, saumaskapur, prjónaskapur, matargerð, allt eru þetta hlutir sem sjást ekki fyrr en þeir eru ekki unnir. Þetta skynjaði Erla vel og mómælti á sinn hátt. Hún var mjög ákveðin og lá ekkert á sínum skoðunum. Eitt af því sem hún hataði voru íslenskir vetur og ræddi oft um að mikið betra væri að búa á suðlægum slóðum. Hún lét verða af því og flutti til Spánar nokkrum árum eftir að hún skildi við tengdaföður minn. Þar undi hún hag sínum all vel.  Nú þegar hún er lögð til hinstu hvílu á afmælisdaginn sinn votta ég börnum hennar, barnabörnum og systur innilega samúð mína, guð blessi minningu Erlu Þorsteinsdóttur.

Guðrún Jónína Magnúsdóttir.