Ingibjörg Jóhanna Vilhjálmsdóttir fæddist á Brekkustíg 7, í Reykjavík 25. mars 1930. Hún lést 18. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafía Ragna Ólafsdóttir, f. 22. júlí 1905, d. 14. mars 1981, og Vilhjálmur Hannesson, f. 18. október 1895, d. 16.febrúar 1977. Systkini Ingibjargar eru: Ólöf Jóhanna, f. 13. september 1931, Sigríður Marta, f. 16. mars 1933, d. 26. desember 1933. Bróðir þeirra, samfeðra var Svavar, f. 17. september 1922, d. 13. desember 2006. Ingibjörg giftist 3. janúar 1952, Þorvaldi Guðmundssyni frá Bóndhól í Borgarhreppi, þau skildu. Foreldrar hans voru Guðmundur Þorvaldur Gíslason, f. 23. október 1881, d. 23. október 1963, og Guðfinna Einarsdóttir, f. 24.8. 1899, d. 6. janúar 1986. Ingibjörg og Þorvaldur eignuðust átta börn: 1) Guðfinna, f. 5. nóvember.1950, maki Elías Pálsson. Börnin eru tvö og barnabörnin fjögur. 2) Vilhjálmur, f. 21. apríl 1952, d. 11. júlí 1955. 3) Guðmundur Hafþór, f. 21. nóvember 1953, maki Helga Margrét Gígja. Börnin eru sjö og barnabörnin sex. 4) Vilhjálmur Birgir, f. 26. september 1956, maki Elínborg Ögmundsdóttir. Vilhjálmur á með fyrri eiginkonu sinni, Guðbjörgu Jónu Jóhanns, fjögur börn og þrjú barnabörn og fyrir á Elínborg tvö börn og eitt barnabarn. 5) Sigríður Ragna, f. 28. mars 1958, maki Ólafur Árnason, þau eiga tvo syni. Sigríður á með fyrri eiginmanni sínum, Magnúsi Þór Haraldssyni, eina dóttur og tvö barnabörn, og fyrir á Ólafur tvö börn og tvö barnabörn. 6) Sumarliði, f. 13. maí 1960, maki Sigríður Ragnhildur Helgadóttir. Börnin eru sjö og barnabörnin tvö. 7) Þorvaldur Hannes, f. 22. desember 1966, hann á tvö börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Díönu Ósk Heiðarsdóttur. 8) Ólafía Ingibjörg, f. 22. júlí 1969, maki Steinar Garðarsson, þau eiga tvö börn. Skólaganga Ingibjargar Jóhönnu var í Miðbæjarskólanum í Reykjavík, á Brennistöðum í Borgarfirði og á Húsmæðraskólanum á Varmalandi. Hún vann á sínu heimili við húsmóðurstörf og öll almenn sveitastörf. Eftir að hún flutti í Hveragerði og skildi við eiginmann sinn fór hún að vinna á Heilsuhælinu í Hveragerði. Hennar síðasta heimili var í Lækjasmára 4 í Kópavogi. Útför Ingibjargar fer fram frá Háteigskirkju í dag, mánudaginn 4. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Mig langar að minnast elsku mömmu minnar. Hún fæddist á Brekkustíg 7 í Reykjavík og hóf sína fyrstu skólagöngu í Miðbæjarskólanum. Árið 1942 flutti fjölskyldan að Krumshólum í Borgarhreppi. Afi var frá Tandraseli í sama hreppi og hafði alltaf hug á að flytja aftur í sveitina sína og keypti jörðina og flutti með sína fjölskyldu á heimaslóðir. Mamma fór fljótlega að hjálpa til við almenn bústörf. En þá voru ekki vélar til að létta störfin við heyskap eða við mjaltir. Hún átti ákaflega auðvelt með að læra þegar hún var í skóla og var alltaf með háar einkunnir. Hún hafði fallega rithönd og lagði mikla áherslu á að skrifa fallega og það gilti í raun um allt sem hún gerði, að alltaf var vandað til verka. Hún og systir hennar Ólöf voru alltaf saman og mjög samrýmdar alla tíð, enda bara rúmt ár á milli þeirra.
Mamma byrjar sinn bússkap í Borgarnesi með pabba mínum. Þar búa þau í tvö ár til ársins 1952, en þá kaupa þau jörðina Hafþórsstaði í Norðurárdal og hefja þar bússkap með kýr, kindur og hross. Það var erfitt tímabil fyrir ung hjón að byrja að búa með tvær hendur tómar og þar kynntist hún því hvað lífsbaráttan getur verið hörð. Hún lenti í mikilli sorg þegar hún missti 3 ára son sinn 1955, úr höfuðmeini og var það erfitt tímabil fyrir hana og alla fjölskylduna. Hún var ein af þessum kjarkmiklu konum sem stóðu allt, alveg sama hvað gekk á. Hún var alltaf til staðar eins og klettur, eitthvað sem var öruggt í lífinu fyrir okkur systkinin. Var alltaf heima að vinna, reykti ekki eða drakk áfengi. Saumaði á okkur fötin, prjónaði, bakaði dýrindis brauð og kökur, las fyrir okkur, kenndi okkur bænir, spilaði á munnhörpu, harmonikku eða gítar fyrir okkur og söng með. Allt fyrir okkur.
Á búskaparárunum á Hafþórsstöðum kom á heimili mömmu hálfbróðir hennar, Svavar sem var heyrnarlaus og mállaus og var á hennar heimili og í hennar umsjá í rúm 40 ár, eða á meðan heilsa hans leyfði. Hún skapaði honum alla tíð pláss á sínu heimili og lýsir það hennar góðmennsku best.
1961 flytja foreldrar mínir að Hamraendum í Stafholtstungum og eru þá að stækka búið og búa þar í nokkur ár. Það var mikill léttir fyrir mömmu og alla að fara þangað þar sem þar var rafmagn. Það var alltaf mikill gestagangur hjá henni og jókst á Hamraendum, þar sem það var betur í sveit sett. Hún hafði sérstakt lag á að baka brauðmeti úr perlugeri og að tileinka sér nýjungar í matargerð. Steiktu flatkökupartarnir hennar volgir með sultu voru engu líkir og gott að renna þeim niður með kaldri mjólk.
Alltaf var stutt í glens hjá mömmu og fyrstu brandarana mína heyrði ég af hennar vörum. Hún hafði alltaf gaman af dansi og dansaði stundum eftir dansmúsík í útvarpinu við okkur og þannig lærðum við fyrstu sporin í dansi. Hún var lífsglöð kona og var lagin við að fanga skemmtilegar stundir með heimilisfólkinu og gestum sem bar að garði. Hún hafði gaman af fólki og ræktaði vel sína vini með heimsóknum og boðum til sín. Á sunnudögum var oft brugðið undir sig betri fætinum og pabbi og manna fóru með alla fjölskylduna í bíltúr. Þá var oft farið að veiða í Hreðavatni, skoða einhverja fallega staði eða í heimsóknir til að rækta frændgarðinn. Það var alltaf tími í eitthvað skemmtilegt líka hjá henni.
Það voru mörg börnin úr bænum sem nutu velvildar hennar og komu til dvalar í sveitina. Alltaf var pláss fyrir börn, þó að húsplássið ekki mikið, það var í raun alltaf pláss fyrir alla sem vildu vera hjá henni. Stundum komu vinkonur hennar úr Reykjavík yfir sumarið og settu upp tjaldbúðir og stoppuðu í nokkra daga með börnin sín og var það kærkomið fyrir okkur systkinin að fá félagsskap í sveitinni og einnig gleði og tilbreyting fyrir mömmu.
1967 flytja þau að Skeggjastöðum í Mosfellsdal og síðan flytja þau og kaupa hús í Kópavogi 1969. Hún tók fyrst bílpróf á þessum árum og naut þess að keyra bílinn sinn. Hún passaði einnig barnabörnin og þau kunnu vel að meta að vera hjá henni eins og allir. Hún var alla tíð viðkvæm og tók nærri sér þegar einhver var veikur og var þá mikið fyrir að láta biðja fyrir fólki og var mjög trúuð á mátt bænarinnar.
1977 kaupa foreldrar mínir nýtt hús í Hveragerði og flytja þangað og þar skilja þau eftir nokkra ára dvöl. Mamma fór þá að vinna á Heilsuhælinu og vann þar á meðan heilsan leyfði.
Alltaf var boð á jóladag í Hveragerði og þangað fóru við systkinin með fjölskylduna og oftast var gist yfir nótt. Þá voru borðin hlaðin af veisluföngum og allt útbúið af henni. Það var síðan spilað fram á nótt og mikið hlegið saman. Svona vildi mamma hafa það, börnin hjá sér, nóg af mat og gleði í húsinu.
Hún var ákaflega jákvæð þegar börnin komu með sína/sinn tilvonandi til að kynna fyrir henni í fyrsta sinn og sá allt það besta úr hverjum einstaklingi. Einnig þegar börnin voru að spá í að kaupa sitt fyrsta húsnæði, þá var hún oft ráðgjafinn og allt var þetta gott og bara að skella sér í að kaupa. Hún hvatti börnin og barnabörnin til að mennta sig og lagði líka áherslu á að allir þyrftu að standa sig vel í vinnu og vera dugleg.
Hún var alltaf til taks og bauð sig fram til að taka myndir ef það var eitthvað um að vera hjá okkur eins og hestaferðir og kom þá á bílnum með nesti og tók myndir. Síðan var oft farið í heita pottinn hjá henni eftir skemmtilega ferð og þar naut hún sín.
Hún var alltaf að taka myndir af börnunum sínum frá því að ég man eftir mér og á meðan hún gat. Það var hennar yndi að eiga myndir af öllum hópnum og skoða þær aftur og aftur og sýna öðrum. Það var hennar stolt.
Hana munaði ekkert um að renna í bæinn á bílnum sínum ef það var leikur og hún vildi mæta til að hvetja barnabörnin til dáða og sjá þau á vellinum.
Hún las mikið og fékk alltaf bók í jólagjöf og það var alveg ómissandi í hennar huga. Hún keypti Moggann og var vel inni í landsmálunum og vildi ræða málin þegar gesti bar að garði.
Það var yfirleitt réttur aðili við stjórn á hverjum tíma, þar sem hún vildi bara sjá það góða í fari ráðamanna og var þá oftast í vinningsliðinu. Á þessum árum fór hún að ferðast erlendis og hafði ákaflega gaman að því að sjá nýja og framandi staði.
Fljótlega eftir að hún hætti að vinna þá keypti hún sér íbúð í Lækjarsmára í Kópavogi. Þar átti hún góðar stundir með fjölskyldu og vinum á meðan heilsan leyfði.
Ég er þakklát fyrir þann tíma sem ég átti með henni og það sem hún gaf mér og mínum systkinum og öllum. Hún var okkur allt og var eins og fólk er best.
En kveðjustundin er komin og ljúft að rifja upp allar góðu stundirnar og minningarnar. Það eru bara góðar minningar sem elsku mamma skilur eftir sig. Blessuð sé minning hennar.

Guðfinna Þorvaldsdóttir

Meðal minna fyrstu minninga eru samverustundirnar með henni ömmu minni. Það voru margar gleðistundirnar á Nýbýlaveginum í Kópavogi sem við áttum. Á heimili hennar voru móðursystkini mín, lítið eitt eldri en ég sjálfur. Var þá skiljanlega gaman fyrir litla frænda að fá að leika í þessum ævintýraheimi sem Kópavogurinn var á þessum tíma. Nýbyggingar út um allt og uppátækjasöm börn og amma sem veitti manni alltaf athygli og virðingu. Oft var gaman að fylgjast með umræðum sem fóru fram í eldhúsinu. Það voru samankomin börnin hennar á öllum aldri og gestir. Fjörugar umræður gátu þá sprottið upp. Mikið var hlegið og alltaf létt yfir öllu. Hvort sem rökrætt var hvernig væri best að brjóta saman pönnukökur eða landsmálin. Það var því ekki að ástæðulausu sem ég hágrét í ófá skiptin þegar pabbi sótti mig og keyrði heim. Í aftursætinu sat ég svo og sparkaði af öllu afli í bakið á bílstjórasætinu. Í mörg ár á eftir,þegar ég keyrði Nýbýlaveginn sjálfur, hugsaði ég um það hvert ég við vorum komnir þegar ég gafst upp og áttaði mig á að ekki væri snúið við.

Árið 1977 bætist annar ævintýraheimurinn við þegar amma og afi flytja til Hveragerðis. Þar dvaldi ég oft í jóla og sumarfríum. Það var sérstök tilfinning að vakna upp hjá ömmu og sjá panelinn í loftunum og vita að núna væri maður hjá ömmu og þar var alltaf gaman. Ekki vegna þess að amma væri að hampa manni og dekra. Nei vegna þess að hún var alltaf að sýsla eitthvað eða skipuleggja. Hún kenndi mér að hafa eitthvað til að hlakka til. Það var alltaf eitthvað sem amma var að fara að gera. Hún kenndi mér líka að það er hægt að gleðjast yfir litlu. Það þurfti ekki meira til en á laugardagskvöldi,yfir góðri bíómynd ís stofunni að það heimilisfólkið væri spurt hvort það vildi Appelsín eða Sinalcó. Svo var farið í sjoppuna og verslað. Ein flaska á mann, sitjandi í stofunni hjá ömmu með alla þá hlýju og gleði sem einkenndi Kambahraunið.

Amma setti alltaf heimilið í forgang og sást það best á litlum hlutum eins og hún setti sjónvarpið í miðja stofuna. Hún vissi að þar liði fólkinu sínu best. Hún var með þeim fyrstu sem ég man eftir sem eignaðist videotæki. Hún var alltaf að fara eitthvað með okkur krakkana og eins og áður sagði alltaf að hugsa um að gera eitthvað skemmtilegt sem gætti glatt hana og okkur. Heimilið hennar að Kambahrauni var stolt hennar og þar kynntist ég þeim gríðarlega metnaði að eiga stóra og fallega fasteign sem gæti nýst sem heimili og fyrir gesti. Minnist ég þess hversu fljót hún gat galdrað fram veislur ef hún frétti af því að börnin hennar væru á leiðinni yfir heiðina. Hún vann mjög mikið en aldrei man ég eftir að hún kvartaði. Hún var ekki þannig. Hún var mjög trúið án þess að líta niður til þeirra sem voru ekki eins. Mér verður oft hugsaði til orðanna ef þú berð þig eftir björginni,þá bætir alvaldið því sem vantar uppá en það var að nokkru leiti lífsmottó hennar tel ég.

Hún innrætti góða siði en aldrei man ég eftir að hún hafi skammað mig. Samt gerðu allir eins og amma sagði. Hún reyndi alltaf að sjá fegurðina í lífinu og var mjög skynsöm. Aldrei sýndi hún börnum hroka eða yfirlæti. Hún gladdist alltaf þegar fólki gekk vel í lífinu og aldrei fann ég fyrir öfund út í nokkra manneskju. Hún kenndi mér að það væru oft bestu gamansögurnar sem maður segði af sér sjálfum. Man ég ófáar sögurnar sem hún sagði af sér þegar einhver misskilningur hafði komið upp á gerðist og hló hún mest sjálf. Hún gat verið mjög hnyttin í tilsvörum en sagði aldrei neitt sem særði. Það var mikil blessun fyrir mig að kynnast henni ömmu minni og mun alltaf líta upp til hennar sem fyrirmyndar.


Þorvaldur Steinþórsson

Nú hefur fyrrverandi tengdamóðir mín hún Inga kvatt þetta líf eftir erfið veikindi. Mig langar aðeins að minnast hennar, í nokkrum orðum. Yndislegri tengdó var vart hægt að hugsa sér, ég var ekki nema 16 ára krakki þegar við Villi sonur hennar byrjuðum saman og var mér tekið strax sem einu af börnunum, enda sagði hún oft Jóna mín þú ert eins og ein af mínum börnum og ekkert smá hvað mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar hún sagði það.

Upp í huga minn koma margar minningar, þar má nefna hvað hún var hamingjusöm þegar Villi Ragnar sonur minn fæddist og ekki var ánægjan minni þegar Björgvin Freyr kom í heiminn, en þá hvíslaði hún í eyra mitt Ég var nú aðeins að vona að það kæmi stelpa. Þegar ég varð svo ófrísk í þriðja skiptið þá sagði hún Ég vona að nú komi stelpa. Mikið varð hún glöð þegar stelpan kom og fékk nafnið Ingibjörg Jóhanna. Ekki varð ánægjan minni þegar Berglind Ósk kom í heiminn. Við eigum ófáar minningar úr Hveragerði þar kom maður ekki að tómum kofanum, nýbakaðar pönnukökur eða kleinuilmur lagði um húsið. Eldri börnin mín minnast oft á það hvað var gott að heimsækja ömmu sína, þar voru allir alltaf velkomnir og ærslagangur oft mikill þar sem mátti nota stofuna sem fótboltavöll eða badintonvöll sem hún tók virkan þátt í. Villi Ragnar minnist þess þegar hún og Inga Lóa byrjuðu að tala P málið, þá var greinilega verið að tala um eitthvað sem lítil eyru máttu ekki heyra, og eins gott að koma sér í burtu. Eftir að hún flutti í bæinn þá hringdi hún ef henni var farið að lengja eftir manni í heimsókn og sagði Jóna mín ég var að baka pönnukökur/kleinur. Þá var maður fljótur að henda frá sér öllu og bruna af stað til hennar. Þegar hugur reikar um liðna tíð kemur margt upp í hugann sem ég ætla að eiga í huga mér. Um leið og ég þakka þær stundir sem ég átti með Ingu vil ég votta börnum hennar og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Megi góður Guð vera með ykkur elsku vinir.

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem.)


Guðbjörg Jóna Jóhanns. (þín Jóna.)

Það eru svo ótal minningar sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa til hennar ömmu minnar. Flestar ef ekki allar tengjast á einn eða annan hátt Hveragerði. Það var ósjaldan sem við gistum hjá ömmu í Hveró. Þar var nóg að gera t.d. fara í pottinn, leika í feluleik í bílskúrnum, fara í fótbolta í stofunni, horfa á Heilsubælið og tala við Svavar. Amma var alltaf með nóg af kræsingum sem hún bar í okkur sama hvaða tími dags það var. Aldrei gleymi ég kleinunum hennar.

Amma og Inga Lóa áttu sitt eigið tungumál, kallað P-mál sem þær notuðu þegar rætt var um hluti sem ungir máttu ekki heyra. Ég man hvað ég dáðist af þeim því þær töluðu svo hratt þannig að ómögulegt var að skilja þær. Ég lagði mig alla fram því mig langaði svo að læra það en náði aldrei góðu tökum á P-málinu.

Mér hefur alltaf þótt svo vænt um að vera nafna hennar ömmu og það hefur aukist með árunum. Ég kveð elsku ömmu mína með söknuði en um leið glöð yfir þeim minningum sem ég á um hana og mun segja mínum börnum sögur frá ömmu í Hveró.

Ingibjörg Jóhanna.