Minningargrein:
Með þessum orðum vil ég minnast föður míns, hans Martin Max Wilhelm
Meyer. Mamma og Pabbi skildu þegar ég var tveggja ára. Hann flutti til
Noregs þar sem hann bjó í nokkur ár en flutti síðan til Danmerkur og
bjó þar allar götur síðan fyrir utan 18 mánaða tímabil sem hann bjó á
Íslandi. Fjarlægðin á mili okkar varð til þess að lítið samband var á
milli okkar og urðum við ekki eins nánir og maður hefði viljað. Við
Bryndís systir heimsóttum hann þó tvisvar til Óðinsvé þar sem hann
bjó. Voru það í bæði skiptin eftirminnilegur og yndislegur tími sem
við áttum með honum. Einnig kom það fyrir að hann kom í heimsókn til
Íslands og áttum við með honum góðar stundir. Á ungaaldri er maður
ekki mikið að velta sér upp úr hlutunum. Þeir eru bara eins og þeir
eru og við því er ekkert að gera. Lítið sem ekkert samband var á milli
okkar frá því að ég var 9 ára til 19 ára. Þá ákvað hann að selja
búgarð sem hann átti úti og flytja heim. Það má segja að ég hafi
kynnst pabba mínum þá. Við hittumst reglulega og áttum oft mjög gott
spjall. Ég kynntist yndislegum manni sem var bæði fróður, hlýr og
hafði mikla kímnigáfu. En á sama tíma þá áttaði ég mig á því að pabbi
átti við geðhvarfasýki að stríða. Á þessum tíma sem pabbi bjó heima á
Íslandi var hann og hans persónuleiki heltekin af sýkinni. Hann hafði
verið að vinna sig út úr áfengissýki í gegnum samtök AA en það sem kom
í ljós var að áfengissýki var bein afleiðing af geðhvarfasýkinni sem
lítill skilningur var á, á þeim tíma. Það sem verra var að kerfið á
Íslandi brást honum nánast algjörlega og hafði hann engan aðran kost
en að flytja aftur út til Danmerkur sem má segja að hafi verið nokkrum
skrefum á undan okkur í meðhöndlun á veikinni. En eftir að hann flutti
aftur út, tók við annar eins kafli þar sem við höfðum lítið samband.
En svo kom að því að ég flutti sjálfur út til Danmerkur í nám og þrátt
fyrir að við byggjum á sitt hvorum endanum á Danmörku þá höfðum við
töluvert samband og bauð hann mér nokkrum sinnum upp til Struer þar
sem hann þá bjó. Þar kynntist ég Signe sem má segja að hafi verið
síðasta ástkona hans í lífinu og til fjölda ára. Þau bjuggu í fallegu
húsi með stórum garði. Pabbi hafði alltaf haft mikinn áhuga á garðrækt
og bar garðurinn þess merki. Fallegri garð hafði ég varla séð. Enn og
aftur áttum við góðum tíma saman. Við gátum talað opinskátt um
veikindi hans, um samband okkar og sambandsleysi og það sem var
mikilvægast var að við vildum báðir byggja upp traust samband á milli
okkar. Ég flutti heim til Íslands og eftir það héldum við góðu
sambandi þó svo að það hafi nánast eingöngu verið í gegnum síma. Hann
setti sig vel inní mín mál og sýndi strákunum okkar Sifjar mikinn
áhuga og talaði við þá oft á tíðum. Hann hafði náð má segja fullum
bata af veikindum sínum og átti pabbi mörg góð ár áður en hann lést.
Hann greindist með sykursýki 2 fyrir um hálfu ári og tók hann því eins
og hverju öðru viðfangsefni í sínu lífi. En tveimur mánuðum seinna
uppgötvaðist krabbamein í lifrinni og í briskirtli. Kom það fljótlega
í ljós að ekki yrði ráðið við meinið og honum ekki gefinn langur tími.
Hann tók fréttinni með eindæma ró, yfirvegun og æðruleysi. Hann hófst
handa við að ganga frá og selja húsgögn, pakka niður öllum eignum
sínum og flytja til Íslands til að kveðja sitt fólk. Mánuðurinn sem
pabbi átti hér heima var honum dýrmætur og eins fyrir okkur systkinin
og vinina. Ég átti margar stundir þar sem ég sat við hlið hans og við
ræddum gömul mál og ný. Á þessum tíma fann ég hvað virðing mín og
væntumþykjan fyrir honum óx með hverjum degi. En svo fór að hann fann
að hann átti ekki mikið eftir, skipulagði sína eigin jarðaför og
lagðist til hvíldar. Í dag er ég fyrst og fremst glaður yfir að hafa
þá mynd af föður sem veitir mér hlýju og ró. Honum er ég þakklátur
fyrir að kenna mér visku um fyrirgefningu, fordóma og auðmýkt.
Starfsmönnum Landspítalans bæði á Hringbraut og á líknardeild vil ég
þakka fyrir góða umönnun á meðan hann dvaldi þar.