Björn Björnsson fæddist á Syðra Laugalandi í Eyjafirði 8. júní 1947 Hann lést 18. desember sl. Foreldrar hans eru Margrét Þorsteinsdóttir húsmóðir, f. 12. febrúar 1922, d. 29. ágúst 2009 og Björn Ólafur Ingvarsson, fyrrverandi yfirborgardómari í Reykjavík, f. 20. maí 1917. Bræður Björns eru þeir Ingvar lögmaður, f. 8.júlí 1944, d. 7.apríl 1997 og Þorsteinn prentari, f. 31.júlí 1945. jörn var í sambúð með Sigrúnu Halldórsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 12. mars 1950, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Björn Viðar nemi, f. 23.júlí 1986 og Margrét, nemi, f. 10. desember 1991. Uppeldisbörn Björns eru þau Halldór Guðfinnsson flugstjóri, f. 30. nóvember 1973 og Hildigunnur Guðfinnsdóttir flugfreyja, f. 6.júlí 1977. Björn bjó alla sína tíð í Hafnarfirði. Hann gekk í Lækjarskóla, Flensborg og Núp í Dýrafirði einnig var hann í verslunarskóla í Brighton á Englandi. Björn var formaður aðalstjórnar íþróttafélagssins Hauka árið 1973-’74 og formaður handknattleiksdeildar Hauka 1985-’87. Hann var ötull framsóknarmaður ásamt því að taka þátt í starfi Frímúrarareglunnar í Hafnarfirði. Björn starfaði til fjölda ára í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, rak heildverslun var verslunarmaður og bókari hjá bandaríska hernum. Árið 2001 veikist hann og lét þá af störfum. Björn verður jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, þriðjudaginn 5. janúar og hefst athöfnin kl, 13.

Björn Björnsson fæddist 8. júní 1947 á Laugalandi í Eyjafirði. Þar var föðuramma hans Jónína Björnsdóttir prestsfrú. Í þá tíð bjuggu foreldrar hans Björn Ingvarsson síðar yfirborgardómi og Margrét Þorsteinsdóttir, systir undirritaðs að Kaupangi í Kaupangssveit, mikilli vildisjörð. Systir mín Margrét, sem  lést 29. ágúst s.l. á 87 aldursári hafði kynnst Birni Ingvarssyni þegar þau voru bæði við nám í Menntaskólanum á Akureyri. Björn lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands vorið 1944 og settust þá ungu hjónin að í Kaupangi þar sem þau ráku mikinn búskap en Björn stundaði einnig lögmannsstörf á Akureyri. Á skólaárum mínum í Menntaskólanum á Akureyri var ég heimagangur í Kaupangi og eyddi þar að minnsta kosti tveimur jólum en þá tíðkaðist ekki að Austfirðingar kæmust heim í jólafríin sín. Margrét mín eina og eldri systir reyndist mér þá sem alla tíð mjög vel og sama gegndi með mann hennar Björn, einn af mætari mönnum á minni lífsleið.Björn hafði fengið Kaupang í arf frá föður sínum, Ingvari Guðjónssyni stórútgerðarmanni en Margrét systir mín undi sér ekki þar sem leiddi til þess að þau ákváðu að bregða búi. Björn réðist sem fulltrúi til sýslumannsins í Hafnarfirði síðla árs 1947. Þangað fluttu þau með synina þrjá, Ingvar síðar lögmann sem lést 1997 úr krabbameini og Þorstein sem er einn eftirlifandi af þeim bræðrum. Þau bjuggu alla tíð í Hafnarfirði og þar ólust synirnir upp á myndarheimili en Margrét systir mín var mikil húsmóðir. Björn gegndi embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli í rúm tuttugu ár þar til hann var skipaður yfirborgardómari í Reykjavík.Fjölskyldan stundaði hestamennsku og átti lengst af nokkur hross. Bjössi, eins og hann var jafnan kallaður lauk námi að Núpi í Dýrafirði og var síðan í tvo vetur í verslunarskóla í Brighton á Englandi. Bjössi bar sig alla tíð jafn vel og hann kom mér fyrst fyrir sjónir. Það var þegar hann kom til Reyðarfjarðar með Catalinaflugbát og var í umsjón flugþernu þar sem ég tók á móti honum við höfnina. Hann hefur þá verið fimm ára og var með grænan hatt með kverkól undir hökuna og í kúrekaskyrtu,  stuttbuxum og háum sportsokkum. Hann var góður með sig, þjáðist ekki af  minnimáttarkennd hvorki þá né síðar. Björn starfaði lengi í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli og rak eigin heildsölu. Hann eignaðist tvö börn, Björn Viðar og Margréti, með þáverandi konu sinni, Sigrúnu Halldórsdóttur.  Fósturbörn hans tvö, Hildigunnur og Halldór, voru honum einnig afar kær. Hann var alla tíð barngóður maður.Björn fékk heilablóðfall fyrir allmörgum árum og lamaðist á annarri hlið en hélt þó máli og skýrri hugsun. Eftir áfallið spilaði hann mikið og var fær bridgespilari enda spilaði hann  brids fjórum til fimm sinnum í viku þar af einn dag með mér og Jóni bróður mínum fyrrum yfirlækni og Birgi Jóhannssyni fyrrum tannlækni. Birgir hélt nákvæmt uppgjör um stöðu manna í bridginum og við síðustu útskrift  kom í ljós að Björn var sá eini sem var í plús en við hinir allir í mínus og ég í honum mestum.Björn hafði létta og góða lund og var ákaflega vel að sér um menn og málefni. Ég á ánægjulegar minningar frá ferðalögum okkar um landið hin síðari ár. Hann var vel að sér um landshagi og þekkti öll meginbýli hringinn um landið. Hann var ákaflega hændur að Fljótsdalshéraði og feðraslóðum okkar Egilsstöðum og því umhverfi öllu. Hann var ættrækinn með afbrigðum, sótti mikið til Egilsstaða. Var um tíma hjá Pétri afabróður sínum á Egilsstaðabúinu sem þá var tvískipt milli bræðranna Péturs og Sveins Jónssona en Þorsteinn faðir minn og afi Bjössa var elstur Egilsstaðasystkina en þau voru alls átta. Auk nefndra þeir Egill héraðslæknir á Seyðisfirði og Bergur bóndi að Ketilsstöðum á Völlum. Systurnar voru Sigríður, Ólöf og Unnur.

Það var ekki skrýtið þótt það hafi soðið á Birni framsóknarmennskan, eins og einhver sagði í gríni. Afi hans Þorsteinn kaupfélagsstjóri og stjórnarmaður í SÍS áratugum saman var einn helsti framsóknarpáfi Austurlands. Margrét móðir hans var alla tíð mikil framsóknarmanneskja og er þá vægt til orða tekið. Ég og börn mín vottum öldruðum föður Björns, Birni Ingvarssyni, sem nú dvelur að Hrafnistu í Hafnarfirði, Þorsteini bróður hans, börnum Björns, fósturbörnum og Sigrúnu móður þeirra, innilega samúð vegna sviplegs fráfalls okkar kæra frænda. Blessuð sé minning góðs drengs.

Þorgeir Þorsteinsson

Kæri vinur. Við hjónin þökkum fyrir samfylgdina og allar ferðirnar á Þingvöll og í Hveragerði og einnig fyrir alla kjötsúpudagana sem við áttum saman. Takk fyrir allt gott.

Eygló Ebba Hreinsdóttir og Sigurjón Grétarsson Hátúni 10.

Mér er allveg sama hvernig allir aðrir leikir fara, bara að þið vinnið FH" þetta heyrði ég mjög svo oft frá pabba mínum, sama þó að ég væri ekki lengur leikmaður Hauka þá átti ég bara að sjá til þess að mitt lið sigraði FH, allt annað skipti ekki máli. Það er svo sárt að hugsa til þess að ég fái aldrei að sjá né heyra í þér aftur, þó ég hafi oft á tíðum ekki þolað þegar að þú hringdir snemma á morgnanan sem var samt ekki snemma hjá þér þá sakna ég þess mjög núna. Minningin um þig er hlý, þú varst svo góður við okkur krakkana öll, reddandi okkur vinnum hér og þar og vildir allt fyrir okkur gera, þú stóðst alltaf á þínu sama hvað öðrum fannst enda var þér nákvæmlega sama um það hvað öðrum fannst.
Ég veit að þarna uppi fer vel um þig, amma er örugglega búin að hella uppá kaffi fyrir ykkur bræður og þú færð nógan sykur í bollann eins og þú villt hafa kaffið þitt. Það er sérstök tilfinning að missa föður sinn og vonandi læri ég að lifa án þín þó að til þess sé ömurlegt að hugsa.
Hrósin sem ég fékk frá þér eru mér svo dýrmæt núna að ég veit þú trúir því ekki.
Ég hef þetta ekki lengra, minningin um þig verður ávallt í huga mér um aldur og ævi.

Guð geymi þig.

Björn Viðar Björnsson.

Elsku Björn, þú ert farinn frá okkur allt of snemma og skyndilega. Sorgin knúði dyra og er enn hjá mér.

Þú varst uppeldisfaðir minn frá sex ára aldri og reyndist mér vel, þó svo að ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en á fullorðinsaldri. Við áttum kannski ekki alltaf skap saman en mikið ofboðslega þótti mér vænt um þig. Það er svo margt sem ég hefði vilja við þig ræða elsku Björn, en nú er það orðið of seint og það hryggir mig óendanlega mikið. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Þú varst vinamargur og áttir auðvelt með að koma ódælum unglingnum í góða vinnu á sumrin. Alltaf varstu boðinn og búinn að aðstoða mig í einu og öllu, fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Í minningunni lifa margar góðar stundir á Miðvanginum, á hestbaki, á ferðalagi innanlands sem utan, í Kolstaðagerði og hjá ástríkum foreldrum þínum, afa og ömmu á Sunnuvegi í Hafnarfirði. Ég spilaði körfubolta með Haukum í mörg ár, þó svo að þú teldir handboltann henta mér betur og hafðir rétt fyrir þér í því sem og mörgu öðru, en ég var alltaf uppreisnargjarn í þinn garð og fór mínu fram. En Haukamaður varð ég engu að síður.

Barngóður varstu og ráðagóður með eindæmum, með lúmska bíladellu þó svo að þú vildir aldrei viðurkenna það. Hauka stuttir þú af ástríðu og framsóknarmaður varstu fram í fingurgómana.

Ég kveð góðan dreng, félaga og föður með sorg í hjarta en minningarnar munu ávallt lifa. Guð geymi þig.

Halldór Guðfinnsson