Mary var Norðmaður að uppruna, fædd stuttu eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar, í Osló 5. janúar 1914. Hún andaðist á Ulset Sykehjem í Bergen miðvikudaginn 2. desember síðast liðinn. Mary giftist Magnúsi Einarssyni frá Stykkishólmi þann 6. júlí 1950. Magnús var fæddur 4. nóvember 1916. Kjördóttir Mary og Magnúsar er Erla-Berit Einarsson fædd 30. janúar 1958. Sonur Erlu-Berit er Tom-Eirik Einarsson fæddur 6. Janúar 1989. Mary og Magnús fluttu búferlum til Noregs vorið 1964, en Magnús lést ári síðar þann 29. júní 1965. Fjölskyldan hefur æ síðan búið í Bergen í Noregi. Mary var til fjölda ára virkur félagi í Íslendingafélaginu í Bergen, yfir 20 ár var hún gjaldkeri félagsins og var sérstaklega annt um Þorrablótin sem haldin voru á staðnum á þeim tíma. Mary Amalie Einarsson var jarðsungin frá Åsane gamle kirke í Bergen miðvikudaginn 9. desember síðastliðinn.

Hún var tryggur Íslandsvinur.  Tryggðin við Ísland og það sem íslenskt er var einstök.  Mary kom í heimsóknir, skrifaði bréf og hafði samband.  Þetta brást ekki svo lengi sem heilsan leyfði en nú eru heil 45 ár síðan þau fluttu búferlum frá Íslandi.  Það var eins og hún væri alltaf handan við hornið, þrátt fyrir fjarlægð og fjölda ára frá því að hún bjó hér í Reykjavík.  Dýrmæt gjöf að eiga svona vini sem láta mann sig varða og sinna vel þrátt fyrir mikla fjarlægð.

Mary og Magnús voru nánir vinir foreldra minna Ívu og Halldórs.  Sú trygga vinátta entist þeim ævina.  Fyrstu minningarnar um vinatengslin voru spilakvöldin sem einkenndust af húmor og léttleika.  Svo voru það heimsóknirnar á milli húsa á Rauðalæknum, Erla-Berit komin í heiminn og norsku þunnu vöfflurnar hennar Mary sem voru svo sérstakar og einstaklega góðar.  Seinna voru svo lengri og styttri heimsóknir frá Noregi og bréfin hennar Mary til mömmu.

Kynslóðir koma og kynslóðir fara.  Forverar hafa mótandi áhrif á líf komandi kynslóða, hver persóna á sinn einstaka hátt og fleiri saman í samlegð góðra eiginleika.  Nú hafa þau öll, Íva, Halldór, Magnús og Mary, kvatt þetta jarðlíf og horfið á vit æðri verka.  Þau sem létu sig líf okkar varða og var annt um velferð í heilindum og kærleika.  Vert er að þakka og gleðjast yfir því sem líf þeirra gaf.

Mörg brot góðra minninga um Mary streyma fram.  Efst í huga er hlátur, glaðværð og hressleiki.  Hún var alltaf til í glens og grín.  Það var þetta sem var svo heillandi við hana Mary.  Ein skemmtileg minning um glaðværð og einlæga kæti Mary stendur þó öðrum fremur.  Það var þegar hún, stuttu fyrir áttræðisafmæli móður minnar, hringdi og sagðist vera að koma óvænt í afmælið og vildi umfram allt koma mömmu og pabba að óvörum.  Mary var þá mest um vert að skapa með þessu vinum sínum, Ívu og Halldóri, ógleymanlega uppákomu.  Hún kom frá Noregi og dvaldi á heimili mínu til að leggja á ráðin.  Til að skapa bestu aðstæður var mömmu og pabba boðið í mat á sjálfan afmælisdaginn, þó búið væri að bjóða til stórveislu daginn eftir.  Mary beið spennt í lokuðu herbergi á meðan matargestirnir mættu og komu sér fyrir.  Það var svo ekki fyrr en að allir voru sestir til borðs að Mary, þá orðin 82 ára gömul, birtist í stofunni skellihlæjandi, eldhress og kát.  Ung í anda, ávallt tilbúin í glens og gleði, komin alla leið frá Bergen til að gleðja vini sína á Íslandi.  Og það tókst svo sannarlega.  Þarna tókst Mary heldur betur að skapa óvænta og skemmtilega uppákomu eins og henni einni var lagið.

Við heiðrum minningu Mary í dag 5. janúar 2010, hún hefði orðið 96 ára á þessum afmælisdegi.  Þakklæti er okkur efst í huga, þakklæti fyrir tryggðarbönd og sterk tengsl í anda vináttu og kærleika.  Fjölskyldan sem eftir stendur er fámenn.  Megi okkur bera gæfa til að halda í heiðri og minnast þeirra tengsla sem til var sáð.  Arfleiðin gefur okkur tilefni til að þeim verði viðhaldið.  Við fjölskyldan vottum Erlu-Berit og Tom-Eirik innilega samúð við fráfall Mary.  Megi Guð vera með ykkur og leiða áfram lífsins veg í ljósi kærleikans.

Gyða Halldórsdóttir.