Jón Kristberg Sigurðsson fæddist í Reykjavík 25. nóvember 1941. Hann lést á Landspítala við Hringbraut 23. desember sl. Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson Jónsson, f. 1904, d. 1984 og Jónfríður Kristbjörg Halldórsdóttir, f. 1902, d. 1986. Bróðir Jóns er Óskar Ágúst bólstrari í Reykjavík, f. 1939. Jón kvæntist 15. apríl 1978 Margréti Viðarsdóttur úr Reykjavík, f. 1946. Foreldrar hennar eru Viðar Sigurðsson, f. 1915, d. 1985 og Guðný Berndsen f. 1922. Dætur Jóns og Margrétar eru: 1) Berglind, f. 1974, gift Vilhjálmi Óla Valssyni. Börn þeirra eru: Kristberg Óli, f. 1999, Dagný Heiða, f. 2003, Bjarki Freyr f. 2005 og Guðný Sunna f. 2007. 2) Guðný, f. 1980. Jón lærði húsgagnasmíði og starfaði við þá iðn hjá Gamla Kompaníinu í mörg ár. Í seinni tíð gegndi Jón ýmsum verkamannastörfum í Reykjavík og undir það síðasta hjá Óskari bróður sínum. Jón byrjaði á unga aldri að æfa knattspyrnu með KR og var í gullaldarliði KR á 7. áratug síðustu aldar og var fyrirliði liðsins þegar hann ákvað að söðla um og skipta yfir í Fylki og taka þar þátt í uppbyggingarstarfi hjá nýju félagi í nýju hverfi. Útför Jóns fer fram frá Seljakirkju í dag, 5. janúar, og hefst athöfnin kl. 11.

Elsku pabbi.

Ég vona að þú sért búinn að koma þér vel fyrir á nýja staðnum. Ég hugsa til þín daglega og minnist alltaf góðu stundirnar sem við áttum saman. Þau voru ófá skiptin sem við systur og þú fórum saman út á grasvöll og lékum okkur í fótbolta, einnig borðtennismótin sem voru alltaf einu sinni á ári að morgni aðfangadags. Ég er ekki frá því að þú leyfðir mér einu sinni að vinna af því ég var alltaf svo tapsár. Þú varst aldrei lengi að hressa mig ef ég var eitthvað döpur. Þú áttir alltaf auðvelt með að fá mig til að hlæja en það var bara vegna þess að þú varst með svo smitandi hlátur.

Ég met það alltaf mjög mikils hversu vel þú studdir mig í boltanum og hversu duglegur þú varst að mæta á leiki hjá mér. Sérstaklega sem barn því stuðningur foreldra skiptir svo miklu máli. Mér hlýnaði alltaf mikið við það ef ég sá glitta í þig á hliðarlínunni, líka á fullorðinsárunum þegar ég var komin í meistaraflokk. Fannst alltaf svo gott að sama hvað ég tók mér fyrir hendur að þá studdir þú mig alltaf eða settir aldrei neitt út á það sem ég var að gera. Þú sagðir alltaf það sama við mig aftur og aftur. Ég vil bara að þú sért ánægð Guðný mín, ef þú ert ánægð að þá verð ég ánægður. Þetta eru orð ég mun alltaf geyma í mínu hjarta.

Það var alltaf svo gaman að hafa þig nálægt og sem barn að þá vildi ég aldrei að þú færir í vinnuna á morgnana því þá varstu að fara frá mér. Alltaf faldi ég vinnuskóna þína á hverjum morgni og gerði þér mjög erfitt fyrir að mæta á réttum tíma í vinnuna. Aldrei varstu reiður við mig eða skammaðir mig. Þetta var bara einlægur ásetningur minn að hafa pabba alltaf hjá mér. Þannig er það í dag. Mig nægir einfaldlega að loka augunum og hugsa til þín því ég veit að þú verður alltaf hjá mér í mínu hjarta.

Farðu rosalega vel með þig pabbi minn. Mun alltaf elska þig.

Þín dóttir,


Guðný.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast föðurbróður míns Jóns Kr Sigurðssonar, Jón frændi var  einstaklega ljúfur og barngóður maður og þess fékk ég að njóta í ríkum mæli þar sem ég ólst upp mín fyrstu ár í sömu íbúð og hann ásamt Sigurði afa, Jónu ömmu, pabba og mömmu í verkamannabústöðunum á Hofsvallagötu.

Jón var snillingur með bolta og víst er að hann og Halldór Kjartansson vinur hans settu Íslandsmet ef ekki heimsmet þegar þeir skölluðu bolta sín á milli fjögurþúsund og áttahundruð sinnum, Kjartan faðir Hadda taldi og vottaði þetta ótrúlega afrek, einnig gat hann skallað bolta yfir fimmhundruð sinnum  upp í loft einn og óstuddur, þetta leika ekki margir eftir.

Jón hóf feril sinn í íþróttum með KR lék bæði handbolta og fótbolta en fótboltinn varð síðan hans aðal íþrótt. Jón lék  í mörg ár með KR en fyrir tilstuðlan föður míns Óskars Á Sigurðssonar sem þá var formaður knattspyrnudeildar og þjálfari fyrsta meistaraflokks Fylkis ákvað Jón að skipta um félag. Jón lék með Fylki í nokkur ár  og  endaði síðan feril sinn með Fylki, Jón var yfirburðamaður í fótbolta mjög skotviss og skotfastur og voru þau mörg mörkin sem hann skoraði á ferlinum bæði fyrir KR og Fylki.

Jón safnaði ekki veraldlegum auði en ég er viss um að þeim mun meiri andlegum auð hefur honum áskotnast fyrir alla þá góðmennsku og umhyggju sem hann sýndi öðrum í þessu lífi, Kannski var hann sjálfum sér verstur og sínum allra nánustu á stundum þegar hann glímdi við bakkus og sjálfan sig og segja má að sá fyrrnefndi hafi sigrað þá glímu.

Jón frændi vildi allt fyrir alla gera, hjálpsamur og  góður bæði við menn og dýr, hann var alltaf sérstaklega góður við strákana mína og hann kunni virkilega að sýna hlýju, ég og Haddý konan mín viljum  þakka þér elsku frændi  sérstaklega fyrir það.

Jón  frændi og Margrég konan hans eignuðust tvær dætur þær Berglindi og Guðnýju, ég bið góðan Guð að blessa ykkur allar á þessari sorgarstundu, einnig Villa tengdason og öll afabörnin. Megi minningin um góðan  eiginmann, föður, tengdaföður, afa, bróður, og frænda lifa að eilífu.

Guð blessi ykkur öll.

Bjarni Óskarsson og fjölskylda.

Þann 5. janúar kvaddi ég vin minn til margra ára, Jón Kristberg. Við kynntumst þegar ég var sextán ára gamall en Jón var faðir náinnar vinkonu minnar. Ég dvaldist inni á heimili þeirra oft og var ætíð skemmtilegt að vera í kringum þau fjölskylduna. Jón Kristberg var hlýr og góður maður og alveg sérstaklega fyndinn. Hann gat reytt af sér brandarana þannig að maður lá í gólfinu með magakrampa. Ég man sérstaklega eftir einu slíku skipti. Þá vorum við stödd hjá bróður Jóns. Við stóðum úti á bílaplani, þar lá penni í jörðunni. Jón beygði sig niður, tók pennann upp og sagði við mig: Nau, átt þú þennan? Þessi setning gleymist seint. Enn þann dag í dag hlæjum við Begga (dóttir Jóns) að þessu.

Jóns Kristbergs verður sárt saknað og mun hann lifa i minningu okkar. Ég votta allri fjölskyldu Jóns samúð mína og bið guð um að gefa þeim styrk í sorginni.

Ykkar,

Guðmundur.