Hrafnkell Kristjánsson, fæddist í Reykjavík 18. janúar 1975. Hann lést á gjörgæsludeild LSH í Fossvogi 25. des. 2009 af afleiðingum umferðarslyss. Foreldrar hans eru Bryndís Guðmundsdóttir, kennari og kennsluráðgjafi, f. 1943 og Kristján Ólafsson, lögmaður, f. 1943. Síðari kona Kristjáns, föður Hrafnkels, er Helga Snorradóttir, f. 1958. Bróðir Hrafnkels er Ólafur Helgi Kristjánsson, f. 1968, sambýliskona Aldís Pála Arthúrsdóttir, f. 1967. Kona Hrafnkels er Guðríður Hjördís Baldursdóttir, starfsmannastjóri NORVIK, f. 16. júlí 1975. Þeirra börn eru Atli, f. 5. júní 2000 og Þóra, f. 12. okt. 2006. Foreldrar Guðríðar Hjördísar eru Baldur Gunnarsson, fv. stýrimaður, f. 1942 og Edda Karen Haraldsdóttir, húsmóðir, f. 1943. Hrafnkell flutti með foreldrum sínum til Hafnarfjarðar á fyrsta ári og hefur átt þar heimili síðan utan þann tíma sem hann og Guðríður voru við námi í Bandaríkjunum á árunum 1997-2002. Skólaganga Hrafnkels hófst í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Þaðan lá leiðin í MR hvaðan hann lauk stúdentsprófi árið 1996. Eftir stúdentspróf hóf hann nám við University of South Alabama í Bandaríkjunum og lauk þaðan BA prófi í sálarfræði árið 2002. Árið 2003 hóf Hrafnkell störf á íþróttadeild Ríkisútvarpsins sem íþróttafréttamaður og gegndi því starfi alla tíð. Á skólaárunum starfaði Hrafnkell m.a. við knattspyrnuþjálfun barna og ungmenna, umsjón á leikjanámskeiðum auk þess að starfa í lögreglunni í Hafnarfirði tvö sumur. Hrafnkell var vel liðtækur í íþróttum. Lék m.a. handknattleik og knattspyrnu með FH í Hafnarfirði. Varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari með í yngri flokkum FH bæði í handknattleik og knattspyrnu og lék allmarga landsleiki með ungmennaliðum Íslands í knattspyrnu auk þess að leika um hríð með meistaraflokki FH í sömu grein. Útför Hrafnkels fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, mánudaginn 4. janúar, kl. 13.

Það var enginn betri Ragnar Reykás.

Það var enginn betri Kristján heiti ég Ólafsson.

Það var enginn meiri keppnismaður.

Það var enginn meiri grínari.

Það var enginn skemmtilegri í hópi fólks.

Það var enginn betri Steve Irwin.

Það var enginn betri miðjumaður.

Það var enginn betri í að bera fram hin skrítnustu nöfn erlendra leikmanna.

Það voru fáir meiri leiðtogar.

Það voru fáir jafn brosmildir.

Það voru fáir betri vinir.

Það var enginn betri drengur.

Það var enginn annar Hrafnkell.

Vertu sæll minn kæri vinur. Ég sakna þín.

Elsku, Gurrý, Atli og Þóra, Bryndís, Kristján og Óli. Hrafnkell var eins og fyrir misskilning hrifsaður frá ykkur í blóma lífsins. Hugur minn er hjá ykkur.

Ólafur Már Svavarsson

Maður á besta aldri kallaður burt frá ungri fjölskyldu og stórum og miklum vina- og ættingjahópi. Hugur okkar FH-inga var allur hjá fjölskyldu Hrafnkels þegar við fengum að vita að hann hafi orðið undir í hinni erfiðu lokabaráttu. Við eins og aðrir fáum engin svör við þeirri áleitnu spurningu, hvers vegna hann?

Hrafnkell var einn af þeim mörgu ungu drengja sem lögðu sitt á vogarskálarnar til að gera FH að því stórveldi sem það er í dag. Hann æfði handbolta og fótbolta í félaginu frá unga aldri, var leiðtogi í sínum hópi, kraftmikill leikmaður með mikla spyrnugetu og gott auga fyrir samleik, á hann var alltaf hægt að treysta. Foreldrarnir þau Bryndís og Kristján stóðu vel að baki drengnum og komu að hinu mikla starfi í félaginu með stráknum eins og þau höfðu gert með stóra bróðir, Ólafi Helga, á árum áður, annað heimili fjölskyldunnar var í Kaplakrika.

Hrafnkell var liðsmaður í sterkum og góðum hópi vaskra drengja sem urðu fyrstu Íslandsmeistarar FH í karlaflokki í knattspyrnu, 5. flokkur 1986, og titlarnir urðu fleiri, en í þessum hópi voru margir sem hafa síðan haldið merki félagsins á lofti, bæði innan- og utan vallar. Hrafnkell lék síðan með öllum flokkum félagsins við góðan orðstír. Hrafnkell lék fjölda unglingalandsleikja fyrir Íslands hönd. Hin seinni ár hefur Hrafnkell starfað sem íþróttafréttamaður hjá RÚV og þ.a.l. ekki verið beint í starfi hjá FH en alltaf var hann FH-ingur og lagði sitt af mörkum ásamt því að stunda fótboltann í Kaplakrika með félögum og vinum.

Við FH-ingar höfum misst góðan liðamann en hugur okkar og samúð er hjá ykkur fjölskyldunni, Guðríði, Atla, Þóru, Kristjáni, Bryndísi, Ólafi H. og Aldísi, megi góður Guð vernda ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímum.

Viðar Halldórsson formaður FH.

Ég hef setið undanfarna daga og starað á tölvuskjáinn og lyklaborðið til skiptis.  Mér finnst að ég verði að skrifa nokkur minningarorð um Hrafnkel Kristjánsson, litla bróður Óla æskuvinar míns.  En þegar hugurinn svífur yfir allar þær góðu minningar sem ég á og tengjast Hrafnkeli, skríður fram eitt lítið tár, svo annað og svo fleiri.

Það var á síðasta skóladeginum fyrir jól þegar mér bárust fregnir af því sem gerst hafði.  Jólastund starfsfólks Áslandsskóla síðar þann dag varð með allt öðrum hætti en vant er.  Fólk var slegið, íhugult og eflaust flestir að velta fyrir sér hve lífið getur verið grimmt og ósanngjarnt.  Já hversu ósanngjarnt getur lífið í raun verið?  Af hverju fékk Hrafnkell ekki að vera með okkur lengur?  Hrifinn á brott með sviplegum hætti svo ungur frá yndislegri fjölskyldu og fjölmörgum ástvinum.

Maður neitar að trúa því að lýsingu hans af sínum eigin stærsta kappleik sé lokið.

Eins og lækur loks er vorar

löngun eykur dropafall,

klýfur sundur klettastall:

mikill, góður maður sporar

mörgum braut um tímans fjall.

(Sigurbjörn Sveinsson)

Hrafnkell hafði, þrátt fyrir ungan aldur, markað sín góðu spor víða. Fyrstu minningarnar leita til efstu hæðarinnar í rauðu blokkinni hjá Bryndísi og Kristjáni, en þar átti ég ófáar indælar stundir er við Óli lékum okkur saman, fengum nestisbita hjá Bryndísi, umhyggjufaðm og hlýju, horft á leik eða kappleikirnir á skólamölinni eða Víðistaðatúninu ræddir með ítarlegum hætti.  Hrafnkell þá lítill pjakkur.

Nokkrum árum síðar tók ég þátt í að aðstoða við fyrstu knattspyrnuæfingar Hrafnkels þar sem magnað var að fylgjast með ákefðinni, dugnaðinum og metnaðinum sem síðar voru rauður þráður í hverju því sem Hrafnkell tók sér fyrir hendur. Hrafnkell var góður knattspyrnumaður.  Öflugur á miðjunni, samviskusamur og lunkinn við að stinga sér af miðsvæðinu inn í vítateig andstæðinganna.

Er ég tók við starfi skólastjóra Áslandsskóla fékk ég Hrafnkel til að taka að sér forfallakennslu. Hann hafði kennarann í blóðinu frá Bryndísi móður sinni, sinnti nemendum af nærgætni og alúð, setti sig vel inn í viðfangsefnið hverju sinni og náði vel til nemenda. Síðar hóf Atli sonur Hrafnkels og Gurríar nám við Áslandsskóla þar sem hann stundar nú nám í 4. bekk og ávallt gaf Hrafnkell sér tíma til að líta við á kaffistofunni, taka stöðuna á mönnum og málefnum, skjóta með glettni og góðum húmor skemmtisögu í loftið eða bara taka einn kaffibolla í rólegheitunum.

Hrafnkell var sannarlega á réttri hillu í fréttamennskunni.  Var fljótur að ávinna sér virðingu þeirra sem þar eru í hringiðjunni, setti sig vel inn í mál, var ávallt undirbúinn og vel að sér í því verkefni sem hann fékkst við.  Hann fékk mig til að lýsa með sér landsleikjum fyrir nokkrum misserum og var því sá aðili sem ýtti mér inn í þann geira íþróttanna.

Hrafnkell ávann sér virðingu samstarfsmanna og var gerður að íþróttastjóra RÚV, sem staðfesti faglega forystuhæfileika hans.

Við eigum ekki að geyma það til morguns að segja vinum okkar og ættingjum hve okkur þyki vænt um þá.  Við eigum ekki að standa í illdeilum vegna ómerkilegra hluta.  Skyndilegt, sviplegt já löngu ótímabært fráfall ungs manns sýnir okkur með grimmdarlegum hætti að vonlítið virðist að skrifa handrit lífsins.

Lífið er fallegt, lífið getur verið erfitt en lífið er á stundum svo óendanlega sársaukafullt.

Vonlítið virðist handrit að skrifa,

vegvísi um lífsins réttustu braut.

Nóg virðist einn dag í einu að lifa,

einbeiting að hverri einustu þraut.

(Leifur S. Garðarsson)

Elsku Gurrí, Atli og Þóra. Elsku Bryndís, Kristján, Óli og fjölskyldur, ástvinir og ættingjar allir.  Megi himnasmiður vefja ykkur ást, alúð og hlýju og styrkja ykkur öll í þessari miklu sorg og þeim mikla söknuði.

Blessuð sé minning Hrafnkels Kristjánssonar sem markaði spor í líf okkar allra.  Hvíli hann í friði.  Minningin um góðan dreng lifir.

Leifur S. Garðarsson.

Fyrir rúmum tíu árum síðan varð til hópur gamalla FH inga og fleiri sem hittist einu sinni í viku til knattspyrnuiðkunar. Leikvangurinn var reiðskemma Sörla við Kaldárselsveg. Hópurinn kenndi sig við umhverfið og kallaði sig Sörla. Hann er enn að en hefur flutt sig yfir í Risa okkar FH inga. Nafnið þó óbreytt, Sörli.

Í gegnum tíðina hafa menn komið og farið en kjarninn sá sami. Hrafnkell kom inn í hópinn fyrir tveimur árum, yngstur meðlima. Strax kom í ljós að gamla góða keppnisskapið var svo sannarlega til staðar og að ekki mátti tapa tæklingu, hvað þá heilum leik.  Fráleitt var hann skoðanalaus að því er snéri að leik eða framkvæmd hans og lét sig dómgæslu varða. Rökræður voru því algengar í kringum Hrafnkel og ekki alltaf hávaðalausar en einlægt bros og þétt faðmlag var samt yfirleitt loka niðurstaðan. Þó kom fyrir að hann arkaði út úr húsi að leik loknum teldi hann félagana á rangri braut og lagði hurðina að stöfum svo eftir var tekið. Nýr leikur hófst svo að viku liðinni með sömu baráttu og sömu leikgleði og áður.

Hrafnkell var frábær félagi. Hann var keppnismaður eins og þeir gerast bestir; aldrei lognmolla, aldrei leiðindi en endalaust keppnisskap.  Fótbolti var skemmtilegri þar sem hann var.   Hrafnkell dró að sér athygli og allir hlustuðu þegar hann lagði eitthvað til málanna. Skarðið sem hann skilur eftir sig er stórt.  Hans verður sárt saknað.  Okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina Hrafnkells.

F.h. meðlima í Sörlahópnum,

Ásgeir M. Ólafssson og Kristján Ó. Guðnason

Það dimmir yfir sálinni þegar manni berast hörmungarfregnir. Mann setur hljóðan og spurningin Hvers vegna? bergmálar í höfðinu. Minningarnar streyma fram. Hrafnkell var ári yngri en ég og hálfgerður frændi en svo mikil var vinátta foreldra okkar. Þegar ég var lítil var það alltaf mikil eftirvænting og tilhlökkun að fá að fara í heimsókn í Hafnarfjörðinn, stundum eftir töluvert suð, en mér þótti við aldrei fara nógu oft. Sem barn hafði Hrafnkell einstakt lag á að skemmta öðrum og var mikill brandarakall. Hann reitti af sér brandarana og gat hermt eftir ýmsum mönnum og var snillingur í að taka takta Bjarna Fel. og svo var hlegið og hlegið - aldrei fékk maður nóg.

Fótbolti og sérstaklega FH vekja alltaf upp minningar um Hrafnkel. Hann var strax, mjög ungur, hugfanginn af íþróttum og drakk í sig allan fróðleik um íþróttir og fylgdist grannt með þeim. Það var því ánægjulegt að sjá hann blómstra í starfi íþróttafréttaritara þar sem hæfileikar hans fengu að njóta sín sem best. Gott vald hans á íslensku máli og skýr framsetning og framburður gerðu hann að yfirburða fréttamanni.

Ungur drengur setti Hrafnkell sér markmið og var einbeittur í að ná þeim. Mér er mjög minnisstætt þegar ég fékk að vera í pössun í Hafnarfirðinum í nokkra daga, þá sennilega 12 ára og Hrafnkell 11 ára. Það var sumar og Hrafnkell var að fara að keppa í fótbolta. Markmiðið og draumurinn var að skora mark úr hjólhestaspyrnu. Mér er ógleymanleg gleðin sem skein úr andliti hans að leik loknum, - draumurinn rættist, - markið var skorað úr hjólhestaspyrnu.

Eftir að við Hrafnkell eltumst og fluttum úr foreldrahúsum varð samgangurinn lítill sem enginn eins og oft vill verða. Þó fylgdist ég með og fékk fréttir í gegnum Bryndísi sem er mér svo kær.

Ég votta fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð og bið að Guð gefi þeim styrk til að takast á við þessa miklu sorg. Bjartar minningar um góðan dreng munu lýsa veginn áfram.

Hrafnkatli þakka ég fyrir ljúfar og dýrmætar bernskuminningar.

Ólöf Huld Helgadóttir

Kveðja frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands

Það var harmafregn sem barst okkur á aðventunni. Góður félagi úr íþróttahreyfingunni barðist fyrir lífi sínu í kjölfar hörmulegs bílslyss, og lést síðan á jóladag af völdum þeirra áverka sem hann hlaut.  Hrafnkell Kristjánsson var okkur öllum kær, og naut mikilla vinsælda sem íþróttafréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu.  Líklega minnast hans flestir fyrir brosmildi og jákvæðni, hvort heldur var í framkomu eða fréttaflutningi.  Hans er sárt saknað.
Undirritaður átti þess kost að kynnast Hrafnkeli prýðilega vel persónulega í gegnum hans störf, þar á meðal í ferðalögum erlendis.  Aldrei bar skugga á þau samskipti, og var hann í senn afar duglegur og skilvirkur í sínum störfum.  Góð vinátta myndaðist, og stóð alltaf til að finna tíma til að taka saman golfhring, en auk þess að vera góður knattspyrnumaður á yngri árum var Hrafnkell snjall golfspilari.  Sá hringur verður ekki leikinn.
Það er aldrei sanngjarnt þegar ungt fólk er tekið í burtu í blóma lífsins frá fjölskyldu  og litlum börnum.  Hugur okkar er hjá fjölskyldu Hrafnkels, og vil ég fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands senda þeim samúðarkveðjur.

Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ

Kveðja frá KSÍ

Á jóladag bárust þær fregnir að Hrafnkell Kristjánsson, íþróttafréttamaður, hafi látist eftir erfiða legu á sjúkrahúsi í kjölfar umferðaslyss stuttu fyrir jólahátíð. Hrafnkell hóf ungur að leika knattspyrnu með félagi sínu FH og lék fyrir hönd félagsins í yngri flokkum og meistaraflokki. Hann var efnilegur knattspyrnumaður og lék marga leiki fyrir U17 og U19 landslið Íslands. Knattspyrnuíþróttin stóð honum ávallt nærri og ekki minnkuðu tengsl hans við knattspyrnuhreyfinguna þegar hann hóf störf sem íþróttafréttamaður á RÚV.

KSÍ gaf út rétt fyrir jól bókina Bikardraumar sem fjallar um 50 ára sögu bikarkeppninnar. Bókinni fylgir mynddiskur með sjónvarpsefni frá úrslitaleikjum þessara 50 ára og hafði Hrafnkell umsjón með því verki hjá RÚV. Hann hafði því nýlokið gerð heimildarþáttar um bikarkeppni KSÍ sem sýnir vel þann hug sem Hrafnkell bar til íslenskrar knattspyrnu.

Knattspyrnuhreyfingin hefur misst öflugan liðsmann við fráfall Hrafnkels Kristjánssonar og ekki síst FH en Hrafnkell var mikill stuðningsmaður félagsins. Við minnumst Hrafnkels sem öflugs málsvara knattspyrnunnar, íþróttar sem hann unni og iðkaði allt sitt líf, og sinnti af ástríðu í gegnum starf sitt sem íþróttafréttamaður hjá RÚV.  Við kveðjum góðan dreng með söknuði en sviplegt fráfall hans hefur snert okkur öll.  KSÍ og aðildarfélög senda fjölskyldu Hrafnkels og aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.  Hugur okkar er hjá ykkur.

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ

Keppnismaður af líf og sál, þannig minnist ég Kela.

Hrafnkell Kristjánsson var vinur minn, um tíma var hann besti vinur minn. Það eru reyndar tæp 30 ár síðan, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og maður missir tengsl en nú staldra ég við og hugsa til baka. Ég var sex ára þegar ég flutti í Rauðu blokkina (Hjallabraut 35), lítill kálfur utan af landi og eignaðist vin sem var jafngamall mér og við brölluðum ýmislegt saman. Við hentum t.d. snjóbolta, risastórum (eins og höfuð á snjókarli)  inn um gluggann hjá frúnni á neðstu hæð, beint ofan í baðið hjá henni. Svo skemmtilega vildi til að hún var í baðinu.

Árin í Víðisstaðaskóla voru ævintýri í mínum huga, engar áhyggjur, bara gleði og hamingja. Ég  var í körfunni hjá Haukum en slysaðist inn á æfingu í handbolta hjá FH, þar sem stóri bróðir þinn var að þjálfa. Svakalega var nú gaman að mega svolítið taka á mönnum, aðeins  öðruvísi en karfan. Þú og Orri voruð eins og einn maður, stjórnuðuð vörninni eins og herforingjar.

Eitt atvik rifjast upp fyrir mér þegar ég skrifa þessi orð og lýsa honum Kela ofan í kjölinn. Ég var á miðjunni í vörn með Kela við hliðina á mér og ég missi mann fram hjá mér og hann skorar.  Ég var þvílíkt fúll út í sjálfan mig og tauta eitthvað, æiii sorry! Þá segir Keli: Ekki biðjast afsökunar, taktu hann bara næst!  Með þessu er Kela vel lýst, hann var keppnismaður og það var frábært að vera með honum í liði.

Hrafnkell  hreif mann með sér! Nú síðast 31. október síðastliðinn þegar árgangamót FH í handbolta var haldið í Kaplakrika, mikið svakalega var gaman að hitta gömlu félagana. Alltaf sama harkan og keppnisskapið í þeim fóstbræðrum Kela og Orra. Ég mun aldrei gleyma síðasta sparkinu þínu yfir netið þegar keppnisskapið tók aðeins völdin, og þú lést dómarana  vinna fyrir kaupinu sínu. En þannig varst þú, af lífi og sál, alltaf þú.

Í minningu minni lifir þú

mæti vinur góði

af krafti og keppni spratt sú trú

að kappið í þér hljóði

Fjölskyldu þinni sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Einar Jón Geirsson.

Kæri gamli vinur. Ég trúi því varla að þú sért farinn frá okkur. Betri mann er vart hægt að finna. Hrafnkatli kynntist ég þegar ég var 8 ára og Hrafnkell var 7 ára. Ég var nýfluttur erlendis frá á Miðvanginn og kynntist strax Hrafnkatli sem bjó í Rauðu blokkinni og frændsystkinum hans Orra og Gígju sem bjuggu í blokkinni beint á móti mér. Mér er enn minnisstætt hvernig við kynntumst, þið voruð að leika í fótbolta fyrir aftan mína blokk. Ég þekkti engan og þið tókuð strax vel á móti mér. Á milli okkar skapaðist góður vinskapur. Á aldrinum 8 til 14 ára vorum við endalaust saman, sífellt að leika okkur í fótbolta eða handbolta, break-a, fórum í sumarbústaðarferðir, á skíði o.s.frv. Þú varst Liverpool-ari en ég United maður en báðir miklir FH-ingar. Ég kynntist vel foreldrum þínum og bróðir. Mér varð fljótt ljóst hversu greindur og minnugur þú varst enda áttir þú ekki langt að sækja það. Svo greindur varstu að oft komstu mínum foreldrum á óvart með ýmsum fróðleik, bara smá pjakki. Minnisstæðast er þó ávallt hversu mikill grallari þú varst og hvað þú gast bullað mikið. Það var ávallt stutt í húmorinn en þó ekki á kostnað annarra. Þegar við urðum eldri skildu aðeins leiðir eins og gengur og gerist. Þú fluttir upp í Setbergið og síðan fórst þú í MR og ég í Flensborg. Burtséð frá því þá héldum við alltaf sambandi og vissum vel hvor af öðrum. Síðar fórum við að spila saman körfubolta með vinum okkar, þá rifjaðist upp fyrir mér gamla góða keppnisskapið hjá þér sem var þó ávallt búið þegar inn í búningsklefann var komið aftur. Síðastliðin ár hef ég búið erlendis en samt vissi maður alltaf hvað var að gerast hjá þér í gegnum Haffa vin okkar. Ég var mjög ánægður fyrir þína hönd þegar þú fékkst starfið hjá RÚV. Ég vissi að þetta starf ætti eftir að eiga vel við þig enda sagði ég ávallt með stolti íslenskum vinum mínum úti þegar við vorum að horfa á þig lýsa leikjum á RÚV að ég þekkti þig vel frá því við vorum krakkar. Þrátt fyrir að sambandið væri ekki mikið síðastliðin ár og ég og konan mín náðum lítið að kynnast ykkur þá man ég samt vel eftir afmæli hjá Guðrúnu Steinunni vinkonu okkar 2005. Þá spjölluðum við saman fram á nótt og var eins og ekkert hefði breyst frá því við vorum krakkar. Þá hugsaði ég líka með mér hvað gæti verið gaman að kynnast ykkur Gurrý betur en stuttu síðar vorum við þó flutt erlendis. Í janúar 2006 hringdi ég í þig þegar þú varst í Sviss að lýsa leikjum Íslands og þá ákváðum við að hittast í Zurich. Ég og fjölskyldan mín lögðum af stað í 6 tíma keyrslu, 30 mínútum frá Zurich hringir þú í mig segir í léttum tóni að Ísland hefði tapað það kvöld og þú værir á leið heim daginn eftir og við myndum ekki ná að hittast. Í fyrstu hélt ég að þú værir að grínast eins og í gamla daga, því voru mikil vonbrigði að ná ekki að hitta þig og kynna þig fyrir minni fjölskyldu.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð góðan vin. Sárastur er söknuður þinna nánustu. Ég bið guð að styrkja Gurrý, Atla, Þóru, Bryndísi, Kristján og Ólaf í sorginni.

Árni S. Pétursson