Þórunn Sólveig Kristjánsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum hinn 9. desember 1922. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík hinn 27. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Kristján Sigurðsson, f. 25.7. 1885, d. 25.9. 1966, frá Ljótárstöðum í Skaftártungum og Októvía Hróbjartsdóttir, f. 31.5. 1890, d. 20.12. 1977, frá Raufarfelli Austur-Eyjafjöllum. Þórunn átti eina eldri systur, Sigurbjörtu Kristjánsdóttur, f. 20.11. 1915, d. 23.10. 2007. Þórunn giftist Birni Júlíussyni barnalækni hinn 1. maí 1954, en hann lést 6. mars 1995. Börn þeirra eru 1) Júlíus, sálfræðingur, f. 5.9. 1954, maki Elín G. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 9.2. 1954. Börn þeirra eru: a) Þórunn Jóhanna, f. 1.6. 1979, maki Þórhallur Helgason, f. 2.2. 1977, barn þeirra er Elín Dögg, f. 29.8. 2009, b) Sigríður Ása, f. 5.9. 1984, maki Andri Ólafsson, f. 1.10. 1985, c) Sólveig Birna, f. 27.7. 1990. 2) Sigurveig leikskólakennari, f. 28.9. 1966, maki Jón Einar Haraldsson kennari, f. 31.3. 1953. Börn þeirra eru: a) Hrefna Salvör, f. 23.10. 1988, d. 11.6. 1989, b) Haraldur Ölvir, f. 28.11. 1990, c) Birna Eyvör, f. 4.1. 1996. Þórunn ólst upp á Brattlandi í Vestmannaeyjum en bjó lengst af í Reykjavík. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1939 og prófi frá Hjúkrunarkvennaskóla Íslands 1946. Hún stundaði nám í Statens Svenska Sjuksköterske och Helsosysterskola í Helsingfors í Finnlandi, í heilsuvernd og lauk þaðan sérnámi í september 1952. Jafnframt lauk hún sérnámi í geðhjúkrun frá Nýja Hjúkrunarskólanum í Reykjavík í janúar 1977. Hún starfaði við hjúkrun í Vestmannaeyjum þar sem hún var yfirhjúkrunarkona frá 1947 til 1950, á Landspítalanum og á Kleppsspítalanum og á ýmsum stöðum í bæði Finnlandi, Svíþjóð og í Danmörku á De Gamles By í Kaupmannahöfn. Síðast starfaði hún við geðhjúkrun á Kleppsspítalanum. Útför Þórunnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, mánudaginn 4. janúar 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Þórunn Sólveig hinkrar settleg í vaktherbergisdyrunum; lítur sposk en íhugul yfir hópinn sem bíður eftir rapporti frá fyrri vaktinni og gefur okkur léttan tóninn eins og galgopalegur hljómsveitarstjóri á Vínartónleikum. Það var ávísun á skemmtilega vakt þegar Þórunn Sólveig var á staðnum. Hún hló með okkur starfsfólkinu virðuleg en léttlynd og ákveðin og föst fyrir þegar á þurfti að halda. Starfsmannahópurinn á deild 11  á Kleppsspítala fyrir 25-30 árum samanstóð af fjölskrúðugri flóru lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og starfsmanna á öllum aldri og Þórunn sem var í virðulegri kantinum hafði einstakt lag á öllum.

Ég var svo heppin að fá að vera á vakt með henni í nokkur ár. Að fá að vinna með Þórunni Sólveigu er það besta samskiptanámskeið sem sem ég hef tekið þátt í og hef þó setið þau mörg. Sjúklingarnir á deildinni nutu alúðar hennar nærgætni og skemmtilegheita þegar hún settist niður og spjallaði og gaf sér tíma til að ræða fram og aftur um hluti sem vöfðust fyrir og alltaf sýndi hún virðingu. Ég minnist hennar; fíngerð og hláturmild með góðan húmor fyrir sjálfri sér og öðrum. Hún tók sjálfa sig mátulega alvarlega en  geðhjúkrunarstarfinu sinnti hún af alvöru og sýndi berskjölduðum sálum hlýleika og nærgætni.

Hún var akkúrat og ég man að hún vildi  engin föt á stólum og ekkert slugs eða drasl á deildinni. Ég einsetti mér að læra af návistinni við þessa einstöku konu. Hún var mér ómetanlegur skóli og hvatning það var gott að vera nálægt henni. Ég sendi aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur.

Vort hjarta er svo ríkt af hreinni ást,

að hugir í gegnum dauðann sjást.

-Vér hverfum og höldum víðar,

en hittumst þó aftur - síðar

(Jóhannes úr Kötlum).

Guð geymi Þórunni Sólveigu. Kærar þakkir fyrir vaktina.

Jónína Óskarsdóttir.