Þorvaldur Steingrímsson fæddist á Akureyri 7.2. 1918 og ólst þar upp. Hann lést 27.12. 2009. Foreldrar hans voru Steingrímur Matthíasson, f. 31.3. 1876, d. 27.7. 1948, læknir á Akureyri, og k.h., Kristín Thoroddsen, f. 8.9. 1885, d. 7.10. 1959, húsmóðir. Systkini Þorvaldar voru Baldur, f. 3.8. 1907, d. 20.7. 1968, deildarverkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, var kvæntur Kristbjörgu Guðmundsdóttur; Bragi, f. 3.8. 1907, d. 11.11 1971, héraðsdýralæknir í Biskupstungum, var kvæntur Sigurbjörgu Lárusdóttur; Ingvi Steingrímsson, f. 21.8. 1908, d. 20.1. 1911; Anna Guðrún, f. 16.7. 1910, d. 13.10. 2006, var gift Árna Kristjánssyni, píanóleikara og tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins; Jón, f. 27.7. 1914, d. 29.1. 2004, stýrimaður í Reykjavík, var kvæntur Guðbjörgu Þórhallsdóttur; meybarn, f. 1.9. 1916, d. s.á.; Herdís Elín (Dísella), f. 23.11. 1921, d. 17.12. 1995, húsmóðir, var gift Sigurði Ólasyni, lækni á Akureyri. Eiginkona Þorvaldar var Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 5.5. 1919, d. 8.1. 1966, Jónssonar fiskkaupmanns í Reykjavík og k.h. Sigríðar Sighvatsdóttur, húsmóður frá Gerðum í Garði. Börn Þorvaldar og Ingibjargar eru 1. Sigríður, f. 12.4. 1941, var gift Lárusi Sveinsyni trompetleikara. Dætur þeirra eru Ingibjörg, Þórunn og Dísella. 2. Kristín, f. 31.10. 1942, börn hennar eru Þorvaldur Sigurður, Sif og Hrefna. 3. Halldór, f. 27.09.1 950, kvæntur Regínu Scheving Valgeirsdóttir. Börn þeirra eru Esther, Ellen, og Davíð Valgeir. Barnabörn Þorvaldar eru níu, barnabarnabörn 13 og eitt langalangafabarn. Seinni kona Þorvaldar er Jóhanna H. Cortes, f. 11.8. 1921, dóttir Lárusar Hanssonar innheimtumanns í Reykjavík, og k.h. Jónínu Gunnlaugsdóttur húsmóður. Fyrri maður Jóhönnu var Óskar T. Cortes, f. 21.1. 1918, d. 22.2. 1965, fiðluleikari. Dætur þeirra eru Jónína Kolbrún Cortes og Björg Cortes. Þorvaldur var við nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1934-37 og lærði m.a. fiðluleik hjá Þórarni Guðmundssyni. Hann lauk fullnaðarprófi í fiðluleik 1937 og var við framhaldsnám í The Royal Academy of Music í London 1946. Þorvaldur var fiðluleikari Útvarpshljómsveitarinnar frá 1944 og forfiðlari þar frá 1947. Hann var fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun hennar, aðstoðarkonsertmeistari frá 1966 og konsertmeistari við Þjóðleikhúsið á árunum 1966-80. Þorvaldur starfaði hjá Hollywood Bowl Orchestra í Kaliforníu 1961-62, var fyrsti fiðluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Dallas-borgar 1962-64 og aðstoðarkonsertmeistari hjá sinfóníuhljómsveit Oklahoma-borgar 1969-71. Hann kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík 1943-46 og var skólastjóri Tónlistarskólans í Hafnafirði 1980-88. Þorvaldur starfaði lengi í Frímúrareglunni og gegndi auk þess ýmsum trúnaðarstörfum í félögum tónlistarmanna, var formaður Félags íslenskra hljóðfæraleikara (FÍH) 1953-55, formaður Lúðrasveit Reykjavíkur 1976-78 og formaður Félags íslenskra tónlistarskólastjóra um skeið frá 1982. Þorvaldur var sæmdur heiðursmerki FÍH 1976. Útför Þorvaldar verður frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 8. janúar 2010, kl. 11.
Kveðja frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Um þessar mundir er þess minnst að fyrir réttum sextíu árum hélt Sinfóníuhljómsveitin sína fyrstu tónleika í Austurbæjarbíói, nánar tiltekið 9. mars 1950. Á meðal fjörtíu hljóðfæraleikara hinnar nýstofnuðu hljómsveitar var Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari. Þorvaldur var þá 32 ára og hafði þegar leikið um árabil með ýmsum hljómsveitum sem voru forverar Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Þorvaldur gegndi stöðu aðstoðarkonsertmeistara á fyrstu árum Sinfóníuhljómsveitarinnar og er tónlistarferill hans órjúfanlegur hluti af sögu hennar. Eftir dvöl í Bandaríkjunum á fyrri hluta sjöunda áratugsins, þar sem Þorvaldur lék með nokkrum þekktum þarlendum hljómsveitum, sneri hann aftur í Sinfóníuhljómsveitina árið 1965 og lék með henni nánast óslitið til 1979, lengst af sem aðstoðarkonsertmeistari. Eftir að Þorvaldur tók við starfi skólastjóra Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 1980 lék hann áfram reglulega með Sinfóníuhljómsveitinni fram yfir sjötugt.
Við andlát Þorvaldar Steingrímssonar er genginn einn af upphafsmönnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og var starf hans í þágu hljómsveitarinnar bæði mikið og farsælt. Að auki lagði Þorvaldur drjúgt af mörkum til íslensks tónlistarlífs sem fiðluleikari, skólastjóri og forystumaður í ýmsum samtökum tónlistarmanna.
Að leiðarlokum er Þorvaldi þakkað mikilsvert framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og eru aðstandendum hans sendar samúðarkveðjur.Sigurður Nordal framkvæmdastjóri SÍ.
Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari lést á sunnudaginn 27.desember sl. 91 árs að aldri. Hann fæddist á Akureyri 7. febrúar 1918 og voru foreldrar hans Steingrímur Matthíasson héraðslæknir og eiginkona hans, Kristín Þórðardóttir Thoroddsen. Þorvaldur eignaðist sína fyrstu fiðlu á jólunum 1929 og hóf formlegt fiðlunám 1933 við Tónlistarskólann í Reykjavík sem var þá var til húsa í Hljómskálanum við Tjörnina. Þaðan lauk hann fullnaðarprófi í fiðluleik 1937. Eftir það stundaði hann framhaldsnám við Royal Academy of Music í London 1946.
Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð 1950 var hann ráðinn fiðluleikari hjá henni og varð aðstoðarkonsertmeistari 1966. Einnig var hann konsertmeistari við Þjóðleikhúsið 1966-1980.Þorvaldur starfaði hjá Hollywood Bowl Orchestra í Kaliforníu 1961-1965, var fyrsti fiðluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Dallasborgar 1962-1965 og aðstoðarkonsertmeistari hjá Sinfóníuhljómsveit Oklahomaborgar 1969-1971. Þorvaldur var fjölhæfur tónlistarmaður og spilaði lengi vel á dansleikjum út um land allt m.a. með Poul Bernburg, Aage Lorange, Sveini Ólafssyni og Bjarna Böðvarssyni en allir þessir einstaklingar komu mikið við sögu Félags íslenskra hljómlistarmanna. Þorvaldur Steingrímsson eða Daddi eins og hann var oft kallaður var auðfúsugestur á skrifstofu FÍH. Þangað kom hann reglulega og bar ávallt með sér nýjasta hefti af riti amerískra hljómlistarmanna (American Federation of Musicians) sem hann færði okkur til fróðleiks en Þorvaldur hafði verið tilnefndur þar ævifélagi árið 1980 í Union Locale 47. Þessum heimsóknum hans fylgdu alltaf sögur af tónlistarviðburðum og tónlistarmönnum en Þorvaldur var hafsjór af fróðleik um tónlistarsögu þjóðarinnar.
Þessi þekking hans kom sér vel í ritnefnd tónlistartals FÍH en þar var Þorvaldur sjálfskipaður. allt frá upphafi. Þorvaldur Steingrímsson gegndi til fjölda ára trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna. Hann var formaður FÍH í tvö ár frá 1953-1955 og sem slíkur lét hann mikið til sín taka í málefnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hann starfaði í hljómsveitinni allt frá stofnun hennar 1950. Þorvaldur hafði forystu fyrir því að FÍH gerðist aðili að NMU sem eru norræn samtök hljómlistarmanna og sat í stjórn þeirra samtaka frá 1958-1962. Hann var varaformaður frá 1943-1946 1947-1949 1950-1951 1956-1959 og 1960-1962. Ritari félagsins frá 1966-1968 sat í trúnaðarmannaráði frá 1944-1956. Þorvaldur Steingrímsson var sæmdur gullmerki FÍH 1976.
Við hjá Félagi íslenskra hljómlistarmanna viljum þakka Þorvaldi Steingrímssyni fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt að mörkum fyrir okkur hljómlistarmenn á sínum gæfuríka starfsferli. Jafnframt viljum við þakka honum fyrir þann hlýhug og áhuga sem hann sýndi starfsemi FÍH alla tíð. Þorvaldur var góður listamaður og afskaplega fjölhæfur. Orðstír hans mun lifa áfram. Við færum eiginkonu Þorvaldar Jóhönnu Cortes , börnum og ættingjum hans innilegar samúðarkveðjur.
Björn Th. Árnason formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna