Sigríður Kristín Árnadóttir fæddist á Þyrnum í Glerárhverfi á Akureyri 1. febrúar1930. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð 24. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Hálfdánardóttir, f. á Grænhóli í Kræklingahlíð í Eyjafirði 1906, d. 1980, og Sigurður Árni Sigurðsson, f. á Akureyri 1874, d. 1946. Alsystur Sigríðar eru, Anna Sigrún í Reykjavík, gift Sverri Jónatanssyni, Regína Þorbjörg á Akureyri, gift Svavari Sigursteinssyni og Halldóra, d. 2005, gift Snorra Guðmundssyni. Sammæðra eru Gunnar Skjóldal á Akureyri, kvæntur Helgu Aðalsteinsdóttur, og Ingimar Snorri Karlsson á Akureyri, kvæntur Ólöfu Kristjánsdóttur. Samfeðra eru Stefán, Anna Guðrún, Baldvin og Sigurður Árni. Sigríður ólst upp í foreldrahúsum á Akureyri þar til hún hóf sambúð 1948 með eiginmanni sínum Júlíusi A. Fossdal, f. 1. nóvember 1930, d. 11. september 2005. Þau hófu sambúð á Akureyri, bjuggu á Suðurnesjum 1954-1967 en þá flytja þau til Hólmavíkur og bjuggu þar til 1970. Þá flytja þau til Akureyrar og síðan til Blönduóss, þar sem þau bjuggu í 30 ár. Eftir andlát Júlíusar flytur Sigríður til Akureyrar og bjó þar sín síðustu ár. Sigríður og Júlíus eignuðust 11 börn. Þau eru: 1) Erna, f. 11.5. 1948, maki Jón Stefánsson bóndi, þau búa á Broddanesi, og eiga þrjú börn. 2) Þorgerður Lilja, f. 23.8. 1949, maki Baldur Ragnarsson rafvirkjameistari, þau búa á Akureyri, og eiga þrjú börn, eitt þeirra er látið. 3) Árnína Guðrún sjúkraliði, f. 29.4. 1952, býr á Akureyri, sambýlismaður var Kristmundur Stefánsson. Hann er látinn. Eiga þau tvær dætur. 4) Ingibjörg Elísa skólaliði, f. 25.7. 1953, maki Þórður Sverrisson vélamaður, þau búa á Hólmavík, og eiga fjögur börn. 5) Ósk leikskólakennari, f. 26.2. 1955, maki Páll Gestsson verktaki, þau búa í Hafnarfirði og eiga tvö börn. 6) Bjarnheiður Júlía bóndi, f. 21.7. 1956, maki Björn Torfason bóndi, þau búa á Melum í Árneshreppi, og eiga fimm börn. 7) Sigríður leikskólakennari, f. 6.11. 1957, maki Ólafur Gunnar Ívarsson verkstjóri, þau búa á Akureyri og eiga þrjú börn. 8) Ari Björn verslunarmaður, f. 13.11. 1958, maki Ingibjörg Ólafsdóttir leikskólakennari, þau búa á Akureyri og eiga tvo syni. 9) Jóhannes, f. 22.1. 1960, d. 20. 11. 1982, maki Inga Dóra Konráðsdóttir þjónustufulltrúi, og áttu þau einn son. 10) Birkir Þór vélvirki, f. 30. 11. 1962, maki María Hafdís Kristinsdóttir bókagerðarmaður, þau búa í Reykjavík og eiga tvö börn, en fyrir átti Birkir eina dóttur. 11) Einar Óli neyðarflutningamaður, f. 5.10. 1966, maki Sigríður Helga Sigurðardóttir leikskólakennari, þau búa á Blönduósi og eiga þrjú börn. Sigríður átti 31 barnabarn og 39 barnabarnabörn. Ung starfaði Sigríður Árnadóttir í Gefjun,verksmiðjunum á Akureyri, einnig vann hún um tíma í þvottahúsi á Hótel Akureyri og hjá Kaupfélagi Húnvetninga. Fyrst og fremst var Sigríður húsmóðir og helgaði sig því starfi með heiðri og sóma. Útför Sigríðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 8. janúar, 14.

Elsku mamma mín, þegar þú kvaddir okkur í hinsta sinn á morgni aðfangadags jóla var það svo sárt. Öll vissum við þó að hverju stefndi. Þú varst að fara til pabba, til hans sem þú hefur saknað svo mikið frá því að hann kvaddi okkur fyrir fjórum árum. Nú sitjum við eftir, þinn stóri hópur og yljum okkur með þeim yndislegu minningum sem þú skildir eftir handa okkur og þær munum við varðveita um ókomin ár.

Það er táknrænt að þú skulir kveðja á sjálfum jólunum, þú sem varst svo mikið jólabarn. Fyrstu minningar mínar um þig eru tengdar jólum þegar þú varst að sauma jólafötin á okkur. Ég man þegar þú vaktir okkur um miðja nótt til að máta það sem þú varst að sauma, þér var það mikið í mun að allir fengju ný föt fyrir jólin og að allt yrði sem hátíðlegast. Heimilið var þinn vinnustaður og þú lagðir mikið á þig til að gefa okkur fallegt heimili sem við vorum óendalega stolt af.

Mamma, þú varst kletturinn okkar, þegar eitthvað bjátaði á varst það þú sem hélst utan um okkur og stappaðir í okkur stálinu. Á okkar gleðistundum varst þú alltaf til staðar, þegar við giftum okkur, þegar barnabörnin fæddust og þegar börnin voru skírð og einnig þegar börnin fermdust. Enda varst þú svo stolt af þínum stóra barnabarnahóp.
Notalegt var að koma heim sem nýbökuð móðir og þú varst búin að gera allt svo hreint og fínt hjá mér, vaggan uppábúin og heimilið ilmaði af hreinleika. Ég man hvað ég var ánægð og þú yljaðir ungri móður um hjartarætur.

Þið pabbi voruð ótrúlega dugleg að heimsækja hópinn ykkar, það leið ekki nema einn til tveir mánuðir milli þess að rennt var á Strandir, komið á Akureyri eða skutlast var til höfuðborgarinnar. Þess á milli var hringt að minnsta kosti einu sinni í viku. Þú vildir alltaf halda utan um hópinn og vildir að við værum saman sem oftast, ættarmót, fjölskyldumót og afmæli. Oftast varst þú upphafsmaður af öllu þessu og stjórnaðir af þinni alkunnu snilld. Síðan léstu það í hendur á þeim sem yngri voru og er það nú okkar hlutverk að halda áfram að hittast og halda utan um hópinn, þó svo að við komumst aldrei með tærnar þar sem þú hafðir hælana.

Þú og pabbi höfðuð yndi af því ferðast, skoða og fræðast um ólíka menningarheima. Þið siglduð með Norrænu í áratugi og ferðuðust til flestra landa í Evrópu á ferðabílnum ykkar, einnig ferðuðust þið mikið innanlands og ekki er til sá staður á Íslandi sem þið hafa ekki heimsótt. Marga sunnudaga fóruð þið í bíltúr með okkur og tókst þú þá til nesti sem við borðuðum svo úti í náttúrunni. Þú fræddir okkur um það sem fyrir augu bar, nöfn á fjöllunum, dölunum, mörgum öðrum kennileitum, svo var skoðað og rannsakað og að lokum sest upp í bíl og sungið. Alltaf var mikið sungið þegar við komum saman. Mamma var mjög músíkölsk, hún söng í kirkjukórum og hlustaði á alls kyns tónlist. Einnig hafði hún gaman af ljóðum og góðum kveðskap.

Ég minnist þín elsku mamma og undrast hvað þú varst dugleg, þrifin, skipulögð og heiðarleg. Að eiga 11 börn og vefja þau umhyggju og ástúð ásamt því að vera alltaf til staðar þegar við þurftum á þér að halda. Það er ómetanlegt. Því er oft haldið fram að tímarnir séu breyttir og það sé allt annað að ala upp börn í dag en áður fyrr, sem er að mörgu leyti rétt, en öll börn þurfa sínar grunnþarfir sem eru fæði, klæði og ástúð og þá skiptir ekki máli á hvaða tímum við lifum. Ein er sú minning sem kemur upp í huga mér en það er þegar mamma var að svæfa okkur og þá 6-7 í einu. Hún stóð á gangi milli tveggja herbergja og straujaði þvott, fór með bænirnar með okkur og söng upp úr skólaljóðum sem eitthvert okkar átti að læra fyrir skólann eða söng fyrir okkur jólasálma.

Eftir lifir minning um yndislega móður. Allt of sjaldan lét ég mömmu vita af því hversu frábær hún væri. Það eru svo sem ekki ný sannindi en enn og aftur sannast það að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Þín verður sárt saknað af börnunum þínum og fjölskyldum þeirra, börnin mín og Óli Gunni þakka þér.

Hafðu þökk fyrir allt elsku mamma mín og hvíldu í friði.

Þín dóttir

Sirrý.

Ástkær tengdamóðir mín er látin, tæplega áttræð að aldri. Fyrstu kynni mín af Siggu voru þau að ég var 7 eða 8 ára stelpa sem langaði alveg rosalega í skó í kaupfélaginu þar sem Sigga vann í nokkur ár, ég var að suða í mömmu og mamma sagði við mig; ,,þessi kona á 11 börn og af þeim eru 7 stelpur, mig setti hljóða og hugsaði vá, 11 börn, ég hugsaði ekki meira um skóna, a.m.k ekki í bili.

Fyrsta minning Siggu um mig var ekki mjög góð, ég var um það bil 9 ára og var að kaupa nýtt gervijólatré fyrir jólin í áðunefndu kaupfélagi og ný sending var að koma í búðina. Starfsstúlkurnar voru búnar að skreyta eitt tréð til að hafa til sýnis og ég mátti velja hvaða tré yrði keypt, nú að sjálfsögðu vildi ég það skreytta og fór ekkert ofan af því, alveg sama hvort að mér væri boðið stærra tré, nei, þetta vildi ég. Ekki sérstaklega góð meðmæli fyrir tilvonandi tengdadóttur.

Síðsumar 1988 urðu Sigga og Júlli tengdaforeldrar mínir, þeim leist nú ekkert sérlega vel á ráðahaginn (ekki nema furða miðað við fyrri kynni Siggu af mér) enda stúlkan einstæð móðir með lítið barn. En sem betur fer leyst Siggu ekki á mig fyrst, því það var oftar en ekki að ef henni leyst vel á einhvern í byrjun, þá átti það eftir að dala þegar kynnin urðu meiri. En álitið á mér óx sem betur fer við nánari kynni (sagði hún mér seinna). Einstæða móðirin hvarf ef svo má segja, því að þau eignuðu sér Sigurð Smára frá fyrstu kynnum og aldrei skynjaði maður á þeim hjónum að Siguður Smári væri ekki með þeirra blóð í æðum, dekrað var við hann eins og öll hin börnin. Og spurt var hvað segir hann Sigurður minn? ef hann hafði ekki sést hjá þeim á brekkunni í einhvern tíma, og eins eftir að Sigga flutti á Akureyri.

Alltaf voru þau hjónin Sigga og Júlli tilbúin að rétta hjálparhönd og voru fljót að koma ef einhverjar framkvæmdir voru fyrirhugaðar og sögðu sitt álit, sem oftar en ekki var hlustað á, því þau voru mikið smekkfólk á hluti og útsjónarsöm að sjá hvernig hlutirnir færu best. Enda var heimillið þeirra fallegt og snyrtilegt.

Börnin okkar Einars Óla elskuðu afa sinn og ömmu enda dekruðu þau við þau. Þau voru rétt komin inn fyrir dyrnar þegar þau spurðu ,,amma áttu ís? og næstum alltaf átti hún ís. ,,Amma áttu eitthvað? heyrðist líka ofan af loftinu, ,,já, ég skal senda afa með handa þér og afinn fór með afakex á disk og mjólk eða gos. En afi dvaldi nú oft uppi hjá þeim, var aðeins að horfa með þeim á teikinimyndirnar og ekki þótti þeim það verra. Arinbirni fannst þetta best af öllu, þ.e. að fá afa með sér upp og þeir horfðu svo saman á teiknimyndir og borðuðu afa kex (lítil krem kex) og afa köku (hunangs köku).

Þegar við eignuðumst börnin var oft mikið að gera eins og gengur hjá fólki með ung börn, þá opnaði Sigga þvottahús Sigríðar, ,,bara aðeins að létta undir með þér sagði hún og það var ekki amalegt að fara með part af þvottinum til hennar óhreinan og fá hann svo til baka hreinan, straujaðan og samanbrotinn, betri greiða gat ég ekki fengið.

Dugleg var hún, enda búin að koma 11 börnum til manns og þarf dugnað til og það höfðu þau hjónin nóg af. Húsið alltaf skúrað út úr dyrum og aldrei sást rykkorn neinsstaðar. Fyrir jólin var til að mynda allt þrifið hátt og lágt og meira að segja hillurnar í skúrnum líka. Garðurinn var þeim mikils virði og voru þau ófáar stundir í honum, sóttu steina út á Skaga til að gera göngustíg, sóttu hraunhellur suður á land og fluttu heim á ferðabílnum sínum, allt til að gera garðinn fallegan. Þegar þau gróðursettu fyrstu trén í garðinn var sagt við þau að þetta myndi aldrei vaxa þarna, það væri svo næðingssamt, en auðvitað uxu trén því að þau voru svo sannarlega með græna fingur. En á milli þess sem þau voru í garðinu voru þau á ferðalögum á sumrin.

Oftar en einu sinni fóru þau á ferðabílnum sínum og fóru til Norðurlandanna og Evrópu og ferðuðust þar landa á milli. Ég spurði Siggu einu sinni hvað land henni hefði þótt fallegast og skemmtilegast að fara til, þá var það Júgóslavía, það var stórkostlegt sagði hún, en bætti við, en það var fyrir stríð.

Myndakvöld voru stundum haldin og þá var horft á slide show á gamla mátann og það var gaman að heyra þau lýsa því sem fyrir augu bar á myndunum og svo vel var manni sagt hvað hafði gerst rétt áður en myndin var tekin, ásamt því sem gerðist á eftir, að í raun fannst manni nánast eins og maður hefði verið með þeim í ferðinni. Eins var ferðast innanlands og okkur fannst alveg ótrúlegt hvað þau voru alltaf heppinn með veður, það var eins og sólin elti þau hvert sem þau fóru.

Eitt árið þá tók Blönduósbær á móti flóttafólki frá Júgóslavíu sem var á vegum Rauðakross Íslands, þau hjónin tóku þátt í að taka á móti því fólki. En eitt var það sem Sigga sá alveg um, það voru fötin sem voru fengin handa fólkinu, þau voru send frá RKÍ úr Reykjavík, hún tók öll fötin, þvoði þau og straujaði og kom þeim fyrir í salnum þar sem þau áttu að vera, hengdi á slár og raðaði á borð, allt var þetta flokkað í stærðir og voru barnaföt sér, kvennföt sér og karlaföt sér. Þegar forsvarsmenn RKÍ sáu þetta áttu þau ekki til orð, því að þegar þau gengu inn í salinn var þetta eins og þau gengu inn í verslun af bestu gerð, svo vel var gengið frá öllu. Þetta lýsir Siggu og Júlla, ef þau tóku sér eitthvað fyrir hendur þá var það gert af fullum huga og miklum metnaði.

Júlli og Sigga voru svo ástfangin að þau gátu helst ekki farið í burtu frá hvort öðru, ef Sigga fór og gisti hjá dætrum sínum fyrir vestan og Júlli var heima þá var ekki ósjaldan sem hann kom á Hlíðarbrautina og kvartaði undan því að hann gæti ekki sofið Nú afhverju getur þú ekki sofið? spurði maður. Nú það vantar mína hér, og klappaði við hlið sér, og alltaf var koss á kinn til að þakka fyrir matinn og eins ef farið var í vinnu eða búð, þau voru sannkallaðar turtildúfur.

Þegar Júlli tengdapabbi dó 11. september 2005 þá dó eitthvað innra með Siggu, hún varð aldrei sama Siggan eftir það. Veikindi fóru að hrjá hana meira og meira, og verst þótti manni að lítið virtist hægt að hjálpa henni, börnin okkar sáu hvað ömmu hrakaði, eins og Maggý Björg okkar sagði í sumar; ég held að ömmu langi til að deyja og fara til afa, því að hún sá hvað ömmu leið ekki vel og hafði ekki liðið neitt sérstaklega vel eftir að afi hennar dó.

Sigga flutti á Akureyri árið 2007, var þá búin að búa á Blönduósi síðan um 1974, en það var alltaf ætlunin hjá þeim hjónum að fara á Akureyri. En sem betur fer fengum við hér á Hlíðarbrautinni að hafa þau svo lengi hjá okkur því að það var ómetanlegt fyrir okkur öll. Fyrst hjálpuðu þau okkur við ýmsa hluti og síðustu árin þeirra hér á Blönduósi hjálpuðum við þeim við ýmsa hluti.

Þegar kallið kom svo á aðfangadagsmorgunn, þá vissu börnin okkar og við líka að ömmu liði betur og eins og  pabbi þeirra sagði við þau; nú er amma komin til Afa og Jóa, og þeir hafa beðið lengi og þetta er þeirra jólagjöf og líka jólagjöf til ömmu að fá að hitta þá aftur. Sameinuð á ný.

En Siggu er sárt saknað á Hlíðarbraut 5, betri tengdamömmu hefði ég ekki getað hugsað mér.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði nú sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

Þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Sigga mín, hvíl í friði.

Hinsta kveðja til þín.

Þín tengdadóttir

Helga.

Elsku amma Sigga.

Núna ertu farin til hans afa Júlla, mikið eigum við eftir að sakna ykkar. Þegar maður hugsar til baka þá koma margar góðar minningar upp í hugann. Ívar og ég vorum þess aðnjótandi að búa nálægt ykkur þegar við vorum yngri. Minnisstætt þótti okkur þegar þið komuð eina páskana með stórt páskaegg handa okkur og það árið fengum við tvö páskaegg. Þvílík heppni að okkur fannst. Einnig komuð þið til okkar í kringum jólin og eftirminnilegust eru jólin þegar þið voruð hjá okkur á Akureyri og jólatréð var svo stórt að við komumst varla fyrir í stofunni. Þetta er bara brot af þeim yndislegum minningum sem við eigum um þig, því viljum við þakka þér elsku amma fyrir þær stundir sem við áttum með þér.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Minning þín lifir í hjörtum okkar, um alla tíð.


Sandra, Ívar og Gunnar Bjarki.

Nú er elsku amma mín farin.

Þegar ég hugsa til hennar koma margar tilfinningar upp eins og þakklæti, væntumþykja og kærleikur. Ég veit að nú er hún ánægð hjá afa.

Ég get ekki ímyndað mér hvernig tilfinning það hefur verið fyrir hana að missa afa frá sér en ég get ímyndað mér að það hafi verið erfitt. Nú eru þau saman aftur. Nú njóta þau þess tíma sem þau misstu af þegar afi fór.

Ég á ömmu svo mikið að þakka. Ég eyddi mörgum góðum stundum hjá henni sem barn og hún kenndi mér svo mikið. Eins erfitt það var að kveðja hana þegar hún var orðin mjög veik, veitti það mér líka frið og sátt. Þó hennar líf hafi oft á tíðum verið erfitt held ég að hún hafi verið hamingjusöm með allan barnahópinn sinn.  Mér fannst amma alltaf vera glöð og í minningunni er hún brosandi. Ég ætla að halda henni þannig. Ég man líka þegar hún var að skamma strákana, syni sína,  þegar þeir voru  óþekkir. Mér fannst það ógurlega gaman, að sjá ömmu grimma við þá. Ég var líka dugleg að klaga þá þó þeir væru ekkert að gera, bara til að sjá hana skamma þá. Hún lét ekkert vaða yfir sig hún amma.

En bætist í englaherinn minn þarna hinu megin. Ég veit að amma vakir yfir okkur öllum og styrkir okkur og strýkur tárin af kynnum okkar og segir okkur að brosa.  Rétt eins og þegar ég fékk fréttina að amma væri dáin á aðfangadagsmorgun. Þá langaði mig bara undir sæng og breiða yfir höfuð. Þá heyrði ég í rödd ömmu segja mér að herða mig upp og klára að undirbúa jólin, það ætti eftir að gera margt. Eins þegar ég ætlaði að hætta við að syngja með kirkjukórnum á aðfangadagskvöld, ég treysti mér ekki til þess. Þá heyrði ég í henni þar sem hún sagði mér að hrista þetta af mér og klára það sem ég byrjaði á. Það gerði ég og ég held að ég hafi aldrei sungið jafn vel.  Það var tileinkað ömmu.

Ég kveð ömmu mína með fallegum orðum Friðriks Erlingssonar og geri þau að mínum.

Þó ár og fjarlægð skilji okkur að
og enginn geti komið í þinn stað
mun samt minning þín lifa
á meðan lifi ég,
á meðan lifi ég.
Og ég þakka vil
þá dýru gjöf
að lífið leit til mín

og leiddi mig til þín

Þín ömmustelpa

Guðbjörg Kristmundsdóttir

Að morgni aðfangadags bárust mér þær fréttir að amma Sigga væri dáin. Við vissum þó í hvað stefndi en alltaf er maður jafn óundirbúin þegar að því kemur.  Amma var mikill karakter , hafði sterkan persónuleika og ákveðnar skoðanir en var alltaf hlý og góð og vildi alltaf allt það besta fyrir fjölskylduna.

Í minningunni er eiginlega ekki hægt að tala um ömmu nema að nefna afa í sömu andrá. Amma og afi voru mjög samrýmd og unnu vel saman að því að hlúa að fjölskyldunni,  það leit þó oft út þannig að amma væri við stjórnvölin, afi kinkaði kolli og sagði Já Sigríður mín eða Nei Sigríður mín  eftir því sem við átti og brosti svo útí annað eða setti fram undrunar svip. Það var alltaf gaman að koma til ykkar á Blönduós  og oftar en ekki voruð þið með eitthvað óvænt fyrir okkur barnabörnin. Einn morguninn þegar við settumst við morgunverðarborðið, var einn bangsi á hverjum disk, öllum til mikillar gleði. Það var mjög gaman að hitta þig aftur í október síðastliðinn og rifja upp gömlu tímana, og segja þér frá því hvað við höfum verið að gera. Ég held ég hafi þó fundið á mér að við myndum ekki hittast aftur því ég kvaddi þig þrisvar áður en við fórum.

Ein af fallegri minningum mínum var þegar ég , Selma og Bjartur vorum í Grasagarðinum í Reykjavík einn bjartan og sólríkan sumardag fyrir 6-7 árum.  Þá veittum við því athygli að meðfram einum andarpollinum gengu fullorðin hjón, afar ástfangin og kysstust og brostu til hvors annars. Þarna voru amma Sigga og afi Júlli á ferð eins og ástfangnir unglingar. Elsku amma nú ert þú farin frá okkur og komin til afa og ég veit þið horfið yfir hópinn ykkar og fylgist vel með okkur.  Takk fyrir þær stundir sem við höfum átt saman og guð geymi þig.

Guðmundur Vignir.