Þóra Margrét Jónsdóttir fæddist í Stykkishólmi 11. ágúst 1925. Hún lést á Landspítalanum aðfararnótt gamlársdags, 31.12.2009. Þóra Margrét var dóttir hjónanna Jóns Ólafs Guðsteins Eyjólfssonar, kaupmanns (1891-1968) og Sesselju Konráðsdóttur skólastýru (1896-1987). Þóra Margrét var þriðja barn foreldra sinna af fjórum systkinum. Elst var Auður, f. 1921, d. 2003. Önnur var Ingibjörg Margrét f. 1923, d. 1998. Yngstur var Eyjólfur Konráð f. 1928, d. 1997. Þóra Margrét kvæntist 6. október 1946 Jóni Hauki Baldvinssyni loftskeytamanni, f. í Reykjavík 13. mars 1923 d. 30. janúar 1994. Eignuðust þau fimm börn: 1) Baldvin, f. 12.08. 1947, kvæntur Margréti S. Björnsdóttur, f. 24.12. 1946. Eiga þau þrjú börn. 2) Ólafur Örn f. 13.06. 1951, á með fyrrv. eiginkonu sinni Soffíu Emilíu Sveinsdóttur f. 25.10.1951 fjögur börn. 3) Konráð Ingi f. 14.01. 1956, kvæntur Önnu Sigurðardóttur f. 31.01. 1953. Eiga þau þrjú börn. 4) Helga Þóra Jónsdóttir 24.03. 1957, á með fyrrv. eiginmanni sínum Sigurði Haraldssyni f. 17.10. 1953 þrjú börn. 5) Þormóður f. 27.02. 1961, á með fyrrv. eiginkonu sinni Helgu Ólafsdóttur f. 07.01. 1961 eitt barn. Núverandi eiginkona Þormóðs er Sigríður Garðarsdóttir f. 05.11. 1960 og eiga þau saman tvö börn, en hún eitt úr fyrra hjónabandi. Barnabörn Þóru Margrétar eru 17 talsins, barnabarnabörnin eru níu og tvö barnabarnabarnabörn. Þóra Margrét og Jón Haukur bjuggu lengst af í Blönduhlíð 2, Sólheimum 35 og Heiðargerði 1b en síðustu árin sín saman í Hvassaleiti 56. Þóra Margrét vann ekki mikið utan heimilisins meðan börnin voru að komast á legg en eftir það vann hún m.a. á saumastofu og við verslunarstörf í versluninni Kúnígúnd. Þóra Margrét var hógvær, ósérhlífin og hafði ríka þjónustulund. Hún lauk prófi úr Húsmæðraskólanum á sínum yngri árum og birtist afrakstur þess náms í hvers kyns myndarskap innan heimilisins, einkum handverki og eldamennsku. Útför Þóru Margrétar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, föstudaginn 8. janúar, og hefst athöfnin kl. 15.
Hún amma Dúdda var einstök. Við fráfall hennar er stórt skarð skilið
eftir í fjölskyldunni. Ég halla aftur höfði, loka augum og fram streyma
yndislegar tilfinningar sem fylgja því að vera lítil ömmustelpa. Öll
hlýjan og væntumþykjan sem ég var umvafin í návist hennar. Það var þessi
ljúfa nærvera sem gerði það að verkum að sem lítil stelpa vildi ég helst
vera hjá henni öllum stundum. Ekki skemmdi fyrir að Helga Þóra frænka
bjó lengi á neðri hæðinni í Heiðargerðinu og það tryggði líf og fjör í
hverri heimsókn.
Í Heiðargerðinu var alltaf mikill gestagangur. Það jók á spennuna við að
koma í heimsókn til ömmu og afa. Gestir voru ávallt velkomnir í
Heiðargerðið og það mátti ganga að gómsætum kökum og öðrum veitingum
vísum. Þar var alltaf mikið um að vera.
Amma var snillingur í bakstri og átti alltaf tertur á lager, eða í
ofninum. Heimavanir í Heiðargerði þekktu brúnu rúllutertuna,
valhnetukökuna, kanilkökuna með hvíta kreminu, sem var uppáhaldið mitt,
og svo var það lagtertan hennar ömmu sem ég verð að læra að gera. En hún
verður aldrei eins og amma gerði hana. Hún var sérfræðingur í að gera vel
við sælkerann hann afa og öll fjölskyldan naut góðs af. Bakstrinum hélt
amma áfram af krafti alla ævi og langömmubörnin voru orðin stærsti
aðdáendahópurinn.
Mér eru minnisstæðar heimsóknir til ömmu í vinnuna í Kúnígúnd. Amma
keyrði ekki bíl og þess vegna kom afi á Bjöllunni sinni og keyrði okkur
heim í Heiðargerðið eða við tókum Þristinn. Þessir hversdagslegu hlutir
verða að ómetanlegum samverustundum í minningunni. Við fórum allt með
strætó eða fótgangandi. Oft var komið við á bókasafninu í Sólheimum þar
sem Maggý systir ömmu vann og þær töluðu saman yfir kaffibolla um heima
og geima.
Það var dæmigert fyrir snyrtimennskuna hjá ömmu að þrátt fyrir
gestaganginn sá aldrei á heimilinu. Allt var hreint og fínt öllum
stundum. Þó amma hafi náð háum aldri hélt hún sínum kvenlega glæsileika
til hinstu stundar. Hún var alltaf vel til höfð og smekkleg. Í síðustu
heimsókn minni til ömmu á Landsspítalann, rétt fyrir andlátið, átti amma
stund með sjálfri sér þegar fjölskyldan fór fram á gang með lækninum. Þá
greip amma tækifærið, dró fram spegil, lagaði hárið og frískaði uppá
varalitinn. Ákveðnir hlutir þurftu alltaf að vera í lagi.
Á fullorðinsárum var gaman að kynnast því hvað við amma höfðum svipaðan
húmor, dálítið svartan. Það var yndislegt að upplifa margar góðar
heimsóknir til ömmu með langömmubörnin sem nutu hlýju, veitinga og
væntumþykju hennar fram á hennar síðustu daga.
Ég vil þakka Helgu Þóra frænku, englinum hennar ömmu, fyrir alla hennar umhyggju og fórnfýsi fyrir ömmu í hárri elli. Það hefur verið okkur öllum ómetanlegt.
Við fráfall ömmu fyllist ég söknuði, en um leið þakklæti fyrir óteljandi góðar stundir og fallegar minningar. Við Bjarni, Margrét, Benedikt og Helga Þóra sendum öllum í fjölskyldunni samúðarkveðjur.
Hvíl í friði elsku amma Dúdda mín.
Þóra Margrét Baldvinsdóttir