Valdimar Hjartarson fæddist í Rauðsdal á Barðaströnd 17. janúar 1923. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 31. desember sl. Foreldrar hans voru Hjörtur Valdimar Erlendsson, f. 17. ágúst 1888, d. 11. janúar 1969, og Guðrún Pálsdóttir, f. 16. október 1889, d. 27. febrúar 1970. Valdimar ólst upp í Rauðsdal hjá foreldrum sínum. Systkini Valdimars eru: Erlendur Magnús Hjartarson, f. 1910, d. 1997, Jónas Hjartarson, f. 1911, d. 1930, Helga Hjartardóttir, f. 1915, d. 1986, Svanfríður Hjartardóttir, f. 1916, d. 2004, Valborg Hjartardóttir, f. 1918, d. 2002, Lilja Hjartardóttir, f. 1919, d. 1993, Gísli Hjartarson, f. 1924, d. 1986, Rósamunda Hjartardóttir, f. 1927, og Sigríður Hjartardóttir, f. 1929. Árið 1970 kvæntist Valdimar Ragnhildi Einarsdóttur, f. 1941, en þau slitu samvistum 1994. Börn hans eru 1) Guðrún Valdimarsdóttir, f. 28. febrúar 1971. Eiginmaður Dagur Indriðason, f. 28. október 1976. Guðrún var áður í sambúð með Guðmundi Ragnarssyni. Börn: Hafþór Ingi Guðmundsson, f. 19. ágúst 1993, Guðbjörg Gígja Guðmundsdóttir, f. 27. maí 1998, Róbert Atli Dagsson, f. 12. október 2004. Stjúpdóttir Guðrúnar er Emílía Ýr Dagsdóttir, f. 26. maí 1998. 2) Steinn Valdimarsson, f. 13. september 1972. Steinn var áður í sambúð með Jóhönnu Við Steym og svo Maritu Sörbö. Börn: Magnús Steinsson, f. 1. september 1996, og Andri Tage Steinsson, f. 28. júlí 2005. 3) Stjúpdóttir Valdimars er, Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 29. apríl 1966. Eiginmaður, Páll Björnsson, f. 12. janúar 1961. Valdimar bjó í Rauðsdal ásamt Gísla bróður sínum og Ástu Þorsteinsdóttur mágkonu sinni og börnum þeirra allt til ársins 1970. Hann starfaði lengst af við búskap og sjómennsku en í seinni tíð vann hann ýmis störf, var meðal annars bóndi í Mjólkárvirkjun í Arnarfirði og starfaði lengi í stórgripasláturhúsi á Hellu á Rangárvöllum. Síðustu 14 árin bjó hann í Gullsmára 11 í Kópavogi. Valdimar var bóndi fram í fingurgóma og þótt hann hafi hætt búskap átti hann alltaf nokkrar skjátur í kofa eða á bæjum hjá vinum sínum. Hann hafði sterka tilfinningu fyrir umhverfi sínu og náttúrunni og veðrabrigðum. Valdimar var með eindæmum fjárglöggur. Hann var við sauðburð og smalamennsku hvert ár, allt til ársins 2005 þá 82 ára að aldri. Valdimar hafði mikið gaman af spilamennsku og í seinni tíð spilaði hann við félaga sína á hverjum degi og þurfti mikið að liggja við til að því yrði sleppt. Hin síðari ár fór Valdimar ásamt frænda sínum og vinum til Grikklands og hafði mikið gaman af þeim ferðum. Kom þá heim svo brúnn að taka mátti feil á honum og Grikkja. Valdimar hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og var framsóknarmaður mikill. Hann las blöðin á hverjum degi og fylgdist alltaf með Alþingi og umræðum þar og var umræðan um Icesave eitt af því síðasta sem hann ræddi um. Útför Valdimars fer fram frá Brjánslækjarkirkju í dag, 8. janúar, og hefst athöfnin kl. 14, en einnig verður haldin minningarathöfn um hann í Digraneskirkju 5. janúar og hefst hún kl. 15
Ég vil þakka þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman.
Þú reyndist mér alltaf vel.
Megir þú hvíla i friði.
Þinn sonur,
Steinn.
Elsku afi, í dag kveð ég þig í hinsta sinn. Ég minnist góðra stunda með þér í gegnum árin. Allt frá því að ég fæddist varstu alltaf góður við mig og alltaf svo hress og kátur. Mér þótti mjög vænt um þig og þær stundir sem við áttum saman. Ég rifja upp góðar stundir þegar ég heimsótti þig í Gullsmárann og þú tókst alltaf á móti mér með pönnukökum. Ég gat alltaf gengið að því vísu.
Einnig þess þegar við fórum saman til Noregs að heimsækja Stein frænda. Það var skemmtileg ferð og sérstaklega skemmtilegt að vera með þér þá. þú varst alltaf svo hress og áttir mörg skemmtileg gullkorn. Ég minnist líka góðra stunda á jólum en þú varst oft hjá okkur um jól og líka núna um síðustu jól rétt áður en þú kvaddir. Það var gott að hafa þig hjá okkur um jólin þó að veikindi þín hafi sett mark sitt á þessi jól. Ég mun sakna samverustunda með þér en ég geymi í huga mér góðar minningar um skemmtilegar stundir. Hvíl í friði elsku afi.
Hafþór Ingi Guðmundsson