Birgir G. Albertsson fæddist á Hesteyri í Sléttuhreppi í N. Ísafjarðarsýslu 27. maí 1935. Hann lést á Grensásdeild Landspítalans 26. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Borghild Berntsdóttir Albertsson (f. Årseth) húsmóðir, f. í Noregi 8. júlí 1900, d. 1989 og Guðmundur H. Albertsson, kaupmaður, útgerðarmaður og oddviti Sléttuhrepps, f. á Marðareyri í Veiðileysufirði 20. maí 1896, d. 1952. Systkini Birgis eru Dagný G. Albertsson kennari, f. 31. maí 1925 og Reidar G. Albertsson kennari, f. 10. júlí 1928, d. 1982, eiginkona hans er Oddrún Jónasdóttir Uri, f. 1939. Eiginkona Birgis er Evlalía Kristín Guðmundsdóttur (Edda) húsmóðir, f. í Reykjavík 21. desember 1935. Foreldrar hennar voru Guðmundur Gíslason sjómaður, f. 1900 og Guðbjörg Kristinsdóttir húsmóðir, f. 1904. Birgir og Evlalía voru gefin saman þann 19. júlí 1959 í Vatnaskógi og fögnuðu gullbrúðkaupi á sl. ári. Börn Birgis og Evlalíu: 1) Borghildur kennari, f. 27. maí 1960, gift Agli Steinari Gíslasyni húsasmíðam., f. 1956. Börn þeirra: a) Steinunn Eik, b) Kristín Edda, c) Dagný Björk, d) Ingileif, e) Aldís Helga og f) Ægir Sölvi. 2) Guðmundur Albert bóndi, f. 1. júlí 1961, kona hans er Unnur Jóhannsdóttir. Barn þeirra: a) Edda Sonja. Börn Unnar og fósturbörn Guðmundar eru Anna Birna og Kári. 3) Gunnar Friðrik viðskiptafræðingur, f. 16. maí 1967, kvæntur Erlu Sesselju Jensdóttur viðskiptafræðingi, f. 1966. Börn þeirra: a) Hákon Freyr, b) Ester Elísabet og c) Baldvin Bjarki. 4) Guðbjörg Helga hjúkrunarfræðingur, f. 15. janúar 1969, gift I. Hlyni Sævarssyni prentsmið, f. 1965. Börn hennar og Jóhanns Guðnasonar, f. 1965, d. 1994 og fósturb. Hlyns a) Birgir Daði, b) Agnes og c) Rebekka. Dóttir Hlyns og fósturd. Guðbjargar d) Katrín Melkorka. Börn Guðbjargar og Hlyns e) Ísabella og f) Tómas Orri. Birgir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954 og lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1955. Hann stundaði nám í félagsráðgjöf við The University of Chicago 1965. Árið 1955 hóf Birgir kennslu við Langholtsskólann í Rvk. og starfaði þar til ársins 1998. Samhliða rak hann ásamt systkinum sínum og móður verslunina Guðmundur H. Albertsson á Langholtsvegi 42. Birgir var virkur í starfi KFUM, var m.a. skólastjóri kvöldskóla félagsins og einn stofnenda sunnudagaskólans á Holtavegi. Þá var hann umsjónarmaður barnaefnis sjónvarpsins á upphafsárum þess. Birgir og Edda stofnuðu heimili í Álfheimum og bjuggu þar í rúm 20 ár en árið 1981 flutti fjölskyldan í Lækjarás í Seláshverfi. Birgir var góður íslenskumaður og átti gott með að koma fyrir sig orði. Hann hafði ríka þörf fyrir hreyfingu og stundaði blak til fjölda ára. Virðing og væntumþykja fyrir náttúrunni einkenndi Birgi. Hann undi sér best á æskuslóðum innan um fjöll og óspillta náttúru á Hesteyri og Hornströndum þaðan sem hann flutti 10 ára gamall. Hann hóf hins vegar að koma þangað reglulega til sumardvalar með fjölskyldu sinni upp úr 1960 og átti sína síðustu ferð þangað í sumar. Birgir var fararstjóri gönguhópa á þessum slóðum nokkur sumur. Hann bar sterkar taugar til Noregs, móðir hans var norsk og frændgarðurinn stór, þau tengsl skipuðu ávallt stóran sess í lífi hans. Útför Birgis fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, föstudaginn 8. janúar og hefst kl. 15.
Við andlát föður míns, sem lést þann 26. desember síðast liðinn rifjast upp margar hlýjar og ljúfar minningar um föður sem var allt í senn, góð og traust fyrirmynd, grallari og náttúrubarn.
Þrátt fyrir langan vinnudag sem kennari og kaupmaður hafði pabbi oftast tíma fyrir okkur systkinin þegar heim var komið . Upp í hugann kemur mynd af okkur feðgunum sitjandi við eldhúsborðið í Álfheimunum þar sem pabbi kenndi mér að lesa ári áður en skólaganga mín hófst.
Pabbi var alla tíð mikill göngugarpur og tók okkur systkinin oft með sér í lengri og styttri gönguferðir. Fyrsta stóra fjallgangan sem við feðgarnir fórum saman var á Botnsúlur vorið 1973 en þangað var hann vanur að skokka upp á vorin. Ég minnist þess að gangan tók nokkuð á en með þolinmæði og hvatningu pabba náðum við saman á toppinn. Gönguferðir í Innstadal og Reykjadal voru líka í miklu uppáhaldi ásamt skíðaferðum. Oft slógust þá með í för góðir vinir pabba þeir Kjartan, John og Erling.
Aðfangadagskvöld á Langholtsveginum voru sveipuð ævintýraljóma. Okkur systkinunum fannst það mikil forréttindi að ganga um Búðina innan um leikföngin og jólaljósin. Minningar frá Langholtsveginum eru ótalmargar og umhyggja pabba fyrir móður sinni Borghild var okkur öllum ljós ásamt þeim systkinakærleik sem ríkti á milli hans, Dagnýjar og Reidars.
Sumarið 1977 er okkur Guðbjörgu systur minnisstætt en þá fórum við með foreldrum okkar í Evrópureisu með Smyrli frá Skotlandi til Noregs. Það var mikið ævintýri sem við búum að alla ævi. Í þeirri ferð fengum við að kynnast einstakri hlýju og gestrisni ættingja okkar frá Noregi þar sem pabbi átti sterkar rætur í gegnum sína móðurætt.
Veturinn 1979 hófst fjölskyldan handa við að reisa framtíðarheimilið í Lækjarásnum. Það var þroskandi tími þar sem aldur var afstæður enda treysti pabbi mér þar til flestra verka.
Umhyggja og virðing pabba fyrir náttúrunni var mikil og íslensk flóra honum kær. Hann naut sín hvergi betur en á fjöllum eða á sínum æskuslóðum á Hesteyri. Þar átti fjölskyldan mörg yndisleg sumur við útivist og gönguferðir, auk silungsveiða og berjatínslu. Gamla síldarstöðin var jafnan vinsæll áningarstaður og ósjaldan dró þá pabbi upp úr bakpokanum súkkulaði, appelsínur og harðfisk við góðar undirtektir okkar barnanna.
Hornstrandir voru ævintýraheimur pabba. Sumarið 1980 fórum við saman í eftirminnilega vikuferð um þær slóðir en pabbi var fararstjóri hóps á vegum Ferðafélags Íslands . Með í för var glaðbeittur danskur blaðamaður sem spurði pabba strax í upphafi hvort 13 ára drengur ætti örugglega erindi í þessa ferð þar sem allur farangur væri borinn á bakinu. Til að gera langa sögu stutta,þá þróuðust mál þannig að það varð hlutskipti okkar feðgana að festa í hann taug okkar á milli vegna óvæntrar lofthræðslu við fuglabjörgin. Um haustið sýndi pabbi mér sposkur danska blaðagrein þar sem mín var getið í fyrsta og eina skiptið á ævinni. Frásögnin var eitthvað á þessa leið I turen var en rask gut på 13, som viste sig at være, stærk som en bjørn Ekkert var minnst á lofthræðslu í þessari annars ágætu dönsku grein.
Björt barnæska er sú dýrmæta gjöf sem pabbi og mamma gáfu okkur systkinunum. Kristileg gildi og hógværð voru foreldrum okkar hugleikin. Pabbi var svo lánsamur að fá að umgangast séra Friðrik Friðriksson á sínum yngri árum og skipaði Vatnaskógur og KFUM ætið stóran sess í lífi hans eftir það. Í þeim félagsskap eignaðist hann líka góða vini sem í dag kveðja föður minn í hinsta sinn. Þar á meðal er Ásgeir B.Ellertsson sem stóð við hlið hans allt til dauðadags.
Það er við hæfi að kveðja pabba með orðum úr 121. Davíðssálmi sem voru honum svo hugleikin:
Ég hef augu mín til fjallanna:
Hvaðan kemur mér hjálp ?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
Elsku pabbi, hafðu þökk fyrir allt og allt, þín er sárt saknað. Guð blessi minningu þína.
Gunnar Friðrik
Fallinn er frá góður vinur, Birgir G. Albertsson kennari frá Hesteyri í Jökulfjörðum. Birgir og Aggi eiginmaður minn fæddust á Hesteyri í Jökulfjörðum og áttu þaðan góðar æskuminningar. Hjá þeim lærðum við að elska Hesteyri sem síðan er okkar óskastaður að dvelja á.
Birgir ólst upp við guðsótta og góða siði sem hann miðlaði öðrum í áranna rás.
Hann var góður og gefandi kennari til margra ára.
Birgir var mikill útivistarmaður, gekk á fjöll sumar sem vetur. Á Hesteyri þekkti hann hverja þúfu og naut þess að dvelja þar hvenær sem hann mögulega gat með Eddu sinni, börnum og barnabörnum og auðvitað systkinum, sínum þeim Reidari meðan hans naut við og Dagnýju.
Eins og alltaf þegar einhver fellur frá rifjast upp minningar.
Minningarnar frá Hesteyri eru ofarlega í hugum okkar, en þangað kom Birgir helst á hverju sumri.
Alltaf átti hann góðar sögur og skemmtilega leiki til að miðla. Við nutum nærveru hans og oft var glatt á hjalla þegar hann var nálægt. Fyrir allt þetta erum við þakklát og munum rifja þetta upp á góðum stundum.
Það var unun að heyra og sjá það sem hann kenndi barnabörnunum sínum um blóm og plöntur sem nóg er af á Hesteyri. Þessi náttúruvísindi tileinkuðu þau sér og límdu plönturnar inn í bók og merktu merktu nöfn þeirra. Það er mikill fjársjóður sem börn í dag ættu að fá að kynnast.
Síðastliðið sumar, - þrotinn af kröftum, kom Birgir til Hesteyrar ásamt systur sinni Dagnýju og áttum við þar öll smátíma saman. Þegar Birgir kvaddi sagði hann: Þetta verður nú trúlega síðasta ferðin mín hingað. Það verður erfitt að horfa upp að húsinu á Fossi og eiga ekki vona á Birgi út á tröppurnar í morgunsárið. Í Læknishúsinu verður mikil breyting þegar við eigum ekki lengur von á honum í heimsókn með allar sínar skemmtilegu sögur, uppátæki og manngæsku.
Elsku Edda, Dagný, börn, tengdabörn og barnabörn, samúðarkveðjur sendum við ykkur öllum við fráfall einstaks fjölskylduföður og vinar.
Birna Pálsdóttir og fjölskylda Bolungarvík
Elsku afi minn þú hefur skilið eftir fótspor í hjarta mínu sem aldrei mun
hverfa og verða mér ljós í gegnum lífið. Það er svo sárt að vita að þú
ert ekki hérna, að ég geti ekki hitt þig og að ég get ekki talað við þig.
En ég veit að þú ert að vernda mig og fylgjast með mér. Ég man eftir þér
sem vitrasta manni í heimi, þú vissir allt alveg sama hvað það var. Þú
kenndir mér það sem ég átti ólært og mun aldrei gleyma því sem þú kenndir
mér. Þetta gerðist allt svo skyndilega og mér finnst eins og þú sért ekki
farin frá okkur það er eitthvað svo óeðlilegt.
Afi minn hann Birgir var vinsæll, góður maður og réttsýnn. Hann hafði alltaf áhuga á öllu sem maður var að gera. Síðustu vikurnar hafa verið erfiðar fyrir alla í kringum þig og sérstaklega þig þegar þú varst sem veikastur en það sýnir ekki þinn sanna mann því þú varst sterkur og duglegur alla þína tíð.
Dvöl mín á Hesteyri með þér og fleirum úr fjölskyldunni eru gullmolar lífs míns því mun ég aldrei gleyma. Þú hefur kvatt mig þegar ég hélt að ég gæti ekkert. Þú hefur sýnt mér að ég geti allt sem ég vil. Því þakka ég þér fyrir að hafa alltaf haft trú á mér og aldrei leyft mér að gefast upp. Ég sakna þín afi minn og ég vildi óska þess að þú gætir verið hérna lengur á þessari jörð en nú vildi Guð fá þig í himnaríkið sitt.
Ég elska þig og ömmu, ég mun aldrei gleyma ykkur og hvað þið hafið
gert fyrir mig. Í dag á ég minningar, perlur sem ég geymi sem fjársjóð í
huga mínum.
Þegar ég sé skærustu stjörnuna á himninum veit ég að það ert þú elsku
afi minn
Edda Sonja Guðmundsdóttir.
Kveðja frá dóttur
Ég vil minnast föður míns, Birgis, nú þegar komið er að kveðjustund.
Ég vil þakka honum fyrir þau gildi sem hann stóð fyrir og mótað hafa mig og lífsskoðun mína á margan hátt. Heiðarleiki og að vera vandur að virðingu sinni eru hugtök sem ég tengi honum á sterkan hátt, að vera trúr því sem við tökum okkur fyrir hendur hvort sem það er í stóru eða smáu. Væntumþykja fyrir íslenskri tungu og náttúru eru mér líka ofarlega í huga. Að virða landið sitt og ganga vel um það var eitthvað sem okkur bar að gera og var greypt inn í barnssálina. Hann kenndi okkur systkinunum bænir og að trúa á guð. Fyrir þetta er ég honum þakklát.
Pabbi var á vissan hátt á undan sinni samtíð hvað varðar útvist. Frá unga aldri undi hann sér í faðmi náttúrunnar og hélt því áfram eins lengi og hann gat. Það voru ófá fjöllin og dalirnir sem hann gekk um en þá var mun óalgengara að fólk færi á fjöll eins og nú er vinsælt.
Líklega hef ég verið verðmætasta afmælisgjöfin sem pabbi fékk um dagana, í það minnsta sú fyrirferðamesta, en hann eignaðist frumburð sinn á 25 ára afmælisdaginn fyrir tæpum 50 árum. Pabbi gerði eflaust meiri kröfur til mín, sem elstu dóttur, í uppvextinum en hinna barnanna og fannst sjálfsagt að ég stæði mig án mikillar hjálpar.Við það var ég ekki alltaf sátt enda vorum við ekki ætíð á sama máli. Samt leit ég upp til hans og viðurkenning hans skipti mig meira máli en flestra annarra, sérstaklega á yngri árum.
Pabbi starfaði bæði sem kennari og við verslun sem faðir hans stofnaði og var því vinnudagurinn oft æði langur. Bæði þessi störf voru honum mikilvæg. Hann naut sín í Langholtsskóla og átti þar góða vinnufélaga og vini. Í versluninni var hann einkar liðlegur og greiðvikinn. Hann taldi það ekki eftir sé að skjótast með vörurnar heim til viðskiptavinanna ef svo bar undir og aðstoðaði ófáar eldri konur í hverfinu. Á unglingsárum naut ég þess að aðstoða í búðinni fyrir jólin og þótti gaman. Óþarfi var að æsa sig yfir krónum og aurum og sló hann oft af verðinu.
Faðir minn var ríkur af afabörnum. Honum þótti vænt um þau öll og var afar stoltur af þeim. Eftir að pabbi veiktist skyndilega í september dvaldi á spítala þar til hann lést. Heimsóknir barnabarnanna vöktu með honum mörg tár.
Ég á eftir að sakna pabba míns. Blessuð sé minning hans.
Borghildur.
Við viljum minnast elsku afa okkar Birgis sem var okkur systkinunum afar kær. Þegar við hugsum til baka er okkur efst í huga hversu stutt var alltaf í húmorinn hjá afa og kom hann okkur ósjaldan til að skella upp úr. Sjálfum fannst honum gaman að hlægja og vera innan um fólk. Afi bað oft um koss á útblásna kinnina sem svo small í við kossinn, litlum börnum til hláturs. Afi var mikill sögumaður og sagði gjarnan frá fyrri tíð. Hann var einnig góður penni og eigum við mörg skemmtileg afmæliskort frá honum og ömmu. Þar leyndust oft góð ráð og brandarar.
Við elstu systurnar munum vel eftir því þegar við vorum litlar og tókum Akraborgina suður til að eyða helgi hjá ömmu og afa. Það var alltaf jafn gaman þegar við sáum þau standa á bryggjunni og bíða eftir okkur. Afa fannst gaman að koma við í Kolaportinu á heimleiðinni ekki síður en okkur. Amma og afi hugsuðu alltaf jafn vel um okkur þegar við dvöldum hjá þeim og þó við yrðum eldri þá var tilhugsunin um að fara til þeirra alltaf jafn góð. Í þessum heimsóknum voru oft dregin fram spil og setið við eldhúsborðið langt fram eftir. Segja má að afi hafi verið svolítill sælkeri. Hann eldaði góðan mat og lumaði oft á rjómabrjóstsykri.
Afi Birgir var áhugasamur um námslega framistöðu barnabarna sinna. Þar sem hann var kennari gat hann oft aðstoðað okkur og þegar vel gekk var hann stoltur af afkomendum sínum. Þó sumar okkar væru komnar í framhaldsskóla vissum við að við gátum enn leitað til afa. Afi jafnt sem amma áttu einnig sinn þátt í kristilegu uppeldi okkar.
Þeir sem þekktu afa okkar vita hversu hjartfólgnar æskuslóðir hans, Hesteyri á Jökulfjörðum, voru honum. Þegar barnabörnin voru komin með aldur til bauð hann þeim gjarnan með vestur á sumrin. Ferðirnar voru sannkallaðar ævintýraferðir. Hann sýndi okkur sögulega staði úr æsku sinni og þar fékk frásagnargleði hans notið sín. Farið var í ófáar fjöruferðir, fjallgöngur, vaðið ár og læki, tínd ber og notið náttúrufegurðar. Það mun seint gleymast þegar tvær systurnar upplifðu það eitt sinn að eldur blossaði upp úr gaskúti þegar afi hafði verið að hita vatn. Afi sýndi tilþrif þegar hann sparkaði logandi kútnum niður á gólf og út úr húsinu. Betur fór en á horfðist þó afi hafi endað með sviðnar augabrúnir og blöðrur á fingrum. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að afi hafi komist í sína síðustu ferð til Hesteyrar í sumar þrátt fyrir heilsubrest. Það gleðilegasta frá sumrinu er þó án efa gullbrúðkaupsafmæli þeirra ömmu og afa. En þá endurnýjuðu þau hjúskaparheitin í kapellunni í Vatnaskógi. Síðan var haldið til sannkallaðar fjölskylduveislu í Hvalfirði þar sem saman kom stór hópur afkomenda þeirra og ættingja.
Afi mun lifa í hjörtum okkar allra. Við viljum þakka honum fyrir allt
sem hann kenndi okkur og við tökum með okkur út í lífið. Eftir lifir
minning um góðan afa og kæran vin.
Afabörnin á Akranesi,
Steinunn Eik, Kristín Edda, Dagný Björk, Ingileif, Aldís Helga og Ægir Sölvi Egilsbörn.