Svanur Hjartarson fæddist í Fremri-Vífilsdal, Dalabyggð 25. júní 1940. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 2. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hjörtur Kjartansson f. 2. janúar 1918, d. 12. júní 1982 og Sigríður Guðbjörg Sigurðardóttir, f. 28. febrúar 1920, d. 10. júlí 2003. Systkini Svans eru: Hulda Heiðdal, f. 3. júlí 1939, Haraldur Bjarni, f. 29. október 1943, Svava Heiðdal, f. 28. apríl 1947, Hugrún Otkatla, f. 1. ágúst 1950 og Hörður, f. 19. febrúar 1958. Svanur giftist 22. nóvember 1964, Eddu Tryggvadóttur frá Arnarbæli, Dalabyggð. Foreldrar hennar Tryggvi Gunnarsson, f. 12. desember 1884, d. 16. ágúst 1954 og Elísabet Þórólfsdóttir, f. 20. nóvember 1917. Börn Svans og Eddu eru: 1) Elísabet Svansdóttir, f. 20. nóvember 1963, maki Magnús A. Jónsson. Börn a) Ottó Ólafsson, maki Linda B. Sveinsdóttir, börn þeirra Sveinn Mikael Ottósson og Embla Rut Ottósdóttir b) Telma Fanney Magnúsdóttir og c) Birta Magnúsdóttir. 2) Sigurður Svansson, f. 23. maí 1966, maki Ólöf Eðvarðsdóttir. Börn a) Eðvarð Sigurður Halldórsson og b) Ólafur Örn Halldórsson og c) Svanur Ingi Sigurðsson. 3) Bryndís Svansdóttir, f. 27. maí 1968, maki Halldór L. Arnarson. Börn a) Leó Freyr Halldórsson og b) Rakel Rós Halldórsdóttir. 4) Arnar Svansson, f. 28. apríl 1977, maki Sólrún L. Þórðardóttir. Börn a) Sigurður Pálmi Sigurðsson, b) Natalía Enika Scheving, c) Ragnheiður Eik Scheving og d) Edda Emelía Arnarsdóttir. Svanur ólst upp í Fremri-Vífilsdal. Árið 1963 byggðu Svanur og Edda sér heimili í Búðardal, þar sem þau hafa átt heimili síðan ásamt því að koma sér upp aðstöðu fyrir fjölskylduna í Arnarbæli, Dalabyggð. Fjölskyldan hefur þar í sameiningu sinnt fjár- og hlunnindabúskap frá 1970. Svanur var bifreiðarstjóri lengst af sínum starfsferli. Fyrst hjá Kaupfélagi Hvammsfjarðar og seinna undir eigin nafni. Síðustu árin vann hann sem verktaki við hin ýmsu tækja- og vélastörf. Útför Svans fer fram frá Hjarðarholtskirkju í dag, laugardaginn 9. janúar 2010 og hefst athöfnin kl. 14.

Ef við horfum út um stofugluggann á Kjallaksstöðum til vesturs, blasir Arnarbæli við. Til suðurs sést út í Bjargey.  Ef maður dregur beina línu milli þessara punkta verður til nokkurn veginn jafnarma þríhyrningur.   Svanur Hjartarson í Arnarbæli var alt mugligt man og gott að eiga hann að. Þegar við vorum að draga að okkur efni til húsagerðar, átti hann flutningafyrirtæki sem sá um þungaflutninga milli Búðardals og Reykjavíkur. Hann lét sér ekki nægja að flytja byggingavörurnar í Búðardal, heldur kom með þær að bæjardyrum, hvort sem var út í Bjargey á báti, eða í hlað á Kjallaksstöðum. Samhliða var hann með gröfur, pallbíla o.fl. sumt sem var samansett úr ýmsu tilfallandi dóti að því er virtist. Þrjú ár eru síðan hann greindist með krabbann ólæknandi.  Hann ákvað að láta eins og ekkert væri og halda sínu striki. Fyrir stuttu síðan var hann að tala um að það væri slæmt að komast ekki á síldina, það væri hægt að nota hana sem beitu í vor. Stutt er síðan hann var að ræða um að við þyrftum að leggja fleiri álanet. Sumarið var sólríkt og þurrt svo það var ekki mikil veiði þetta árið.

Um verslunarhelgar sigldum við með Svani og Eddu um eyjasvæðið í Hvammsfjarðarminninu og kenndu þau okkur á svæðið, sem er viðsjárvert vegna ósýnilegra boða og skerja og ókunnugum skeinuhætt. Kannski var rennt fyrir fisk og veisla að kvöldi.

Við unnum ýmsa smíðavinnu fyrir Svan, og fórum á mink með honum og á veiðar. Síðastliðið vor gengum við á minkinn, en Svanur var heima. Fólkið hans var líka út í eyjum.  Þegar við komum á hlað í Arnarbæli var Svanur þar einn og frekar dauft yfir honum. Hann var á nærbolnum eins og svo oft áður. Í öllum veðrum. Hann sagði að það væri verst að komast ekki á sjóinn. Þá var hann nýkominn úr aðgerð. Það var sjaldgæft að veikindin stöðvuðu hann og hann kvartaði aldrei, þó að við vissum að oft væri þetta erfitt. Við komum að honum í heimaslátrun, hafnarframkvæmdum, vatnsveitu eða öðru sambærilegu.

Síðastliðið vor gaf hann okkur Kanaríeyjakartöfluafkvæni sem hann hafði fengið sér í einni Kanaríeyjaferðinni sem fjölskyldan fór í.  Hann sagði að þessar kartöflur spryttu sérlega vel.  Þær væru þó ekki eins bragðmiklar og þær íslensku, og mjölkenndari. Þær eru ljósar og egglaga.  Að minnsta kosti nýtt form fyrir kartöfluflóruna. Það kviknaði alltaf líf í augum hans þegar hann talaði um veiði og jarðyrkju. Síðastliðið vor var hann að spyrja um reynitrén á Kjallaksstöðum.  Hann langaði að prófa að setja niður tré í Arnarbæli. Við vorum stuttu síðar að grafa og breyta um jarðveg, og eitt reynitré var fyrir. Við stungum það upp og gáfum honum það.  Við vonum að það hafi tekið við sér og vaxi grænt að vori.

Við minnumst Svans með virðingu og vináttu og sendum Eddu, hans góðu konu, og afkomendum samúðarkveðjur.

Fjölskyldurnar Kjallaksstöðum og Bjargey.