Hannes Árni Wöhler fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1939. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi sunnudaginn 3. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigríður Árnadóttir fædd 24. desember 1910 í Reykjavík og Heinrich Wöhler fæddur 15. maí 1910 í Kiel í Þýskalandi. Systkini Hannesar sammæðra eru Bryndís Björk Kristiansen og Bragi Kristiansen. Systir Hannesar samfeðra, Rita Wiese, er búsett í Kiel. Kona Hannesar er Kirstín G. Lárusdóttir fædd 20. maí 1940. Þau voru gefin saman 20. júlí 1961 og hafa búið alla tíð í Reykjavík. Foreldrar Kirstínar voru Sigríður Árnadóttir fædd 20. júlí 1911 í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð og Lárus Sigurbjörnsson fæddur 22. maí 1903 í Reykjavík. Börn Hannesar og Kirstínar eru fjögur. 1) Sigríður fædd 19. janúar 1963. Hún er gift Halldóri Þórarinssyni og eiga þau þrjú börn. Hannes Þór f. 27. apríl 1984, unnusta hans er Halla Jónsdóttir, Harpa f. 4. apríl 1987, unnusti hennar er Jens Pedersen, Bryndís Elín f. 3. febrúar 1994. 2) Lárus Árni fæddur 30. maí 1966. Hann er kvæntur Hafdísi Hallgrímsdóttur og eiga þau fjögur börn. Hinrik Árni f. 20. ágúst 1992, Frans Vikar f. 14. maí 1998, Eyþór Aron f. 28. janúar 2002, Íris Lind f. 3. júní 2009. 3) Herdís fædd 29. desember 1968. Hún er gift Bjarna Svavarssyni og eiga þau þrjú börn. Kirstín Birna f. 16. maí 1989, unnusti hennar er Þórmundur Sigurbjarnarson, Berglind Rut f. 21. júlí 1995, Bjarki Snær f. 8. desember 1999. 4) Ásdís fædd 21. júní 1970. Hún er gift Nökkva Svavarssyni og eiga þau tvö börn. Svavar Lárus f. 4. ágúst 1999 og Ellý Rut f. 3. mars 2004. Hannes ólst upp í Reykjavík. Hann gekk í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi. Hann starfaði við skrifstofu- og verslunarstörf m.a. hjá Loftleiðum og versluninni Pfaff. Auk þess var hann ökukennari til margra ára. Síðastliðin 28 ár ráku þau hjónin eigið fyrirtæki. Á sínum yngri árum æfði Hannes fimleika og frjálsar íþróttir með góðum árangri. Útför Hannesar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, föstudag, og hefst athöfnin kl. 13.
Jæja þá er hann afi minn búinn að kveðja, blessaður kallinn. Hann þurfti að eiga við erfiðan sjúkdóm í langan tíma en barðist við hann eins og ljón allt til enda. Ég held t.d. að hann hafi skrölt yfir áramótin á viljastyrknum einum vegna þess að hann vildi sjá flugeldana einu sinni enn, enda alltaf verið mikill rakettukall. Hann fékk þá ósk uppfyllta. Stuttu síðar lét svo líkaminn undan sjúkdómnum.
Afi Hannes var lífsnautnamaður sem þótti fátt skemmtilegra en að vera innan um fjölskylduna sína að dunda sér við hitt og þetta; fikta í bílum, grilla, ditta að bústaðnum eða spóka sig um í sólríkum garðinum með barnabörnunum. Hann var hlýr og góður maður sem sýndi okkur krökkunum ávallt mikinn áhuga. Jafnvel þegar ég hitti hann þreyttan og þjakaðan eftir langvinn veikindi þegar stutt var eftir spurði hann mig útí hitt og þetta, hvernig gengi í boltanum og vinnunni, hvort ég væri ekki kominn á vetrardekk og hvort ég ætti almennilega úlpu. Honum fannst jakkinn sem ég var í alltof þunnur.
Það var alltaf notalegt að koma í mat til ömmu og afa í Logalandið og þar höfum við oft setið þrjú við eldhúsborðið yfir steiktum fiski eða einhverjum gourmet mat og rætt um heima og geima. Ef ég svo fór niður að horfa á sjónvarpið kom afi stanslaust til mín að athuga hvort ég hefði ekki nóg af púðum, hvort hátalararnir væru rétt stilltir og hvort allt væri í lagi. Mér finnst ég alltaf hafa átt dálítið sérstakt samband við ömmu og afa. Kannski eftir að þau tóku mig með til Þýskalands þegar ég var 5-6 ára til þess að fara í áttræðisafmæli langafa míns heitins, Afa Opa. Á leiðinni heim vorum við stoppuð á landamærunum og amma og afi sökuð um hafa stolið mér! Úr því varð mikil dramatík en einhvern veginn blöðruðum við okkur í gegnum það og höfum síðan þá verið miklir vinir.
Afi var sannkallaður ættarlaukur sem fór fyrir sinni fjölskyldu, hvort sem var í matarboðum í Logalandinu, skíðaferðum í Bláfjöll eða í heildsölunni. Hann hafði gaman að lífinu og gaman að fólkinu í kringum sig. Húmorinn var alltaf til staðar og ég mun aldrei gleyma atviki sem átti sér stað í miðri fermingarathöfn systur minnar, þegar ég og mamma fengum óstöðvandi og mjög vandræðalegt hláturskast í u.þ.b. 5 mínútur eftir hárbeitta og öskrandi fyndna athugasemd sem afi hvíslaði að okkur. Ég fer ekki nánar út í þá athugasemd, en hún var mjög fyndin.
En nú er hann farinn og við söknum hans öll. Það var sárt að heimsækja hann síðustu dagana en það er gott til þess að hugsa að nú hefur hann fengið frið og líður betur á nýjum stað. Síðasta skiptið sem ég hitti afa á lífi kvöddumst við með virktum og það var stund sem mér þykir sérstaklega vænt um og mun aldrei líða mér úr minni.
Vertu sæll afi minn og nafni, hafðu það gott og við sjáumst hressir síðar.
Elsta barnabarnið,
Hannes Þór.