Haraldur Árnason fæddist í Lambanesi í Fljótum 4. maí 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 29. desember sl. Foreldrar hans voru Guðbjörg Kristinsdóttir ljósmóðir f. 3.10. 1898, d. 1983 og Árni Kristjánsson skipstjóri á Siglufirði f. 29.9. 1891, d. 1969. Systir Haralds er Freyja f. 28.10. 1926 og fósturbróðir Pétur Pétursson f. 14.6. 1936, d. 1987. Foreldrar Haralds fluttust til Siglufjarðar þegar hann var barn að aldri og þar ólst hann upp. Eiginkona Haralds er Karólína Friðrika Hallgrímsdóttir f. 26.7. 1921. Þau giftust 28.10. 1944. Foreldrar Karólínu voru Ragnheiður Söebech kaupmaður f. 10.3. 1894, d. 1977 og Hallgrímur Þorvaldsson ökumaður á Akureyri f. 27.9. 1893, d. 1925, og fósturforeldrar Ólöf Jónsdóttir f. 16.5. 1900, d. 1984 og Eyþór Hallsson skipstjóri á Siglufirði f. 4.8. 1903, d. 1988. Börn Karólínu og Haralds eru 1) Ólöf Þórey f. 21.6. 1943, maki Ásgeir Sigurðsson, f. 1937. 2) Helga f. 12.4. 1951, maki Erlingur Björnsson f. 1944, þeirra dætur Íris Rut f. 1972, maki Kristján Fr. Kristjánsson og eiga þau þrjú börn, Helgu Maríu, Kristján Benóný og Brynhildi Lilju, og Karólína f. 1977. 3) Ragnheiður f. 6.12. 1956, sonur hennar og Guðmundar Þorsteinssonar f. 1954 er Árni Þór f. 1975, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa. 4) Árni f. 11.1. 1959, maki Ragnheiður Árnadóttir f. 1963, þeirra börn Selma f. 1994 og Andri f. 1998 5) Eyþór f. 1960. Haraldur lauk gagnfræðaprófi og vann í verslun Gests Fanndals, á bílastöðinni, var deildarstjóri hjá Kaupfélagi Siglfirðinga 1944-1958, rak eigin verslun, Ísbarinn, 1957-1967 og starfaði hjá Skeljungi 1967-2002, umboðsmaður frá 1988. Haraldur var mikill útivistar- og veiðimaður, stundaði laxveiði og skotveiðar á sjó og landi. Hann var einn af stofnendum Stangveiðifélags Siglufjarðar og heiðursfélagi þar og sat í stjórn klakstöðvar félagsins. Hann var félagi í Bridsfélagi Siglufjarðar um áratugaskeið og tók þátt í mörgum mótum og náði þar oft ágætum árangri enda góður bridsspilari. Haraldur gekk ungur til liðs við Alþýðuflokkinn og fylgdi honum að málum alla tíð og seinna Samfylkingunni, og var virkur á fundum og í starfi í ýmsum nefndum. Útför Haralds fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, laugardaginn 9. janúar og hefst athöfnin kl. 14.

Faðir minn fæddist í Lambanesi í Fljótum þ. 5. maí 1912.  Réttum 10 árum síðar, eða þ. 4. maí 1922, kom Halli frændi í heiminn í sama rúmi í Lambanesi.  Þetta var því mikið gæðarúm sem sá heiminum fyrir sómakörlum í háum gæðaflokki á 10 ára fresti.  Ekki hefur verið rannsakað til hlýtar hvaða gæðafólk fæddist í þessu rúmi á áratugunum fyrir og eftir þessa stórviðburði.

Langlífi er nokkuð viðtekin venja hjá Lambanesættinni og deyja karlar af þeirri ætt ekki fyrr en um og yfir nírætt.  Metið á auðvitað langafi, Kristján í Lambanesi, sem var afi kappanna tveggja, en hann varð 104 ára og eftir því sem Halli sagði sjálfur frá, fékk hann sér sundsprett í Miklavatni fram á síðasta dag, auk þess sem hann átti sér lífselexír undir koddanum alla jafna.

Halli flutti ungur með foreldrum sínum, þeim Guðbjörgu ömmu ljósu og Árna Shell, til Siglufjarðar þar sem hann ólst upp ásamt systur sinni, Freyju, í litla húsinu við Túngötuna og lifði og starfaði á Siglufirði æ síðan.  Guðbjörg og Árni gengu mér í ömmu- og afastað, þar sem Sæmundur afi, bróðir Árna, dó ungur í sjóslysi og amma lifði ekki lengi eftir það.  Amma ljósa var ljósmóðir og tók á móti allri fjölgun í ættinni og hálfum Siglufirði um hálfrar aldar skeið.  Árni afi var á sama tíma umboðsmaður Shell á Siglufirði og fékk að siglfirskum sið viðurnefni sitt af því.

Þrautseigja, bjartsýni og lífsgleði voru einkennandi fyrir allt þetta fólk og fór Halli frændi ekki varhlutann af því.  Ungur að árum var hann orðinn deildarstjóri matvörudeildar kaupfélagsins, nokkru seinna stofnaði hann sína eigin verslun og enn seinna tók hann við af föður sínum sem umboðsmaður Skeljungs á Siglufirði.

Halli átti fallega konu.  Það var skemmtilegur samhljómur í nöfnum þeirra, því Karólína var alltaf kölluð Kalla.  Halli og Kalla áttu sér fallegt heimili, fyrst við Hverfisgötu og síðan í mörg ár við Laugarveginn þar sem þau bjuggu með litlu stelpunum sínum Ólöfu Þóreyju, Helgu og Ragnheiði.  Mér finnast þær enn vera litlu stelpurnar, þótt þær séu fyrir löngu orðnar mæður og fullorðnar konur.   Það var annað en ónýtt að koma í heimsókn til Köllu því annað eins af kökum og öðru góðgæti sem borið var á borð var leitun að annars staðar.

Lambanesættin er stór og mikil ætt og er þar mikil fjöld af frænkum og frændum.  Það er ekkert af neinum tekið þótt Halli sé umsvifalaust útnefndur uppáhaldsfrændinn og það alveg frá upphafi vega.  Sem lítill polli var verulega eftirsóknarvert að fá að sitja í sendibílnum frá kaupfélaginu með Halla.  Það var enginn annar sem nennti að atast með okkur strákunum í kitlu- og koddaslag þannig að allir hlógu sig máttlausa.

Eftir að komið var á fullorðinsár fóru áhugamál Halla að smita út frá sér.  Enginn var meiri veiðimaður en Halli.  Hann veiddi bókstaflega allt sem hægt var að veiða.  Ef maður ók með honum upp í sveitir fylgdist hann með hverjum einasta fugli og sá þá oftast löngu á undan öllum öðrum.  Hann var einnig stórtækur í lax og silungaveiði og gjörþekkti allar helstu veiðiár.  Þegar mér þótti leggjast lítið fyrir snillinginn er ég frétti að hann væri nýkominn úr veiðitúr úr gruggugu jökulvatni Blöndu þar sem ég áleit að menn stæðu bara í húkki, þá svaraði hann kankvís: “Já, það er rétt.  Þeir taka stundum svolítið aftarlega.”  Seinustu árin var Halli farinn að fá áhuga á hreindýraveiði og það var síðast í sumar sem hann lagði myndarlegan tarf að velli í félagi við Árna Þór, dótturson sinn.

Það var ekki bara að Halli færði björg í bú á þennan máta heldur var enginn snjallari að matreiða hinar ljúffengustu villikrásir úr veiðinni.  Henning, mágur minn og mikill vinur Halla, naut þess oft að snæða ljúfmetið sem hann bar á borð.

Brids var mikið áhugamál Halla og af mörgum snjöllum leikmönnum á því sviði var hann með í fremstu röð í Bridsfélagi Siglufjarðar.  Leikfléttur, sagnakerfi og upprifjun á spilum var ótæmandi efni í langar og skemmtilegar umræður, eins og reyndar svo margt annað.

Þegar ég kveð þennan síunga en aldraða frænda minn og sendi samúðarkveðjur til Köllu og dætranna frá okkur Biggu, þá er það ekki með trega og sorg í hjarta.  Halli skilur eftir gleði og hlýju.

Jón Sæmundur Sigurjónsson

Ekkert stöðvar tímans tönn. Allt tekur einhvern tímann enda. Dag einn situr maður við eldhúsborðið og les dánartilkynningu um einhvern sem var manni kær og átti stóran þátt í að gleðja líf lítils barns fyrir 40 árum síðan. Ég man ekki hvenær ég kynntist Halla Árna fyrst, en lítill og ungur var ég. Minningar mínar um hann og þær stundir sem ég átti með honum í olíubílnum eru mér afskaplega kærar. Halli var mikil barnagæla og mér alltaf góður. Hann var bæði hlýr og skemmtilegur. Ég man eiginlega aldrei eftir Halla öðru vísi en kátum og brosandi. Alltaf í góðu skapi. Ferðir mínar með honum í olíubílnum urðu margar í alls kyns veðrum bæði sumar og vetur. Oft var barist í gegnum skafrenning og skafla en aldrei þurfti ég að fara út í kófið. Ég sat bara inni í hlýjunni á meðan Halli fór út í óveðrið og dældi olíu á tanka heimilanna á Siglufirði. Í þá daga voru öll heimili kynt með olíu. Fyrir unga stráka er fátt skemmtilegra en að sitja í stórum bílum og horfa yfir allt og alla. Olíubíllinn hans Halla var flottasti bíllinn í bænum og enginn bíll dreif eins mikið í snjónum og hans. Ég man þegar Halli fékk nýjan olíubíl. Það var Benz eins og sá gamli nema hvað sá nýi hafi þrjár rúðuþurrkur! Þetta var það alflottasta sem til var. Enginn annar bíll í bænum hafðir þrjár rúðuþurrkur. Maður var ekki lítið montinn að sitja í þessum bíl.

Halli og pabbi voru góðir vinir. Þeir voru jafnaldrar og saman í briddsspilaklúbbi. Þær eru margar sögurnar sem ég hef heyrt af þeim góða klúbbi. Ein stendur þó uppúr. Stundum var það þannig að þeir félagar spiluðu upp á peninga. Í eitt skiptið var Halli vel við skál og vildi að vel yrði lagt í pottinn. Pabbi var þessu mótfallinn en varð að gefa eftir fyrir vilja Halla og Ármanns Jakobssonar bankastjóra. Ármann var að sögn pabba enn kenndari en Halli. Nú leikar fóru þannig að pabbi græddi mest, enda edrú, en Ármann tapaði langmestu, enda varla í spilahæfu ástandi. Ármann tók upp tékkheftið og skrifaði ávísun fyrir skuld sinni við pabba. Daginn eftir hringdi Halli í pabba til að gefa honum góð ráð. Hann sagði pabba að fara strax og eyða ávísuninni áður en rynni af Ármanni og hann stöðvaði hana. Ávísunin var mjög stór á þess tíma mælikvarða, enda keypti pabbi 20 viskíflöskur fyrir hana í ríkinu á Sigló. Pabbi geymdi svo viskíið og beið þess hvort ríkið gæti innleyst ávísunina í bankanum. Í þetta sinn stöðvaði Ármann ekki ávísunina og pabbi gaf Halla 3 viskíflöskur fyrir heilræðið.

Nú er Halli farinn yfir móðuna miklu. Ég er nokkuð viss um að þar sé hann hrókur alls fagnaðar og ekur um á stærsta og flottasta bílnum. Þar dælir hann eldsneyti á heimili þeirra fyrir handan og ég veit að hann gerir það með sínum alkunna léttleika og brosi á vör. Flestir spilafélagarnir eru líka komnir yfir, aðeins pabbi eftir. Ég er viss um að hann fær sæti við spilaborðið þegar hans tími er kominn. Þá verður aftur kátt á hjalla.

Ég sendi að lokum öllum aðstandendum Halla Árna mínar innilegustu samúðarkveðjur. Góður maður er genginn.

Ragnar Thorarensen.