Anna Sigurlásdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 18. jan. 1933. Hún lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 2. jan. síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurlás Þorleifsson verkamaður í Vestmannaeyjum, fæddur á Miðhúsum í Hvolhreppi þann 13. ág. 1893, d. 27 nóv. 1986 og Þuríður Vilhelmína Sigurðardóttir húsmóðir f. 31. okt. 1907 í Garðabæ Vestmannaeyjum, d. 27. júlí 1992. Þau bjuggu lengst af á Reynistað í Vestmannaeyjum. Anna var fjórða í röð 15 alsystkina frá Reynistað. Systkini Önnu eru: Silla, Eggó (látinn), Lilli, Kiddý, Ásta, Olla, Jóna, Gústi, Helgi, Reynir (látinn), Erna (látin), Maddý, Geir, og Linda, einnig átti hún þrjú hálfsystkini samfeðra: Margrét Freyju, Huldu og Baldur. Anna giftist Jónatani Aðalsteinssyni stýrimanni á sjómannadaginn árið 1953. Jónatan fæddist 19. júlí 1931 á Siglufirði og lést 4. des. 1991 í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru Sigþóra f. 1953, í sambúð með Gísla Sig. Eiríkssyni, búsett í Vestmannaeyjum. Aðalsteinn f. 1958, giftur Þóru Björg Thoroddsen, þau eru búsett í Bandaríkjunum. Þór Vilhelm f. 1973, giftur Evu Hrönn Guðnadóttir, búsett í Reykjavík. Ömmubörnin eru sex og langömmubörnin einnig sex Anna og Jónatan byggðu sér myndarlegt heimili að Brimhólabraut 37 í Vestmannaeyjum þar sem þau bjuggu lengstan hluta lífs síns. Anna hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum og var markvörður þegar íþróttafélagið Týr vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í handknattleik kvenna árið 1952. Anna vann einnig mestan hluta ævi sinnar utan heimilisins við hin ýmsu störf, en lengst var hún hjá Vinnslustöðinni í Eyjum Útför Önnu fer fram í dag, laugardaginn 9. janúar, frá Landakirkju í Vestmannaeyjum.

Það skiptir líklega ekki máli hvað maður er gamall þegar maður kveður móður sína, það er alltaf jafn erfitt. Við systkinin erum þrjú fædd á 20 ára tímabili, árin 1953, 1958 og 1973. Við upplifum það öll á ólíkan hátt að mamma sé farin en eigum það þó sameiginlegt að eiga eftir að sakna hennar mikið. Takk mamma fyrir allar góðu stundirnar, allar frábæru minningarnar og takk fyrir að hafa verið alveg einstök manneskja.

Þó að fundum fækki,
er fortíð ekki gleymd.
Í mínum muna og hjarta
þín minning verður geymd.
(K.N.)

Sigþóra Jónatansdóttir Aðalsteinn Jónatansson Þór Vilhelm Jónatansson

Anna tengdamóðir mín er fallin frá. Ég minnist hennar með virðingu og miklum söknuði. Okkar leiðir lágu saman síðla árs 2002 þegar Þór, sonur hennar, fór með mig til Vestmannaeyja og kynnti mig fyrir henni. Hún tók á móti okkur með fullu borði kræsinga og voru það höfðinglegar móttökur sem við fengum að njóta í hvert skipti sem við komum til Eyja. Það var annað hvort labskaus (saltkjötskássa), hakkabuff eða einhver annar mömmumatur eða brauðterta, heitur réttur, súkkulaðikaka og smurt brauð. Já, ekki var maður svangur þegar maður var í heimsókn hjá tengdó. Anna lagði sig alla fram við að dekra við okkur þegar við vorum í heimsókn og var þá Þjóðhátíð engin undantekning. Reyktur lundi, kraftmikil kjötsúpa, flatkökur með hangikjöti og glæsileg humarveisla göldruð fram í eldhúsinu án nokkurrar fyrirhafnar að því er manni fannst. Það verður skrítið að koma á Þjóðhátíð í sumar og engin tengdamamma að taka á móti okkur með kossi.
Anna var heimakær kona fór ekki oft frá Vestmannaeyjum. Þó kom hún nokkrum sinnum í heimsókn til okkar í borgina og meira að segja einu sinni heimsótti hún okkur Þór alla leið til Barcelona ásamt Jónu systur sinni þegar við bjuggum þar. Ég á ógleymanlegar minningar frá þeirri ferð þar sem við röltum okkur um stræti og torg og stoppuðum á hverju horni og fengum okkur tapas og hvítvín.
Anna greindist með krabbamein í lungum í júní 2008. Hún kom til Reykjavíkur um haustið til geislameðferðar og dvaldi í 5 vikur. Sá tími sem við áttum saman þá er einn sá dýrmætasti í mínum huga. Við áttum þar stundir þar sem við kynntumst betur og sátum saman og spjölluðum um heima og geima. Hún varð hinn mesti heimsborgari og fór á nýtt kaffihús á hverjum degi og fékk sér köku með rjóma og cappuchino. Fór í bíó og út að borða og naut sín að sitja og skoða fjölskrúðugt mannlífið.
Tengdamamma átti sæmilegt ár í fyrra og ég er þakklát fyrir það að hún hafði góða heilsu til að gleðjast með okkur Þór á brúðkaupsdaginn okkar síðastliðið sumar.
Anna var lögð inn á Sjúkrahús Vestmannaeyja í lok nóvember síðastliðinn til líknarmeðferðar. Starfsfólk sjúkrahússins gerði allt til þess að hún hefði það sem best og ber ég þeim miklar þakkir fyrir það. Það var mikil gleði að hún gat komið og hitt ættingja sína í jólaboði fjölskyldu sinnar helgina fyrir jól þar sem hún náði að hitta systkini sín og aðra ættingja. Á aðfangadag fylltist hún fítonskrafti fór heim til Sigþóru dóttur sinnar í kalkúnaveislu og tók upp pakka í faðmi barnanna sinna þriggja, barnabarna og barnabarnabarna.( Síðustu stundir Önnu voru kyrrlátar þar sem hún var umvafin ást og umhyggju. Það var risinn dásamlega fallegur dagur og við sáum frá Vestmannaeyjum Eyjafjallajökul loga í morgunsólinni og Heimaklett sveipaðan bleikum bjarma.

Ég þakka Önnu fyrir góð kynni og góðar stundir. (
Minning hennar mun lifa í hjarta mínu.

Eva Hrönn Guðnadóttir

Nokkur fátækleg orð til að minnast elskulegrar frænku minna Önnu á Reynistað. Anna er mjög áberandi í minningunni hjá mér og bjó hún og fjölskylda hennar  lengst af í næsta húsi við okkar á Brimhólabraut og var mikill samgangur milli Önnu og Jónatans og foreldra minna og okkar krakkanna ef ekki í götunni okkar þá á Reynistað hjá Ömmu og Afa. Fyrir framan húsin okkar var á sínum tíma frábær sleðabrekka sem endaði inni í garði hjá okkur og Önnu og Jónatan. Eitt sinn var brekkan okkar iðandi af krökkum þá birtist Anna með fullan pappakassa af flottu súkkulaðibuffi sem Jónatan hafði komið með úr siglingu. Og viti menn brekkan tæmdist og pappakassinn í leiðinni. Svona var Anna alltaf ljúf og góð við okkur krakkana. Mig langar líka að þakka Önnu og systkinum hennar þeim sem eru farin og þeim sem eftir lifa fyrir aðstoðina og gjafmildina við mig á sínum tíma þegar ég átti um sárt að binda. Þá var ekki hikað, það skyldi hjálpað, allir sem einn. Með þakklæti kveð ég þig Anna frænka mín.

Elsku Sigþóra, Alli og Þór og fjölskyldur ykkar. Ég og fjölskylda mín sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún Eggertsdóttir