Ásta Sigríður Gísladóttir fæddist í Skáleyjum á Breiðafirði 17. desember 1935. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Patreksfirði 22. desember sl. Foreldrar hennar voru Gísli Einar Jóhannesson f. 1. september 1901, d. 27. janúar 1984 og Sigurborg Ólafsdóttir f. 26. júli 1904, d. 7. mars 1984. Ásta var fjórða í röð sjö systkina sem eru Ólína, Eysteinn, María, Jóhannes, Ólafur og Kristín. Ásta ólst upp í Skáleyjum þangað til hún fór í Húsmæðraskóla að Varmalandi 1955-1956 og útskrifaðist hún með ljósmóðurspróf LMSÍ 30. sept 1960. Fluttist Ásta þá til Patreksfjarðar og þar kynntist hún eiginmanni sínum Sverri Breiðfjörð Guðmundssyni f. 28.2. 1938, d. 4.10. 1998 og giftu þau sig þann 29. júní 1963. Þau eignuðust 5 börn: 1) Guðmundur Lúther f. 14.9. 1962. 2) Sigurborg f 1.5. 1964, maki Loftur Gunnarsson, börn hennar eru 2a) Ásta Sigríður, á hún synina Eyjólf Má og Ágúst Mána. 2b) Jóhann Breiðfjörð, í sambúð með Esther og eiga þau soninn Aðalstein Breiðfjörð 2c) Þorbjörn Þór 2d) Sverrir Pétur, 3) Eyjólfur Breiðfjörð f. 18.2. 1968, d. 4.11. 1989. 4) Heiður Þórunn f. 14.8. 1970. Maki Gísli S. Hafsteinsson og eiga þau börnin 4a) Auði 4b) Sverri Breiðfjörð 4c) Ástu Sigríði 5) Gísli Einar f. 13.7 1976. Maki Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir, eiga þau börnin 5a) Sveinbjörn Styrmi 5b) Arnheiði Breiðfjörð 5c) Guðmund Steinar. Ásta starfaði á Hvítabandinu og Kleppsspítala áður en hún fór í ljósmóðurnám,en starfaði á Patreksfirði allan sinn starfsaldur sem ljósmóðir frá 1960 til 2004 og tók á móti 730 börnum. Einnig sinnti hún í seinni tíð ungbarnaeftirliti og öðrum störfum á heilsugæslustöðinni á Patreksfirði. Ásta söng í kór Parteksfjarðarkirkju frá 1967 og var virk í slysavarnadeildinni Unni, kvennadeild. Útför Ástu fer fram frá Patreksfjarðarkirkju í dag 9. janúar og hefst kl 13.30.
í sól og sumaryl sér léku lítil börn" létt við litla tjörn" Þessi æskuminning er erindi mitt inn á þennan vettvang. Ásta systir mín var næst mér í aldri af hópnum og leikfélagi minn um aðra fram. Vegna þess hve smá hún var vexti þegar ég man fyrst var hún ekkert stærri en ég og reyndar var ég fljótt kominn með vinninginn. Tók því kannski stundum á mig göslameiri hlutverkin, sem einnig kann að hafa stafað af eðlismun. Innanhúss lékum við okkur að dúkkum. En ég var feiminn við að láta aðra stráka sjá það. Öðru máli gegndi um tindátaskurk. Stelpur þurftu ekkert að skammast sín fyrir strákaleiki. Þar eð hún var eldri var hins vegar vitið og forsjónin í hennar verkahring, einnig umhyggjan. Þetta gilti þegar við vorum tvö ein. Þegar grannar og félagar mynduðu hóp, riðlaðist þessi embættaskipan. Hve Ásta var lítil og hægvaxta voru engar vísindalegar áhyggjur af. Krakkar voru bara misvaxta og mis gráðugir, það var lögmál. Sjálf dró hún þá ályktun á fullorðins aldri, með lærða þekkingu á heilbrigðismálum að einhver efnaskiptavitleysa hefði þjakað upphaf hennar uppvaxtarára. Leikir okkar við litla tjörn, við klett, við hús, á hæð eða hól voru eftirmyndir af búskap fullorðinna, sem við lifðum og hrærðumst í. Verkaskipting milli karla og kvenna var á hreinu. Þegar fleiri voru að leik og leikurinn kappleikur vorum við bæði lítil og lítil í okkur. Sú er mín minning.
Við sóttum á sama tíma að sömu ömmuknjánum huggun, styrk, ráð, aðstoð. Þessi lífhöfn var alltaf til staðar, en þó skal ein undantekning nefnd, fyrst hún er í minningunni, þegar þar var bara alls ekki lendandi. Amma 75. Ættingjar og vinir í heimsókn, margt ókunnugt fólk, smáfólk feimið. Stórhátíð, veisluborð úr stórum timburfleka á tunnum í stærsta rými hússins, norðurloftinu. Hávaði, amma í sæti fyrir miðju borði dæmd á svip alveg óaðgengileg. Stórir karlar standandi upp beggja megin borðs, hampandi glösum fram yfir borðið hver til annars. Skál, skál. Stillandi sér upp við dyrastafinn eins og þeir þyrftu að klóra sér á bakinu meðan þeir þrumuðu lofgjörðina yfir afmælisbarninu. Þetta var skrítið. Þegar ég á fullorðins árum viðraði þessa minningu reyndist Ástu stóratburður sá með öllu hulinn. Ályktaði helst, að ef til vill hefði hún séð ömmu þarna svo óaðgengilega og þótt þá tilveran með öllu glötuð og tekið það til bragðs að skríða í afvikið skot og liggja þar grenjandi þar til úr rættist.
Önnur gamansaga, fengin af munnmælum, til orðin fyrir mitt minni. Ásta fór gjarna til mjalta á bólinu á sumrin, fylgisspök ömmu sem þá var enn hluthafi í því embætti. Svo bar til einhvern tíma að hún gleymdi tímanum. Mjaltakonur farnar, hún eftir heima, hræðilegt, heimur hlaut að hrynja kæmist hún ekki á bólið. Bólið var utan túns og þangað drjúgur spölur stuttum fótum einsömlum, ægilegt glæfraspil. Kýrnar stórar, vafalaust mjög hættulegar smámey einni á ferð. Hver tími fór í að safna kjarki fer ekki sögum af, en ein birtist hún á bólinu. Sloppin við heimsins hættur lýsti hún yfir:"Hér kemur Ásta hetja." Þessi yfirlýsing varð að sjálfsögðu að flimtingamáli til margra ára.
Ásta var snemma næm á umhverfið og tilveruna. Lagin að færa það, sem fyrir augu og eyru bar í skoplegan búning sagði hún frá. Hlýddi á ræður manna, rök, boðskap, þrætur, raus. Skilaði öllu inní frásögnina. Raddir, fas, orð, áherslur, allt skilaði sér á sviðið. Mörgum minnisstætt. Bernskuárin bestu liðu-, æskustörfin okkar biðu." Ásta gekk að heyvinnu og hverju, sem var til jafns við aðra þó smávaxin væri. Trúlega voru mjaltirnar hennar eftirlæti. Við vorum oft saman fjósafólkið, fjósamaður, fjósakona, gamalgróin góð starfsheiti. Ásta hafði söngrödd og gaman af að beita henni. Eftirlæti hennar mest var að sleppa henni lausri þessari íþrótt sinni þegar hún var sest undir beljuna. Konsertinn stóð þá gjarnan þangað til Von varð vitlaus og upphóf stóraspark í haftinu, það var hennar íþrótt. Yfirleitt voru þær þó mestu mátar Ásta og Von og Ásta minntist hennar með kærleik. Ásta fór að fara að heiman til vinnu, þá strax inná heilbrigðis-og hjúkrunar geirann, fyrst á Kleppi. Heimkomin þaðan og enn til sinna fyrri starfa rifjuðu þær upp íþróttir sínar hvor á annarri hún og Von og Ásta lýsti því yfir að Von ætti hvergi heima nema í Klepps fjósinu.
Æskustörfin móta unglinginn við aukna ábyrgð. Sumarkrakkarnir að sunnan voru yngri og vafalaust þurftu þeir oft nokkurs með, fjarri sínum nánustu og mis framfærnir. Ég þekki þess dæmi að á fullorðinsárum hafa sum borið þann vitnisburð að til Ástu hafi jafnan verið best að leita ef nokkurs var vant.
Gamli stimpillinn Ásta hetja" varð annað en flimtingamál, en rifjaðist upp okkur sem þekktum þegar hún óbuguð án þess að gráta stóð, sem jarðfastur klettur yfir moldum drengsins síns. Hún sagði mér seinna að kannski hafi hún haldið fjölskyldunni í tilfinningalegri spennitreyju með því að geta ekki grátið þá. Seinna losnaði um það og yfir hvolfdust tómleikaáhrif hinna köldu staðreynda. Hún nefndi Eyjólf oft og ef til vill má ætla, að hún hafi tregað hann því meir sem lengra leið. Hún sá hann í svip og fasi yngri drengjanna sinna og fór ekki í neinar grafgötur með að henni þótti hann oft í fylgd með þeim frændum sínum. Gott þótti henni það og gæfumerki þeirra.
Hún Ásta systir mín efaðist ekki um framhaldslífið. Kannski horfði hún með eftirvæntingu til vistaskipta. Mér þykja bein ósköp hversu hægt og bítandi dró af henni síðustu árin. Hennar var heimvon helg". Í næst síðustu viku hennar lífs kom ég daglega til hennar á sjúkrahús. Hún var að mestu í dái. Einu sinni leit hún þó á mig, brosti, rétti hendina, hélt í hönd mér augnabliksstund, sagði ekkert. Þökk sé fyrir þessa stund. Það var fallegt og réttlátt tiltæki sjómanna á Patreksfirði að hylla ljósmæðurnar sínar á sjómannadaginn síðasta. Þessar tvær ljósmæður, sem höfðu fengið þá í lúkurnar flesta við komuna í þennan heim. Flesta nú starfandi kynslóðar þeirrar stéttar og allra þar í plássinu. Einnig er notalegt að finna, ef nöfn þeirra hjóna Ástu og Sverris ber á góma í viðtali við Patreksfirðing, að þá andar hvarvetna til þeirra hlýju. Ljósmóðurina Ástu Gísladóttur og alt muligt mannen" Sverri Guðmundsson var gott að eiga að grönnum og sveitungum. Óáreitin, hjálpsöm, yfirlætislaus. Til þeirra bera allir hlýjan hug.
Á vetrarsólhvörfum, daginn sem sól tekur að hækka sinn gang verma okkar slóð og lýsa kvaddi hún samfylgd okkar, ljósmóðirin. Ljósmóðirin, fegurst starfsheitis sem íslensk tunga á. Var það ekki táknrænt?
Jóhannes Geir Gíslason Skáleyjum.