Hannes Árni Wöhler fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1939. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi sunnudaginn 3. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigríður Árnadóttir fædd 24. desember 1910 í Reykjavík og Heinrich Wöhler fæddur 15. maí 1910 í Kiel í Þýskalandi. Systkini Hannesar sammæðra eru Bryndís Björk Kristiansen og Bragi Kristiansen. Systir Hannesar samfeðra, Rita Wiese, er búsett í Kiel. Kona Hannesar er Kirstín G. Lárusdóttir fædd 20. maí 1940. Þau voru gefin saman 20. júlí 1961 og hafa búið alla tíð í Reykjavík. Foreldrar Kirstínar voru Sigríður Árnadóttir fædd 20. júlí 1911 í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð og Lárus Sigurbjörnsson fæddur 22. maí 1903 í Reykjavík. Börn Hannesar og Kirstínar eru fjögur. 1) Sigríður fædd 19. janúar 1963. Hún er gift Halldóri Þórarinssyni og eiga þau þrjú börn. Hannes Þór f. 27. apríl 1984, unnusta hans er Halla Jónsdóttir, Harpa f. 4. apríl 1987, unnusti hennar er Jens Pedersen, Bryndís Elín f. 3. febrúar 1994. 2) Lárus Árni fæddur 30. maí 1966. Hann er kvæntur Hafdísi Hallgrímsdóttur og eiga þau fjögur börn. Hinrik Árni f. 20. ágúst 1992, Frans Vikar f. 14. maí 1998, Eyþór Aron f. 28. janúar 2002, Íris Lind f. 3. júní 2009. 3) Herdís fædd 29. desember 1968. Hún er gift Bjarna Svavarssyni og eiga þau þrjú börn. Kirstín Birna f. 16. maí 1989, unnusti hennar er Þórmundur Sigurbjarnarson, Berglind Rut f. 21. júlí 1995, Bjarki Snær f. 8. desember 1999. 4) Ásdís fædd 21. júní 1970. Hún er gift Nökkva Svavarssyni og eiga þau tvö börn. Svavar Lárus f. 4. ágúst 1999 og Ellý Rut f. 3. mars 2004. Hannes ólst upp í Reykjavík. Hann gekk í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi. Hann starfaði við skrifstofu- og verslunarstörf m.a. hjá Loftleiðum og versluninni Pfaff. Auk þess var hann ökukennari til margra ára. Síðastliðin 28 ár ráku þau hjónin eigið fyrirtæki. Á sínum yngri árum æfði Hannes fimleika og frjálsar íþróttir með góðum árangri. Útför Hannesar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, föstudag, og hefst athöfnin kl. 13.
Það var sorglegt að sjá svona sterkan mann missa líkamlegt þrek og heilsu. Tíminn þinn á þessari jörð hefði gjarnan mátt vera meiri. Hannes Wöhler var kominn af sterku fólki sem oft voru kallaðir „Landpóstarnir“. Þetta var fólk sem lét mótvinda ekki hindra för, heldur héldu áfram og skiluðu sínu verki. Þetta fannst mér oft vera lýsandi fyrir þig. Þú varst í vinnunni nánast fram á dánardægur ef ekki á staðnum þá í huganum.
Í æsku minntirðu mig reglulega á hvað ég hefði það gott, því að ég hefði föður. Ég skildi það kannski ekki þá en skil það núna. Æskan þín var stundum erfið enda ólst þú upp föðurlaus og skildi það eftir sig ör á sálinni. Þú varst duglegur að benda mér á það að meta það sem skiptir máli í lífinu: Heilsa, fjölskylda, veraldleg gæði skipta nánast engu máli.
Barátta þín við illvígan sjúkdóm var hetjuleg og sýndi í raun hvað í þér bjó, um veikindi þín hafðir þú ekki hátt um við mig og oft þegar við hittumst varstu forvitnari um mína hagi og tókum við upp léttara spjall, ég sá að þig langaði ekkert að tala um þessi veikindi.
Einkenni þitt var gríðalegt gjafmildi. Gjafmildi á sjálfan þig og skipti þá ekki máli hver það var ... allir fengu tíma þinn og athygli. Ólatari vinnumann hef ég ekki kynnst enda varstu vakinn og sofinn yfir vinnunni og öllu því sem aðrir í fjölskyldunni voru að stússa. Oftar en ekki bauðstu fram hjálp þína og þá gjarnan mættur fyrstur á svæðið. Þegar við hjónin vorum að byggja held ég meira að segja að þú hafir eytt jafnmiklum tíma í að byggja húsið og ég. Þvíllíkur áhugi á að hjálpa til var og er óskiljanlegur, ég man að ég þurfti stundum nánast að reka þig heim. Ég brosi enn að því þegar við kláruðum að múra veggina og gólfin áður en múrarinn kom ... sá var heldur súr.
Ég sakna áhuga þíns á öllu því sem ég tók mér fyrir hendur og símtölin þar sem ég gaf stutta skýrslu um málin, ekki minnkaði áhuginn ef ég var í einhverju bílskúrs eða bílastússi. Í hvert einasta skipti sem þú komst í heimsókn þá kíktirðu í skúrinn, meira að segja í þinni hinstu heimsókn til okkar, þá langaði þig að koma og hjálpa til við nýjasta verkefnið. Ég minnist gleðistunda með þér í veiðiferðum, skíðaferðum og svo þegar við ókum á hraðbrautunum í Þýskalandi á kraftmiklum bíl, tveir á ferð í föðurlandinu og ég keyrði og þú sagðir sögur um Rínarhéruðin, kastalana, víngerð o.fl.
Pabbi minn! Mér finnst þú ennþá sitja inní stofunni og vera að fylgjast með, tilbúinn að spyrja mig um hvernig dagurinn var. Ég sakna að heyra ekki hvernig þú annað hvort byrjaðir eða endaðir setningarnar á „Lárus minn“. Í seinni tíð fann ég oft að því hvað við hugsuðum eins þó við værum ólíkir í mörgu, ég brosi innra að því .... ég t.d. erfði ekki þessa súpervandvirkni og þolinmæði, þú varst svo greinilega þýskur í mörgu t.d. með að spjalla og útskýra sem var þín sérgrein. Þegar við vorum saman fannst mér oft gott að hlusta á malið í þér, en eins og þú veist er það ekki mín sterkasta hlið. Mér fannst gott að heyra að þú varst ánægður með 70 ára afmælið og ég náði að spila „Bonasera“ fyrir þig.
Það sem stendur uppúr hjá þér í seinni tíð er afahlutverkið, en það tókstu alvarlega, enda sakna afastrákarnir okkar þín ótrúlega mikið og það hafa runnið mörg tár hjá þeim síðustu daga, enda mikil sorg í litlum hjörtum og erfitt að missa afa sinn og vin.
Þú ert örugglega í faðmi föður þíns og móður, afa Heinrich og ömmu Dídí, sem umvefja þig í ást og hlýju. Þið sitjið eflaust saman að mala og tala eins og þér fannst gaman.
Ég kveð þig með sorg í hjarta og geymi allt það góða, ég minnist síðasta augnabliksins þegar þú varst á meðal okkar. Ég kyssti þig á ennið og leit í bláu augun þín og kvaddi þig hinsta sinni, „bless pabbi minn“.
Hvíl í friði elsku pabbi.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Þinn sonur,
Lárus Árni Wöhler.
Elsku afi Hannes!
Ég mun ávallt muna eftir því þegar við sátum saman löngum stundum út á svölum á öllum þessum hótelum sem við fjölskyldan höfum heimsótt saman gegnum tíðina. Þar sem við ræddum um lífið, tilveruna og veginn. Við létum ekki mikinn aldursmun stoppa okkur og alltaf gátum við eytt fleiri og fleiri tímum talandi um hin ýmsu málefni, allt frá fótbolta til þýskrar menningar. Ég mun aldrei gleyma þegar við fórum til Þýskalands saman og þar sást langar leiðir að þú varst á heimavelli og það mun alltaf lifa í minningunni. Það gleymist aldrei þegar þú fékkst mig til að setjast niður með þér í Logalandinu og horfa á hinar og þessar bíómyndir sem ég hafði engann áhuga á að horfa á, en svo á endanum var þetta alltaf hin besta skemmtun. Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp góðar minningar af okkur saman, þín er sárt saknað.
Hinrik Wöhler.
Kæri afi Hannes!
Þú varst langbesti afi í öllum alheiminum, þú varst sá skemmtilegasti, fyndnasti og mikið mikið meira. Þú leyfðir okkur alltaf að leika okkur á háaloftinu og niðri á jörðinni.
Eyþór Aron Wöhler (7 ára).
Kæri afi Hannes!
Þú varst sá afi sem allir óskuðu sér og vildu eiga að. Við hlökkuðum alltaf til að hitta þig, tala við þig. Tvö lengstu metin mín að tala í síma voru við þig og ömmu, mig langaði mikið að hitta þig og sjá þig þá.Frans Vikar Wöhler (11 ára).