Hannes Árni Wöhler fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1939. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi sunnudaginn 3. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigríður Árnadóttir fædd 24. desember 1910 í Reykjavík og Heinrich Wöhler fæddur 15. maí 1910 í Kiel í Þýskalandi. Systkini Hannesar sammæðra eru Bryndís Björk Kristiansen og Bragi Kristiansen. Systir Hannesar samfeðra, Rita Wiese, er búsett í Kiel. Kona Hannesar er Kirstín G. Lárusdóttir fædd 20. maí 1940. Þau voru gefin saman 20. júlí 1961 og hafa búið alla tíð í Reykjavík. Foreldrar Kirstínar voru Sigríður Árnadóttir fædd 20. júlí 1911 í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð og Lárus Sigurbjörnsson fæddur 22. maí 1903 í Reykjavík. Börn Hannesar og Kirstínar eru fjögur. 1) Sigríður fædd 19. janúar 1963. Hún er gift Halldóri Þórarinssyni og eiga þau þrjú börn. Hannes Þór f. 27. apríl 1984, unnusta hans er Halla Jónsdóttir, Harpa f. 4. apríl 1987, unnusti hennar er Jens Pedersen, Bryndís Elín f. 3. febrúar 1994. 2) Lárus Árni fæddur 30. maí 1966. Hann er kvæntur Hafdísi Hallgrímsdóttur og eiga þau fjögur börn. Hinrik Árni f. 20. ágúst 1992, Frans Vikar f. 14. maí 1998, Eyþór Aron f. 28. janúar 2002, Íris Lind f. 3. júní 2009. 3) Herdís fædd 29. desember 1968. Hún er gift Bjarna Svavarssyni og eiga þau þrjú börn. Kirstín Birna f. 16. maí 1989, unnusti hennar er Þórmundur Sigurbjarnarson, Berglind Rut f. 21. júlí 1995, Bjarki Snær f. 8. desember 1999. 4) Ásdís fædd 21. júní 1970. Hún er gift Nökkva Svavarssyni og eiga þau tvö börn. Svavar Lárus f. 4. ágúst 1999 og Ellý Rut f. 3. mars 2004. Hannes ólst upp í Reykjavík. Hann gekk í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi. Hann starfaði við skrifstofu- og verslunarstörf m.a. hjá Loftleiðum og versluninni Pfaff. Auk þess var hann ökukennari til margra ára. Síðastliðin 28 ár ráku þau hjónin eigið fyrirtæki. Á sínum yngri árum æfði Hannes fimleika og frjálsar íþróttir með góðum árangri. Útför Hannesar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, föstudag, og hefst athöfnin kl. 13.
Minn kæri vinur Hannes Árni er látinn aðeins sjötugur að aldri. Allt sitt líf var hann dugmikill til náms og verslunarstarfa, prúðmenni. Sonur Tæna konfektgerðarmanns og Sigríðar Árnadóttur verslunarkonu. Ungur lofaðist hann Kirstínu G. Lárusdóttur, dóttur borgarminjavarðar, samtaka hjón í blíðu og stríðu við fjölskyldufyrirtæki, sem seldi falleg og vönduð barnaföt og uppeldi barna og barnabarna fórst þeim vel úr hendi.
Eftir veglega, hjartnæma útför í Bústaðakirkju í Fossvogi þar sem myndarlegt heimili þeirra Kirstínar stóð að Logalandi 6 í áratugi, vil ég minnast bernsku- og unglingsára okkar þar sem lífið var sannkallað bræðralag. Allt fórst vel úr góðum höndum; gestaþrautir, fimleikar, næmi fyrir hönnun og fegurð, ökuleikni og kennsluhæfileiki sem kom sér vel í lífsbaráttunni. Minnisstæð eru borðtennis-síðdegin á Snorrabraut á litla borðstofuborðinu, skellinöðruhjólatúrar, skíðaferðir svo og sunddýfingar. Heimdallarferðir til fjalla um helgar voru vinsælar, sólarsumarið 1958, en þær enduðu með dansleik í samstilltum félagsskap. Ógleymanlegir eru rúntarnir á Bjúkkanum með viðkomu á Bæjarins bestu, Volvodúettinn þegar pabbi skutlaði skólafélögum heim á leið úr Versló, sem voru fjögur mótunarár okkar hjá góðum kennurum og skólastjóra Jóni Gíslasyni. Við upplifðum daginn þegar Jón Leifs vígði píanóið sem varð höfuðstóllinn á bekkjarskemmtunum og gaf tónelskum nemum mikið.
Að leiðarlokum bið ég fjölskyldunni Guðs blessunar með samúð.
Árni Bergþór Sveinsson