Þorleifur Pálmi Jónsson fæddist 28. mars árið 1919 að Geithól við Hrútafjörð í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu þann 6. Janúar 2010. Foreldrar Þorleifs voru hjónin Jón Ásmundsson (21.7.1887 – 19.6.1938) bóndi á Geithóli og orgelleikari, ættaður frá Snartartungu í Bitrufirði og Jónína Sigurlaug Þorleifsdóttir (22.6.1887 – 17.4.1925) frá Stóra-Búrfelli í Svínavatnshreppi. Ættir Jóns föður hans voru úr Bitrunni, Gilsfirði og Dölum. Ættir Jónínu Sigurlaugar móður hans voru úr Austur Húnavatnssýslu. Systur Þorleifs voru Guðbjörg (23.5.1914 – 28.10.2005) og Guðrún Birna (26.8.1916 – 13.3.1999), og hálfbróðir hans samfeðra er Erlendur (f. 8.4.1929), kennari, rithöfundur og bókmenntagagnrýnandi, sem lifir nú einn þeirra systkyna. Hann kvæntist 23.12.1944 Hlíf Alfoldínu Schiöth Lárusdóttur, f . 18. 5.1920. Hún lést 8.12.1993. Börn Þorleifs og Hlífar eru Jón Baldur (f. 7.11.1944), bifvélavirki, Örn Sævar (f. 12.11.1945), trúarbragðafræðingur búsettur á Spáni, Ásbjörn (f. 19.7.1950), forstöðumaður, Lovísa (f. 15.1.1952) kaupmaður, tvíburarnir Brynja (f. 25.2.1954) skrifstofumaður og Björk (f. 26.2.1954) atvinnurekandi, og tvíburarnir Lárus (f. 22.9.1956) myndlistamaður, búsettur í Noregi og Helgi (f. 22.9.1956) stærðfræðingur, búsettur í Þýskalandi. Þau eiga 16 barnabörn og barnabarnabörn orðin 28. Þorleifur verður jaðsunginn frá Bústaðakirkju í dag fimmtudaginn 14. janúar og hefst athöfnin kl 13.00

Þegar ég flutti til afa hafði ég ekki búið lengur en þrjá mánuði í hverri borg í þrjú ár. Það reyndist mér því dýrmæt reynsla að vera hjá afa. Flökkulíf mitt var andstæða við það venjubundna líf sem afi lifði. Hann keyrði í sund á morgnana og drakk kaffi eftir sund með kunningjum sínum. Það færðist bros yfir andlit afa þegar hann sagði frá því hvernig starfsstúlkurnar í Laugardalslauginni færðu honum kaffi á hverjum degi. Afi  var sjarmerandi maður og fékk því oft góða þjónustu hvar sem hann kom. Eftir sund fór afi í hádegismat í Lönguhlíð og fór síðan að kaupa inn fyrir heimilið. Það sem gerir sögu afa merkilega er að hann gerði þetta hvern dag þrátt fyrir að hann hafi átt erfitt með hreyfingar. Hann þurfti góðan tíma fyrir allt sem hann gerði en það breytti því ekki að hann gerði allt sem hann gat óstuddur. Afi var viljasterkur, þolinmóður, þrautseigur og hafði sterkan lífsvilja.

Ég sé nú hvað afi gerði margt til að ná til mín. Tengsl okkar urðu sterk og mér leið öruggri hjá honum. Þegar ég kom heim eftir dag í háskólanum fór ég beint til afa, settist á bekkinn hjá honum í litla herberginu og sagði honum frá deginum. Hann var oft með sætt glott á meðan hann hlustaði af áhuga. Það mynduðust skemmtilegar venjur í sambúð okkar sem minntu mig á hvað fastar skorður daglegs umstangs eru góðar.  Það var heimalagaður matur á hverju kvöldi klukkan hálf sjö og við horfðum alltaf saman á fréttir. Ég varð síðan hluti af hans daglegu venjum eins og að sækja innkaupapokann út í bíl eftir hverja verslunarferð. Afi sendi mig reglulega út í búð að kaupa ís fyrir okkur og ávexti. Síðan sátum við saman og borðuðum ísinn á meðan afi sagði mér sögur úr sveitinni. Hann sagði mér frá draumi sínum um að gerast bóndi, Reykjaskóla, sjóferðum sínum með föður sínum, því þegar faðir hans keypti útvarp fyrstur allra í sveitinni, þegar hann gætti sauðfjárins og álfunum í klettunum.

Sumarið 2003 fórum við í bíltúr í síðasta sinn. Okkur grunaði að þetta væru seinustu dagar hans á hækjum. Á næstu dögum sótti ég hjólastól og undirbjó áframhaldandi dvöl okkar saman í Bólstaðarhlíðinni. Ég man eftir sterkari hamingjutilfinningu í hjarta mínu og hvað ég var glöð að hann gat áfram búið heima. Afi sagði að þar væru minningarnar. Yfir daginn sat ég við borðstofuborðið að læra en hann sat við stofugluggann. Kyrrðin og nærvera afa var mér ómetanleg. Afi var skemmtilegur og stutt í húmorinn hjá honum og sama hvað gekk á þá kom hann mér til að hlæja. Afi virti mig og gætti þess að hans aðstæður bitnuðu sem minnst á mér. Hann lét reglulega vita að sú aðhlynning sem hann fékk væri góð og að hann væri í góðum höndum.

Haustið 2004 fór afi í annað sinn á spítala. Þá bað hann mig um að sækja giftingarhringinn sinn. Þegar ég kom til baka gaf hann mér hringinn og sagði mér í beinu framhaldi að hann kæmi ekki aftur heim. Við afi vorum lánsöm því hann fékk pláss á nýju hjúkrunarheimili á Hrafnistu þar sem starfsfólkið reyndist okkur báðum einstaklega vel.

Heilsu afa hrakaði rólega en hann var allan tímann skýr í kollinum. Hann mundi hlutina betur en ég, fylgdist vel með fréttum og með því sem gekk á í mínu lífi. Afi vildi gera það sem hann gat allt fram að andláti sínu. Þegar ég gaf honum að borða hátíðarmatinn á gamlárskvöld vildi hann gera allt það sem hann mögulega gat sjálfur. Þegar hann lá og átti erfitt með að tala þá safnaði hann kröftum til að segja mér að aðhlynning mín væri góð og að hann væri í góðum höndum. Og lífsviljinn hvarf aldrei. Nokkrum dögum fyrir andlátið sagði hann mér að það væri langur vegur framundan í átt að bata.

Kveðjustund mín og afa var jafn falleg og saga okkar í heild. Ég kom til hans daginn fyrir andlát og grét hjá honum á sama tíma og ég rifjaði upp okkar góðu tíma saman. Hann lagði sig fram við að senda mér merki um að hann væri að hlusta og náði nokkrum sinnum að opna augun og brosa til mín. Daginn eftir lagðist ég á rúmstokkinn hjá honum, lagði hönd mína á kinn hans og sagði honum að ég væri hjá honum. Þá tók hann sinn seinasta andardrátt.

Afi kenndi mér margt á þeim árum sem við áttum saman. Hann kenndi mér meðal annars að þekkja muninn á vinum og kunningjum. Hann minnti mig reglulega á að vinir eru þeir sem standa með manni þegar á reynir en aðrir eru kunningjar. Afi leiðrétti málfar mitt og lagði sig fram við að fá mig af ósiðum eins og að segja ég vill. Hann kenndi mér að elda kjötsúpu og kenndi mér að soðið vatn er allra meina bót. Afi kenndi mér einnig merkingu hinnar frægu setningar orðstír deyr aldrei. Það var lærdómsríkt að sjá hvað afi tók því af mikilli auðmýkt og æðruleysi að missa getu sína til að sjá um sig sjálfur. Hann kenndi mér hvað viljastyrkur og sjálfsagi eru mikilvægir eiginleika og að ef þú ert ánægður þá er líklegra að þeir sem eru í kringum þig séu ánægðir. Afa þótti menntun mikilvæg og hafði mikla trú á mér. Það hjálpaði mér ómetanlega í gegnum námið. Ég er sú sem ég er vegna þess að ég flutti inn til afa.

Ég vona að sál þín lifi áfram elsku afi minn og að fegurð þín fái að njóta sín. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu og ég mun aldrei gleyma hve mikið þú átt í mér. Ég mun alltaf búa að þeirri tengingu sem myndaðist okkar á milli og þeirri ást sem við gáfum hvort öðru. Ég veit að þú varst kominn yfir nírætt og að þú varst þjáður en mér þykir það samt átakanlega sárt að þú sért farinn. Mér finnst erfitt að hugsa til þess að horfa ekki aftur í augu þín, að ég muni ekki tala við þig aftur og að ég muni ekki finna nærveru þína á nýjan leik. Þú varst fallegur maður að utan sem innan og ég er stolt af því að vera barnabarn þitt. Þú lifir að eilífu í minni sál.

Þín,

Bryndís.