Ásta Eygló Þórðardóttir fæddist í Kolbeinsstaðahreppi í Snæfellsnessýslu 14. ágúst 1923. Hún lést á D-deild Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 4. janúar síðastliðinn. Hún ólst upp í Hraunsmúla í Kolbeinsstaðahreppi hjá foreldrum sínum Þórði Árnasyni f. 28. september 1884, d. 27. mars 1961 og Sigurveigu Davíðsdóttur, f. 4. desember 1886, d. 28. mars 1951. Ásta fluttist í Keflavík þegar hún var 17 ára gömul og skömmu seinna eða 1941 kynntist hún eiginmanni sínum Guðjóni Svavari Valdimarssyni f. 15. ágúst 1919 d. 24. október 1957. Þau voru gefin saman í Útskálakirkju 13. september 1943. Ásta og Guðjón Svavar eignuðust tvær dætur. Þær eru: Sigurveig Guðjónsdóttir, f. 27.desember 1942 og Jóna Valgerður Guðjónsdóttir, f. 6. mars 1944. Einnig tók Ásta dótturson sinn Guðjón Svavar Jensen f. 30. júní 1961 í fóstur. Önnur barnabörn Ástu og Guðjóns Svavars eru Kjartan Valdimar, f. 22. október 1962, Jón f. 23. september 1964, Michael, 3. febrúar, 1971, Ásta Irene, f. 12. október 1964, f. Charles og Vilhelm Ágúst. Útförin fer fram í kyrrþey fimmtdaginn 14. janúar.

Ein fyrsta minningin mín af ömmu minni er þegar ég beið eftir henni með mömmu við Reykjavíkurhöfn þegar hún kom heim með Gullfossi frá Kaupmannahöfn. Ég man að ég var líka alltaf hjá ömmu minni síðan ég var mjög ungur. Hún tók mér og bræðrum mínum alltaf opnum elskuríkum örmum. Seinna eða þegar ég var átta ára gekk hún mér í móðurstað. Þannig var hún mér mjög mikilvæg og samband okkar afar náið. Hún gat að sjálfsögðu verið mjög ströng líka. Fyrsta og eina skiptið þegar ég var flengdur var ég næstum fimm ára gamall. Þá var ég og Kjartan bróðir minn að slást. Til að róa okkur var ég settur út á stétt og hurðinni lokað. Mér líkaði það ekki vel svo ég tók stein og henti í rúðuna í útidyrahurðinni og fór inn. Amma kom hins vegar á eftir mér öskuvond. Ég hljóp í burtu en hún náði mér við kirkjuna, en hún bjó þá þar skammt frá. Ég grét að sjálfsögðu undan þessu en lærði mín lexíu.
Amma mín ólst upp á Mýrunum í Hraunsmúla. Hún byrjaði snemma að taka þátt í öllum hefðbundnum sveitastörfum og gekk þar í skóla. Hún fluttist svo í vist í Keflavík þegar hún var 17 ára gömul. Ári síðar kynntist hún afa mínum og þau giftu sig svo þegar amma var tvítug og byrjuðu að búa. Þau eignuðust tvær dætur saman og þegar þær voru orðnar nokkuð stálpaðar byrjaði amma að vinna í HF Keflavík og þá aðallega í síld. Hún missti hins vegar afa mjög ung eða 34 ára gömul. Þau voru þá að stækka við húsið sitt og tímarnir voru afar erfiðir. Hún byrjaði því að vinna fulla vinnu sem fiskverkunarkona, en þá voru dætur hennar á unglingsaldri. Árið 1961 byrjaði hún að vinna hjá Íslenskum Aðalverktökum sem matráðskona og hún vann þar til 1990 þegar hún fór á eftirlaun.
Amma mín var afar regluföst og þrifin kona. Hún hafði það fyrir reglu að þrífa allt húsið hátt og lágt alla laugardaga og skipti það engu máli hve mikil óhreinindi voru til staðar. Þegar ég var á táningsaldri hélt ég eitt sinn veislu þegar amma var á ferðalagi. Ég þreif allt hátt og lágt áður en hún kom heim en samt sem áður uppgötvaði hún óhreinindi þrátt fyrir þrifin mín.
Einnig var amma þrjósk, hörð af sér og náði alltaf að leysa öll vandamál sem hún stóð frammi fyrir.
Hún hafði gaman af ýmsu, til að mynda hafði hún mjög gaman af að spila á spil, til að mynda rommí, manna, vist og kana. Ég spilaði mikið með henni. Eftir að ég fór sjálfur að stunda brids að staðaldri minnkaði áhugi minn fyrir hefðbundnum spilum. Hins vegar þegar önnur hvor dóttir ömmu minnar kom í heimsókn frá Bandaríkjunum var hringt í mig og ég beðinn um að koma og spila þessi spil.
Einnig man ég eftir skemmtilegum ferðum með ömmu minni. Margar ferðir upp á Akranes og í Mýrarnar. Árið 1980 þegar ég var 19 ára gamall fórum við saman til Bandaríkjanna til að heimsækja fjölskyldu okkar þar í heilan mánuð.

Guðjón Svavar Jensen.