Ursula Frieda Juliana Hermannsson fæddist í Berlín þann 18. Febrúar 1923 og lést þann 27. Desember 2009. Ursula var dóttir hjónanna Friedu (fædd Beckmann) og Richard Funk póstfulltrúa þar. Eiginmaður hennar var Svavar Hermannsson f. 16.janúar 1914 d. 28.03.1980 efnaverkfræðingur í Reykjavík. Hann var sonur Ragnheiðar Gísladóttur (06.04.1884/21.08 1979) kennara, og Hermanns Þórðarsonar ( 19.02.1881/01.02.1962) kennara. Börn: 1) Sólveig Angelica f. 30.01.1947 tryggingastærðfræðingur M: Robert Alexander Foster hagfræðingur, þau skildu. 2) Bernhard f. 30.01.1953. svæfingahjúkrunarfræðingur M: Ólöf Unnur Sigurðardóttir, félagsráðgjafi f. 18. nóvember 1957. Börn: 1) Tómas Karl, f.18. desember 1987, 2) Friðrik Elí f. 22. nóvember 1989 . Ursula fluttist til Íslands árið 1945 þá rúmlega tvítug með eiginmanni sínum sem hafði stundað nám í Dresden. Þau ákváðu að fara frá stríðshrjáðri Berlín rétt fyrir fall borgarinnar í lok seinni heimstyrjaldar. Þau fóru fyrst til Danmerkur og sigldu svo þaðan til Íslands með Esjunni. Eins og hún sagði sjálf frá: “Hrygg og fagnandi í senn, með djúpum söknuði eftir ættlandi mínu og með ljúfri von til fósturlandsins, fylgdi ég manni mínum inn í hina nýju tilveru“. Ursula Hermannsson. (1946) Lokuð sund, Kynleg brúðkaupsferð. Rittj. Matthías Jónasson, Reykjavík. Ísafoldarprentsmiðja hf. Hún bjó alla tíð eftir það á Íslandi og starfaði m.a. sem ritari hjá Bandaríska sendiráðinu, Loftleiðum, Smith og Nordland, á Keflavíkurflugvelli og hjá Atlas hf. Á námsárum stundaði hún nám í verslunarskóla og í blaðamennsku bæði í Berlín og í Tékklandi Laugardaginn 9. janúar var sálumessa sungin í Kristskirkju, Landakoti og samdægurs jarðsett á Hvammi í Borðurárdal.

Mig langar að kveðja Úrsúlu með nokkrum línum hér.  Við umgengumst ekki daglega eða töluðumst við reglulega en hún var tengdamóðir systur minnar og mér fannst hún verða vinur minn frá því ég hitti hana fyrst.

Fyrsta minningin er matarboð þar sem ég fór með systur minni og Benna mági mínum til hennar í Gnoðarvoginn.   Eiginmaður hennar – Svavar var þá látinn fyrir nokkrum árum og bjó hún áfram þar sem þau höfðu búið mestalla sína búskapartíð á Íslandi.  Íbúðin bar með sér að húsráðandi hefði metnað fyrir fallegum hlutum og passaði þá vel.  Maturinn góður og greinilega búið að leggja vinnu í að hafa matarboðið bæði fallegt í alla staði og matinn góðan.   Ég fór eins og venja mín er að líta til þess sem var að matreiða í eldhúsinu en fann að ég hafði ekki mikið erindi og var ekki sérlega mikill aufúsugestur þar rétt á meðan verið var að gera allt tilbúið fyrir að bera matinn fram.    Fannst þetta svolítið einkennilegt  þar sem ég ætlaði að bjóða aðstoð ef hún vildi þiggja – sem sagt  ég er ekki vön slíkum viðbrögðum - en hugsaði sem svo að ég hefði líklega verið að fara yfir hennar persónulegu landamæri að einhverju leyti, bláókunnug manneskjan og skammaðist mín svolítið fyrir framhleypnina eftir á.

Að öðru leyti man ég bara eftir kvöldinu þannig að maturinn var undurgóður og félagsskapurinn allur afar notalegur.  Mér fannst mér afskaplega vel tekið þrátt fyrir að hafa farið yfir einhver landamæri við eldhúsið.  Og seinna meir þegar við fórum að þekkjast betur fann ég alltaf anda hlýju í minn garð og áhuga á því hvernig mér farnaðist. Síðan hittumst við oftar næstu árin ýmist heima hjá systur minni og mági eða heima hjá Úrsúlu - nú eða í sumarbústaðaferðum – tilefnin voru mismunandi en á hefðbundnu fjölskyldunótunum.  Síðan þegar ég eignaðist sambýlismann og síðar son  sýndi hún þeim málum mikinn áhuga og tók þeim báðum sem sínum kæru vinum.  Sonur minn og sonarsynir hennar eru á svipuðum aldri og mér fannst hún alltaf tala jafn hlýlega um og til þeirra allra.

En svo ákváðum við fjölskyldan að flytja frá Reykjavík og til Akureyrar og þá fækkaði einhvern veginn þeim stundum sem við áttum með Úrsúlu.  Ég man ekki alveg hvernig það kom til, en ég vissi að hún hafði ekki mikið ferðast um landið þótt hún væri búin að búa á landinu í áratugi.  Hún hafði einhvern veginn ekki haft næg tækifæri til þess.  Við buðum henni að koma og gista hjá okkur ef hún kæmi norður og vera „gestur“ hjá okkur eins og okkar fjölskylduvinir eru gjarnan, en það þýðir að fólk kemur og svo bjargar fólk sér sjálft með mat og annað því ekki er einu sinni víst að húsráðendur séu alltaf heima eða til taks til vera samvistum með  gestum ef um nokkurra daga dvöl er að ræða.   Ég hélt kannski að eftir heimsóknina þarna í fyrstunni í eldhúsið til Úrsúlu myndi þetta verða nánast móðgandi boð fyrir hana – en hún sló til og þetta varð alveg mjög skemmtileg og eftirminnileg heimsókn.  Við skiptumst á um að vera í eldhúsinu þessa daga sem hún stoppaði og allt gekk eins og í sögu.  Svo fluttum við vestur til Ísafjarðar og hún heimsótti okkur þangað líka.  Það var ekki síður eftirminnileg heimsókn og skemmtileg.

Og Úrsúla naut ferðalaganna um Ísland alveg einstaklega vel og óskandi hefði verið að hún hefði getað átt fleiri ánægjustundir við ferðalögin innanlands.  Ég get ekki annað en rifjað líka upp þegar þjóðmál og dægurþras bar á góma.  Það var yndislega gaman að rökræða við Úrsúlu um landsins gagn og nauðsynjar og heimsins alls.  Enda skapmikil kona en afar háttvís og  þannig fólk líkar mér við.   Stundum þegar við kannski sáum að við náðum ekki saman í umræðunni eða bara að við gerðum okkur grein fyrir að okkar stofuumræða myndi ekki breyta neinu akkúrat þá um gang heimsmálanna, kom hin dýrðlega setning „við skulum hafa það“ en það var svona merki um að hægja á sér og huga að nýju umræðuefni.

Fleiri góðar setningar komu sem ég er ekki viss um að ég geti haft alveg orðrétt eftir og því betra að sleppa.  Hún talaði mjög góða íslensku þótt maður fyndi annað slagið fyrir þýskunni en á móti kom að hún setti sig mjög vel inn í íslensk stjórnmál og oft sem komu hugmyndir - setningar sem voru svo kjarnyrtar að maður dáðist að. Ég get ekki ímyndað mér annað en að Úrsúla hafi verið draumur þeirra sem voru svo lánsamir að hafa hana  í vinnu í gegnum árin eftir að hún kom með Svavari frá Þýskalandi í lok stríðsins.  Ég kann þá sögu ekki nægilega vel til að segja öðrum.  En - samviskusamari manneskju til vinnu get ég vart hugsað mér og hef ég reyndar heyrt það hér og þar að sú hugsun sé á rökum reist.  En hún var ekki manneskja af þeirri gerð sem öllum líkaði alltaf allra best við eða að henni félli alltaf óskaplega vel við alla.  Enda er oftast eitthvað bogið við slíka karaktera og þeir ná sjaldan að fá einkunnina að vera hreinskilnir og hreinskiptir en þau orð þori ég að bera mér í munn  um Úrsúlu.   Það er því miður nokkur ár síðan Úrsúla veiktist alvarlega og gat ekki lengur gert það sem hún hafði áður gaman að, t.d. hvorki  tekið þátt í umræðum um landsins gagn og nauðsynjar né ferðast um landið en við veikindin tókst hún samt á við af hugrekki og dugnaði að hennar hætti.

Anna Björk Sigurðardóttir

Við Íslendingar höfum oft átt því láni að fagna að til okkar hafa komið einstaklingar víða að úr heiminum og sest hér að og orðið  góðir Íslendingar trúir landi og náttúru ásamt því að vera föðurlandi sínu til sóma.  Borgfirðingurinn Svavar Hermannsson steig gæfuspor er hann, ungur að árum, lagði leið sína til náms við háskóla í Þýskalandi, þar stundaði hann nám í efnaverkfræði og lauk prófi í þeirri grein.   Að námi loknu snéri hann heim til ættjarðarinnar, en ekki var hann þá einn á ferð.  Með honum var þýsk eiginkona hans, glæsileg og vel menntuð – Ursula.  Mér veittist seinna, sú ánægja að kynnast henni, eignast vináttu hennar og mega telja hana til fjölskyldu minnar er Unnur dóttir mín og Bernhard sonur hennar gengu í hjónaband.  Nú skilja leiðir um sinn.  Hún er lögð af stað til þess eilífa lífs sem Jesús Kristur hefur heitið oss, en við stöndum eftir með virðingu og þökk í huga.

Guðrún Ólafsdóttir

Nú þegar tengdamóðir mín hefur hvatt þetta jarðneska líf langar mig að kveðja hana og þakka henni fyrir  samfylgdina síðastliðin rúm 30 ár.  Hún kom til landsins frá Berlín með manni sínum Svavari Hermannssyni árið 1945 þá ung kona rétt yfir tvítugt.    Sú reynsla sem nálægð við heimsstyrjöldina síðari hafði á fólk er flókin og margbreytileg.

Ég kynntist Ursulu ekki fyrr en um 30  árum síðar þegar ég kynntist syni hennar, síðar manni mínum.  Það var gott að kynnast henni og læra ýmislegt af henni.   Það sem kemur upp í hugann var hvernig hún gat verið orðheppin og sagt hluti hreint út, sem var einn af hennar heillandi kostum.  Hún sýndi sonarsonum sínum alla tíð mikla virðingu og væntumþykju, sem börnum er  ómetanlegt.

Þau orð sem koma upp í huga minn  til að lýsa Ursulu eru að hún var heiðarleg, skemmtileg og lét sig varða um hlutina án þess að skipta sér af með uppáþrengjandi hætti.  Heimili hennar bar vott um snyrtimennsku og háttvísi, svo sem fas hennar allt.  Hún hafði  gaman af því að elda góðan mat með ljúfa tónlist á fóninum  og eiga góðar samverustundir með öðrum, sem oft er er  ein af  táknmyndum væntumþykju og samstöðu.  Í veikindum hennar síðastliðin ár  reyndi enn og aftur á sálarstyrk og kjark, sem brást henni ekki.  Blessuð sé minning hennar.

Ólöf Unnur Sigurðardóttir