Jón Kornelíus Jónsson úrsmíðameistari fæddist á Brekku í Gilsfirði 8. apríl 1915. Hann lést á Landspítalanunum í Fossvogi þann 6. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Elín Guðrún Magnúsdóttir húsmóðir og bóndi f. 1881, d. 1960 og Jón Theodór Jónsson bóndi, skrautritari og kennari f. 1880, d. 1960. Systkini Kornelíusar eru: Guðrún f. 29.9. 1902, d. 21.6. 1984, Margrét Theodóra f. 13.5. 1907, d. 13.8. 1967, Kristín Soffía f. 14.11. 1909, d. 3.12. 2000, Eggert Theodór f. 15.11. 1912, d. 28.9. 1992, Ragnheiður f. 12.10. 1917, Kristrún Soffía f. 23.12. 1918 og Anna Guðrún f. 30.9. 1921. Eiginkona Kornelíusar er Sigríður Pétursdóttir f. 10.11. 1929. Þau giftust 26.7. 1947. Foreldrar Sigríðar voru Guðrún Þorbjarnardóttir húsmóðir f. 17.9. 1903, d. 22.5.1931 og Pétur Pétursson bifreiðastjóri f. 10.3.1895, d. 14.7.1986. Börn Kornelíusar og Sigríðar eru 1) Birgir Davíð f. 18.12. 1947, d. 10.11. 2005. 2) Haraldur Jón gullsmiður f. 25.8. 1950, maki Íris Ægisdóttir f. 21.11. 1953. Þeirra börn eru Sirrý Hrönn f. 1971, maki Ásgrímur Helgi Einarsson, eiga þau 3 syni. Birgir Grétar f. 1972, maki Hafrún Huld Þorvaldsdóttir, eiga þau tvö börn. 3) Kornelía Guðrún kennari f. 14.1. 1952, maki Gísli Árni Atlason f. 7.2. 1950. Þeirra börn eru Jón Kornelíus f. 1975, Kolbrún Ýr f. 1977, maki Guðni Eiríksson og á hún 3 börn, Eygló Rós f. 1978 og á hún eina dóttur. Óskar Sindri f. 1984. 4) Pétur Gunnar úrsmiður f. 29.3. 1953, maki Gunnhildur Sigurðardóttir f. 21.10. 1956. Þeirra börn eru Sigurður Rúnar f. 1977, maki Jennifer Pétursson, eiga þau 2 dætur. Haraldur f. 1979 maki Rebekka Ólafsdóttir, eiga þau 2 syni. Kornelíus hóf nám í úrsmíði hjá Árna B. Björnssyni árið 1934. Meistari hans var Sigurður Ísólfsson. Kornelíus öðlaðist meistararéttindi árið 1942. Að námi loknu stofnaði hann vinnustofu og verslun að Hverfisgötu 64 ásamt Eggerti Hannah og Magnúsi F. Ásmundssyni. Síðar rak hann verslanir á ýmsum stöðum, mest þrjár samtímis, lengst af var hann á Skólavörðustíg 8 og Bankastræti 6 sem er enn starfandi. Kornelíus var heiðursfélagi í Úrsmíðafélgi Íslands og var lengi í prófnefnd félagsins, ásamt fleiri nefndarstörfum. Kornelíus hafði mörg áhugamál. Ungur lærði hann á mandólín. Hann spilaði með Mandólínhljómsveit Reykjavíkur og einnig MAJ-tríóinu ásamt þeim Marsý og Tage Ammendrup. Kornelíus hafði mikinn áhuga á búskap og árið 1960 byggði hann fjárhús í Lónakoti og hóf þar fjárbúskap sem hann stundaði fram á tíræðisaldur. Hann ræktaði sérstakan fjárstofn sem var að upplagi ferhyrndur og morarnhöfðóttur. Útför Kornelíusar fer fram frá Áskirkju í dag, fimmtudaginn 14. janúar og hefst athöfnin kl. 13.
Eitt er það sem maður lærði snemma af honum afa nafna og þá sérstaklega í fjárhúsunum við sauðburð, en það var að allir geta dáið. Manni þótti ekki sanngjarnt, að sum litlu lömbin fengu ekki einu sinni tækifæri á að fara út í sumarblíðuna og hlaupa um og leika sér. Því ætti það ekki að koma manni í opna skjöldu að það kom að því að elsku afi minn og nafni skyldi yfirgefa þessa jarðvist. En maður vildi ekki trúa því að sá dagur kæmi og að enn væru margar stundir eftir með honum, enda keyrði hann í vinnuna aðeins nokkrum vikum áður en hann lést, þeyttist um dansgólf í brúðkaupi, spilaði á mandólín og lék við barnabarnabörnin eins og unglamb.
Afa kallaði ég alltaf afa nafna enda alnafnar, en eitthvað festist það við hann hjá fleirum en mér enda kalla systkini mín hann afa nafna líka. Alla tíð sem púki og fram unglingsárin var maður fastagestur með afa í fjárhúsin að gefa kindunum og sinna þeim verkum er tilheyra búskap. Átti maður ógleymanlegar stundir með afa þar í Lónakotinu og eins Hvassahrauni. Marga virka daga og flesta laugardaga upp úr hádegi rölti maður með poka fullan af illa lyktandi fötum niður Skólavörðustíginn í búðina hans afa að Skólavörðustíg 8. Gestakomur voru tíðar í búðina og oft á tíðum var kaffistofan þar full af köllum, sötrandi kaffi og reykjandi vindla og miklar umræður í gangi. Að lokum týndust þeir út einn af öðrum og þá var hægt að fara að loka búðinni og halda á Kleifarveginn enda beið veislumatur að hætti ömmu Siggu á borðum þar. Við snæddum og svo var farið í kjallarann og við dressuðum okkur upp í oft illa lyktandi rollufötin, Landroverinn ræstur og brunað í Lónakotið.Fljótlega lærði maður að keyra í þessum ferðum og var afi búinn að kenna manni að keyra bíl óstuddur um 9 ára aldur. Enda var oftast skipst á sætum þegar komið var út af steyptri Reykjanesbrautinni og inn á einkaveginn. Þetta þótti litlum púka ekki amalegt enda vissi maður ekki um neinn á sínum aldri sem fengi að snerta á bíl.
Fjárbúskap fylgir smalamennska og þeir sem hafa prufað að fara um hraunið hér á Reykjanesinu vita að það er ekkert grín að hlaupa um það. Afi lét það ekki aftra sér og við fórum oft tveir í eftirleitir ef það fréttist af einhverjum kindum sem ekki höfðu skilað sér. Hann vissi líka oftast að þetta væru hans rollur enda fáir sem eru með mórautt fé, hvað þá ferhyrnt og morarhöfðótt. Ótrúlegt var hvað hann var í góðu formi og fram að 75 ára aldri hlupum við hlið við hlið á eftir rollunum stökkvandi yfir sprungur og steina í hrauninu þó 60 ár séu á milli okkar.
Síðustu 3 árin hefur maður haft þau forréttindi að búa undir sama þaki og afi og amma, það verður skrítið að heyra ekki mandólínspil reglulega, mæta afa ekki í göngutúr er maður kemur heim úr vinnunni eða sitja og spjalla um veiðiferðir og annað skemmtilegt.
Alla tíð fann maður mikla ást og umhyggju frá afa og alltaf var hann að hugsa um aðra en sjálfan sig. Ef bíllinn minn var einhverra hluta ekki hreyfður á virkum degi var hann strax farinn að hafa áhyggjur hvort eitthvað væri að. Ég vona að mér hafi tekist að láta í ljós í gegnum tíðina hvað mér þykir vænt um þig elsku afi minn, því ekki er maður of duglegur að láta tilfinningar sínar í ljós við þá sem manni þykir vænst um.
Jón Kornelíus Gíslason.
Kornelíus var með frístundabúskap í Lónakoti sunnan Hafnarfjarðar meðan hann treysti sér til. Kindunum sinnti hann af mikilli alúð og svolítilli sérvisku, þannig ræktaði hann ferhyrnt fé í þeim litaafbrigðum sem íslenska kindin á yfir höfuð til, sennilega hefði mátt kalla stofninn hans landnámskindur. Enda var það svo að þegar Sædýrasafnið var og hét fékk það kindur frá Kornelíusi til að hafa til sýnis. Hann bjó til vatnskerfi sem lá um öll fjárhúsin og safnaði regnvatni af þakinu. Minningin um smalamennskuna í hrauninu ofan Lónakots verður alla tíð kær enda mikið fjör. Ekki síður þau skipti sem maður fékk að taka þátt í öðrum bústörfum sem Kornelíus launaði ríkulega í kjöti. Kornelíus var í senn nútímamaður og maður horfinnar tíðar, þannig vildi hann ómögulega leggja líkamlegt erfiði á kvenfólk, svona allavega við að moka tað, bera inn hey o.s.frv. Þegar ungir og sprækir afkomendur hans af kvenkyni vildu ólmir leggja hönd á plóginn þá sá hann þó að sér og heimilaði starfann.
Eftir að leiðir skildu með dótturdóttur Kornelíusar héldum við samt ágætum vinskap. Þegar sinna þurfti erindum í miðborg Reykjavíkur leit ég iðulega við hjá honum og Pétri syni hans í Bankastrætinu og þáði kaffi. Gamli maðurinn lék á alls oddi, var mjög áhugasamur um allar athafnir og framkvæmdir og spurði mikið. Svo sagði hann sögur og oft var hlegið, sjálfur glotti hann lítillega þegar hann fann undirtektirnar. Hann sagði líka frá alvarlegri hlutum eins og t.d. flutningnum úr Gilsfirði til höfuðborgarinnar á unglingsárum, þegar fjölskyldan labbaði suður í Bröttubrekku, m.a. með smábarn í föruneytinu, en þar fengu þau far með kassabíl til Borgarness og svo með bát til Reykjavíkur. Þegar ég hugleiði hvernig Kornelíus sagði þessa sögu finnst mér eins og ég sé að rifja upp bíómynd af tjaldi.
Það gefur mikið að hafa kynnst og vingast við Jón Kornelíus Jónsson. Í minningunni lifir hann ljómandi, veitandi höfðingi, spilandi á mandólín, dansandi eins og unglamb, í slopp að gefa kindum og huga að vatni, í öðrum slopp að afgreiða útlenda sem innlenda í Bankastrætinu, alveg til hins síðasta.
Sigríður, Konný, Halli, Pétur, aðrir aðstandendur og vinir, blessuð sé minning hans.
Hallur Helgason