Sonja Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 7. janúar 1937. Hún lést 17. desember 2009. Foreldrar hennar voru Ólöf Stefanía Valdimarsdóttir, f. í Stórholti í Saurbæjarhreppi, Dal. 1905, d. 1974, og Sigurður Árnason Stefánsson, f. 1907, d. 1970. Tvíburabróðir Sonju var Birgir, en hann lést 1988. Hálfsyskini að föður eru Sigurður R.S., f.1934, Stefán, f. 1944, og Þórdís, f. 1946. Sonur Sonju er Daði, f. 7. ágúst 1961, kjörforeldrar Daði Guðbrandsson, f. 1924, og Eygló Halldórsdóttir, f. 1925. Dóttir Daða er Hrefna Daðadóttir, f. 1988. Sonur Sonju og Jóns Árnasonar, f. 1941, d. 1998, er Ólafur Valdimars, f. 5. apríl 1974. Útför Sonju var gerð frá Fossvogskapellu 7. janúar sl.
Frænka mín, Sonja, er látin. Mér er hún minnistæðust er við vorum ungir krakkar,og lékum okkur saman enda vorum við á sama aldri. Einnig var með okkur tvíburabróðir hennar Birgir, sem er látinn. Við fermdust saman í Hallgrímskirkju, prestur var séra Jakob Jónsson.og var fermingarveislan okkar sameiginleg.
Eftir fermingu skyldu okkar leiðir enda fljótlega eftir fór ég að stunda sjó.
Sonja var mjög vel gefin, hún átti létt með að læra og lauk landsprófi, með góða einkunn. Mér var oft hugað til hennar, og minntist bernskuáranna. Mæður okkar voru systur, og var gestagangur á milli þeirra mikill. Árið 1961 eignaðist hún barn. Hér var stutt gaman, og ekki ráðgert eins og oft vill verða, en aðstandendur tóku í taumana og gáfu henni ekki tök á því að halda barninu. Var það tekið af henni og fært til kjörforeldra. Ég tel að hún hafi aldrei verið sátt við þann ráðahag, enda var hún í eðli sínu mjög umhyggjusöm og hefði reynst góð móðir. Eftir þetta hvarf hún inn í sjálfan sig, og hefur ekki átt líf utan þá skel, sem hún byggði sér. Þann 5.apríl 1974 eignaðist hún son, Ólaf Valdimars. Hann var sendur í fóstur. Hún var ætíð til húsa hjá móðir sinni og Birgi bróðir sínum. Síðast bjuggu þau að Eiríksgötu 35. Eftir lát móðir hennar, bjuggu þau systkin þar áfram. Birgir var henni alltaf góður og hennar eini vinur. Árið 1988 lést Birgir og var það hennar mikill missir. Var þá í íbúðin seld og flutti Sonja að Hátúni 10, en hefur dvalist síðustu tvö árin að Dvalarheimilinu að Víðinesi. Ég og mín fjölskylda flyt syni hennar Ólafi Valdimars, sem og Daða hennar fyrra barni samúðarkveðjur. Ég bið Guð að blessa Sonju og veita henni frið er hún kemur yfir móðuna miklu.
Ingvi Rúnar Einarsson