María Guðrún Þorláksdóttir, var fædd í Reykjavík, 21. apríl 1932. Hún lést á Lungnadeild Landspítalans í Fossvogi þann 28. desember sl. Foreldrar hennar voru hjónin Þorlákur Jónsson, kaupmaður og síðar skrifstofustjóri Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar, f. 23.12. 1888, d. 20.12. 1977, og kona hans Steinunn Eyvindsdóttir, f. 23.9. 1895, d. 14.5. 1969. Systkini Maríu eru: 1) Sigríður, f. 5.7. 1920, d. 15.1. 2008. 2) Jón rennismíðameistari, f. 23.7. 1922, d. 27.2. 1998. 3) Björgvin Óskar lögfræðingur, f. 1.2. 1925. 4) Hallveig húsfrú, f. 29.9. 1934, d. 30.5. 2007. Bróðir þeirra sammæðra 5) Alfred Clausen málarameistari og söngvari, f. 7.5. 1918, d. 26.11. 1981. María Guðrún giftist í ágúst 1957 Jóni Adolfssyni, d. 12.10. 1982, verslunarstjóra Sveins Egilssonar hf. og var hann einn eigenda Ford umboðsins. Börn þeirra eru: 1) Steinunn María, f. 19.2. 1956, var gift Sighvati Arnarssyni, tæknifræðingi. Synir þeirra eru: Jón, f. 31.3. 1984, og Einar Björgvin, f. 26.5. 1997. Þau skildu 2002. 2) Árni Þór vélfræðingur, f. 10.3. 1959, kvæntur Rannveigu Björnsdóttur, sjúkraliða. Þeirra börn eru: Helena María, f. 6.5. 1985, Eva Björk, f. 12.9. 1987, og Daniel Örn, f. 3.3. 2000. Helena María er gift Gísla Reynissyni og eiga þau tvær dætur, þær heita Elísabet Lena, f. 19.7. 2005, og Una Rós, f. 20.7. 2007. María ólst upp á Njálsgötu 51b við gott atlæti í stórri og samheldinni fjölskyldu. Á sínum yngri árum stundaði hún tónlistarnám og lærði dans. Hún starfaði við ýmislegt um ævina. Vann nokkur sumur sem gjaldkeri í verslun Sveins Egilssonar hf. Rak í nokkur ár Tískuverslunina GoGo í Aðalstræti ásamt frænku sinni Rannveigu Ólafsdóttur. Í rúm 20 ár rak hún verslunina Remediu hf. og síðustu 5 árin undir heitinu Sjúkravörur ehf. eða þar til rekstri lauk sl vor. Útför Maríu Guðrúnar var gerð í kyrrþey frá Fossvogskapellu þann 7. janúar sl.
Steinunn María Jónsdóttir og synir.
Vinkonu minni, Maríu Guðrúnu Þorláksdóttur, sem við minnumst nú, kynntist ég barn að aldri. Við vorum nágrannar og áttum heima við Njálsgötu hér í borg. Fjölskyldur okkar voru um margt líkar, barnmargar, gestagangur mikill og vinum barnanna ætíð vel tekið. Feður okkar, sem báðir unnu í miðbænum keyptu mjólk og brauð í mjólkurbúðinni á horninu hvern morgun, voru mættir fyrr en opnað var og ræddu saman meðan þeir biðu. Gátu þá mæður okkar hvílt sig aðeins lengur, enda vinnudagur þeirra langur, eins og nærri má geta á svo stórum heimilum. Æskuárin liðu í öryggi og áhyggjuleysi í skjóli ástríkra foreldra. Barnfóstrustörf voru þau einu sem okkur buðust á þessum árum síðari heimstyrjaldar. Tókum við þeim og fengum starfsheitið "barnapía". Að lokinni skólagöngu réðst Minna eins og hún var ávallt kölluð til verzlunarstarfa í hljóðfæraverzluninni Rín við Njálsgötu og vann þar í nokkur ár. Eftir það vann hún hjá Alþýðubrauðgerðinni við afgreiðslustörf og stundaði jafnframt nám við Tónlistaskólann í Reykjavík í píanóleik. Á góðum degi um miðja síðustu öld kynntist hún ungum og glæsilegum manni, Jóni Adolfssyni, sem varð eiginmaður hennar þegar fram liðu stundir. Þau eignuðust tvö mannvænleg börn, dótturina Steinunni Maríu og soninn Árna Þór. Á fallegu heimili þeirra í Reykjavík og sumarhúsinu í Grímsnesi var glaðværð og góðvild í öndvegi og vakandi umhyggja fyrir gestunum og þar fór vel um alla. Fjölskyldan ferðaðist mikið um landið okkar og einnig um önnur lönd. Ekki fór Minna varhluta af mótlæti í lífinu. Jón lést árið 1982 langt um aldur fram. Kom þá best í ljós fórnfýsi hennar og kærleikur. Báðar systur sínar, Sigríði og Hallveigu, missti hún með stuttu millibili. Rólyndi og trúarstyrkur einkenndu hana á þessum erfiðu tímum. Um árabil rak Minna fataverzlun við Aðalstræti, en eftir lát Jóns hætti hún rekstrinum og við tók rekstur Remediu, verzlunar með sjúkravörur, sem hún varð síðan eigandi að og rak í 26 ár. Minna var glaðsinna, hnyttin í svörum, trygglynd, orðvör og afar samviskusöm. Á vordögum sl. árs hnignaði heilsu hennar verulega og sjúkrahúslegur urðu tíðari. Það sem verður minnisstæðast er styrkur hennar og æðruleysi er hún stóð frammi fyrir þeirri staðreynd að við sjúkdóminn yrði ekki ráðið. Sú einstaka umhyggja, sem Steinunn dóttir hennar sýndi móður sinni í þessum erfiðu veikindum, er verð aðdáunar. Dauðinn kemur alltaf óvænt, en augljóst var að hans yrði ekki langt að bíða. María Guðrún kvaddi þetta líf þann 28. desember sl. Vinkonur hennar, Sigríður og Ester og fjölskyldur þeirra, einnig við skystkinin af Njálsgötunni, vottum aðstandendum hennar innilega samúð. Megi hún vera á Guðs vegum.
Guðfinna Guðmundsdóttir.