Þorvaldur Steingrímsson fæddist á Akureyri 7.2. 1918 og ólst þar upp. Hann lést 27.12. 2009. Foreldrar hans voru Steingrímur Matthíasson, f. 31.3. 1876, d. 27.7. 1948, læknir á Akureyri, og k.h., Kristín Thoroddsen, f. 8.9. 1885, d. 7.10. 1959, húsmóðir. Systkini Þorvaldar voru Baldur, f. 3.8. 1907, d. 20.7. 1968, deildarverkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, var kvæntur Kristbjörgu Guðmundsdóttur; Bragi, f. 3.8. 1907, d. 11.11 1971, héraðsdýralæknir í Biskupstungum, var kvæntur Sigurbjörgu Lárusdóttur; Ingvi Steingrímsson, f. 21.8. 1908, d. 20.1. 1911; Anna Guðrún, f. 16.7. 1910, d. 13.10. 2006, var gift Árna Kristjánssyni, píanóleikara og tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins; Jón, f. 27.7. 1914, d. 29.1. 2004, stýrimaður í Reykjavík, var kvæntur Guðbjörgu Þórhallsdóttur; meybarn, f. 1.9. 1916, d. s.á.; Herdís Elín (Dísella), f. 23.11. 1921, d. 17.12. 1995, húsmóðir, var gift Sigurði Ólasyni, lækni á Akureyri. Eiginkona Þorvaldar var Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 5.5. 1919, d. 8.1. 1966, Jónssonar fiskkaupmanns í Reykjavík og k.h. Sigríðar Sighvatsdóttur, húsmóður frá Gerðum í Garði. Börn Þorvaldar og Ingibjargar eru 1. Sigríður, f. 12.4. 1941, var gift Lárusi Sveinsyni trompetleikara. Dætur þeirra eru Ingibjörg, Þórunn og Dísella. 2. Kristín, f. 31.10. 1942, börn hennar eru Þorvaldur Sigurður, Sif og Hrefna. 3. Halldór, f. 27.09.1 950, kvæntur Regínu Scheving Valgeirsdóttir. Börn þeirra eru Esther, Ellen, og Davíð Valgeir. Barnabörn Þorvaldar eru níu, barnabarnabörn 13 og eitt langalangafabarn. Seinni kona Þorvaldar er Jóhanna H. Cortes, f. 11.8. 1921, dóttir Lárusar Hanssonar innheimtumanns í Reykjavík, og k.h. Jónínu Gunnlaugsdóttur húsmóður. Fyrri maður Jóhönnu var Óskar T. Cortes, f. 21.1. 1918, d. 22.2. 1965, fiðluleikari. Dætur þeirra eru Jónína Kolbrún Cortes og Björg Cortes. Þorvaldur var við nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1934-37 og lærði m.a. fiðluleik hjá Þórarni Guðmundssyni. Hann lauk fullnaðarprófi í fiðluleik 1937 og var við framhaldsnám í The Royal Academy of Music í London 1946. Þorvaldur var fiðluleikari Útvarpshljómsveitarinnar frá 1944 og forfiðlari þar frá 1947. Hann var fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun hennar, aðstoðarkonsertmeistari frá 1966 og konsertmeistari við Þjóðleikhúsið á árunum 1966-80. Þorvaldur starfaði hjá Hollywood Bowl Orchestra í Kaliforníu 1961-62, var fyrsti fiðluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Dallas-borgar 1962-64 og aðstoðarkonsertmeistari hjá sinfóníuhljómsveit Oklahoma-borgar 1969-71. Hann kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík 1943-46 og var skólastjóri Tónlistarskólans í Hafnafirði 1980-88. Þorvaldur starfaði lengi í Frímúrareglunni og gegndi auk þess ýmsum trúnaðarstörfum í félögum tónlistarmanna, var formaður Félags íslenskra hljóðfæraleikara (FÍH) 1953-55, formaður Lúðrasveit Reykjavíkur 1976-78 og formaður Félags íslenskra tónlistarskólastjóra um skeið frá 1982. Þorvaldur var sæmdur heiðursmerki FÍH 1976. Útför Þorvaldar verður frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 8. janúar 2010, kl. 11.

Þorvaldur Steingrímsson, móðurbróðir minn elskulegur, uppáhaldsfrændi er látinn. Með Þorvaldi er genginn síðastur úr 6 systkina barnahópi Kristínar Þórðardóttur Thoroddsen og Steingríms Matthíassonar. Þorvaldur var næst yngstur þeirra systkina; elst Anna Guðrún, þá Jón síðan tvíburarnir Baldur og Bragi og yngst voru Þorvaldur og Herdís Elín, móðir þeirrar, er þetta skrifar. Þau systkinin Daddi og Dísella voru miklir mátar sem börn og ætíð hjartans vinir meðan bæði lifðu. Á bernskuheimilinu var líflegt, fjörugt og annasamt; foreldrarnir bæði virkir þátttakendur í samfélaginu á sviði heilbrigðismála, félagsmála, trúmála, guðspeki og tónlistar. Börnin fengu að njóta sín í bernskubrekjum og leikjum. Margar sögur sagði móðir mín af heimilishaldinu, kátínu, leikjum og frumlegum uppátækjum þeirra systkinanna á heimili fjölskyldunnar á Akureyri að Spítalavegi 9, en einnig frá sumarferðum í Skógarselið í Vaglaskógi, Fnjóskadal, af jólahaldi stórfjölskyldunnar þegar söfnuðust saman allar frænkurnar, frændurnir, afi og amma og gestir, sungu og spiluðu púkk með piparhnetum og ekið var til messu á sleða með hestum fyrir, í litlu kirkjuna í Fjörunni. En einnig frásagnir af sársaukafullri upplausn heimilisins við skilnað þeirra Kristínar og Steingríms árið 1932, þá var Þorvaldur 14 ára, móðir mín 11 ára. Þorvaldur var þá sendur í fóstur til frændfólks á Húsavík, Kristín móðir hans hélt í langferð, til Adyar á Indlandi, ásamt yngstu dótturinni. Drengurinn fékk sínu fram og hlaut menntun sína í tónlistaskólum; við Tónlistarskólann í Reykjavík sem var þá var til húsa í Hljómskálanum við Tjörnina. Síðan framhaldsnám við Royal Academy of Music í London sem lauk 1946.  Ást móður minnar á bróður sínum og á tónlistinni fékk ég í arf; Daddi frændi var mín stjarna. Daddi með fiðluna sína. Ævintýri og upplifanir fylgdu Dadda og mömmu: Með þeim var smástelpan í fyrsta skipti í Reykjavík, 5 ára gömul; þá upplifði Akureyringurinn umferðaljós í fyrsta sinn, þessi glampandi litskrúðugu ljós sem stóðu eins og risavaxnir sykraðir sleikipinnar upp úr regnvotum gatnamótunum í myrkrinu ekið á amerísku drossíunni hans Dadda alla leið yfir móa og grundir og yfir úfið hraunið til Hafnarfjarðar, í Bæjarbíó: að sjá kvikmynd í fyrsta sinn. Það var kvikmyndin Svanavatnið við tónlist Tchaikovskys. Hjá Dadda og Bíbí á Rauðalæk sá stelpan fyrst sjónvarp. Heimsóknir Symfóníuhljómsveitar Íslands til Akureyrar voru ævinlega mikill viðburður í bæjarlífinu á 6. og 7. áratugnum, tónleikar voru þá haldnir í Akureyrarkirkju. En það voru jafnframt hátíðar- og gleðistundir hjá minni fjölskyldu; að finna áhrifamikla tónlistina umlykja sig. Þá kom líka fiðluleikarinn Daddi frændi með félögum sínum úr symfóníunni í heimsókn í Munk.31 og það voru alltaf miklir fagnaðarfundir. Tónlistin, gleðin og örlætið fylgdu Þorvaldi alla tíð, tónlistin var hans miðill og ástríða. Minning Þorvaldar móðurbróður míns lifir í ljósinu og í tónlistinni; þökk fyrir hana og blessuð sé hún.



Þóra Sigurðardóttir.