Sigurður Guðmundsson fæddist á Naustum við Akureyri 16. apríl 1920. Hann andaðist 9. janúar 2010. Foreldrar hans voru Steinunn Sigríður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1883, d. 1924, og Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Naustum og síðar verkamaður á Akureyri, f. 1888, d. 1975. Stjúpmóðir hans var Herdís Samúelína Finnbogadóttir, f. 1901, d. 1944, húsfreyja á Akureyri. Systkini Sigurðar voru sex. Albróðir hans var Ólafur, f. 1918, d. 2005, kvæntur Sveinbjörgu Baldvinsdóttur, f. 1916. Hálfsystkini samfeðra eru: Steinunn, f. 1928, d. 1967, ógift; Víglundur, f. 1930, d. 1984, ókvæntur; Magnús, f. 1933, var kvæntur Iðunni Ágústsdóttur, f. 1939, sambýliskona hans er Siggerður Tryggvadóttir, f. 1932; Sigríður, f. 1937, átti Gunnar B. Loftsson, f. 1924, d. 1998; Ríkey, f. 1941, gift Brynjari Elíasi Eyjólfssyni, f. 1938. Sigurður kvæntist 12. febrúar 1944 Aðalbjörgu Halldórsdóttur frá Öngulsstöðum í Eyjafirði, f. 21. maí 1918, d. 27. september 2005. Þau áttu saman góð sextíu ár og eignuðust fimm börn: 1) Steinunn Sigríður, f. 1944, læknafulltrúi á Akureyri, gift Ingólfi Steinari Ingólfssyni, f. 1944, rafvélavirkjameistara. Börn þeirra eru: a) Sigurður, f. 1966, kvæntur Ólöfu Björku Bragadóttur, f. 1964, þau eiga Steinar Braga og Sölva Snæ; b) Benedikt, f. 1968, í sambúð með Hugrúnu Ragnheiði Hólmgeirsdóttur, f. 1970, þau eiga Ragnheiði Maríu. Áður átti Hugrún Álfrúnu með Pálma Erlendssyni; c) Rut, f. 1976, hún á Ingólf með Hreggviði Ársælssyni. 2) Þorgerður, f. 1945, d. 2003, myndlistarmaður og kennari í Reykjavík. Hún átti séra Gylfa Jónsson, f. 1945, þau skildu. Barn þeirra er Jón Gunnar Gylfason, f. 1973. Sambýlismaður Þorgerðar var Ólafur Hermann Torfason, f. 1947, rithöfundur. 3) Halldór, f. 1947, skólastjóri í Þorlákshöfn, kvæntur Ester Hjartardóttur, f. 1952, grunnskólakennara. Barn þeirra er Aðalbjörg, f. 1988. Halldór átti áður Ástu Finnbogadóttur, f. 1948, innanhússarkitekt. Synir þeirra eru: a) Haraldur, f. 1968, í sambúð með Helenu Halldórsdóttur, f. 1977, þau eiga Hektor Hermann og Hildi Heru. Haraldur átti áður Áslaugu Rannveigu Stefánsdóttur, f. 1968, og með henni Halldór Stefán, Höddu Margréti og Hörpu Elínu; b) Davíð, f. 1972, kvæntur Elsu Gunnarsdóttur, f. 1975, þau eiga Gunnar Stefán, sem er látinn, Fannar Harald og Stefaníu Ástu. 4) Guðmundur, f. 1949, ráðunautur Vesturlandsskóga á Hvanneyri, kvæntur Sigrúnu Kristjánsdóttur, f. 1955, starfsmanni Andakílsskóla. Börn þeirra eru: a) Ástríður, f. 1976, gift Birni Hauki Einarssyni, f. 1973, þau eiga Brynjar, Birgittu og Ástrúnu; b) Sigurður, f. 1979, í sambúð með Aldísi Örnu Tryggvadóttur, f. 1981, þau eiga Erni Daða; c) Kristján, f. 1987; d) Davíð, f. 1994. 5) Ragnheiður, f. 1954, bókasafnsfræðingur og yfirbókavörður Menntaskólans á Akureyri, gift Braga Guðmundssyni, f. 1955, prófessor við Háskólann á Akureyri. Börn þeirra eru: a) Aðalbjörg, f. 1982, í sambúð með Valgarði Reynissyni, f. 1983; b) Guðmundur, f. 1994. Sigurður varð stúdent frá MA 1940, guðfræðingur frá HÍ 1944 og stundaði framhaldsnám í þeirri grein í Kaupmannahöfn og Uppsölum 1946-1947. Hann var sóknarprestur á Grenjaðarstað í Aðaldal 1944-1986 og á Hólum í Hjaltadal 1986-1991. Hann var prófastur Suður-Þingeyinga 1957-1958 og 1962-1986, þar af í sameinuðu Þingeyjarprófastsdæmi frá 1971. Sigurður var vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi 1981-1991, flutti í Hóla 1986 og var fyrstur biskupa til að sitja staðinn síðan 1798. Hann var settur vígslubiskup á Hólum í nokkra mánuði 1999 og enn allt árið 2002. Sigurður gegndi embætti biskups Íslands í forföllum 1987-1988, vígði meðal annars þrettán presta. Sumarið 1993 var hann settur vígslubiskup í Skálholti og sat þannig öll biskupsembætti íslensku þjóðkirkjunnar á löngum ferli sínum. Sigurður rak bú á Grenjaðarstað 1944-1986 og unglingaskóla á sama stað flest árin 1944-1969. Hann var skólastjóri Héraðsskólans á Laugum í Reykjadal 1962-1963 og stundakennari við þann skóla, Húsmæðraskólann á Laugum og barnaskóla í Aðaldal lengi, og bókavörður við Bókasafn Aðaldæla 1978-1986. Þá var Sigurður aðalhvatamaður að stofnun Sumarbúða ÆSK við Vestmannsvatn og formaður stjórnar þeirra frá upphafi. Sigurður var ættfróður og ákaflega félagslyndur maður sem meðal annars naut sín í fjölþættu kórstarfi og innan Frímúrarareglunnar. Bókasöfnun var honum mikið áhugamál og ljóðasafn þeirra hjóna er eitt hið mesta sem um getur í einkaeigu hér á landi. Það var gefið Bókasafni MA árið 1996 og er varðveitt í sérstakri vinnustofu, Ljóðhúsi MA. Að lokinni þjónustu á Hólum árið 1991 flutti Sigurður ásamt eiginkonu sinni til Akureyrar og átti þar heima síðan. Frá hausti 2008 bjó hann á Dvalarheimilinu Hlíð og naut þar góðs atlætis í hvívetna. Útför Sigurðar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, mánudaginn 18. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.30.
Það er svo ótal margs að minnast þegar maður lætur hugann reika til æskuáranna heima á Grenjaðarstað, minningar um pabbann, prestinn, bóndann. Búskapurinn var honum alltaf kær og ólumst við systkinin upp við að mjólka kýr og hugsa um kindur. Kindurnar voru honum sérstaklega hugleiknar og við vorum ekki gömul þegar hann fór að kenna okkur að þekkja þær með nafni. Pabbi var með afbrigðum fjárglöggur. Mér er minnisstætt einn veturinn þegar kindurnar voru að koma heim seinni part dags eftir vetrarbeit og runnu í einni röð á eftir forustukindinni. Hann nefndi þær eina af annarri þegar þær beygðu inn á heimreiðina og er nú þó nokkur spotti upp á þjóðveg. Smalamennskan fer mér heldur ekki úr minni, hvort heldur var í hrauninu heima eða þegar ég fór fyrstu rúningsferðina með pabba austur að Þeistareykjum að vorlagi. Eftir smalamennsku á hestum allan daginn og rúning að kvöldi komu menn saman í gangnakofanum og þar kenndi hann mér að drekka soðið kaffi úr katli, mér fannst það vont en pabbi drakk það og þá gerði ég það einnig.
Jólin heima á Grenjaðarstað eiga stóran sess í huga mínum. Pabbi að semja ræður fyrir allar hátíðarmessurnar, oftast á nóttunni, fara í útiverkin og gefa skepnunum og þá alltaf bestu töðuna sem fannst í hlöðunni. Pabbi kenndi okkur systkinunum snemma að kindurnar þyrftu nú líka sinn jólamat. Þegar við systkinin höfðum stofnað fjölskyldur, fórum við heim að Grenjaðarstað öll jól í áraraðir. Það var einhvern veginn alveg sjálfsagt að fara heim og vera með foreldrum sínum, það voru engin jól nema að vera hjá pabba og mömmu. Um áramótin var venja að hringja kirkjuklukkunum og kenndi pabbi okkur systkinunum mjög snemma að slá rétta taktinn. Síðar tók hann barnabörnin í kennslustund og klukknahljómurinn barst um víða veröld, að okkur fannst.
Pabbi var frumkvöðull að æskulýðsstarfinu heima og sumarbúðunum að Vestmannsvatni. Það var mikil vinna að koma því starfi á laggirnar og man ég alltaf eftir því þegar ég strákurinn, var að vinna að sumarlagi við byggingarnar og hann kom að líta eftir verkinu og segja smiðunum hvernig hann vildi hafa þetta og hitt.
Góð er minning mín þegar ég, innan við tvítugt var við nám í Svíþjóð, og pabbi kom í náms- og kynnisferð til landsins. Hann gaf sér tíma til að ferðast til mín og áttum við þar góðar stundir. Þetta var mér ógleymanleg heimsókn og í minningunni er þetta sem ljós í tilverunni þar sem ég saknaði fjölskyldu og ættingja heima á Íslandi.
Allt frá bernsku minni og fram á síðustu ár pabba man ég eftir honum í bókaverslunum. Hann átti eftir sinn dag eitt mesta bókasafn landsins enda vorum við systkinin aldrei í vandræðum með að finna okkur bækur úr bókasafni hans. Í gamla daga var ekki farið til Húsavíkur öðruvísi en að koma við í bókaverslun Þórarins Stefánssonar og kaupa bækur. Iðulega fórum við krakkarnir með og skoðuðum bækur á meðan hann valdi sér bækur og spjallaði við eigendur bókabúðarinnar. Í starfi sínu sem prestur, prófastur, vígslubiskup og biskup hefur faðir minn komið mjög víða og var allsstaðar ákaflega vel virtur. Hann hafði ljúfa en ákveðna framkomu, laðaði að sér fólk og átti alla tíð sérstök tengsl við ungt fólk.
Ester man er hún missti móður sína og átti erfitt, þá kom pabbi óvænt suður. Hann dvaldi hjá okkur nokkra daga og nærvera hans var öllum ómetanleg. Hann setti allt til hliðar og kom til að styðja okkur og höfum við alltaf verið mjög þakklát fyrir það.
Það verður öðruvísi að koma til Akureyrar nú þegar báðir foreldrar mínir hafa kvatt þennan heim. Síðasta árið dvaldi faðir minn á Dvalarheimilinu Hlíð og vil ég þakka öllu því frábæra starfsfólki sem þar vinnur fyrir umhyggjusemi og fórnfýsi. Megi góður Guð styrkja okkur í söknuði okkar á þessum erfiðu tímamótum. Ég mun geyma minningarnar um pabba, minningar sem ég og fjölskylda mín munum gleðjast yfir á ókomnum árum.
Halldór.
„Þetta er hún Kristín, hún er næstum því prestur því hún er djákni”. Þannig kynnti hinn aldni biskup mig fyrir sessunaut sínum við kaffiborðið í Beykihlíð þar sem hann bjó. Hjarta mitt fylltist gleði og um leið þakklæti til vígsluföður míns og vinar, þessa merka kirkjuhöfðingja. Hann hafði á langri ævi lagt svo mikið af mörkum til samfélagsins í starfi sínu sem prestur í sveit, prófastur, oddviti, bóndi, kennari, skólastjóri, biskup á öllum biskupsstólum landsins og faðir fimm efnilegra barna. En hann var ekki einn á ferð, því hans elskulega kona var ein af þessum ekta prestskonum sem opnuðu heimilið fyrir sóknarbörnum og öðrum börnum og tók þátt í starfi prestsins á margvíslegan hátt, söng í kirkjukórnum og veitti öllum góðan beina sem á prestssetrið komu. Ég var líka ein af þessum börnum sem nutu kærleika þeirra og umhyggju er ég var lítil stúlka í sveit hjá systur húsfreyjunnar á næsta bæ við Grenjaðarstað. Og þessi kærleikur er enn í gildi og hann fellur aldrei úr gildi.
Nú hefur Drottinn tekið vígslubiskupinn Sigurð Guðmundsson til sín og búið honum stað og boðið honum eilífa lífið með sér. Elskuð eiginkona hans, Aðalbjörg Halldórsdóttir, sem lést árið 2005, var merk og mikilhæf kona, falleg, greind og góð. Mér er ætíð í minni brúðarmyndin af þeim sem var uppi við hjá afa mínum og ömmu frá því ég man eftir mér. Brúðurin skartaði skautbúningi, sviphrein og glæsileg og brúðguminn myndarlegur verðandi prestur. Miklir kærleikar voru með móðurforeldrum mínum og Öbbu og Sigurði alla tíð og var hátíð í bæ er prestshjónin frá Grenjaðarstað komu í heimsókn. Fjölskylda mín hefur æ síðan notið þeirrar vináttu, en frænka mín nefndi það oft hve afi og amma hefðu verið þeim góð er þau bjuggu í Reykjavík á námsárum Sigurðar. Nú hefur Þjóðkirkjan okkar misst einn af sínum mikilhæfustu þjónum, en hvar sem þau hjón komu var eftir þeim tekið og þau hafa sett svip sinn á umhverfi sitt. Auk prestssetursins á hinum merka Grenjaðarstað ber að nefna Hólastað, en Sigurður hóf biskupsstólinn til vegs og virðingar á ný með því að setjast sjálfur þar að sem vígslubiskup Hólastiftis og standa fyrir miklum framkvæmdum á þessum fornfræga og helga stað, honum sjálfum til sóma og kirkjunni til blessunar.
Í hinni helgu bók er að finna speki Predikarans:„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma”.
Kom, nótt, með náð og frið
kom nær, minn faðir hár,
og legðu lyfstein þinn,
við lífsins mein og sár,
allt mannsins böl, hvert brot og sár.
Þannig orti vinur hans, sálmaskáldið og leiðtoginn Sigurbjörn Einarsson, biskup, um ævilokin. Sr. Sigurður hefur nú nálgast föður sinn á himnum sem hefur lagt lyfsteininn við sárin og grætt þau.
Við Einar og synir okkar kveðjum hjartfólginn vin með virðingu og þökk.
Megi Guð allrar huggunar vera elskuðum börnum hans og afkomendum öllum nálægur.
Veri Sigurður kært kvaddur í eilífri náðinni.
Kristín Árnadóttir.
Það var lán mitt að ég var sendur í lok guðfræðináms í prédikunarþjónustu norður í Þingeyjarsýslu, að Grenjaðarstað, til séra Sigurðar Guðmundssonar sem þá var nýorðinn vígslubiskup í Hólastifti og þar með konu hans Aðalbjargar Halldórsdóttur. Þau hjónin tóku mér mæta vel, elskulegar manneskjur og minnisstætt er hvað heimili þeirra var fallegt. Við ferðuðumst á jeppa Sigurðar milli kirkna Grenjaðarstaðaprestakalls á sunnudögum, unglingurinn prédikaði og fékk vinsamlegar leiðbeiningar hjá hinum reynda biskupi. Sigurður er með ljúfari og betri mönnum sem ég hef kynnst og engin þoka eða mælgi en viðfangsefnin leyst með skynsamlegum og uppbyggilegum hætti og með bros á vör.
Sigurður var vinsæll meðal sóknarbarna sinna og mikið kaffi drukkið. Alltaf var framganga hans jafn elskuleg, hvort sem var á stjórnunarvettvangi kirkjunnar, en þangað var hann oft kallaður, eða þegar hann kom í Þorkákshöfn háaldraður til að ferma sonardóttur sína Aðalbjörgu Halldórsdóttur.
Minnisstæður maður, minnisstæð hjón, bæði látin og þakka ég hér með elskusemi þeirra í minn garð bæði á fallegu heimili þeirra á Grenjaðarstað og síðar.
Baldur Kristjánsson.