Haukur Bjarmi Óskarsson fæddist í Klömbur, Aðaldal, 25. nóvember 1928. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut mánudaginn 11. janúar síðastliðinn. Foreldrar Hauks voru Óskar Jónsson bóndi fæddur 21.11. 1883 í Klömbur og kona hans Hildur Baldvinsdóttir frá Nesi í Aðaldal, fædd 21.6. 1892. Systkini Hauks voru Hulda Óskarsdóttir f. 1915, Dagur Óskarsson f. 1917, Heiðbjört Óskarsdóttir f. 1919, Baldvin Hilmar Óskarsson, f. 1921, Málfríður Ingibjörg Óskarsdóttir f. 1923, Jón Sveinbjörn Óskarsson f. 1924, Hreinn Óskarsson f. 1927 og eru þau öll látin en eftirlifandi bróðir Hauks er sr. Sigurpáll Óskarsson f. 1931. Haukur kvæntist 14. maí 1960 eftirlifandi konu sinni Sigríði Sigurðardóttur f. 2.1. 1920 frá Stóra Lambhaga í Skilmannahreppi. Sonur þeirra er Óskar Baldvin Hauksson f. 20.10. 1960 sem kvæntur er Ingu Jónu Friðgeirsdóttur f. 29.8. 1964. Synir þeirra eru Haukur Óskarsson, f. 1994 og Friðgeir Óskarsson f. 2000. Synir Sigríðar eru 1) Sigurður Ferdinandsson f. 1.2. 1947 kvæntur Guðrúnu Matthíasdóttur f. 24.1. 1947 en dóttir þeirra er Sigríður Sigurðardóttir f. 1979, dóttir Guðrúnar er Margrét Vilhjálmsdóttir f. 1973. 2) Reynir Jóhannsson f. 5.3. 1953 kvæntur Ingu Rún Garðarsdóttur f. 1954. Börn þeirra eru Sigurður Reynisson f. 1981, Garðar Reynisson, f. 1983 og Eyrún Jóna Reynisdóttir f. 1987. Dóttir Ingu Rúnar er Hrund Valgeirsdóttir f. 1974. Haukur ólst upp í Klömbur í Aðaldal og stundaði almenn sveitastörf frá unga aldri. Á námsárum sínum vann hann ýmis störf, m.a. vegavinnu og við vinnumennsku. Haukur lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar og sveinsprófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann stundaði einnig nám í tæknifræði við Tækniskólann í Árósum, Danmörku. Haukur vann við rafvirkjun m.a. hjá Raftækjastöðinni í Reykjavík, Bræðrunum Ormson en stofnaði síðan Samvirkja ásamt fleirum og starfaði við virkjanaframkvæmdir í Sigöldu. Eftir það vann Haukur hjá Hannesi Vigfússyni rafvirkjameistara uns hann lét af störfum. Heimili Hauks og Sigríðar var í fjóra áratugi að Eyjabakka 28 í Reykjavík en áður bjuggu þau í Mosgerði og Njálsgötu. Útför Hauks fer fram frá Breiðholtskirkju í dag, 19. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.
Okkur langar til að minnast Hauks með nokkrum orðum og þakka fyrir þær stundir sem við áttum með honum. Þegar komið er að kveðjustund hlaðast að minningar. Það var gaman að ræða við Hauk um allt milli himins og jarðar, hann fylgdist vel með öllu sem var að gerast í þjóðlífinu og hafði skoðun á flestu. Hauki fannst gaman að segja frá æskustöðvum sínum í Aðaldal. Hann var uppalinn á Klömbrum í Aðaldal á bökkum Laxárinnar. Haukur hafði gaman af lax- og silungsveiði. Hann stundaði einnig skotveiði og veiddi rjúpur í jólamatinn áður fyrr. Haukur hafði áhuga á gróðri og garðyrkju og hann og Sigga settu niður kartöflur, rófur og gulrætur í Stóra-Lambhaga. Þau komu svo af til yfir sumarið og reyttu arfann og tóku upp á haustin.
Haukur sá lengi um að gróðursetja og hugsa um gróðurinn fyrir utan blokkina í Eyjabakkanum.
Marga hátíðina höfum við haldið saman. Í mörg ár komum við fjölskyldan í Eyjabakkann á jóladag til Hauks og Siggu (mömmu) þá var ætíð glatt á hjalla og góður matur á borðum og allir sem vildu fengu í nefið hjá Hauki. Nú seinni árin hafa þau komið til okkar á annan í jólum og hittumst við síðast í veislu núna 2. janúar í afmæli Siggu. Haukur hafði þá venju að heilsa alltaf og kveðja fallega, allir fengu léttan koss á kinn. Þegar við yfirgáfum afmælið kvaddi hann okkur óvenju vel og finnst okkur núna eftir á að hyggja að hann hafi vitað að það væri ekki svo langt eftir.
Við þökkum fyrir samfylgdina í gegnum árin, guð blessi minningu Hauks.
Reynir og Inga Rún.