Sigurður Guðmundsson fæddist í Reykjavík 27. júlí 1938. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 7. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Björgvin Vigfússon borgarfulltrúi, fæddur í Hrísnesi á Barðaströnd 14. september 1915, d. 12. janúar 1983 og Marta Guðrún Kristmundsdóttir húsmóðir, fædd á Kolbeinsá í Hrútafirði 3. desember 1917, d. 9. júní 1983. Systur Sigurðar eru Hrafnhildur, f. 1944, maki Gylfi Sigurðsson, Kristrún Guðbjörg, f. 1953, maki Daníel Gunnarsson og Edda Sigrún, f. 1959. Þann 3. júlí 1962 gekk Sigurður að eiga Sólveigu Ástu Ásgeirsdóttur leikskólakennara fædda í Reykjavík 3. júlí 1942. Foreldrar hennar voru Ásgeir V. Björnsson verslunarmaður fæddur í Reykjavík 13. febrúar 1914, d. 22. febrúar 2002 og Dagbjörg Þórarinsdóttir húsmóðir fædd í Reykjavík 30. júní 1916, d. 24. september 2002. Börn þeirra Sigurðar og Sólveigar eru: 1) Ásgeir Valdimar, bifvélavirki, f. 24. nóvember 1962. Börn hans og Mörtu Maríu Friðþjófsdóttur, f. 1964, eru Sigurður Ásgeir, f. 1992, Ásta María, f. 1998, fósturdóttir Ásgeirs er Hafdís Karlsdóttir, háskólanemi, f. 1983. 2) Dagbjörg Birna, barnageðlæknir f. 14. júní 1964, maki Davíð O. Arnar, hjartalæknir, f. 1961, synir þeirra eru Björn Atli, laganemi, f. 1988, Gústav Arnar, f. 1992 og Sigurður Arnar, f. 2002. 3) Marta Dögg, leikskólakennari, f. 4. febrúar 1971, maki Sigurður Óli Kolbeinsson, lögfræðingur, f. 1966, dætur þeirra eru Sólveig, f. 1995, Ingibjörg, f. 1998, og Dagbjörg Birna f. 2007. Sigurður gekk í Austurbæjarskóla og síðan Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Hann lauk námi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík og í byggingarfræði frá Tækniskólanum í Kaupmannahöfn. Sigurður hóf starfsferil sinn hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og starfaði þar um árabil. Síðar starfaði hann á eigin teiknistofum, fyrst á Húsnæðisteiknistofunni, en lengst af rak hann teiknistofuna Staðalhús ásamt nafna sínum Sigurði Kristjánssyni. Árið 1994 hóf hann störf hjá Búnaðarbanka Íslands, síðar Kaupþingi og starfaði þar m.a. sem forstöðumaður eignaumsýslu bankans til 70 ára aldurs. Sigurður var afkastamikill húsateiknari og eftir teikningum hans hafa verið byggð á annað þúsund hús á Íslandi. Sigurður var virkur meðlimur Kiwanisklúbbsins Esju frá árinu 1974. Hann gegndi öllum embættum klúbbsins og var m.a. forseti hans árið 1979-1980. Sigurður var vinamargur og eignaðist trausta og góða vini hvar sem hann kom. Sigurður og Sólveig byggðu börnum sínum ung fallegt heimili við Háaleitisbraut í Reykjavík þar sem þau bjuggu allar götur síðan. Við Meðalfellsvatn í Kjós hannaði Sigurður og byggði fjölskyldu sinni sumarbústað í landi tengdaforeldra sinna, sem er sælureitur fjölskyldunnar. Útför Sigurðar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 19. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 15.
Fallinn er frá mikill sómamaður. Mig langar að minnast Sigurðar Guðmundssonar í fáeinum orðum. Sigurði kynntist ég þegar hann hóf störf hjá eignaumsýslu Búnaðarbankans en fyrirtæki mitt hafði um nokkurt skeið unnið ýmis verkefni fyrir bankann. Hann varð síðar yfirmaður deildarinnar og við það urðu samskiptin meiri. Þótt ég hafi vitað hver hann var frá gamalli tíð kynntist honum fyrst þarna og voru samskiptin við hann alla tíð einstaklega jákvæð og ánægjurík. Stundum þurftum við að semja og gat hann þá verið harður fyrir hönd síns fyrirtækis en alltaf var hann sanngjarn og við stóðum alltaf upp frá borðinu sáttir. Fljótt kynntist maður því að hann bjó yfir mikilli reynslu og þekkingu á sínu sviði og reyndar langt út fyrir sitt svið. E.t.v. naut hann sín þó best þegar framkvæmdir stóðu yfir og handagangur var í öskjunni því oft var framkvæmdatími mjög skammur. Þrátt fyrir að hafa skipulagt framkvæmdirnar af alúð kom það stundum fyrir að óvænt atvik settu strik í reikninginn. Það kom þá í hlut Sigurðar að leysa málin en þá reyndi á útsjónarsemina sem Sigurður bjó yfir í svo miklu magni. Oft voru líka margir iðnaðarmenn á verkstað að vinna undir pressu og þurfti stundum lítið til að spenna myndast á milli þeirra. Enginn var þá betri í að lempa menn og fá þá með jákvæðni til að beina orkunni í að klára verkið en láta ekki aðra þætti trufla sig, enda var Sigurður einstaklega góður í mannlegum samskiptum.
Sigurður lét af störfum fyrir tæpum tveimur árum og eftir mikla törn í bankanum var hann tilbúinn í ný verkefni heima fyrir. Ég veit að hann hafði mjög gaman af því að dunda í sumarbústaðnum og hjálpa vinum og ættingjum í ýmsum framkvæmdum. Við nutum þess að fá hann í kaffi stökum sinnum eftir að hann lét af störfum og þáðum reyndar hjá honum góð ráð vegna framkvæmda sem við stóðum í.
Ég og starfsmenn fyrirtækis míns sem unnu með Sigurði við ýmsar framkvæmdir munum sakna hans. Ég votta eiginkonu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum mína dýpstu samúð.
F.h. starfsmanna Axis
Eyjólfur Axelsson.
Sólveig sagði ætíð hann Siggi minn þegar talið barst að eiginmanni hennar, Sigurði Guðmundssyni. Við kynntumst þegar hún starfaði við leikskólann Völvuborg og ég var í ráðgefandi starfi hjá Dagvist barna. Ég kom oft í Völvuborg. Starfsfólk leikskólans var samhent og kom öðru hverju saman utan vinnutíma sér til skemmtunar. Mér var boðið að vera með og þannig kom ég fyrst á heimili Sólveigar og Sigurðar fyrir 30 árum og kynntist honum. Tengslin héldust eftir að ég flutti til Þýskalands. Við hittumst þegar ég var á Íslandi bæði á heimili þeirra á Háaleitisbrautinni og í frábærum sumarbústað þeirra við Meðalfellsvatn.
Einnig heimsóttu þau mig nokkrum sinnum hér í Würzburg. Það tókst með okkur vinátta og Siggi hennar Sólveigar varð líka Siggi minn.
Ég þakka þeim hjónum fyrir vináttuna og margar góðar stundir.
Sólveig mín, ég og fjölskyldan sendum þér og þínum okkar bestu samúðarkveðjur.
Sigmar Karlsson.