Guðríður Guðlaugsdóttir fæddist í Reykjavík 13. júní 1925. Hún andaðist 29. desember 2009. Foreldrar hennar voru Ingveldur Hróbjartsdóttir húsfrú, f. 1882 á Efri Reykjum í Biskupstungum, d. 1970, og Guðlaugur Helgi Vigfússon málari, f. 1896 á Svalbarða í Þistilfirði, d. 1952. Alsystkini Guðríðar eru: 1) Kristín kaupmaður, f. 1920, d. 2008, maki Pétur Pálsson trésmiður, f. 1916, d. 1997. 2) Ásta Jenný húsfrú, f. 1921, maki Haukur Hallgrímsson málarameistari, f. 1920, d. 1999. 3) Hreiðar, starfsm. BÚR, f. 1922, d. 1980, maki M. Ólína Kristinsdóttir, f. 1921, d. 2009. Systur Guðríðar samfeðra eru: 1) Ragna Emelía, f. 1916, d. 1996, maki Einar Helgason f. 1909, d. 1994. 2) Klara, f. 1935. Maki Guðríðar var Kári Sigurðsson framkvæmdastjóri, f. 1914 á Sauðárkróki, d. 1959. Börn og tengdabörn: 1) Ingveldur Hafdís Aðalsteinsdóttir framhaldsskólakennari, f. 1951, d. 2008, maki Óskar Jónsson verkfræðingur, f. 1951. Börn þeirra: a) Guðbjörg Hrönn efnaverkfræðingur, f. 1975, maki Jakob Már Ásmundsson iðnaðarverkfræðingur, f. 1975. b) Styrmir iðnaðarverkfræðingur, f. 1978, maki Anna Kristrún Gunnarsdóttir sjúkraþjálfi, f. 1978. c) Halla Þórlaug myndlistarnemi, f. 1988. 2) Sigurður Kárason málari, f. 1955, maki Þórunn Halldórsdóttir lögfræðingur, f. 1959. Börn þeirra: a) Halldór Steinsson matreiðslumaður, f. 1978, sambýliskona Ragnheiður Bogadóttir lögfræðingur, f. 1977. b) Aron Kári flugmaður, f. 1986. c) Elísabet Inga grunnskólanemi, f. 1995. d) Þórunn Eva grunnskólanemi, f. 2000. Barnabarnabörnin eru þrjú. Guðríður bjó alla ævi í Reykjavík. Í æsku bjó hún í Laugarnesinu, en á fullorðinsárum m.a. í Álfheimum, í Hlíðunum og síðast í Hvassaleiti áður en hún flutti á hjúkrunarheimilið Skjól. Guðríður vann við framreiðslustörf mestan hluta ævinnar, lengst af í Hressingarskálanum í Austurstræti. Hún starfaði einnig sem þerna á millilandaskipum. Guðríður verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag, þriðjudaginn 19. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.
Fáein minningarorð um Guðríði Guðlaugsdóttur, sem var okkar góða nágrannakona til margra ára, þótt langt sé um liðið. Fjölskylda okkar, sex samtals, og hún ekkja með börnin sín tvö, bjuggu í sama stigagangi. Þetta var á skóla- og unglingsárum barnanna okkar. Guðríður var útivinnandi alla daga nema í hefðbundnum fríum. Samkomulagið var slíkt, að þar bar aldrei neinn skugga á. Seinna skildu leiðir, við þurftum á stærra húsnæði að halda og fluttum burt, en alltaf hélst vinskapurinn og voru jólakveðjurnar fastur liður í því. Ekki fórum við og Guðríður varhluta af áföllum í lífinu. Fyrir tæpum tveimur árum lést yndisleg dóttir hennar, Dísa, allt of snemma frá manni og börnum. Okkar dýpstu samúðarkveðjur sendum við eftirlifandi afkomendum heiðurskonunnar Guðríðar Guðlaugsdóttur.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Kirsten, Gunnar og börn.