Þórður Jónsson fæddist á Þverá í Svarfaðardal 26. október 1918. Hann lést á Landspítalanum 25. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Þórðarson frá Steindyrum í Svarfaðardal f. 1896, d. 1995 og Margrét Kristinsdóttir frá Miðkoti á Dalvík f. 1900, d. 1970. Systir Þórðar er Árnína Jónsdóttir f. 1923. Hennar maki var Valdimar Jónsson f. 1921, d. 2006. Sjöunda maí 1944 kvæntist Þórður Guðríði Bergsdóttur f. 31.12. 1921, d. 10.6. 1996. Hún var fædd í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Bergur Thorberg Þorbergsson f. 1894, d. 1953 og Sumarlína Þuríður Eiríksdóttir f. 1898, d. 1988. Börn Þórðar og Guðríðar eru 1) Margrét Anna húsfreyja f. 24.9. 1943 í Reykjavík. Hennar maki var Jóhannes Gylfi Jóhannsson. Þau skildu. Börn þeirra eru Þórður Kristinn, Guðríður Anna og Lína Þyrí. 2) Bergur Jón (Thorberg) myndlistarmaður f. 8.5. 1951 á Skagaströnd. Kona hans er Eydís Ólafsdóttir. Dætur þeirra eru Elma Helgadóttir, Nótt Thorberg og Eydís Eva. Þórður fæddist sem fyrr segir í Svarfaðardalnum en fluttist fjögurra ára að aldri til Akureyrar með foreldrum sínum þar sem hann ólst upp. Þar naut hann hefðbundinnar skólagöngu þess tíma, lagði stund á nám við Iðnskólann um hríð, sótti vélstjóranámskeið og lauk þar vélstjóraprófi. Hann var sendur í sveit eins og títt var í þá daga og hélt alla ævi ríkum tengslum við Laxamýri og Bárðardalinn, staði sem voru honum mjög kærir. Hann fluttist til Reykjavíkur 1940 og vann þar í vélsmiðjum. Þórður fór til Skagastrandar á vegum Héðins 1946, til uppsetningar á vélum í Síldarverksmiðju ríkisins, og fjölskyldan dvaldi þar næstu 20 árin. Þar vann hann lengst af sem vélstjóri í frystihúsum staðarins en sinnti jafnframt mörgu öðru svo sem ljósmyndun og liggja eftir hann þúsundir verka, bæði ljósmyndir og 16 mm kvikmyndir. Hann vann öflugt æskulýðsstarf á staðnum, stofnaði m.a. skátafélag og tók þátt í fjölmörgu öðru svo sem ungmennafélagsstarfi og stjórnmálum og gegndi mörgum trúnaðarstörfum í þorpinu við Flóann. Þá var hann fréttaritari og ljósmyndari fyrir Morgunblaðið um langa hríð. Eftir þetta starfaði Þórður við SR á Reyðarfirði um tveggja ára skeið en flutti svo aftur til Akureyrar og var vélstjóri á togurum ÚA um árabil. Enn flutti hann sig um set og gerðist vélstjóri á togurum Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og einnig var hann yfirvélstjóri á síldveiðiskipum. Árið 1978 fluttist Þórður til Svíþjóðar og stundaði þar véla- og viðgerðarstörf og bjó þar í 12 ár. Árið 1990 fluttist hann aftur til Íslands og stofnaði heimili í Reykjavík. Skáti var hann allt sitt líf og tók virkan þátt í starfi innan skátahreyfingarinnar allt til dauðadags. Hann tók virkan þátt í starfi Blindrafélagsins og Bergmáls síðustu 10 árin og naut þess í ríkum mæli, enda umvafinn þar hamingju og kærleik. Þakkir skulu þeim færðar hér, sem og fjölskyldum Fjólu vinkonu hans og Hara og Ásgerðar fyrir norðan, sem veittu honum margar hamingjustundir. Margir munu minnast Þórðar fyrir hversu bóngóður og hjálpfús hann var og hversu húmorinn var ríkur þáttur í lífi hans og upplestur hans á kvæðum verður lengi í minnum hafður en þau flutti hann víða og ávallt blaðalaust. Útför Þórðar fer fram frá Áskirkju í dag, föstudaginn 15. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.



MILLI TVEGGJA GAUKA
Árið er 1962. Atvik höguðu því þannig að þetta sumar var ég mikið á Úlfljótsvatni. Glæsilegt landsmót á Þingvöllum í tilefni 50 ára afmælis íslensku skátahreyfingarinnar að baki og ég var enn mættur austur að Úlfljótsvatni á Gilwellnámskeið, hið fjórða í röðinni.
Við bíðum í ofvæni eftir að raðað var í hefðbundna Gilwellflokka, nákvæmlega á sama hátt og gert var á Gilwell Park 1919 á tímum Baden Powell og Francis Gidney. Auðvitað vildum við vera saman í flokki Úlfljótsvatnspjakkarnir - Siggi Ragg, Óttar Proppé, Óli Kriss. og ég. En við réðum engu og röðunin varð önnur: Atli, Óli Kriss., Örn Bergsson og Sveinn, sem reyndar varð frá að hverfa vegna veikinda og svo einhver kall þarna að norðan, Þórður Jónsson. Við urðum Gaukar á Gilwellnámskeiðinu 1962.
En hver var þessi fullorðni maður sem átti að flækjast þarna fyrir okkur. Einhver skátaforingi frá Skagaströnd eða Höfðakaupstað, einhvers staðar á Norðurlandi? Óli fann eins og skot uppnefnið, eins og honum var lagið; "Doddi Johnson frá Hausakaupstað". En Doddi var flottur, varð strax algjörlega einn af okkur, barði okkur kapp í brjóst og alltaf með í öllum ákvörðunum, lagði á ráðin, glettinn og hlýr, - allra hugljúfi. Brá aldrei skapi eins og okkur yngri var tamt. Kom með áeggjanir þegar hugmyndir þrutu. Hér skipti aldur engu máli. Hér var kominn vinur í raun, - skátabróðir.
Doddi var þá og síðar, potturinn og pannan í öflugu skátastarfi á Skagaströnd, stundum við erfiðar aðstæður eins og oft vill verða í minni plássum á landsbyggðinni. Aftur lágu leiðir okkar saman, nú 1964 á Gilwellnámskeiði fyrir ylfingaforingja þar sem ég var leiðbeinandi. Ég fann til minnimáttar þar sem ég hafði alla mína þekkingu á ylfingastarfi úr bókum og hafði bara verið sveitarforingi og félagsforingi. Doddi hafði nú farið í það starf sem mest var þörfin á.
Undanfarin ár hafa leiðir okkar legið saman, á Gilwellreunion og öðrum slíkum athöfnum, en efst í minni er afmæli Gilwellskólans s.l. september, þar sem við fylgdumst að austur. Við vorum allan daginn saman, tölum um gamla daga,Óla Kriss. og Óttar sem báðir eru farnir heim og voru okkur hjartfólgnir, um Gilwell, breytingarnar og starfið framundan. Þarna var hann á tíræðisaldri, alltaf jákvæður og sagði að eðlilegt væri að hlutirnir breyttust. Okkar maður naut sín á þessum góða degi. Ég fann að ég var gamaldags.

Kæri vinur, Doddi Johnson, nú ert þú farinn heim. Hvíldu í friði.



Atli Smári Ingvarsson Gaukur '62.