Gunnar Hallur Jakobsson fæddist á Grenivík 23. ágúst 1934. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 8. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jakob Gíslason skipasmiður frá Ólafsfirði, f. 27.9. 1907, d. 19.4. 1984, og Matthildur Stefánsdóttir frá Miðgörðum á Grenivík, f. 15.11. 1906, d. 4.7. 1978. Þau hófu sinn búskap á Grenivík en bjuggu lengst af á Akureyri. Systkini Gunnars eru 1) Sigurlaug Jakobsdóttir, f. 9.8. 1931, 2) Stefán Haukur Jakobsson, f. 31.10. 1932, 3) Jakob Jakobsson, f. 20.4. 1937, d. 26.1. 1963, 4) Friðrikka Fanney Jakobsdóttir, f. 13.11. 1941, d. 10.8. 1993, 5) Jóhann Einar Jakobsson, f. 13.9. 1952. Gunnar kvæntist 31.12. 1955 Pálínu Þorgrímsdóttur frá Hofsósi, f. 25.5. 1935. Foreldrar hennar voru Kristjana Guðrún Tómasdóttir frá Unadal í Skagafirði, f. 2.12. 1908, d. 21.11. 1975, og Þorgrímur Þorleifsson einnig frá Unadal í Skagafirði, f. 8.6. 1901, d. 11.5. 1989. Börn Gunnars og Pálínu eru 1) Hildur Guðrún Gunnarsdóttir, f. 15.9. 1955, í sambúð með Ingólfi Benediktssyni, f. 6.6. 1956. Börn: Gunnar Már Sigfússon, f. 1973, og Yrsa Pálína Ingólfsdóttir, f. 1991. 2) Gylfi Gunnarsson, f. 29.6. 1958. Börn hans eru Sara Dögg Gylfadóttir, f. 1976, og Hreinn Gylfason, f. 1979. 3) Halla Gunnarsdóttir, f. 9.11. 1960. Börn hennar eru Óðinn Stefánsson, f. 1985, Gunnar Örvar Stefánsson, f. 1994, og Matthildur Alice Stefánsdóttir, f. 1995. 4) Harpa Gunnarsdóttir, f. 5.7. 1965, gift Sigurði Arnari Sigurðssyni, f. 9.1. 1964. Börn þeirra eru Ásta Sigurðardóttir, f. 1983, Sigurður Aron Sigurðsson, f. 1994, og Viktor Sigurðsson, f. 2002. Gunnar ólst upp í fjölmennum systkinahóp á Akureyri. Hann stundaði sjómennsku til margra ára allt frá unglingsaldri. Um árabil vann Gunnar hjá Fiskverkun KEA og hjá Slippstöðinni á Akureyri vann hann sem verkstjóri þar sem hann lauk sinni starfsævi. Gunnar og Pálína hófu sinn búskap á Akureyri og bjuggu þar nær allan sinn búskap en síðustu fimm árin bjuggu þau í Hafnarfirði. Útför Gunnars fer fram frá Garðakirkju í dag, föstudaginn 15. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.
Elsku Pabbi minn. Það voru ekki allir sem áttuðu sig á deginum 8. janúar sem þú valdir þér til að yfirgefa þessa jarðvist. En hann var táknrænn fyrir þig því þann dag var íþróttafélagið K.A. á Akureyri stofnað, 8. janúar 1928. Þú bæði spilaðir með K.A. ásamt bræðrum þínum og seinna mættir þú á hvern einasta leik til að hvetja þitt lið áfram. Einnig varst þú mikið í hestamennsku og á Landsmóti fyrir margt löngu átti fjöldsyldan okkar gæðingana Kristal og Óðinn sem stóðu í efstu sætunum í A. og B. flokki eftir fyrri daginn, en seinni daginn fór það svo að Kristall hélt sínu sæti en Óðinn hlaut annað sæti, báðir þessir hestar voru frá Kolkósi í Skagafirði. Það sem einkenndi þig pabbi minn var vinnusemi, mikill húmor, en keppnisskapið var aldrei langt undan hvort sem þú varst að horfa á leik eða hestamannamót. Þegar við krakkarnir vorum öll flutt suður í Hafnarfjörð komuð þið mamma líka þangað fyrir fimm árum. Ég veit pabbi minn að þú varst ekki alveg sáttur til að byrja með, því þú varst ótrúlega mikill Akureyringur í þér og fylgdist vel með öllu sem þar var að gerast eftir að þú fórst frá fallega bænum þínum. Pabbi þú varst mikill náttúrunnandi og mikill dýravinur, hér á mínu heimili búa tvær litlar hundastelpur Salka og Gríma sem svo sannarlega sakna Abba síns sem kom dag hvern til að sitja hjá þeim á meðan ég var að vinna. Það voru ófáir göngutúrarnir sem þú og Salka fóruð í kringum Hafnarfjörð, þið voruð einstakir vinir og nutuð þess að vera saman.
Mér tregt er um orð til að þakka þér,
hvað þú hefur alla tíð verið mér.
Í munann fram myndir streyma.
Hver einasta minning er björt og blíð,
og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,
unz hittumst við aftur heima.
/
Ó, elsku pabbi, ég enn þá er
aðeins barn, sem vill fylgja þér.
Þú heldur í höndina mína.
Til starfanna gekkstu með glaðri lund,
þú gleymdir ei skyldunum eina stund,
að annast um ástvini þína.
/
Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt,
um þrautir og baráttu ræddir fátt
og kveiðst ekki komandi degi.
(Hugrún.)
Hvíl í friði elsku pabbi minn.
Þín dóttir,
Hildur Gunnarsdóttir og fjöldskylda.