Jón Kristinn Hansen kennari fæddist hinn 7. nóvember 1934 á Eskifirði. Hann lést á heimili sínu hinn 19. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Anna Kristín Jónsdóttir frá Eskifirði, f. 17.1. 1903, d. 24.2. 1998, og Martin Hansen (fæddur Torgilstveit) frá Harðangri í Noregi, f. 19.2. 1905, d. 3.4. 1987. Jón kvæntist hinn 9. júní 1973 Ingibjörgu Júlíusdóttur kennara, f. 9.7. 1945. Foreldrar hennar voru Kristín Símonardóttir, f. 14.7. 1926, d. 27.9. 2006, og Júlíus Halldórsson, f. 26.2. 1924, d. 4.10. 1998. Jón og Ingibjörg eignuðust þrjár dætur. 1) Kristín, f. 10.11. 1973. Maki Pálmi Erlendson, f. 17.5. 1967. Synir þeirra eru a) Jón Logi, f. 14.11. 2000. b) Baldur Máni. f. 27.9. 2004. Dóttir Pálma og Hugrúnar Hólmgeirsdóttur, f. 29.6. 1970, c) Álfrún, f. 29.8. 1992. 2) Hildur, f. 17.3. 1977. Maki I) Ásgeir Örn Ásgeirsson, f. 7.6. 1973. Dætur þeirra eru a) Valgerður, f. 26.3. 1999. b) Gunnhildur, f. 6.8. 2002. Maki II) Steindór S. Guðmundsson, f. 24.7. 1972. Dóttir þeirra er c) Ásdís, f. 17.2. 2009. 3) Gerður, f. 7.6. 1979. Maki Hannes Helgason, f. 30.7. 1977. Dóttir þeirra er Iðunn Anna, f. 25.10. 2006. Jón dvaldi með fjölskyldu sinni í Noregi árin 1938-’39. Frá 1940 bjó fjölskyldan á Njarðargötu 35 ásamt systur Önnu og dætrum hennar fimm. Þar fæddist systir Jóns, Gyða, f. 3.9. 1942. Maki Gyðu var Úlfar Guðmundsson, f. 2.5. 1940, d. 2.1. 2009. Þau eiga 3 börn og 3 barnabörn. Fjölskylda Jóns átti sumarbústað í Varmadal í Mosfellsbæ og voru þau þar á sumrin auk þess sem Jón fór nokkur sumur í sveit. Jón gekk í Miðbæjarskólann, Austurbæjarskóla og MR og tók þaðan stúdentspróf árið 1954. Hann gerði stuttan stans í Háskóla Íslands og vann ýmis störf áður en hann fór að kenna. Árið 1963 hóf Jón kennslu við Austurbæjarskóla og kenndi þar til ársins 1987. Sama ár hóf hann kennslu við Seljaskóla og kenndi þar til ársins 2001. Sem kennari gekk Jón undir nafninu Jón Marteinsson. Ingibjörg og Jón byggðu hús í Yztaseli, Seljahverfi, og bjuggu þar ásamt dætrum sínum frá árinu 1978. Frá árinu 2001 hafa Ingibjörg og Jón búið í Grafarvogi. Útför Jóns fer fram frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 30. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 11.

Jón Kr. Hansen  var kennarinn okkar í Austurbæjarskóla á áttunda áratugnum en var aldrei kallaður annað en Jón Marteins af okkur krökkunum. Þegar við lukum barnaskólanum og biðum þess að hefja gagnfræðaskólann var okkur sagt að Jón Marteins væri strangasti kennarinn í skólanum og var ekki laust við kvíða þegar við hófum 7.bekkinn eftir að hafa haft einhvern ljúfasta kennara allra tíma í Vilborgu Dagbjartsdóttur (sem krakkarnir kölluðu Vippu þegar hún heyrði ekki til).  Það kom þó fljótt í ljós að það hafði engin ástæða verið fyrir áhyggjum því  Jón Marteins var einstakur kennari á allan hátt.  Eftir því sem leið á gagnfræðaskólaárin urðum við meðvitaðri um hve gaman okkur þótti í tímunum hjá Jóni og hve mikla alúð og stolt hann lagði í kennsluna. Hann hafði sérstaka andstyggð á öllum útlenskum slettum og höfum við ekki getað fengið okkur til þess að nota orðin ske og fatta síðan þá. Ef þessi orð eða önnur svipuð voru notuð í hans tímum, fengum við ræðuna um að í hans tímum ætti að tala íslensku en ekki dönsku. Honum þætti það sjálfsagt ekki  slæmt  að hugsa sér að í hvert sinn sem við heyrum nokkurn mann nota orðið ske í stað þess að gerast þá verður okkur  ósjálfrátt hugsað til gamla kennarans okkar.

Jón gaf endalaust af tíma sínum fyrir samræmd próf og skipti þá engu máli hver átti í hlut og voru alltaf aukatímar á laugardögum eða eftir skóla. Hinir mestu tossar voru dregnir í gegnum prófin og urðu eilíft jafn hissa að ná og gott betur en það. Við bárum alltaf mikla virðingu fyrir honum og það var óheyrt að nokkur skildi skrópa í tíma hjá Jóni. Það gerðist aðeins einu sinni að við vinkonurnar  skrópuðum í stærðfræði  og tókum út kvalir fyrir næsta tíma. Jón varð svo sem ekki reiður en okkur fannst við hafa brugðist honum og voguðum okkur ekki að skrópa  aftur.

Hann opnaði fyrir okkur heim íslenskra bókmennta og var ómögulegt annað en að hrífast með áhuga hans á íslendingasögunum.
Það er skrítið að hugsa sér núna hve ungur hann mun hafa verið á þessum tíma því okkur unglingunum fannst hann vera háaldraður, en sjáum nú að hann var einungis hálf fimmtugur á þeim tíma. Það er okkar eftirsjá að við höfum oft rætt í gegnum tíðina að senda honum línu með þakklæti en aldrei varð af því og nú er það orðið of seint.
Fjölskyldu hans sendum við einlægar samúðarkveðjur og kennarastéttinni allri , því Íslensk ungmenni hafa misst stórkostlegan kennara og mikla fyrirmynd.

Guðrún María og Gerða.