Vigfús Björnsson bókbandsmeistari og rithöfundur fæddist á Ásum í Skaftártungu 20. janúar 1927. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 6. janúar síðastliðinn. Foreldrar Vigfúsar voru séra Björn O. Björnsson og kona hans Guðríður Vigfúsdóttir. Foreldrar séra Björns voru Oddur Björnsson prentmeistari á Akureyri og kona hans Ingibjörg Benjamínsdóttir húsfreyja. Foreldrar Guðríðar voru Vigfús Gunnarsson óðalsbóndi á Flögu í Skaftártungu og kona hans Sigríður Sveinsdóttir húsfreyja. Börn þeirra Guðríðar og Björns auk Vigfúsar eru Ingibjörg, Sigríður, Oddur og Sigrún. Vigfús ólst upp í foreldrahúsum. Á uppvaxtarárum hans þjónaði séra Björn á þremur stöðum í þremur landsfjórðungum. 1941 flyst fjölskyldan til Reykjavíkur. Þar stundaði Vigfús ýmsa launavinnu, – m.a. hjá hernum og var á þeim árum að verulegu leyti fyrirvinna fjölskyldunnar. Vigfús hóf nám í bókbandsiðn 1947 við Iðnskólann í Reykjavík, – þaðan lauk hann sveinsprófi og varð seinna bókbandsmeistari. Árið 1950 hélt Vigfús til Kaupmannahafnar til framhaldsnáms. Að því námi loknu var Vigfús óráðinn en þá bárust honum boð frá föðurbróður sínum Sigurði O. Björnssyni um að hans væri þörf í fyrirtæki fjölskyldunnar Prentverki Odds Björnssonar á Akureyri. Leið Vigfúsar lá því norður til Akureyrar. Sem verkstjóri í bókbandi í POB starfaði Vigfús síðan í 30 ár. Í bókbandinu hjá POB hitti Vigfús fyrir verðandi eiginkonu og móður sjö barna sinna Elísabetu Guðmundsdóttur frá Flatey á Skjálfanda. Þau gengu í hjónaband 15. september 1953 og 1960 flytja þau í nýbyggt hús að Ásabyggð 10 þar sem þau bjuggu næstu 40 ár og þar varð þeirra lífsheimili. Börn Vigfúsar og Elísabetar eru: 1) Ingibjörg Ragnheiður f. 1953, maki Sófus Guðjónsson. Þeirra börn eru Guðmundur Björn og Ásgerður Arna. Maki Ásgerðar er Einar Hansberg Árnason og þeirra barn er Sófus Kári. 2) Björn f. 1955, maki Guðrún María Kristinsdóttir. Þeirra börn eru Vigfús, Kristinn og Sigurbjörg. Maki Vigfúsar er Guðlaug Þóra Stefánsdóttir og þeirra sonur er Stefán Björn. 3) Guðríður Elísa f. 1956, maki er Jón Þór Sverrisson. Þeirra börn eru Elísabet, Sverrir og Hrafnhildur Aðalheiður. Maki Elísabetar er Bjarni Gaukur Sigurðsson og þeirra börn eru Bríet og Þór Óli. Maki Sverris er Kristín Inga Pálsdóttir og þeirra dætur eru Guðríður og Anna Lóa. Unnusti Hrafnhildar er Óli Þór Birgisson. 4) Hrafnhildur f. 1959, maki er Daníel Þorsteinsson. Þeirra börn eru María Hjelm, Þorgerður og Oddur Hrafnkell. 5) Arna Emilía f. 1961, maki er Kristján Árnason. Dóttir þeirra er Nanna. 6) Sigríður Sunneva Rannveig f. 1963, maki er Guðmundur Sigþórsson. Þau eiga dæturnar Unu Guðríði og Ásu Elísabetu. 7) María Björg f. 1966, maki er Guðmundur Magnússon. Þeirra börn eru tvíburarnir Pétur og Guðmundur Karl og Elísabet. Auk þess sem að framan greinir vann Vigfús lengst af við ritstörf. Eftir hann hafa komið út á annan tug bóka, – aðallega sögur fyrir börn. Íslenski hesturinn var Vigfúsi hugleikinn og voru einkum Kolkóshross honum kær. Útför Vigfúsar fer fram frá Akuryerarkirkju í dag, föstudaginn 15. janúar, og hefst athöfnin kl. 10.30.
Tengdafaðir minn og vinur kvaddi þennan heim rúmum tveimur árum á eftir lífsförunaut sínum Elísabetu Guðmundsdóttur. Þau voru ólík en höfðu bæði mikla mannkosti og skilja eftir sig sterkar minningar um hugulsamar og næmar manneskjur. Elísabet var hrifnæm, glaðvær og ljóðelsk kona sem hafði sanna ánægju af að fara með falleg ljóð og þar var hún á heimavelli því hún kunni ógrynni þeirra. Vigfús var yfirvegaður, dulrænn og hafði mikla þekkingu og trú á gæðum og lækningarmætti náttúrunnar.
Þegar við María Björg komum til Akureyrar með nýfædda tvíburasyni okkar hófum við búskap á heimili þeirra. Þá kom ósérhlífni Vigfúsar í ljós við umönnun drengjanna. Næsta daglega fengu drengirnir sinn blund í fanginu á Vigfúsi í hægindastólnum hans og þá sofnuðu þeir allir þrír. Samveran með Elísabetu var líka ánægjuleg og glaðværð hennar setti svip á heimilið.
Vigfús var hestamaður fyrir lífstíð og fór sínar eigin leiðir. Minnisstætt er þegar lóðin þurfti næringu og Vigfús útvegaði vörubíl í yfirstærð með tvær hásingar að framan og langan pall stútfullan af hrossaskít. Þegar skíturinn var kominn á lóðina var þar sem fjall væri og nágranni kom að forvitnast hvað til stæði. Eftir að dreift var úr fjallinu sást ekki í grænan blett. Vigfús var hinn rólegasti og fljótt rættist úr og upp spratt framúrskarandi ræktarlegt gras. Í annað sinn var matjurtagarðurinn yfirfullur af arfa en þá kom Vigfús með sitt uppáhald, Röðul 1053, og sleppti honum lausum í garðinum. Kostuleg sjón og gerði sitt gagn fyrir heimilið og stóðhestinn.
Seinna tóku við erfið veikindi Elísabetar og þá kom eðlislæg ósérhlífni Vigfúsar í ljós er hann studdi Betu sína og sinnti en lét eigin heilsu sitja á hakanum. Sambúð okkar Vigfúsar hófst aftur er hann bjó með okkur í Hamragerðinni. Það voru góðir tímar og ánægjulegt að ræða við hann um allt milli himins og jarðar því hann hafði lifað viðburðarríku og þroskandi lífi. Vigfús sagði skemmtilega frá og hafði engu gleymt og húmorinn var ekki útundan. Það var sönn skemmtun að fá sér apperativ með Vigfúsi fyrir kvöldmatinn og ræða saman. Draumar Vigfúsar voru líka merkilegir og kann ég honum bestu þakkir fyrir að hafa deilt þeim með mér.
Lífsreynsla Vigfúsar sannfærði hann um framhaldslífið og auðveldaði honum að takast á við hindranir lífsins. Aldrei kvartaði hann undan erfiðleikunum og hann lifði lífinu til hins ýtrasta en þegar hann skynjaði að komið væri að leiðarlokum, þá fór hann fljótt og í faðm Betu sinnar sem hann fann að beið hans.
Guðmundur Magnússon