María Gröndal fæddist í Reykjavík 2. apríl 1931. Hún lést á Landspítalaum í Fossvogi 4. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Eiríkur Gröndal, f. 31.3. 1906, d. 30.12. 1968 og Sigrún, f. Gröndal f. 4.3. 1909, d. 16.11. 1969, uppeldisbróðir Naríu var Maríus Aðalbjörn Gröndal, f. 23.1. 1937, d. 21.10. 1980. Hinn 7. júlí 1951 giftist María Herði Helgasyni, f. 30.8. 1931, d. 16.9. 2001. Foreldrar hans voru Helgi Hannesson, f. 31.8. 1908, d. 3.2. 1960 og Gíslína Þóra Jónsdóttir, f. 24.9. 1912, d. 5.8. 2003. María og Hörður eignuðust 5 börn. a) Sigrún, f. 1951, gift Steinþóri Magnússyni. b) Gunnar, f. 1952, kvæntur Kitó Harðarson, þau eiga eitt barn, Maríu Charlottu, fyrir á Gunnar Úlfar Þór. c) Helgi, f. 1957, kvæntur Guðfinnu Stefánsdóttur, þau eiga tvö börn, Stefán Davíð, kona hans er Malín, þau eiga einn son, Óðin Kára, og Dröfn, maður hennar er Sigurður Már. d) Eiríkur, f. 1960, kvæntur Rósu Harðardóttur, þau eiga þrjú börn, Hörð, Maríu, unnusti René og Smára. e) Gísli, f. 1964, kvæntur Sigrúnu Aðalsteinsdóttur, þau eiga einn son, Aðalstein, fyrir átti Sigrún Guðbjörgu Söru og á hún eitt barn, Sigrúnu Evu. Útför Maríu fór fram í kyrrþey.
María gerðist félagi í klúbbnum okkar í kjölfar þess að hún og eiginmaður hennar Hörður Helgason, fluttu til Hafnarfjarðar frá Hvolsvelli, en þau höfðu þá kynnst Kiwanishreyfingunni með virku starfi í DÍMON, kiwanisklúbbi Hvolsvallar. Hörður var þá kjörinn til mikilla ábyrgðarstarfa innan hreyfingarinnar fyrst sem forseti klúbbsins síðan sem svæðisstjóri Sögusvæði og loks umdæmisstjóri hreyfingarinnar á Íslandi 1982-83. Í öllum þessum embættum naut hann stuðnings Maríu af ósérplægni og elju svo eftir var tekið. Við komuna til Hafnarfjarðar gekk María til liðs við Sinawikklúbb Hafnarfjarðar en Hörður varð félagi í Kiwanisklúbbnum Eldborgu.
María var kraftmikil kona og úrræðagóð og var formaður okkar starfsárið 1992-1993. Var það afar annasamt ár í okkar starfi þar sem fyrir utan venjulegra fundarstarfa, voru eiginmenn okkar að gera upp húsnæði sem þeir festu kaup á til að hafa fastan samastað fyrir starf Eldborgar og fundi. María gekk af sinni alkunnu röggsemi í að hjálpa til við að gera húsnæðið hlýlegt og fallegt og smekkvísi hennar var óhætt að treysta þegar kom að því að velja borðbúnað, gardínur, dúka o.fl. sem til þarf í svona fjölnota hús. Hún eyddi þar því mörgum stundum ásamt því að reka fyrirtæki sem þau hjónin áttu.
María var sérlega listfengin kona og bera margir minjagripir sem hún hannaði og framleiddi þess fagurt vitni.
Hörður lést þ. 16. september 2001 og hætti þá María fljótlega eftir það í Sinawik er hún hafði flutt í annað bæjarfélag.
Við þökkum henni vel unnin störf. Blessuð sé minning eftirminnilegrar samverkakonu.
f.h. Sinawikklúbbs Hafnarfjarðar, votta ég fjölskyldu hennar mína dýpstu samúð og eru fjölskyldu og aðstandendum sendar innilegar samúðarkveðjur.
Hafdís Ólafsdóttir formaður.