Bjarni Guðjónsson Bachmann, kennari og fv. forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar, fæddist 27. apríl 1919 í Borgarnesi. Hann lést 13. janúar 2010 á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Foreldrar hans voru Guðjón J. Bachmann vegaverkstjóri, f. 23. júní 1869, d. 21. sept. 1963, og Guðrún G. Bachmann, f. 20. júlí 1879, d. 10. apríl 1961. Systkini Bjarna eru Sigríður, f. 1901, d. 1990, Jón, f. 1902, d. 1902, Guðlaug, f. 1904, d. 1913, Ragnheiður, f. 1906, d. 1993, Geir, f. 1908, d. 1987, Áslaug, f. 1910, d. 2009, Sigurður, f. 1912, d. 2000, Guðlaug, f. 1913, d. 1995, Guðmundur, f. 1915, d. 2003, Skúli, f. 1917, d. 1996, og Þórhildur Kristín, f. 1922. Eiginkona Bjarna er Anna Þórðardóttir hárgreiðslukona frá Ísafirði, fædd 7. júlí 1928. Þau giftust 20. ágúst 1949. Foreldrar Önnu voru Þórður Jóhannsson úrsmiður, fæddur 16.12. 1888, dáinn 13.12. 1979, og Kristín Magnúsdóttir, fædd 22.8. 1898, dáin 26.9. 1991. Börn þeirra eru: 1) Þórður, f. 9. júlí 1949, maki Björg H. Kristófersdóttir, f. 8. maí 1952, börn þeirra eru Anna og Kristófer. 2) Guðrún Kristín, f. 19. mars 1953, maki Pétur Georg Guðmundsson, f. 11. apríl 1957, dætur þeirra eru Birna Rún og Sigrún Helga. 3) Guðjón, f. 27. febrúar 1960, maki Kristín Anna Stefánsdóttir, f. 28. október 1959, börn þeirra eru Þórhildur Kristín, Hjördís og Bjarni. 4) Atli, f. 17. janúar 1966. Bjarni ólst upp í Borgarnesi. Eftir að skólagöngu lauk þar fór hann í Héraðsskólann í Reykholti 1935-1937, síðan í Íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal og fyrir hans tilstuðlan fór hann í Íþróttakennaraskóla Björns Jakobssonar á Laugarvatni. Hann sótti einnig íþróttanámskeið í Svíþjóð. Bjarni kenndi á vegum UMFÍ og ÍSÍ á Vestfjörðum og hjá Héraðssambandi Skarphéðins. Frá 1947 til 1961 kenndi hann við Gagnfræðaskóla Ísafjarðar, bæði íþróttir og bóklegar greinar. Frá 1961 til 1979 kenndi hann einnig íþróttir og bóklegar greinar við barna- og miðskóla Borgarness. Þegar Bjarni starfaði á Ísafirði þjálfaði hann í mörgum greinum íþrótta, m.a. þjálfaði hann fimleikaflokk sem ferðaðist víða um land með sýningar. Í Borgarnesi þjálfaði hann meðal annars unglingalið Skallagríms í körfubolta og gerði annan og þriðja flokk karla að Íslandsmeisturum. Á sumrin vann hann ýmsa sumarvinnu eins og t.d. vegavinnu og byggingarvinnu. Bjarni var formaður sóknarnefndar Borgarneskirkju um árabil. Árið 1969 var hann ráðinn forstöðumaður í Safnahúsi Borgarfjarðar. Þar vann hann til 1994 er hann lét af starfi vegna aldurs. Bjarni hafði mikinn áhuga á ættfræði og sögu Borgarness, og skráði mikið á því sviði. Eftir að hann lét af störfum hóf hann skráningu húsa sem reist höfðu verið í Borgarnesi frá upphafi byggðar til ársins 1930 og hverjir höfðu verið ábúendur þar, hann myndaði einnig húsin sem enn voru til á þeim tíma sem hann vann að þessu hugðarefni sínu. Bjarni var félagi í Oddfellowstúkunni Gesti á Ísafirði og síðar Agli á Akranesi. Þá var hann félagi í Rotaryklúbbi Borgarness. Útför Bjarna verður gerð frá Borgarneskirkju laugardaginn 23. janúar og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveð ég tengdaföður minn og heiðursmanninn, Bjarni G. Bachmann sem var búinn flestum þeim kostum, er góðan mann mega prýða; Hann var heiðursmaður, kurteis, afburða fróður, traustur, ráðagóður, fórnfús og alltaf var hann tilbúin til  aðstoðar. En Bjarni lét ekki mikið yfir sér, heldur lét verkin tala og þannig var árangur hans mældur. Það eru núna 30 ár síðan ég hitti Bjarna fyrst þegar einkadóttir hans kom með mannsefnið sitt til kynningar í heimahögunum.

Bjarni hafði mikinn áhuga á íþróttum, þannig að strax við okkar fyrstu kynni töluðum við oft um þau áhugamál sem mér voru sérlega kær. Í seinni tíð var eitt það skemmtilegasta sem hann gerði, var að fylgjast með ensku knattspyrnunni í sjónvarpinu. Ég minnist þess einnig hvað ég var stoltur af honum þegar hann sagði mér að hann hefði safnað og ætti öll íþróttablöðin sem gefin hefðu verið út á vegum ÍSÍ, alveg frá fyrstu útgáfu, en betur leist mér á þegar hann sagði mér að hann ætti nánast öll Valsblöðin sem gefin hafa verið út, eða frá því fyrst blaðið kom út um 1930, það þótti mér stórkostlegt, enda er ég viss um að tilfinngar hans til félagssins míns væru meiri en hann vildi vera láta.

Það var alltaf gaman þegar farið var í heimsóknirnar upp í  Borgarnes, hann hafði frá svo mörgu að segja, sérstaklega var fróðlegt að fara með honum í bíltúr um Borgarnes og hlusta á hann segja sögurnar um húsin, fólkið og atburðina, hann var hafsjór af fróðleik, enda var áhugi hans á sögu Borgarness einstakur.

Þegar maður horfir til baka og minnist þeirra góður stunda sem ég fékk að njóta í návist hans og þess fróðleiks sem hann skilur eftir sig bæði fyrir mig og mína fjölskyldu, og ekki síður þau verk sem hann vann fyrir sitt sveitarfélag, að maður fyllist lotningu og þakkar fyrir það happ að hafa fengið  að  eiga þessi 30 ár með honum.

Bjarni var alla tíð afar áhugsamur um afkomendur sína og að hagur þeirra væri sem mestur, allavega eiga dætur mínar margan fróðleikinn honum að þakka.

Kæra Anna, Þórður, Guðjón og Atli, og allir aðrir ástvinir, ég bið guð að styrkja ykkur og blessa um leið minningu þessa einstaka manns sem við kveðjum í dag. Blessuð sé minnig hans.

Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:
yfir þínum luktu hvörmum skína
sólir þær er sálu þinni frá
sínum geislum stráðu veginn á.
/

Myrkur dauðans megnar ekki að hylja
mannlund þína, tryggð og fórnarvilja
- eftir því sem hryggðin harðar slær
hjarta þitt er brjóstum okkar nær.
/

Innstu sveiflur óskastunda þinna
ennþá má í húsi þínu finna

(Jóhannes úr Kötlum)

Pétur Georg Guðmundsson.