Rósa María Sigurgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 27. mars 1928. Hún lést miðvikudaginn 13. janúar sl. á Sjúkrahúsi Akraness. Foreldrar Rósu voru hjónin Sigurgeir Björnsson póstþjónn og símritari í Reykjavík, f. 25.10. 1899 á Gafli í Flóa, d. 18.11. 1943, og Fanney Jónsdóttir húsfreyja, f. 7.3. 1909 í Bræðraborg á Seyðisfirði, d. 26.10. 1943. Systkini Rósu eru Guðrún Guðlaug, f. 1926, Benný, f. 1929, d. 2008, Jónbjörn, f. 1931, d. 1951, Fanney, f. 1932, María, f. 1933, Friðgeir, f. 1935, Margrét, f. 1936, og Sigvaldi, f. 1939. Rósa giftist 26. september 1954 Þórði Jóhannssyni, f. 27.9. 1920, d. 6.1. 1993, bónda á Bakka í Melasveit en hann var sonur hjónanna Jóhanns Þórðarsonar f. 8.6. 1887, d. 28.4. 1953, og Sigríðar Sigurðardóttur, f. 17.5. 1886, d. 20.1. 1964, bænda í Efri-Hreppi og síðar á Bakka. Börn þeirra eru: Fanney Valdís Guðbjörnsdóttir, f. 30.12. 1950, gift Stefáni Jónasi Þorsteinssyni. Þeirra börn eru Þorsteinn Sævar, f. 1973, Valdís María, f. 1974, Helga Hallfríður, f. 1980. Fósturdætur Stefáns eru Sigríður Þórdís Reynisdóttir, f. 1968, og Rósa Guðrún Gunnarsdóttir, f. 1971. Jóhann f. 2.7. 1954, kvæntur Sigrúnu Birnu Svavarsdóttur. Börn þeirra eru Unnur Svava, f. 1975, Þóra María, f. 1978, Ársæll Þór, f. 1982. Sigvaldi Geir, f. 10.11. 1955, kvæntur Guðbjörgu Sigurðardóttur, þau slitu samvistir. Þeirra börn eru Katrín Rós, f. 1979, Árni Geir, f. 1984. Fósturdóttir Sigvalda er Fjóla María Lárusdóttir, f. 1971. Sigvaldi er í sambúð með Valdísi Ragnheiði Jakobsdóttur. Sigurður Björn, f. 21.10. 1957, kvæntur Ástu Maríu Einarsdóttur. Þeirra börn eru Þórður Jóhann, f. 1980, Petrína Kristín, f. 1983, og Sigurrós Harpa, f. 1990. Sigurgeir, f. 17.1. 1963, kvæntur Sigríði Kristjánsdóttur. Þeirra börn eru Rósa María, f. 1989, og Kristján Valur, f. 1992. Afkomendur Rósu eru nú 41. Rósa María ólst upp á Hverfisgötu 83 í Reykjavík og síðar hjá fósturforeldrum sínum Sigvald Jónssyni og Maríu Jónsson á Njarðargötu 39 í Reykjavík. Árið 1952 fluttist Rósa að Bakka og átti þar heimili en síðustu æviárin dvaldi hún á Sjúkrahúsi Akraness. Ævistarf Rósu var helgað landbúnaðarstörfum og húsmóðurstarfi á sveitaheimili en hún stóð fyrir búrekstri á Bakka ásamt manni sínum Þórði Jóhannssyni og síðar í félagi við son þeirra, Sigvalda Þórðarson. Útför Rósu Maríu fer fram frá Hallgrímskirkju í Saurbæ laugardaginn 23. janúar og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður á Leirá.

Mér finnst eins og það hafi alltaf verið sól og blíða á Bakka. Þannig er það í endurminningunni – sumar og sól og Rósa tekur á móti okkur úti á hlaði, brosandi í blíðunni. Stundum voru þetta dagsferðir á sunnudegi en stundum fórum við á laugardegi og þá var öll helgin undir. Og nóttin eflaust mikilvægust fyrir þær systurnar, Rósu og mömmu, því þá vöktu þær og spjölluðu langt fram á nótt. Þær hafa eflaust haft um margt að tala því oft leið nokkur tími án þess að þær hittust og í þá daga  tíðkaðist ekki að liggja í símanum – allra síst ef um utanbæjarsímtöl var að ræða.

Rósa á Bakka hefur alltaf gegnt mikilvægu hlutverki í lífi mínu. Systir hennar mömmu, sú næstelsta og næsta á eftir henni í röðinni og þær voru nánar. Reyndar voru þau öll náin systkinin og héldu vel saman á fullorðinsárum þótt hópurinn hafi tvístrast við lát foreldranna. Þá var mamma sautján ára og elst af systkinunum níu. Rósa var næstelst en yngstur var fjögurra ára drengur. Foreldrar þeirra létust með þriggja vikna millibili og þá misstu þau líka heimili sitt og nærveru hvert annars. Nokkrum árum síðar misstu þau bróður sinn, Jónbjörn, tvítugan að aldri, í dráttarvélarslysi. Það getur enginn ímyndað sér sorg þeirra nema sá sem reynt hefur annað eins en þau systkinin hljóta að hafa verið einstaklega vel að heiman búin því að  þrátt fyrir þessar hörmungar í æsku urðu þau öll afbragðs manneskjur og dugnaðarforkar.

Þegar þær systurnar voru upp á sitt besta var húsmóðurstarfið alvöru starf með fatasaumi og prjónaskap og löngum og ströngum þvottadögum í stígvélum í vaskahúsi fullu af gufu. Rósa var þar að auki húsfreyja í sveit með öllu sem því fylgir eins og fjósamennsku og hænsnarækt og ýmsu öðru sem borgarbarn eins og ég hefur aðeins takmarkaðar hugmyndir um. Og það var ekki bara eldað ofan í fjölskylduna því á sumrin var kaupafólk á bænum auk allra gestanna sem nutu gestrisni Rósu, Þórðar og barnanna á Bakka. Það var því í nógu að snúast hjá Rósu og hún stjórnaði búi sínu af miklum myndarskap ásamt eiginmanni sínum, Þórði Jóhannssyni, sem var einstakur öðlingur og mikið ljúfmenni.

Allir voru velkomnir á Bakka og mörg börn í fjölskyldunni dvöldu þar um lengri eða skemmri tíma. Elsti bróðir minn, Sigurgeir, dvaldi á æskuárum sínum nokkur sumur á Bakka og sneri heim með kartöflur og rófur í stórum pokum. Frá þeim árum á hann góðar minningar um frænku sína sem ásamt Þórði og móður hans, Sigríði, reyndust honum hinir bestu leiðbeinendur og vinir.

Harpa dóttir mín sótti alltaf mjög fast að komast upp á Bakka. Þar var fyrir barnabarn Rósu og Þórðar, Dísa, sem dvaldi á Bakka í öllum skólafríum en þær frænkur voru mjög góðar vinkonur. Harpa dvaldi því alltaf nokkrar vikur á sumri hverju uppi á Bakka og leit á Rósu og Þórð sem ömmu sína og afa. Þau voru henni afar góð allt til hinsta dags og mér er það ógleymanlegt að Þórður skyldi koma í jarðarför hennar þrátt fyrir að mjög væri af honum dregið vegna erfiðra veikinda.

Þegar Birkir sonur minn fæddist var Rósa orðin ein í húsinu sínu á Bakka og hún tók á móti honum af sama kærleika og Hörpu áður. Fór með honum í fjósið, sýndi honum kýrnar og svaraði öllum spurningum hans um sveitalífið af alúð og natni. Hann minnist þess líka hvað Rósa var góð að gefa honum alltaf góðu mjólkina sem kom beint úr kúnni og er besta mjólk í heimi.Við fórum aldrei um Borgarfjörðinn án þess að líta við hjá Rósu á Bakka.

Eftir að ég komst á fullorðinsár vorum við Rósa ekki einungis frænkur heldur líka vinkonur og áttum saman margar góðar stundir, einkum á þeim árum sem Harpa dvaldi á Bakka. Þá vorum það við tvær sem spjölluðum saman fram á nótt þegar allt var komið í ró á bænum.

Ég kveð Rósu, mína kæru frænku og vinkonu, með ást, virðingu og þökk og votta fjölskyldu hennar samúð mína.

Sonja B. Jónsdóttir.

Kveðja til mömmu.

Í rökkvinu, það snjóar

kaldaflygsum hægt og hljóðlátt

þyrlast niður yfir minnigarnar

kyssa kalda jörðina mjúkt,

dæla sig yfir mig af söknuði og þrá.

Þar stend ég á hlaðinu horfandi á

móðir mína koma heim

til að kveðja.

Sigvaldi, Bakka.