Jón Kornelíus Jónsson úrsmíðameistari fæddist á Brekku í Gilsfirði 8. apríl 1915. Hann lést á Landspítalanunum í Fossvogi þann 6. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Elín Guðrún Magnúsdóttir húsmóðir og bóndi f. 1881, d. 1960 og Jón Theodór Jónsson bóndi, skrautritari og kennari f. 1880, d. 1960. Systkini Kornelíusar eru: Guðrún f. 29.9. 1902, d. 21.6. 1984, Margrét Theodóra f. 13.5. 1907, d. 13.8. 1967, Kristín Soffía f. 14.11. 1909, d. 3.12. 2000, Eggert Theodór f. 15.11. 1912, d. 28.9. 1992, Ragnheiður f. 12.10. 1917, Kristrún Soffía f. 23.12. 1918 og Anna Guðrún f. 30.9. 1921. Eiginkona Kornelíusar er Sigríður Pétursdóttir f. 10.11. 1929. Þau giftust 26.7. 1947. Foreldrar Sigríðar voru Guðrún Þorbjarnardóttir húsmóðir f. 17.9. 1903, d. 22.5.1931 og Pétur Pétursson bifreiðastjóri f. 10.3.1895, d. 14.7.1986. Börn Kornelíusar og Sigríðar eru 1) Birgir Davíð f. 18.12. 1947, d. 10.11. 2005. 2) Haraldur Jón gullsmiður f. 25.8. 1950, maki Íris Ægisdóttir f. 21.11. 1953. Þeirra börn eru Sirrý Hrönn f. 1971, maki Ásgrímur Helgi Einarsson, eiga þau 3 syni. Birgir Grétar f. 1972, maki Hafrún Huld Þorvaldsdóttir, eiga þau tvö börn. 3) Kornelía Guðrún kennari f. 14.1. 1952, maki Gísli Árni Atlason f. 7.2. 1950. Þeirra börn eru Jón Kornelíus f. 1975, Kolbrún Ýr f. 1977, maki Guðni Eiríksson og á hún 3 börn, Eygló Rós f. 1978 og á hún eina dóttur. Óskar Sindri f. 1984. 4) Pétur Gunnar úrsmiður f. 29.3. 1953, maki Gunnhildur Sigurðardóttir f. 21.10. 1956. Þeirra börn eru Sigurður Rúnar f. 1977, maki Jennifer Pétursson, eiga þau 2 dætur. Haraldur f. 1979 maki Rebekka Ólafsdóttir, eiga þau 2 syni. Kornelíus hóf nám í úrsmíði hjá Árna B. Björnssyni árið 1934. Meistari hans var Sigurður Ísólfsson. Kornelíus öðlaðist meistararéttindi árið 1942. Að námi loknu stofnaði hann vinnustofu og verslun að Hverfisgötu 64 ásamt Eggerti Hannah og Magnúsi F. Ásmundssyni. Síðar rak hann verslanir á ýmsum stöðum, mest þrjár samtímis, lengst af var hann á Skólavörðustíg 8 og Bankastræti 6 sem er enn starfandi. Kornelíus var heiðursfélagi í Úrsmíðafélgi Íslands og var lengi í prófnefnd félagsins, ásamt fleiri nefndarstörfum. Kornelíus hafði mörg áhugamál. Ungur lærði hann á mandólín. Hann spilaði með Mandólínhljómsveit Reykjavíkur og einnig MAJ-tríóinu ásamt þeim Marsý og Tage Ammendrup. Kornelíus hafði mikinn áhuga á búskap og árið 1960 byggði hann fjárhús í Lónakoti og hóf þar fjárbúskap sem hann stundaði fram á tíræðisaldur. Hann ræktaði sérstakan fjárstofn sem var að upplagi ferhyrndur og morarnhöfðóttur. Útför Kornelíusar fer fram frá Áskirkju í dag, fimmtudaginn 14. janúar og hefst athöfnin kl. 13.

Vorið er framundan og skammdegið er að víkja fyrir sól, vori og síðan sumri. Við gleðjumst yfir hverjum sólargeisla og undrumst þegar við sjáum græna jurt sem lifað hefur af veturinn sem hefur verið okkur svo góður.

Hann átti svo sannarlega hug og hjarta okkar allra, samfélagið á Skólavörðustígnum og Bankastrætinu er nokkuð sérstakt.  Það verður svo vonandi áfram þó mikið skarð sé komið þar nú þegar Kornelíus úrsmíðameistari er farinn.  Samfélag þeirra úrsmiðanna og gullsmiðanna er alveg frábært.  Þeir skiptast á fréttum og eru reyndar mjög faglegir þegar þeir ræðast við.  Kornilíus var órjúfanlegur hluti af þessum félagsskap.  Hans er svo sannarlega saknað.  Morgunkaffið í Bankastrætinu hjá þeim feðgum Pétri og Kornelíusi er orðinn nánast fastur liður á degi hverjum.  Slík vinátta gefur lífinu gildi.

Samúðarkveðjur sendum við hjónin, eiginkonu hans, börnum og biðjum þeim Guðs blessunar.

Helgi úrsmiður og Edda Sigrún.