Haukur Halldórsson var fæddur 11. mars 1918 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigríður Guðjónsdóttir f. 9.október 1887 d. 12. sept. 1967 og Halldór Einarsson f. 25. nóv. 1884 d. 22.ágúst 1942. Haukur var næstyngstur 7 alsystkina sem öll eru látin. Hann á 2 bræður samfeðra á lífi. Fyrstu 8 árin bjó Haukur með foreldrum sínu Reykjavík, en flytur svo með móður sinni að Fremra-Hálsi í Kjós. Hann kom fyrst á vertíð í Njarðvík 17 ára og var þá til sjós á opnum árabátum. Hann flyst svo alfarið til Njarðvíkur 1942 og hóf þá störf í Slippnum í Innri-Njarðvík seinna Skipasmíðastöð Njarðvíkur, þar sem han starfaði til ársins 1979 en þá hætti hann störfum vegna heilsubrests.. Eiginkona Hauks er Rannveig Þorvarðardóttir frá Dalshöfða, Fljótshverfi V-skaft . f. 19.07. 1916, hún lifir mann sinn og dvelur á hjúkrunarheimilinu Garðvangi Garði. Þau gengu í hjónaband 17. október 1942 eignuðust 3 börn. Ragnar f. 1945 kvæntur Eygló Alexandersdóttur, Sigríður f. 1947 og Pálína f. 1957 gift Grétari Ævarssyni. Barnabörnin eru 6 og barnabarnabörn eru 11. Haukur lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi Garði aðfaranótt gamlársdags 31. des. sl. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Þegar ég sest niður og fer að minnast hans afa míns þá gæti ég sennilega skrifað heila bók um allt sem í hugann kemur.  En ég veit að hann hefði ekki  viljað að yrði gert. Hann afi var þannig gerður að hann gerði allt fyrir sína nánustu en var kannski ekkert að fara mikið út fyrir það. Það hafa  verið mikil forréttindi fyrir mig og mína fjölskyldu síðar að kynnast manni eins og honum. Hann var maður  sem vildi hafa allt í röð og reglu og allt gert svolítið eins og hann vildi hafa það.

Afi var mikill vinur minn og á ég margar góðar minningar um margt sem við gerðum saman. Það líður sennilega aldrei úr minni fyrsti bíltúrinn minn þá var ég sennileg rétt um 12 ára þegar ég fór í Land Rovernum með afa og hann keyrði niður á Fitjar, stökk út úr bílnum og sagði mér að setjast undir stýri og settist svo í farþegasætið og lét mig keyra. Síðar átti ég eftir að eyða ansi mörgum klukkustundum með honum í bílskúrnum við að gera við bílana mína því að ef eitthvað bilaði. Í þá daga var bara keyrt inn á gryfjunni í skúrnum hjá afa og hafist handa við að rífa og gera við. Alltaf var hann svo mættur í sloppnum til að aðstoða og leiðbeina.

Þegar við hjónin tókum þá ákvörðun að fara að byggja þá var hann orðin frekar heilsulítill að við héldum og er mér minnistætt þegar Bylgja spurði mig að því hvort ég héldi að afi myndi ekki koma og vera eitthvað með mér í byggingunni. Ég taldi það af og frá þar sem hann væri ekki með heilsu í það en annað kom á daginn hann hóf að koma og kíkja. Hann byrjaði á því að hreinsa timbur og eftir að húsið var uppsteypt var hann þar daglega, mættur snemma á morgnana og vann fullan vinnudag. Þó svo að ég væri að vinna mína vinnu og kæmi aldrei fyrr en á kvöldin og skilaboðin til mín voru að vera ekki að eyða tíma í að taka til það skyldi hann gera og þegar ég mætti í bygginguna eftir vinnu þá sást varla rykkorn á neinu.

Ógleymanlegar eru svo allar ferðirnar í sumarbústaðinn sem átti hug ykkar ömmu allan. Þar kom fjölskyldan alltaf saman á vorin til að setja niður kartöflur og svo á haustin til að taka þær upp. Aldrei kom það til greina að mæta ekki hvort sem það var upptekinn unglingur eða einhver annar.

Jól og áramót voru líka tími þar sem allir komu saman hjá ykkur og var hópurinn orðin ansi stór síðustu jólin sem þið amma voruð með alla í mat á jóladag á Hæðargötunni. Á áramótunum varst þú alltaf með mikið að flugeldum og finnst mér enn að ekki hafi sést stærri flugeldar sem þú komst alltaf með á miðnætti og skaust upp. Hefur þessi áhugi á flugeldum svo erfst því til mín og minna barna.

Að lokum vill ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér og minni fjölskyldu.

Alexander Ragnarsson.

Ég veit að hann afi minn hvílir í friði og ró, samt vona ég alltaf að hann sé ennþá hjá mér. Hann var orðinn veikur en ég vonaði alltaf að hann myndi ná sér. Seint mun ég gleyma heimsóknunum til hans. Hann átti alltaf eitthvað gott handa okkur inni í skáp. Sorg og söknuður er mikill en ég mun aldrei gleyma þér. Hann á alltaf eftir að vera í hjarta mínu.

Takk fyrir allar minningarnar sem þú skildir eftir. Guð geymi þig.

Eygló Alexandersdóttir.

Þá er komið að ferðalaginu stóra hjá þér Haukur minn. Ég vil þakka þér allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Þú tókst mér vel þegar ég 18 ára kom í fjölskylduna, varst mér góður tengdapabbi og góður afi strákanna. Þegar við Ragnar sonur þinn byrjuðum að búa þá bauðst þú okkur íbúðina á neðri hæðinni hjá ykkur Veigu á Borgarveginum, og þar bjuggum við undir ykkar verndarvæng á meðan við byggðum okkar hús. Við eigum margar góðar minningar frá samverustundum fjölskyldunnar, fastir liðir í mörg ár hjá ykkur var skötuveislan á Þorláksmessu og hangikjötsveislan á jóladag, einnig sumarbústaðaferðirnar en sumarbústaðurinn var ykkar sælureitur. Það voru þínar bestu stundir þegar sem flestir fjölskyldumeðlimir mættu í sumarbústaðinn þegar settar voru niður kartöflur á vorin og svo aftur á haustin þegar uppskeran úr garðinum var tekin upp, og alltaf boðið uppá hangikjöt.

Þegar 2 elstu afastrákarnir þínir byggðu húsin sín, þá varst þú fyrsti maður á svæðið til að aðstoða við byggingarnar, þú kominn þá á níræðisaldur, en gafst ekkert eftir við þau verk  sem til féllu og við að halda öllu í röð og reglu.

Síðustu árin hafa verið þér frekar erfið, frekar ósáttur að þrekið minnkaði og þú saknaðir sumarbústaðaferðanna með Veigu, en það voru ekki höfð mörg orð um það, því tilfinningar voru nú ekki bornar á borð. Síðasta ár og rúmlega það hafið  þið Veiga dvalið  bæði á hjúkrunarheimilinu Garðvangi, þú barst hag hennar fyrir brjósti og sast tímunum saman hjá henni og hélst í höndina á henni og passaðir uppá að henni liði vel. Heilsu þinni hrakaði sl. haust og um miðjan desember fékkstu áfall sem þú hafðir þig ekki upp úr, þú valdir svo einn uppáhaldsdaginn þinn, gamlársdag, til að kveðja þennan heim.

Blessuð sé minning þín. Hvíl í friði.

Eygló Alexandersdóttir.