Gunnlaugur Finnsson fæddist á Hvilft í Önundarfirði 11. maí 1928. Hann lést 13. janúar 2010. Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, f. 29. desember 1876, d. 14. ágúst 1956, bóndi þar, og k.h. Guðlaug Sveinsdóttir, f. 28. febrúar 1885, d. 20. febrúar 1981, húsmóðir. Hann var yngstur ellefu systkina og lifa tvær systur hann. Gunnlaugur lauk stúdentsprófi frá MA 1949. Bóndi á Hvilft 1950-2007. Kennari 1953-1998 með hléum og kaupfélagsstjóri á Flateyri 1980-1988. Í hreppsnefnd Flateyrarhrepps 1954-1958 og 1962-1968, oddviti 1966-1970 og 1974-1978. Formaður Fjórðungssambands Vestfjarða 1970-1974. Kirkjuþingsmaður 1970-1994, í kirkjuráði 1976-1993 og í stjórn Hjálparstofnunar kirkjunnar frá 1983-1988. Alþingismaður Vestfjarðakjördæmis 1974-1978 fyrir Framsóknarflokkinn og varaþingmaður febrúar-mars 1979. Gunnlaugur kvæntist 14.6. 1952 Sigríði Jóhönnu Bjarnadóttur, f. 19.3. 1926, d. 4.10. 2005. Hún var dóttir Bjarna Einars Einarssonar, bátsformanns og fisktökumanns, og Halldóru Sæmundsdóttur húsfreyju. Börn Gunnlaugs og Sigríðar Jóhönnu eru Sigurlaug sagnfræðingur, maður hennar er Gylfi Páll Hersir og sonur Kári; Halldóra Valgerður kennari og er dóttir hennar Helga Rakel Rafnsdóttir og dótturdóttir Franciska Una; María, hjúkrunarfræðingur og eru börn hennar Katrín Emma, látin, Hákon Einar, Sunneva Sigríður og sonarsonur Sigurður Einar; Finnur Magnús leikhúsfræðingur og er sonur hans Arnaldur Máni og sonarsonur Jóakim Uni; Bergljót, upplýsinga- og stjórnsýslufræðingur og er maður hennar Alfreð Tulinius og börn þeirra Arnar Þór, Steinar Þorri og Karitas Lotta; Birna, menntunarfæðingur og eru börn hennar Regína Björk og Matthías Finnur; Einar Þór, f. 2.8. 1964, leikstjóri og rithöfundur, og dóttir hans er Hildur. Útför Gunnlaugs fer fram frá Flateyrarkirkju í dag, 23. janúar 2010, kl. 14.

Það er sérkennileg tilfinning að geta ekki lengur heimsótt Gulla á Hvilft, þennan móðurbróður minn sem var hafsjór af fróðleik um allt milli himins og jarðar, ekki síst ættfræði. Það áhugamál áttu þau sameiginlegt, móðir mín Ragnheiður og Gunnlaugur og mér eru minnisstæð löng símtöl sem mamma átti vestur í Önundarfjörð á mínum bernskuárum, símtöl sem áttu að vera örstutt, en úr þeim teygðist all verulega oft á tíðum. Hvilft í Önundarfirði var og er svo sannarlega ættaróðal, þar var haldið fjölmennt ættarmót sumarið 2004 sem var mjög fjölmennt og þar var Gulli auðvitað hrókur alls fagnaðar. Þessir dagar fyrir vestan verða mér ævinlega eftirminnilegir. Við systkinabörn Gunnlaugs, mörg hver, fórum í sveit vestur á Hvilft, ég þó minna en sum hver önnur, þar sem ég fór oftast norður í Aðaldal. Vorið 1961 skall á allsherjarverkfall á Íslandi og við Finnur Thomas frændi minn vorum sendir með Esjunni vestur á Hvilft, ekki var hægt að láta strákana vafra um aðgerðarlausa á mölinni. Það var skemmtilegt vor við lagfæringar á girðingum sem lagst höfðu út af eða slitnað vegna snjóþyngsla, moka út úr gömlu útihúsunum, fara með mjólkina á hestakerru niður á Flateyri til kaupenda, en Brúnku gömlu var beitt fyrir vagninn. Svo þurfti að bera áburð á túnin og gæta að síðustu lambánum áður en þeim var sleppt út fyrir túngarðinn. Það voru mörg handtökin á Hvilft en þar var um tíma stærsta mjólkurbú Vestfjarða.

Okkur Finni fýsti þetta vor að skreppa til Ísafjarðar og það var auðsótt mál, við skyldum hins vegar ganga yfir Breiðadalsheiðina sem nýlega var búið að opna. Þvílík kynstur af snjó höfðum við borgarbörnin aldrei séð á ævi okkar og mér er til efs að það hafi gerst síðar. Snjóflóðahætta var auðvitað í Kinninni en við fengum þau skilaboð frá Gulla að ganga þétt upp við stálið, þá færi snjóflóðið yfir okkur ef það kæmi, sem það reyndar gerði ekki. Unglingum í dag væri örugglega ekki treyst í svona ferðalag og þeir mundu heldur ekki nenna því, þeir mundu betla far einhvers staðar. Mörgum árum seinna var ég sumarpart á Hvilft, þá kominn með bílpróf. Mér er minnisstætt að ég var í fyrstu settur í að stinga upp kartöflugarðinn milli íbúðarhússins á Hvilft og Jónshúss, og mikið svakalega var það leiðinlegt! Sigga, kona Gulla, stappaði hins vegar í mig stálinu, sagðist sjaldan hafa séð neinn ungling þrjóskast svona við, en ekki var hann sérlega snöggur að stinga upp garðinn! Þetta sumar um verslunarmannahelgina fæddist svo yngsta barnið á heimilinu, Einar Þór, í sjúkraskýlinu á Flateyri.

Það er aðdáunarvert hversu mörgu Gulli gat komið í verk á langri ævi fyrir utan bústörfin og reka stórt heimili, en þau Sigga eignuðust sjö börn. Hann var þingmaður Framsóknarflokksins eitt kjörtímabil fyrir Vestfirðinga, sat í sveitarstjórn Flateyrarhrepps og var oddviti, var kaupfélagsstjóri á Flateyri um árabil, kennari við Grunnskóla Flateyrar, gegndi margs háttar trúnaðarstörfum fyrir Þjóðkirkjuna um áratuga skeið og sat á kirkjuþingi, svo fátt eitt sé nefnt. Alltaf var jafn gaman að heimsækja Gulla á Hvilft og hann var alltaf tilbúinn að gefa sér tíma til að ræða við gestina, og spyrja frétta væru þeir komnir lengra að. Þjóðmálin voru honum alla tíð hugleikin og alltaf var taflborðið tiltækt á stofuborðinu, enda fáir andstæðingar skemmtilegri við taflborðið en bóndinn á Hvilft, hann fór þar sannarlega ekki troðnar slóðir. Aldrei var tekið annað í mál en að gista a.m.k. eina nótt og ekki kom til greina að fá að launa greiðann, enda varla búið að finna upp orðið bændagisting, það hefði hvort sem er ekki verið farið eftir því á Hvilft.

Nú er horfinn sjónum okkar litríkur persónuleiki, en fyrst og fremst skemmtilegur og eftirminnilegur frændi. Börnum hans, þeirra skylduliði, systrum og öðrum ættingjum sendum við Sigurbjörg og okkar afkomendur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð geymi Gunnlaug Finnsson.

Geir A. Guðsteinsson.