Hjörleifur Sigurðsson fæddist í Reykjavík 26. október 1925. Hann lést á Ullevaalspítala í Osló 10. janúar 2010. Hann var sonur hjónanna Sigurðar Kristinssonar, forstjóra SÍS og Guðlaugar Hjörleifsdóttur. Hjörleifur útskrifaðist frá MR árið 1945 og lærði myndlist í Stokkhólmi um tveggja ára skeið. Hann dvaldi í París frá 1948–50 og varð fyrir áhrifum af evrópskri myndlist, sem komu skýrlega í ljós í geometrískum verkum hans á sjötta áratugnum. Í París kynntist hann konu sinni Else Miu Figenschou og flutti með henni til Noregs og síðan til Íslands árið 1952. Hjörleifur vann að list sinni alla ævi samhliða öðrum störfum. Kvöld og helgar fóru í linnulausa glímu við málverkið. Frá 1980 vann hann eingöngu að myndlistinni. Hann vann brautryðjendastarf með því að kynna skólanemendum myndlist og alþýðumenningu. Hann starfaði hjá MFA og veitti Listasafni alþýðu forstöðu. Hjörleifur hélt margar einkasýningar auk þess sem hann tók þátt í mörgum samsýningum, bæði hér og í útlöndum. Hjörleifur skrifaði fjölda greina í tímarit og dagblöð, auk þess sem hann gerði útvarps- og sjónvarpsþætti. Hann var virkur í hagsmunabaráttu myndlistarmanna og var formaður FÍM. Sjálfsævisaga Hjörleifs, Listmálaraþankar, kom út árið 1997. Hjörleifur fluttist með konu sinni til Noregs árið 2005, þar sem hann var búsettur til dauðadags. Eftirlifandi eiginkona Hjörleifs er Else Mia Einarsdóttir, bókasafnsfræðingur og fyrrverandi menningarmálastjóri í Noregi. Börn þeirra eru Einar og Hjördís og lifa þau bæði föður sinn. Bálför Hjörleifs fór fram í Noregi. Haldin var minningarathöfn um hann í Reykjavík 18. janúar 2010.

Látinn er í Osló, æskuvinur minn, Hjörleifur Sigurðsson, á 85. aldursári. Við Hjörleifur kynntumst árið 1935 í nýbyggðum Laugarnesskóla. Hann bjó þá í húsinu Hlíðarenda við Laugarásveg sem faðir hans hafði nýlega byggt, stóru og miklu einbýlishúsi. Sjálfur bjó ég í Melbæ við Sogaveg, sem var einn af bændabýlunum í Sogamýri og hið eina sem enn stendur.

Okkur Hjörleifi varð strax vel til vina. Mér varð fljótt ljóst að í Hjörleifi bjó mikill listamaður. Hann teiknaði og fór með liti betur en nokkrir aðrir í bekknum. Hann var jafnan fenginn til að teikna jólamyndina á töfluna í kennslustofu bekkjarins. Í ævisögu hans er m.a. að finna ljósmynd af slíkri krítarmynd þar sem gefur að sjá Kleppsholtið og fjallahringinn í kringum Reykjavík.

Árið 1938 var okkur boðið að taka þátt í stofnun skátafélagsins Völsungar, sem starfaði til 1946. Jón Sigurðsson skólastjóri var hvatamaður að stofnun félagsins og Jónas B. Jónsson tók síðan við. Við urðum báðir foringjar og stofnuðum m.a. í skátastarfinu tvöfaldan kvartet sem Ingólfur Guðbrandsson stjórnaði. Við strákarnir sem stofnuðum Völsunga höfum haldið hópinn æ síðan og hittumst enn reglulega. Árið 1942 stofnuðum við saman skátaflokkinn Úlfljót til að gefa út skátabækur. Í Úlfjóti störfuðum við saman til 1946.

Þá fór Hjörleifur til Svíþjóðar til myndlistarnáms. Síðan lá leið hans til Parísar í sama skyni. Þegar námi lauk kom Hjörleifur aftur til Íslands og þá með sína norsku konu, Else Miu. Þá var ég í framhaldsnámi í Gautaborg en eftir að heim kom varð ég heimilislæknir þeirra og kynntist enn betur þeim og börnunum.

Hjörleifur vann ýmis störf um ævina enda erfitt að lifa af myndlist á þeim tíma. M.a. var hann forstöðumaður Listasafns ASÍ frá 19691979 og á þeim tíma var hann um fimm ára skeið formaður Félags ísl. myndlistarmanna.

Hjörleifur og Else Mia, sem er bókmenntafræðingur að mennt, ákváðu að flytja til Noregs. Þar voru þau um árabil en komu oft heim. Hjörleifur hélt oft myndlistarsýningar í þessum heimsóknum, þar sem oftar en ekki öll listaverk hans seldust upp.

Þau hjónin snéru til Íslands eftir margra ára dvöl í Noregi. Else Mia starfaði í Norræna húsinu en Hjörleifur sinnti listsköpun sinni. Hann var illa haldinn af astma og ofnæmi á þessum árum og þurfti oft að dvelja langdvölum á Vífilsstöðum. Þessi veikindi urðu til þess að hann varð að hætta að mála olíumyndir og snéri sér alfarið að vatnslitum.

Síðasta listsýning Hjörleifs, sem ég sá var sú sem hann hélt þegar hann varð sjötugur. Voru öll verkin á sýningunni vatnslitamyndir. Um svipað leyti ákváðu hjónin enn að flytjast til Noregs enda börn þeirra tvö búsett þar ásamt fjölskyldum. Þar hafa Hjörleifur og Else Mia búið síðan.

Ég flyt Else Miu og fjölskyldunni samúðarkveðjur okkar Guðrúnar. Blessuð sé minning Hjörleifs Sigurðssonar.

Páll Sigurðsson.

Hjörleifur Sigurðsson listmálari, einn mætasti listamaður þjóðarinnar er látinn. Við undirritaðar kynntumst honum vel þegar okkur var falið af hálfu Félags íslenskra myndlistarmanna að undirbúa sýningar á verkum hans á Listahátíð 1992 í Norræna húsinu og FÍM-salnum í Garðastræti. Vildi félagið með þessu heiðra Hjörleif sem átti að baki langan og merkan feril í myndlist auk þess að hafa unnið heilshugar að félagsmálum myndlistarmanna um langt skeið. Við fráfall hans minnumst við hins trausta og góða vinar sem af örlæti sínu, rósemi og hlýju, miðlaði okkur af reynslu sinni og þekkingu. Við minnumst langra funda þar sem umræður um myndlist og heimspeki runnu saman og úr varð áhrifarík samræða.
Hjörleifur var á margan hátt einstakur maður. Hann var hógvær, jafnvel hlédrægur, en víðsýnn og vel að sér, laus við alla dómhörku en oft fastur fyrir. Ég er alls ekki sammála þessu, sagði hann stundum á sinn ljúfmannlega hátt þegar umræður um listir og pólitík stóðu sem hæst. Hann var kíminn á hljóðlátan máta og gat hlegið hjartanlega ef eitthvað skemmtilegt bar á góma. Það varð vík milli vina þegar Hjörleifur og hans góða kona Else Mia fluttu til Noregs árið 2005, en þar eru börn þeirra Einar og Hjördís búsett. Ekki rofnuðu þó tengslin því samskiptin héldust með bréfaskriftum og símtölum.
Fyrir tveimur árum stóð Listaháskóli Íslands fyrir sýningu á geómetrískum verkum Hjörleifs frá fyrri tíð. Af því tilefni komu þau hjón til Íslands ásamt Einari syni sínum. Þá buðu þau vinum og vandamönnum til dýrðlegrar veislu efst í turni hótels hér í bæ. Fjallahringurinn klæddist sínum fínasta búningi í tilefni dagsins, og í ljósaskiptunum áttum við okkar síðustu samræðu við Hjörleif sem sat eins og höfðingi í hjólastól og var enn sem fyrr áhugasamur, víðsýnn og gagnrýninn.
Hjörleifur átti við langvarandi heilsubrest að stríða, en aðdáunarvert var hve vinnuþrek hans entist, sem eflaust má þakka þeirri rósemi hugans sem hann átti svo mikið af. Jafnvel síðustu árin urðu til gullfalleg vatnslitaverk, svífandi björt form á hvítum bakgrunni, sem kalla fram í hugann íslenska vetrarbirtu.
Hann Hjörleifur okkar sögðum við stundum þegar nafn hans bar á góma því hann var okkur kær. En nú hefur hann Hjörleifur okkar kvatt, en eftir standa verk hans sem munu lifa með íslensku þjóðinni.


Guðrún Kristjánsdóttir og Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá.

Fyrrum starfsfélagi okkar, Hjörleifur Sigurðsson listmálari, er fallinn frá. Hann kom til starfa með okkur í Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, fljótlega eftir að sambandið var formlega endurstofnað í lok sjöunda áratugar síðustu aldar. Hjörleifur kom úr allt annarri átt en við sem höfðum verið virkir í félögum byggingamanna innan Alþýðusambandsins og þar áður Iðnnemasambandsins. Hann var einn af virtustu listamönnum þjóðarinnar en kaus á þessum árum að verja miklu af dýrmætum tíma sínum fyrir nýstofnuð fræðslu- og menningarsamtök launafólks.

Með hans atbeina hófu samtökin, umfangsmikið menningarstarf í ranni verkalýðshreyfingarinnar. Alþýðusambandið bjó og býr enn í dag að stórkostlegri listaverkagjöf Ragnars í Smára, sem nú er þekkt sem listasafn ASÍ. Þessar tvær stofnanir verkalýðssamtakannna unnu náið saman á þessum árum, meðal annars með því að lána listaverk til sýnis á vinnustöðum um land allt. Þar nutum við, MFA megin, þess að hafa Hjörleif okkur við hlið, bæði til leiðsagnar og ekki síður til hvatningar. Kunnátta hans, menntun, reynsla og víðtæk þekking á mörgum sviðum kom samtökunum að ómetanlegu gagni hlýja og glaðværð hans létti mönnum annir daganna. Það gaf störfum Hjörleifs fyrir MFA og listasafnið aukið gildi hversu vel hann var metinn í röðum íslenskra listamanna, enda vann hann um árabil ötullega að hagsmunmálum þeirra.

Stjórn MFA hafði á þessum árum vissulega áhuga og skilning á að alþýðusamtökunum bæri að sinna fleiru en kjaramálum. Samkeppnin um frítímann var að komast í algleyming með batnandi lífskjörum. Hjörleifur hvatti okkur á þessu sviði um leið og hann var fullkomlega raunsær á hverju við gætum komið í verk með takmörkuðum mannafla. Árangurinn varð sá að MFA hratt af stað margvíslegum menningarverkefnum í samvinnu við Listasafn ASÍ, verkalýðsfélög, systursamtökin á Norðurlöndum, Norræna húsið o.fl. Slík verkefni voru vitnisburður um að samtökunum væri alvara með því að láta menningarstarf í breiðasta skilningi til sín taka.

Hjörleifur var frábær starfsfélagi, stundum hvarflaði þó að okkur að við værum að stela dýrmætum tíma frá manni sem að réttu lagi hefði átt að einbeita sér að list sinni. Hjá honum sjálfum urðum við þó aldrei varir þeirrar hugsunar. Þvert á móti fannst okkur að hann teldi þessu tímabili í lífi sínu vel varið með því að vinna fyrir samtök launafólks. Hann ferðaðist allvíða á vegum samtakanna og má vel vera að með þeim ferðalögum hafi þau launað honum í því sem skipti mikinn listamann máli hann hafi orðið fyrir áhrifum sem urðu honum að gagni í málaralistinni.

Að leiðarlokum þökkum við fyrir marga glaða og lærdómsríka daga með Hjörleifi Sigurðssyni og sendum Else Míu, Einari og Hjördísi og öðrum vandamönnum okkar dýpstu samúðarkveðjur.


Helgi Guðmundsson fyrrverandi formaður MFA og Tryggvi Þór Aðalsteinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri MFA.