Hrund Adamsdóttir fæddist á Akureyri 16. júní 1908. Hún lést í Winnipeg í Kanada hinn 12. janúar 2010. Foreldrar Hrundar voru Adam Þorgrímsson, f. 1879, frá Nesi í Aðaldal, og Sigrún Jónsdóttir, f. 1886 á Mýri í Bárðardal. Hrund bjó ásamt foreldrum sínum í Hayland Manitoba frá árinu 1919 þar sem faðir hennar Adam var prestur. Hrund giftist 1923 til Geysis, Jonasi Gesti Skúlasyni, f. 5. mars 1901, d. 1959, bónda og vörubílstjóra. Börn þeirra: Sigrún, Ada, Guðrún Jónína, Kristín Hólmfríður, Hermann Jónas, Thor Adam. Afkomendur Hrundar eru: Kristine Laxdal, Herman, Thor, Gordon, Lori Reid, Bradley, Kellym, Melvin McInnis, Sigrún Þóra, Signý Hrund, Inga Hlif, Carol Anne McInnis, Danielle, Adam, Joni Shepheard, Regan, Gwen Noble, Kyle, Neil McInnis, Caitlin og Bryn, Jim Laxdal, Austin, Derek Laxdal, Jessica og Jaime, Alison Lindsay, Maeghan og Lachlan, Darrell Skulason, Emma, Elizabeth, Cassidy, Diana Thorsteinson, Christopher, Brett, Denise Smolinski, Hannah, Ethan, Laura Drover, Freyja, Andrea Skulason, Sophie og Emma, Heather Skulason, Claudia, Maggie Noble, Mark, Brynn og Oliver, Jordon, Aleesha, Edwina Schwindt og Anna Gyda. Hrund bjó í Geysi fram að 1960 þegar hún flutti til Winnipeg. Hún var bókasafnsvörður við Íslenska bókasafnið við University of Manitoba fram að 1975. Jarðarför Hrundar fór fram 16. janúar frá Árborg-Geysir lútersku kirkjunni í Árborg.

Amma er dáin. Við kvöddum ömmu okkar, Hrund Adamsdóttur Skúlason, 16. janúar sl. við kristilega athöfn á Arborg, í Manitoba, Kanada. Hún var á 102. ári. Hún var fædd á Akureyri og ólst þar upp á fyrstu árunum, en þegar faðir hennar, Adam, ákvað að læra til prests og fyrri heimstyrjöld skall á, flutti Sigrún, móðir hennar, ásamt systkinum Hrundar til Einarsstaða í Reykjadal. Þar hafði Sigrún alist upp á heimili Margrétar sem var föðursystir hennar. Maður hennar var Sigurjón Jónsson, hreppstjóri á Einarsstöðum í Reykjadal. Amma minntist þeirra ára með hlýju og kærleika, sögur af þessum tíma lífs hennar voru margar og lærdómsríkar. Margir ættingjar hafa komið við á þessum merka stað í Reykjadal við hugleiðingar Hrundar. Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni  lauk lá leið hennar og fjölskyldu til Kanada og þá frá Akureyri með skipi og lestum. Ferðin árið 1919 tók 3 vikur og var erfið. Ein saga af þeirri ferð var að einn morgunn voru ísjakar miklir allt í kringum  skipið, allt slökkt og hljótt. Hræðsla lagðist á fullorðna en smitaði ekki krakkana sem léku sér daglangt með ísfjöll í sjónmáli.
Fagnaður var mikill við  endurfundi er þau komust til nýja heimilisins í sveit Manitoba fylkis, Hayland, þar sem Adam var nýráðinn prestur. Adam dó aðeins 45 ára gamall, 1924, er Hrund var aðeins 16 ára. Lýsti hún þessum degi sem eins svartasta degi lífs síns. Fjölskyldan hélt saman og telst það til dugnaðar móður hennar, Sigrúnar, og bjuggu þau í Lundar í Manitoba þar sem Hrund kláraði sína grunnmenntun. Hún giftist Jónasi Gesti Skúlasyni, 1932, bónda og flutningabílsstjóra í Geysi, smá sveit í grennd við Arborg. Þar ól hún börnin sín, Sigrúnu, Guðrúnu, Kristínu, Hermann, og Thor.
Ár  Hrundar í Geysi voru viðburðarrík á heimili þar sem 5 börn voru að alast upp og þörf á að sinna fullorðnum ættingja þar sem mjög fátt var í boði fyrir aldraða og litið á sem sjálfsagt að þeir yngri litu eftir þeim eldri. Íslenska var tungumálið á heimilinu og mál Hrundar til dauðadags, hreimur hennar á ensku var rammíslenskur og merkjanlegur. Móðir mín, (Melvins) Guðrún, og eldri systkin, lærði ensku er þau gengu í grunnskóla. Komu þau heim eftir skóla og sögðu yngri systkinum frá málinu sem var talað annars staðar.
Geysir var íslensk byggð og var heimili Hrundar og Jónasar einskonar menningarmiðstöð. Þau stóðu fyrir lestrafélagi, leikfélagi og tóku virkan þátt í flest öllum málum í þeirra sveit. Heim til þeirra komu flestir sem áttu menningarleg erindi í Geysi. Það varð aftur svartur dagur í apríl 1959 er afi Jonas hneig niður eftir hjartaáfall. Hrund tók sig saman og eftir að elsti sonur, Thor, hafði lokið skólanum, flutti hún til Winnipeg. Í Winnipeg voru fleiri ættingjar og Íslendingar og varð hún fljótlega virkur þátttakandi í Lútersku kirkjufélagi og allt sem kom íslenskum félögum við. Hún var lykilmanneskja í þjóðræknisfélagi Íslendinga og tók þátt í stjórn Íslendingahátíða í Gimli. Hún ritaði margar greinar í Íslendingablöðin vestan hafs, Lögberg-Heimskringla og Icelandic Canadian. Var hún jafn fær í ensku sem og íslensku. Aðal starf hennar, ef hún var spurð, var að hekla og prjóna á börn, barnabörn, og barnabarnabarn, og eru ótal meistaraverk til eftir hana. Árlega tók hún við verðlaunum  heimilis- og búsýningarinnar Red River Exhibition.
En allir þurfa  að hafa í sig og á og Hrund fékk starf við Íslenska bókasafnið í Manitoba Háskóla 1963 og var þar fram að 1975 er hún fór á eftirlaun. Ekki hafði hún formlega menntun í því fagi, en hafði rekið árum saman lestrarfélag í sinni sveit og var vel lesin. Vissi hún nánast hvar hver einasta bók var í safninu og veitti ómetanleg aðstoð við námsmenn sem voru að hefja nám í íslenskri tungu.
Amma heimsótti Ísland oft. Hún hélt upp á a.m.k.  þrjú stórafmæli á Íslandi. Ást hennar á Íslandi var einlæg og einstök, sagt hefur verið að Ísland hafi aldrei verið elskað meira en frá Winnipeg og Kaupmannahöfn og var amma meðal fremstu vestur-Íslendinga sem stóð fyrir framhaldi íslenskrar menningar í vesturheimi. Hélt hún uppi sambandi við Ísland bæði í gegnum sín störf sem bókasafnsfræðingur við Manitoba Háskólanum sem og í gegnum ættingja sína sem hún heimsótti við hvert tækifæri, en hún kom heim til Íslands a.m.k. sjö sinnum. Í tilefni hverrar heimsóknar gekk hún upp tröppur Akureyrarkirkju, síðast er hún var 90 ára.
Amma hélt uppi siðum og menningu síns nýja lands, Kanada, og heklaði íslenska menningu síns tíma inn í dæmið. Stóðu hún og afi Jónas fyrir vali og innkaupum bóka í íslensku og ensku lestrafélög í sinni sveit, einnig var hún meðal þeirra sem stofnaði kór, bæði hjá Lútersku kirkjunni og sveitarfélaginu Geysi. Leiklist var mikið áhugamál og tóku þau Jónas  leiklista hæfileika sína til annarra Íslendingabyggða í Manitoba og settu á svið leikrit. Afar dugmikil kona og var hún í stjórn ótal nefnda og félaga, var seinna heiðruð af Þjóðræknisfélaginu Vestur-Íslendingar vegna starfa og framlags til menningar- og samfélagsmála.
Amma hafði sterka trú sem var henni mikill stuðningur í gegnum lífið og þá erfiðleika sem af og til settu skugga á  hennar aldarlanga líf. Hún fylgdi til grafar tveimur dætrum og þremur barnabörnum, sem er þungur róður, hver sem aldurinn er. Eftir lifa þrjú  börn, ótalinn fjöldi af barnabörnum, og barnabarnabörnum, og eitt barna-barna-barnabarn.
Guð blessi þig amma, góða nótt, og takk fyrir okkur.

Melvin McInnis, Sigrún Þóra, Signý Hrund, og Inga Hlíf Melvin McInnis dætur.

Faðir Hrundar Adam Þorgrímsson lauk Möðruvallaskóla 1901 og stundaði síðan verslunarstörf og kennslu, var seinna prestur í Manitoba í Kanada. Efnt var til unglinganámskeiðs á Einarsstöðum í Reykjadal, þar var Adam Þorgrímsson kennari, hann hlaut þá aukagetu fyrir kennslustarf sitt á Einarsstöðum, þar trúlofaðist hann einni námsmeynni, Sigrúnu Jónsdóttur, frá Mýri í Bárðardal.

Fjölskyldan býr í Hafnarstræti 29 á Akureyri í manntali 1910, í heimilinu þar eru auk hjónanna, Hólmfríður móðir Sigrúnar og börn þeirra, Heimir þriggja ára og Hrund tveggja ára en elsta barnið Sif deyr það ár, fimm ára gömul. Adam er við kennslu og hann skrifar margar greinar í blaðið Norðurland 1911, aðallega um málfar, hann er gagnrýnandi blaðsins. Adam var ekki hraustur, hann var veill í lungum, en við ítrekaða læknisskoðun er niðurstaða sú að Adam sé ekki með berkla. Adam fer til Vesturheims 1914. Áður eru fædd tvö börn í viðbót, Freyr, f.1910, og Sif, f. 1913, hann fer að nema guðfræði, meiningin er, að þegar hann sé búinn að koma sér fyrir, þá komi fjölskyldan til hans vestur. Heimsstyrjöldin skellur á 1914, þá lokast allar siglingaleiðir og Sigrún kemst hvergi. Þá fer Sigrún með börnin að Einarsstöðum í Reykjadal þar sem Sigrún var alin upp, og er þar allt til 1919. Þá fer hún vestur með börnin. Þar stækkar fjölskyldan, Þór, f. 1920, Bragi, f. 1922, og Sigrún Ada, f. 1924.
Adam lést fjörtíu og fimm ára gamall frá yngsta barninu fimm mánaða gömlu. Þeir erfiðleikar sem lagðir eru á Sigrúnu eru miklir, á Einarsstöðum vinnur hún fyrir mat og húsaskjóli fyrir börn sín. Aðalbjörg á Mýri, hálfsystir Sigrúnar, eru einar á Íslandi eftir af Mýrarfjölskyldunni, faðir þeirra Jón Jónsson, f. 1851, fer til Kanda1903 með öll tíu systkini þeirra.
Aðalbjörg á Mýri og Sigrún eru miklar vinkonur. Sigrúnu tekst að ala upp öll börnin vestanhafs, þá eru elstu börnin nokkuð komin upp er faðir þeirra lést. Sigrún kom í heimsókn til Íslands 1954 með Sigrúnu Ödu dóttur sína með sér, komu þær að heimsækja ættingja sína í Bárðardal. Hrund kom í heimsóknir til Íslands. Hún hélt mikið upp á tengslin við ættingjana hér, hélt t.d. upp á sjötugs- og áttræðisafmæli sín á Íslandi. Hrund heimsótti frænku sína Huldu, f. 1902, frá Mýri, á sjúkrahúsið á Húsavík 1988 . Öllum má vera ljóst að skilyrðin sem Hrund elst upp við eru tæpast venjuleg og hún nær samt að ná hundrað og öðru aldursári.
Við frá Hlíðskógum heimsóttum Hrund á heimili fyrir aldraða Betelstaða í Winnipeg sumarið 2006 þar sem hún bjó síðustu árin. Þar hafði hún íbúð og sá um sig sjálf til hundrað ára aldurs. Það var mikil upplifun fyrir okkur að koma til Hrundar, við vorum með í farteskinu bókina sem inniheldur Vesturheimsbréf Jóns Jónssonar frá Mýri Leitin að landinu góða afa Hrundar. Hún stundaði handavinnu enn árið 2006 þá gaf hún yngstu dótturinni frá Hlíðskógum, sem þá var nýfermd, smádúk, sem hún hafði sjálf heklað í hárri elli. Dúkur þessi er einungis hafður uppi við á jólum.




Jón Aðalsteinn Hermannsson frá Hlíðskógum.